29. desember 2009

Bílleysi = heilbrigði?

Tók daginn snemma. Var mættur í laugina rétt fyrir sjö. Einn að þessu sinni, því Rúnar Atli gisti hjá Loga Snæ frænda sínum. Synti 300 metra og var bara frískur að því loknu. Potturinn síðan alltaf góður.

Ók síðan sem leið lá inn í Kópavog og skildi bílinn eftir á bílaverkstæði. Bíllinn er nýtekinn upp á því að leka vatni af vatnskassanum og það í nokkru magni. Svo var flautan líka hætt að virka, sem er hið versta mál í reykvískri umferð. Þetta þurfti að lagfæra.

Arkaði svo frá Skemmuveginum upp í Æsufellið. Kannski í kringum 25 mínútur á leiðinni. Fékk mér morgunmat og síðan tókum við Tinna Rut strætisvagn niður á Háaleitisbraut. Heimsóttum þar hnykkjara. Síðan þurfti að taka strætisvagninn til baka, en það vafðist aðeins fyrir okkur. Fundum hreinlega ekki stoppustöð sem á að vera í Fellsmúlanum! Því örkuðum við niður á Miklubraut og á stoppustöð gegn Hagkaupum í Skeifunni.

Komum svo heim.

Þá langaði Gullu í göngutúr. Við hjónin röltum því af stað og gengum stóran hring hér í Fellunum. Skoðuðum alls konar fyrirtæki og stofnanir sem eru hér. Furðuðum okkar á miklu fjölda gervihnattadiska sem sitja hér á fjölbýlishúsum.

Síðan þurfti auðvitað að sækja soninn. Við náðum því í snjóþotu guttans og töltum niður brekkuna í neðra Breiðholtið og stungum okkur inn í Bakkana. Sigga var auðvitað nýbúin að baka fína tertu, enda enn verið að prufukeyra fínu Kitchenaid hrærivélina. Að lokum var sonurinn dreginn á snjóþotunni upp í hið efra. Efra Breiðholt, þ.e.a.s.

Klukkan var farin að nálgast fimm þegar hér var komið. Fréttist þá að bílinn væri tilbúinn, og hafði ég um tuttugu mínútur til að sækja hann. Enn var því brunað af stað og hálfskokkað niður hæðina, arkað framhjá Mjóddinni, smogið undir Reykjanesbrautina, og síðan niður Skemmuveginn.

Mikið var gott að setjast upp í bílinn og aka af stað.

Ég kíkti á Google earth áðan og nýtti mér mæligræjur sem þar eru til að skjóta á hversu langt ég hefði gengið. Sýnist mér að í kringum níu kílómetrar hafi verið lagðir að baki í dag.

Er ég ósköp ánægður með heilsuræktina, en verð að viðurkenna að strengir eru farnir að gera vart við sig.

Væri ég til í að vera bíllaus? Varla, en sýnist þó að efra Breiðholtið sé líklega með betri stöðum bæjarins ætli maður að taka upp á þvílíku.

25. desember 2009

Gleðileg jól

Jóladagur langt kominn. Letidagur væri kannski ekki verra orð. Hef legið í leti megnið af deginum. Náði þó í Dagmar Ýri um kaffileytið. Hef síðan eytt hluta dagsins í lestur bókar Jónasar Kristjánssonar. Ágæt bók og auðlesin, enda fylgir Jónas þeim reglum um stíl sem hann ráðleggur öðrum.

Reyndar fékk piparkökuhúsið að finna fyrir því áðan. Rúnar Atli tók sig til og rústaði því. Drenginn vantaði greinilega útrás. Hann eyddi nefnilega um fimm klukkutímum í morgun að setja saman landhelgisgæsluskip og vita úr legókubbum.

Aðfangadagur jóla var góður dagur sem endranær. Við Rúnar Atli tókum daginn þó snemma. Vorum lagðir af stað til Grundarfjarðar klukkan hálfátta að morgni. Vorum komnir þangað skömmu fyrir tíu, kipptum ömmu Rúnars upp í bílinn og ókum til baka. Í Æsufellið komum við uppúr hálfeitt, ef ég man rétt.

Hamborgarahryggurinn úr Fjarðarkaupum smakkaðist vel. Enda Gulla listakokkur.

