25. júní 2011

Fer í fríið

Sit núna úti á verönd í orlofshúsi í Brekkuskógi. Tæpa 15 km austan við Laugarvatn. Í einhverju bríarií sótti ég um orlofshús hjá BHM fyrir nokkrum mánuðum síðan og varð steinhissa þegar mér var úthlutað húsi. En ég get ekki sagt annað en að ég sé ánægður með það.

Við komum hingað seint í gærkvöldi. Húsið er frekar lítið en mjög notalegt. Með öllu til alls. Þ.á.m. heitum potti. Við létum  renna í hann í gærkvöldi og fórum ofan í skömmu eftir miðnætti. Mikið var það notalegt. Íslenskar sumarnætur eru alveg einstakar. Fólki eins og okkur sem lengi hefur átt heima í útlöndum finnst nefnilega sérstakt að vera á fótum eftir miðnætti í nær fullri dagsbirtu.

Einstakt.

Þrátt fyrir að hér sé kraðak af húsum, þá erum við alveg útaf fyrir okkur. Trjágróður út um allt, þ.a. í þök næstu húsa sést, en ekki meir en það.

Hér ætlum við að vera í viku.

Og gera hvað?

Nákvæmlega ekki neitt!

21. júní 2011

Lengsti dagurinn

„Drengur, farðu að sofa,” byrsti pabbinn sig áðan við soninn. Sá var búinn að horfa á einn mynddisk af Latabæ og troða sig út af poppi, frostpinna og einhverju fleiru mishollu.

„Ha?! Akkurju?” mótmælti sá stutti.

„Klukkan er orðin svo margt,” drundi í mér. Alltaf er maður nú jafnandlaus í að finna upp góðar ástæður. En vera nógu djúpraddaður virkar oft.

„En, pabbi, þetta er lengsti dagurinn á árinu. Þú sagðir það áðan!”

Úbbs. Þar snéri guttinn á mig.

Þetta er alveg rétt hjá honum. Í dag er lengsti dagurinn á árinu. Hvert er réttlætið í því að þurfa að fara snemma að sofa á þeim dýrðardegi?

Hann vakir því enn.

20. júní 2011

Skagamót 2011

Þjóðhátíðarhelginni eyddi ég meira og minna uppi á Akranesi. Þar fór fram hið svokallaða Norðurálsmót í knattspyrnu drengja sem fæddir eru 2003 og 2004. Sjöundi flokkur. Rúnar Atli tók þátt að þessu sinni. Hann keppti í E-liði Leiknis. Eftir því sem ég kemst næst ættu E-lið að vera skipuð byrjendum í iðkun knattleiksins og sú var raunin með Leiknisliðið. Leiknir átti þrjú lið í keppninni, A, D og E, og nálega 25 strákar skipuðu þessi lið.

Skv. mótshöldurum tóku u.þ.b. 1.200 krakkar þátt í mótinu, enda var sægur af krökkum þarna. Og allir foreldrarnir, maður minn! Ætli megi ekki reikna með að íbúafjöldi Akraness hafi tvöfaldast um þessa helgi.

Veðrið á Skaganum lék við okkur stærstan hluta móts. Þó var svolítið svalt í veðri, en góðan hluta laugardags og allan sunnudag var sól og fínasta veður. Þá er líka gaman að spila fótbolta.

Flottur sunnudagur á Skaganum. Spegilsléttur sjór og heiðskír himinn
Ef horft er á úrslitin, þá gekk Leiknismönnum ekkert sérstaklega vel á mótinu. E-liðið náði þó með gríðarlegu harðfylgi og baráttu að sigra einn leik. Mátti Stjarnan lúta í gras í það skiptið. Fögnuður Leiknispilta var gríðarlegur í leikslok. Hugsa ég að Xavi, Puyol, Casillas, Iniesta og allir hinir Spánverjarnir hafi ekki orðið ánægðari þegar Spánn varð heimsmeistari í fótbolta í fyrra. Gleði drengjanna var mikil og einlæg.

Auk sigursins endaði einn leikur í jafntefli. Hinir leikirnir skiptu minna máli...

