20. júní 2011

Skagamót 2011

Þjóðhátíðarhelginni eyddi ég meira og minna uppi á Akranesi. Þar fór fram hið svokallaða Norðurálsmót í knattspyrnu drengja sem fæddir eru 2003 og 2004. Sjöundi flokkur. Rúnar Atli tók þátt að þessu sinni. Hann keppti í E-liði Leiknis. Eftir því sem ég kemst næst ættu E-lið að vera skipuð byrjendum í iðkun knattleiksins og sú var raunin með Leiknisliðið. Leiknir átti þrjú lið í keppninni, A, D og E, og nálega 25 strákar skipuðu þessi lið.

Skv. mótshöldurum tóku u.þ.b. 1.200 krakkar þátt í mótinu, enda var sægur af krökkum þarna. Og allir foreldrarnir, maður minn! Ætli megi ekki reikna með að íbúafjöldi Akraness hafi tvöfaldast um þessa helgi.

Veðrið á Skaganum lék við okkur stærstan hluta móts. Þó var svolítið svalt í veðri, en góðan hluta laugardags og allan sunnudag var sól og fínasta veður. Þá er líka gaman að spila fótbolta.

Flottur sunnudagur á Skaganum. Spegilsléttur sjór og heiðskír himinn
Ef horft er á úrslitin, þá gekk Leiknismönnum ekkert sérstaklega vel á mótinu. E-liðið náði þó með gríðarlegu harðfylgi og baráttu að sigra einn leik. Mátti Stjarnan lúta í gras í það skiptið. Fögnuður Leiknispilta var gríðarlegur í leikslok. Hugsa ég að Xavi, Puyol, Casillas, Iniesta og allir hinir Spánverjarnir hafi ekki orðið ánægðari þegar Spánn varð heimsmeistari í fótbolta í fyrra. Gleði drengjanna var mikil og einlæg.

Auk sigursins endaði einn leikur í jafntefli. Hinir leikirnir skiptu minna máli...

En, úrslitin voru ekki aðalmálið. Að taka þátt, sofa saman án foreldra, fara saman í sund, og allt hitt var svo skemmtilegt. Að láta úða Leiknislitunum í hárið, á kinnar og enni var hátíðleg athöfn.

Allt var bara gaman.

Fylgst með boltanum og hlaupið á réttan stað

Hreinsað frá marki, en það er ekki alltaf auðvelt í 7. flokki

Vígalegur snáði.

Ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur; tveir Valsmenn í einu

Mikil áhersla er lögð á að þakka mótherjunum fyrir leikinn

Hér sést E-lið Leiknis hrópa ÁFRAM LEIKNIR svo glumdi í. Rúnar Atli lengst t.h. í efri röð

Þarna er stór hluti Leiknishópsins saman kominn. Rúnar Atli lengst t.h. í neðri röð

Svo er það knattleiknin

Virðist ganga þokkalega að halda bolta á lofti
Var maður þreyttur á sunnudagseftirmiðdag eftir heila helgi af fótbolta?

Ekki svo. A.m.k. var pabbinn dobblaður í hjólatúr á sunnudagskvöldi með fótboltann í farteskinu. Lá leiðin niður í Fossvogsdal og þar spörkuðu feðgarnir í boltann í á annan tíma áður en hjólað var aftur heim.

Enda var pabbinn feginn að leggjast á koddann það kvöldið.

1 ummæli:

davíð sagði...

Flottur...

...þrátt fyrir að vera Leiknismaður

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...