Ýmislegt skemmtilegt leyndist undir jólatréinu. Sérkennilegasta gjöfin mín var líklega öfugsnúin veggklukka sem Gulla gaf mér. Hún er öfugsnúin því hún gengur rangsælis. Tölurnar 12 og 6 eru á sama stað og á hefðbundinni klukku, en 3 er þar sem 9 er á þeirri hefðbundnu. Aðrar tölur eru öfugsnúnar í samræmi við það. Ekki er ýkt þótt sagt sé að ruglingslegt sé að horfa á klukku þessa. Svona klukkur þykja víst eitt af því sem heimur rétthentra hefur af okkur örvhentum. Ég er ekki saklaus af því að kvarta stundum yfir heimi rétthentra. T.d. er ótrúlegt hversu auðveldara er að klippa með „örvhentum“ skærum. Eins getur verið hættulegt, jafnvel lífshættulegt, að nota vélsagir og ýmis verkfæri í þeim dúr því rofar eru oft á kolröngum stöðum. En ég skal nú viðurkenna að ég sé ekki alveg tilganginn með öfugsnúnu klukkunni.

Tinna Rut fékk einnig magnaða gjöf. Doddi frændi í Svíaríki gaf henni púðaver. Varla í frásögur færandi, nema fyrir þá staðreynd að á púðaverinu er andlitsmynd af Dodda sjálfum! Hversu miklum kvikindisskap lýsir þetta eiginlega?

Annars fylgdi aðfangadagskvöldið forskriftinni. Það er alltaf best.

22. desember 2009

Jóla-hvað?

Fyrr í kvöld rölti ég um Laugaveginn með Dagmar Ýri og Rúnari Atla. Fínt veður. Reyndar svolítið kalt, en lyngt og fínt. Við kíktum í jólaþorpið svokallaða á Hljómalindarreitnum.

Ég ætla nú ekki að blanda mér í deilurnar milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. En ég verð nú að segja að þetta þorp stenst engan veginn þær væntingar sem ég hafði til þess. Ég skil alls ekki þá snilld að hafa gítarleikara, að kvöldi 21. desember í jólaþorpi, spilandi lag sem nefnist „Ruby, Ruby“

Hvað varð um jólalögin?

18. desember 2009

Piparkökuhús!

Oft hefur verið rætt um á þessum bæ að baka piparkökuhús fyrir jól. En aldrei hefur orðið af því.

Fyrr en nú.

Við feðgarnir fórum í bakstur seinnipartinn í dag. Hér er guttinn með húseiningarnar nýkomnar úr ofninum.


Þegar búið var að líma húsið saman, þá kom að skreytingu. Og þá er best að einbeitingin sé í lagi...


Hér eru hreyknir bakarar með afraksturinn.


Gripurinn fékk síðan heiðursess á skenknum hennar Gullu (takið eftir strumpunum).

Nú er bara að hefja hönnunarvinnu fyrir næsta ár.

14. desember 2009

23 árum fagnað

Ég verð 45 ára eftir nokkra daga. Í dag hins vegar áttum við Gulla 23 ára brúðkaupsafmæli.

45 - 23 = 22

Það er á hreinu, ég er búinn að vera giftur (sömu konunni) meirihluta ævinnar.

Og hvað var svo gert í tilefni dagsins?

Jú, við fórum á ljósmyndastofu og létum taka fjölskyldumyndir. Mest var þetta þó í tilefni útskriftar Tinnu Rutar en þó voru teknar nokkrar myndir af hjónunum.

Dagmar Ýr bauð svo Rúnari Atla að gista heima hjá sér. Þáði hann boðið með þökkum. Við Gulla áttum þar með góðan möguleika á að fara tvö ein út að borða. Gerðum við það. Fórum við á Hamborgarabúlluna við Geirsgötu, skáluðum í kóki og gæddum okkur á fínum hamborgurum og frönskum. Ekki slæmt...

Enduðum svo á rúnti um bæinn.

13. desember 2009

Slakað á

Sunnudagurinn 13. desember á því herrans ári 2009 runninn í garð. Já, reyndar er dagurinn langt kominn. Lífinu hefur verið tekið með ró það sem af er degi. Bendir flest til að það breytist lítið seinni hluta dags.

Við Rúnar Atli skutumst í laugina í morgun á meðan Gulla stóð í ströngu í uppvaskinu. Stórveisla var jú hér í gær. Um 40 manns mættu í Æsufellið til að samfagna Tinnu Rut, en hún var jú að halda upp á útskrift úr framhaldsskóla. Einnig var henni óskað velfarnaðar í komandi áskorunum á norðurslóðum Kanada.

Við Gulla hófum kökubakstur tveimur dögum fyrir veislu og svo kom mamma sterk inn á endasprettinum með brauðtertur. Flatkökur voru smurðar og pönnsur bakaðar. Enda svignuðu borð undan veisluföngum. Tinna Rut stendur hér við kræsingarnar rétt áður en atgangurinn hófst.