En, úrslitin voru ekki aðalmálið. Að taka þátt, sofa saman án foreldra, fara saman í sund, og allt hitt var svo skemmtilegt. Að láta úða Leiknislitunum í hárið, á kinnar og enni var hátíðleg athöfn.

Allt var bara gaman.

Fylgst með boltanum og hlaupið á réttan stað

Hreinsað frá marki, en það er ekki alltaf auðvelt í 7. flokki

Vígalegur snáði.

Ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur; tveir Valsmenn í einu

Mikil áhersla er lögð á að þakka mótherjunum fyrir leikinn

Hér sést E-lið Leiknis hrópa ÁFRAM LEIKNIR svo glumdi í. Rúnar Atli lengst t.h. í efri röð

Þarna er stór hluti Leiknishópsins saman kominn. Rúnar Atli lengst t.h. í neðri röð

Svo er það knattleiknin

Virðist ganga þokkalega að halda bolta á lofti
Var maður þreyttur á sunnudagseftirmiðdag eftir heila helgi af fótbolta?

Ekki svo. A.m.k. var pabbinn dobblaður í hjólatúr á sunnudagskvöldi með fótboltann í farteskinu. Lá leiðin niður í Fossvogsdal og þar spörkuðu feðgarnir í boltann í á annan tíma áður en hjólað var aftur heim.

Enda var pabbinn feginn að leggjast á koddann það kvöldið.

14. júní 2011

Aftur á landinu kalda

Kominn aftur til Íslands eftir 10 daga eða svo í Svíþjóð og Danmörku.

Við lentum í gær hálftíma fyrir miðnætti. Mér þótti nú að flugfreyjan hefði átt að nefna á útlenskunni að klukkan væri hálftólf að kveldi til. Útlendingum yrði að fyrirgefa að halda að það væri hábjartur dagur.

Flugið gekk vel frá Arlanda. Vel innan við þrjá tíma og lending á réttum tíma. Vélin var full og þ.á.m. var kvennahandboltalandsliðið að koma úr frækinni ferð. Enda óskaði flugstjórinn þeim til hamingju með frábæran árangur.

Ekki sofnaði ég fyrr en klukkan var langt gengin í þrjú og var því hálfslæptur þegar klukkan hringdi í morgun. Hjólatúr í vinnuna kom mér þó á réttan kjöl á ný.

10. júní 2011

Sólstingur?

Sólin skín í Oxelösund þennan föstudaginn. Við fórum í aðra útskrift í morgun. Þetta var í Peter Lund skólanum, en þar voru tvíburarnir Ellen og Olivia að ljúka öðrum bekk. Það væri þriðji bekkur á Íslandi, skilst mér.

Í skólanum eru fimm árgangar og var töluvert af fólki að fylgjast með. Rúnar Atli sat á háhesti á mér, enda erfitt fyrir stutta menn að sjá yfir sæg af fullorðnu fólki. Eftir góða stund fór hann að kvarta yfir vanlíðan og enduðum við með að stinga af úr athöfninni og fara „heim.“

Erum við á því að sólin hafi verið að ergja hann, enda var enginn skuggi sem hægt var að hörfa í.

Ekkert nema sól, sól, sól.

Fréttum við síðar að einhver önnur börn hefðu átt í svipuðum vandræðum.

En, eftir smáhvíld og djús er drengur eins og nýsleginn túskildingur.

9. júní 2011

Hjólað í útlandinu

Við Rúnar Atli komumst í smáhjólatúr í dag. Reyndar ósköp stuttan en hjólatúr þó.

Helsta vandamálið var að græjurnar sem við fengum lánaðar eru aðeins öðrum vísi en við erum vanir.

Helsta breytingin var að hjólin tvö voru bæði með fótbremsu að aftan, en ekki handbremsu eins og við erum vanir. Þetta skapaði ýmis vandamál. T.d. var erfitt fyrir þann stutta að muna að ekki var nóg að ýta aðeins á bremsuna og sleppa síðan! Nei, það þarf jú að stíga fast á fótbremsuna og halda við ef að stöðva á fákinn. Ég verð að viðurkenna að það tók mig nokkra stund að venjast fótbremsunni. Ég vil nefnilega stundum geta snúið petölunum afturábak. Það er erfitt með fótbremsu.

