4. júní 2011

Næstum 30 gráður

Sit núna úti á svölum hjá Dodda mági í Oxelösund í Svíþjóð. Fínt veður, smágola og 23 gráður. Við lentum á Arlanda-flugvellinum skömmu eftir hádegi að staðartíma. Þá var hitinn 28,5 gráður. Smávegis viðbrigði fyrir Íslendingana beint af skerinu kalda. Ég meina, fyrir tveimur dögum var slydda á Leiknisvellinum...

Hér eru tré allt um kring, svo maður fær þá tilfinningu að vera úti í sveit.

Dagurinn var tekinn snemma til að mæta út í Leifsstöð skömmu eftir klukkan sex. Við þurftum að sækja Dagmar Ýr - afmælisbarnið sem er 23. ára í dag. Móðir hennar var orðin nokkuð áhyggjufull um hálffimmleytið því „krakkinn“ svaraði ekki í símann sinn. Loksins náðist í hana og þá kom í ljós að hún var ekki enn farin að sofa!

Í tilefni dagsins fór hún á Hereford veitingahúsið í gær og svo á „einhvern“ bar. Hún var að pakka þegar móðirin fór að hringja og síminn var auðvitað í öðru herbergi. En þetta fór nú allt vel að lokum.

Þvílík mergð af bílum á langtímastæðinu hjá Leifsstöð. Greinilegt að Íslendingar skreppa aðeins út fyrir landsteinana.

Flugið gekk vel. Reyndar var nokkur seinkun, en hún skipti okkur engu máli. Algjör draumur að þurfa bara að fara í eina flugvél og vera þá kominn á áfangastað. Ég man ekki hvenær ég fór síðast í þessháttar ferð.

Svo á morgun verður ekið til Gautaborgar og tekin ferja yfir til Danmerkur. Þar er stefnt á ferðamannabæ sem heitir Agger. Þar bíður Maja mágkona ásamt sinni fjölskyldu, en Maja verður fertug á árinu. Ákveðið var að hittast þarna og gera sér glaðan dag.

Ætli séu ekki 10 ár síðan ég hitti Maju síðast. Þá var hún ung. Nú er hún amma! „Ó-mæ-godd,“ myndu sjálfsagt sumir segja.

Býst ég við miklu fjöri næstu daga.

Nánari fréttir síðar.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...