Já, þetta voru rétt um fjörutíu manns. Fólk bæði úr móður- og föðurætt Tinnu Rutar og svo vinafólk, bæði gamlir og eins „nýrri“ vinir.

Tinna Rut stóð sig eins og herforingi, enda glæsileg stúlka.

Sjálfsagt meira úr móðurættinni... hún er þó með tærnar mínar...

Eins og gengur er oft misjafn sauður í mörgu fé. Hér eru tveir af þeim öfugsnúnustu sem mættu í gær:

Ævinlega stuð hjá Rúnari Atla og Loga Snæ þegar þeir hittast.

Við Gulla vorum mjög sátt með veisluna. Þurfum þó að fjárfesta í nokkrum klappstólum til viðbótar til að fullkomnun sé náð. Sjáum alveg fyrir okkur að hægt sé að halda 50 manna boð í Æsufellinu. Enda er farið að skipuleggja þau næstu. Eftir tvö ár eigum við 25 ára brúðkaupsafmæli - ótrúlegt afrek hjá jafn ungu fólki - og eftir fimm ár verð ég fimmtugur. Það er náttúrulega súrrealískt ótrúlegt.

En merkiði í dagbókina, 14. des. 2011, og 17. des. 2014.

8. desember 2009

Íslandið mitt

Við Tinna Rut fórum á Domino's áðan. Ríkisrekna pitsustaðinn. Í þann mund er við göngum inn um dyrnar þá hellir vaktstjórinn, ung og hugguleg stúlka, sér yfir kokkaliðið sem er þarna. Kannski ekki í frásögur færandi. Þó vakti eftirtekt mína að þessi yfirhalning fór fram á pólsku. Ég var eiginlega hálffeginn að tala ekki það tungumál. En mér sýndist að þeir fjórir starfsmenn sem voru þarna inni væru allir af pólskum uppruna.

Ísland er land mitt...

7. desember 2009

Fyrsti í sumarfríi

Þá hófst sumarfríið mitt í dag. Vaknaði um sjöleytið, en við Rúnar Atli höfðum ákveðið að fara í morgunsund saman. Við löbbuðum svo út í Breiðholtslaug. Launhált á göngustígunum.

En mikið er gott að fara í sundlaugar borgarinnar. Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem ég sakna mest frá Íslandi, þá væru það sundlaugarnar. Alveg var meiriháttar að svamla í lauginni með syninum, loftið tært og hreint, og tunglið hálft á himininum. Laugarnar eru ábyggilega einhver besta heilsulind okkar Íslendinga.

Annars var deginum eytt í ýmiskonar snatt. Endurnýja þarf vegabréf, fá bankakort með nýjum myndum og bara svona sitt lítið af hverju. Rúnar Atli fór í skoðun hjá tannlækninum. Honum finnst mjög spennandi að fara til tannlæknisins. Var hann farinn að rella um að fara til tannsa þremur tímum áður en mæting var. „Getum við ekki farið núna til tannlæknisins...?“

Á eftir kíkir Dagmar Ýr í mat, þ.a. öll fjölskyldan borðar saman. Gerist ekki oft.

5. desember 2009

Kominn heim í heiðardalinn...

Sit heima í Æsufellinu og hripa þessi orð á blað. Er nú orðinn frekar slæptur, enda komið fram yfir namibískan háttatíma. Vel gekk heim frá Lundúnum. Smátöf þegar einn farþeginn kvartaði yfir veikindum. Auðvitað var læknir um borð. Og reyndar dýralæknir líka. En við töfina þá töpuðum við okkar stæði í brottfararröðinni frá flugvellinum og því þurfti að bíða í góða stund áður en hægt var að troða flugvélinni aftur inn í röðina. Við lentum því hálftíma síðar í Keflavík en áætlað.

Svo var auðvitað farið í fríhöfina og tollurinn keyptur. Ja, víntollurinn, spái lítið í aðra tolla. Auðvitað fylltist innkaupakerran af ýmiskonar sælgæti og gotteríi. Tilheyrir.

Á meðan ég var í fríhöfninni náði Tinna Rut í töskurnar af færibandinu. Töskurnar komu að sjálfsögðu allar.

Gulla og Dagmar Ýr tóku síðan á móti okkur og urðu auðvitað fagnaðarfundir. Hvað annað? Svo þurfti að troða öllum töskum í bílinn og aka til Reykjavíkur.

Gott að vera kominn heim.

Sprækur sem lækur!