Annað vandamál er að hjólin eru einungis með þremur gírum. Á jafnsléttu og niður í móti gerir það lítið til. Upp í móti, hins vegar, já, það er önnur saga. Í einni brekku vorum við Rúnar Atli eins og sunnudagaskóladrengir og teymdum hjólin upp hana.

En þrátt fyrir þessa vankanta var gaman að hjóla. Hér í Oxelösund eru stígar út um allt og eigum við örugglega eftir að hjóla meira. Sá stutti hefur viðrað að hjóla milli Oxelösund og Nyköping, en það eru 14-16 km að ég held - aðra leið - þ.a. ég á ekki von á að við skellum okkur í þannig ævintýri.

Á þriggja gíra fótbremsuhjólum?

Varla.

Kennara sök

Fallegur dagur í Oxelösund í dag. Rigndi reyndar í kringum hádegið, en bara í smástund. Annars var léttskýjað og eitthvað yfir 20 stigin.

Fór í skólaútskrift í dag. Emil, bróðursonur Gullu, útskrifaðist úr grunnskóla í dag. Kunskapsskolan í Nyköping heitir skólinn. Er víst mjög fínn skóli er mér sagt.

Athöfnin fór fram á túni framan við svokallað Nyköpingshús. Halli báðum megin sem hægt er að sitja í, svo allt er þetta mjög huggulegt. Skólastjórinn sagði að síðustu átta ár hefði alltaf verið sólskin við útskriftarathöfnina.

Athöfnin sjálf var ágæt - ja, svona fyrir útskriftarathafnir. Ég gat fylgst nokkurn veginn með ræðum, en datt þó stundum út úr þeim. Sænska ekki mín sterka hlið, verður að viðurkennast. Skemmtilegasta atriðið var þegar kennarar skólans tróðu upp í söngatriðið - Lærerens fejl sungu þeir. Sem sagt kennarans sök. Vildu þeir meina að nemendur kenndu kennurum um allt sem miður færi. Hvort sem það væru hæggengar tölvur eða sóðaleg klósett. Kennara sök! Lagið var létt og grípandi og það af textanum sem ég skildi var hnitmiðað grín. Síðan var greinilegt að nemendurnir skemmtu sér vel við þennan söng og það jók stemminguna.

Já, skemmtilegur dagur og Emil fékk fínar einkunnir. Næsta ár: framhaldsskóli á náttúrufræðibraut af einhverju tagi.

8. júní 2011

Margir kílómetrar að baki

Kominn aftur til Oxelösund í Svíþjóð eftir ferðalag til Danmerkur. Lítils ferðamannastaðar sem heitir Agger, nánar tiltekið. Sá er á Jótlandi og ósköp friðsæll, a.m.k. svona í upphafi júní.

Eini gallinn við ferðina var að engin internet-tenging var í húsinu, þrátt fyrir að það væri staðhæft í upplýsingum um það. Því erum við búin að vera eins og á eyðieyju, a.m.k. hvað samskipti við umheiminn varðar. En nú erum við aftur tengd.

Ferðalagið var mjög skemmtilegt. Ókum til Gautaborgar á sunnudaginn var, en það tók um fjóra tíma, og tókum þar ferju til Friðrikshafnar. Siglingin tók rétt rúma þrjá tíma. Að henni lokinni var aftur sest í bílinn og keyrt yfir þvert Jótland. Góðir tveir tímar, sjálfsagt tveir og hálfur fóru í það. Til Agger komum við um tíuleytið um kvöldið.

Í Agger hittum við Maju mágkonu og hennar fjölskyldu. Þar urðu fagnaðarfundir, enda langt síðan margir hafa sést og nálgast áratuginn að systkinin þrjú hafa hists í einu.

Eitthvað af myndum var tekið, en ég skrifa þessar bloggfærslur á lítinn iPod touch, og upphleðsla á myndum í gegnum hann án tölvu er eitthvað sem ég kann ekki á.

