2. júní 2011

Enn spila menn bolta

Í morgun var haldið knattspyrnumót fyrir 7. flokk á Í.R. vellinum. Leiknir átti þrjú lið þar og var Rúnar Atli á meðal liðsmanna.

Að sækja svona mót tilheyrir pabba-deildinni á þessum bæ. Við feðgarnir settumst því á hjólhestana okkar þegar klukkan nálgaðist hálftíu og renndum okkur niður brekkuna í Bakkana, þaðan í gegnum göng yfir í Selin, og svo niður-í-móti að Í.R. vellinum.

Þarna var múgur og margmenni. Mikið af knattspyrnustrákum auðvitað, en hellingur af skyldmennum líka. Ýmsum iðkendum fylgdi heil herdeild. T.d. hittum við einn ónefndan knattspyrnudreng sem býr í Bökkunum og honum fylgdu fjórir. Margir foreldrar voru útbúnir ljósmyndagræjum, og einstaka vél hefði sómt sér vel hjá íþróttaljósmyndurum í Pepsí-deildinni. Aðdráttarlinsur par excellance. En auðvitað þarf maður að eiga flottu augnablikin í lífi barnanna sinna. Ég var reyndar aðeins vopnaður rassvasamyndavél, en hún virkaði ágætlega.

Menn líta faglega út

Hverjir eru bestir? LEIKNIR!
(Rúnar Atli þriðji frá hægri)
Minn gutti skemmti sér vel. Orðinn svolítið sjóaðri í þessu en í Egilshöllinni um daginn. Þekkir líka liðsfélagana betur en þá. Og betur græjaður.

Mér fannst flott að sjá að áhersla var lögð á að taka í hendur andstæðingana eftir hvern leik og þakka fyrir leikinn.

Verst við mótið var kuldinn sem hægt og rólega vann sig í gegnum fötin manns. Ekki skyldi maður trúa að kominn sé annar júní, ó-nei.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...