En þær fylgja síðar og einhverjar frásagnir vonandi um veruna í Danmörku.

4. júní 2011

Næstum 30 gráður

Sit núna úti á svölum hjá Dodda mági í Oxelösund í Svíþjóð. Fínt veður, smágola og 23 gráður. Við lentum á Arlanda-flugvellinum skömmu eftir hádegi að staðartíma. Þá var hitinn 28,5 gráður. Smávegis viðbrigði fyrir Íslendingana beint af skerinu kalda. Ég meina, fyrir tveimur dögum var slydda á Leiknisvellinum...

Hér eru tré allt um kring, svo maður fær þá tilfinningu að vera úti í sveit.

Dagurinn var tekinn snemma til að mæta út í Leifsstöð skömmu eftir klukkan sex. Við þurftum að sækja Dagmar Ýr - afmælisbarnið sem er 23. ára í dag. Móðir hennar var orðin nokkuð áhyggjufull um hálffimmleytið því „krakkinn“ svaraði ekki í símann sinn. Loksins náðist í hana og þá kom í ljós að hún var ekki enn farin að sofa!

Í tilefni dagsins fór hún á Hereford veitingahúsið í gær og svo á „einhvern“ bar. Hún var að pakka þegar móðirin fór að hringja og síminn var auðvitað í öðru herbergi. En þetta fór nú allt vel að lokum.

Þvílík mergð af bílum á langtímastæðinu hjá Leifsstöð. Greinilegt að Íslendingar skreppa aðeins út fyrir landsteinana.

Flugið gekk vel. Reyndar var nokkur seinkun, en hún skipti okkur engu máli. Algjör draumur að þurfa bara að fara í eina flugvél og vera þá kominn á áfangastað. Ég man ekki hvenær ég fór síðast í þessháttar ferð.

Svo á morgun verður ekið til Gautaborgar og tekin ferja yfir til Danmerkur. Þar er stefnt á ferðamannabæ sem heitir Agger. Þar bíður Maja mágkona ásamt sinni fjölskyldu, en Maja verður fertug á árinu. Ákveðið var að hittast þarna og gera sér glaðan dag.

Ætli séu ekki 10 ár síðan ég hitti Maju síðast. Þá var hún ung. Nú er hún amma! „Ó-mæ-godd,“ myndu sjálfsagt sumir segja.

Býst ég við miklu fjöri næstu daga.

Nánari fréttir síðar.

Stuttir fætur en öflugir

Ég þurfti að skreppa í Laugardalinn í dag. Þetta var fyrsti dagur í fríi hjá mér, þ.a. við Rúnar Atli vorum einir heima. Báðir í fríi. Því ákváðum við að hjóla saman niður í Laugardal og til baka aftur. Enda nægur tími sem við höfðum.

Er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel. Ég þurfti að ná niðureftir fyrir ákveðinn tíma, þ.a. á leiðinni vesturúr var bara hjólað. Mikið af leiðinni þangað er jú undan brekku. En á leiðinni til baka voru engin tímamörk. Við tókum lífinu því með ró og nutum þess að ferðast á hjólunum okkar.

Fyrsti stans var við gömlu laugarnar, þar sem konur í gamla daga þvoðu þvotta. Skelfilegt puð sem þetta hefur verið. Aðstaðan þarna er fín og skemmtileg uppsetning á fræðsluefninu og ljósmyndunum sem eru þarna. Þegar við komum var eldra fólk þarna frá Danmörku og þeim fannst mikið til koma.


Síðan fórum við í Ísbúðina í Álfheimum og fengum okkur ís - hvað annað? Svo lá leiðin í Húsasmiðjuna, en mig vantaði hurðarhún og læsingu. Svo smeygðum við okkur undir Ártúnsbrekkuna og vorum þar með komnir í Elliðaárdalinn okkar margumrædda. Við vorum orðnir svangir þegar hér var komið sögu og fórum á kaffihús í Mjóddinni. Þá var stutt eftir og guttinn fór létt með brekkuna upp í Æsufellið.

Mér reiknast til að ferðalagið okkar hafi náð 15,3 km og verið um fjóra tíma með áningum. Nokkuð gott finnst mér.

En Rúnar Atli lét sér það ekki duga. Hálftíma eftir að við komum heim var hann mættur á fótboltaæfingu. Sú stóð yfir í klukkutíma.

Síðan eftir kvöldmat hjóluðum við niður í Eyjabakkann, en þangað áttum við erindi. Svo var hjólað til baka heim.

Kraftur í mínum manni.

3. júní 2011

Aðeins betra en rassvasamyndavélin

Fékk skemmtilega sendingu í tölvupósti áðan. Davíð smellti greinilega nokkrum sinnum af í dag með Rúnar Atla í sigtinu og sendi mér síðan fínar myndir.

Njótið:

Einbeitingin skín úr ekki einu andliti og ekki tveimur, heldur öllum.

Búinn að æfa innanfótarspyrnuna vel. Þessi mynd ætti heima í kennslubók.

Guttinn spilaði í marki í smátíma. Stundum gekk erfiðlega að koma knettinum aftur í leik.
Ábúðarfullur aðstoðarmaður. Tilbúinn hverju neyðartilviki sem verkast vill!

2. júní 2011

Enn spila menn bolta

Í morgun var haldið knattspyrnumót fyrir 7. flokk á Í.R. vellinum. Leiknir átti þrjú lið þar og var Rúnar Atli á meðal liðsmanna.

Að sækja svona mót tilheyrir pabba-deildinni á þessum bæ. Við feðgarnir settumst því á hjólhestana okkar þegar klukkan nálgaðist hálftíu og renndum okkur niður brekkuna í Bakkana, þaðan í gegnum göng yfir í Selin, og svo niður-í-móti að Í.R. vellinum.

Þarna var múgur og margmenni. Mikið af knattspyrnustrákum auðvitað, en hellingur af skyldmennum líka. Ýmsum iðkendum fylgdi heil herdeild. T.d. hittum við einn ónefndan knattspyrnudreng sem býr í Bökkunum og honum fylgdu fjórir. Margir foreldrar voru útbúnir ljósmyndagræjum, og einstaka vél hefði sómt sér vel hjá íþróttaljósmyndurum í Pepsí-deildinni. Aðdráttarlinsur par excellance. En auðvitað þarf maður að eiga flottu augnablikin í lífi barnanna sinna. Ég var reyndar aðeins vopnaður rassvasamyndavél, en hún virkaði ágætlega.

Menn líta faglega út

Hverjir eru bestir? LEIKNIR!
(Rúnar Atli þriðji frá hægri)
Minn gutti skemmti sér vel. Orðinn svolítið sjóaðri í þessu en í Egilshöllinni um daginn. Þekkir líka liðsfélagana betur en þá. Og betur græjaður.

Mér fannst flott að sjá að áhersla var lögð á að taka í hendur andstæðingana eftir hvern leik og þakka fyrir leikinn.

Verst við mótið var kuldinn sem hægt og rólega vann sig í gegnum fötin manns. Ekki skyldi maður trúa að kominn sé annar júní, ó-nei.

1. júní 2011

Útskrift úr 1.B.H.

Í morgun lauk formlega veru Rúnars Atla í fyrsta bekk. Í skólanum var haldin útskrift og fengu allir nemendur sín einkunnaspjöld og hvatningu fyrir sumarið. Sér í lagi var hvatt til lesturs á hverjum degi.

En athöfnin var skemmtileg. Mátulega löng og sungin gömul og góð íslensk lög á milli þess sem einkunnaspjöldum var úthlutað. „Blessuð vertu sumarsól,” „Fögur er vor fósturjörð” og ýmis önnur lög í þeim dúr. Svo var auðvitað sunginn skólasöngur Fellaskóla og tóku krakkarnir hressilega undir í viðlaginu.

Hér tekur drengurinn við einkunnaspjaldinu úr höndum aðstoðarskólastjórans. Alvarleg stund.

Hér er Rúnar Atli að kveðja kennarann sinn, Bjarna Harðarson. 

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...