Sit ásamt börnunum mínum tveimur í flugvallarsal 1 á Heathrow flugvellinum. Hingað til hefur ferðalagið gengið vel. Á flugvellinum í Windhoek var ekki ein einasta hræða við innritunarborðið, þ.a. innritun gekk hratt og vel fyrir sig. Í Jóhannesarborg var aðeins meira mál að innrita sig, en S-Afríkanar eru víst að reyna að koma nýju tölvukerfi í gagnið á flugvöllunum fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu á næsta ári. Greinilega eru einhverjir hnökrar enn, því næstum því hver einasti farþegi virtist skapa vandamál. Við gerðum það líka, því Tinna Rut var á sérflugmiða, því hún ferðast jú bara aðra leiðina í þetta sinn. En allt gekk þetta að lokum.

Langa flugið, 10 tímar og 25 mínútur, gekk vel. Sjónvarpskerfið hjá British Airways er alveg meiriháttar flott. Hver með sinn sjónvarpsskjá, og ábyggilega á fjórða tug mynda sem hægt er að velja úr. Rúnar Atli sofnaði síðan yfir kvöldmatnum sínum og síðan vaknaði hann bara ekki fyrr en klukkutíma fyrir lendingu. Eðaldrengur. Meira að segja var erfitt að vekja hann. Við hin áttum þokkalega nótt. Duttum sjálfsagt í nokkra klukkutíma með hléum.

Síðan lentum við hér rúmlega fimm í morgun. Smáferðalag var að komast úr flugvallarsal 5 til salar 1 og svo þurfti að fá brottfararspjöld. Gaurinn var ekki viss hvort farangurinn okkar hefði fylgt okkur... en kannski var bara ekki búið að staðfesta komu hans í tölvukerfinu. Við vonum það besta.

Við erum núna búin að koma okkur vel fyrir rétt við dyr Harrods hér í biðsalnum. Mynduðum skjaldborg með handfarangri og úlpum svo engir færu að abbast upp á okkur ;-)

Enn eru rúmir fjórir tímar til brottfarar, en okkur líður bara vel.

4. desember 2009

Allt að smella

Loksins er allt að verða tilbúið. Búinn að pakka í töskurnar og ipoddar hlaðnir svo nú er bara að fara í háttinn. Svo mæti ég til vinnu í fyrramálið og Rúnar Atli í leikskóla. Uppúr hádegi þurfum við svo að rúlla út á flugvöll. Síðan flogið til Jóhannesarborgar, svo til Lundúna og þaðan til Keflavíkur.

Létt og löðurmannlegt.

3. desember 2009

Allt að verða tilbúið

Brottför til Íslands á morgun. Allt er að verða tilbúið. Síðasti vinnudagurinn á þessu ári var hjá vinnufólkinu í dag. Fór ég hamförum í að tæma ísskápinn og búrið og gaf þeim. Ekki þýðir að mæta í myglulykt á nýju ári. Nú er ekki matarsnifsi til á bænum. Enda er stefnan sett á kínverskan matsölustað á eftir. Svo eigum við Tinna Rut stefnumót í fyrramálið á Café Schneider í morgunmat.

Í kvöld þarf svo að pakka í töskur.

Tinna bloggari!

Haldiði ekki að Tinna Rut sé farin að blogga á nýjan leik!

2. desember 2009

Kveðjustundin nálgast

Nú styttist í að hún Tinna Rut fari alflutt frá Namibíu. Hún er því búin að rækta vinaböndin vel frá því prófum lauk. Nú rétt í þessu þegar ég kom heim í hádegismat þá voru tveir vinir hennar hér. Ef einhverjum finnst það skipta máli voru þetta piltar tveir. Tinna Rut var að hræra deig og svo bauð hún vinum sínum upp á pönnukökur framreiddar að kanadískum sið. Ekki slæmt.

1. desember 2009

Nostalgían

Eitthvað varð mér hugsað til þess áðan að nú eru að verða fjögur ár frá því við fluttum til Namibíu í seinna skiptið. Í kjölfarið kíkti ég á fyrstu dagbókarfærslunar mínar hér á blogspot. Byrjaði að blogga á 19 ára brúðkaupsafmælinu okkar Gulla. Það var um árið 2005, ef einhver er að reyna að reikna.

Mikið er gaman að hafa nennt að setja inn þessar færslur. Ég gleymdi mér alveg yfir þessu. Myndir af Rúnari Atla og Tinnu Rut og ýmsar skemmtilegar sögur sem ég var búinn að gleyma. Sem sagt, nostalgíutripp hjá mér í kvöld. Og rauðvínsflaska með.

Fúlt að maður skuli ekki hafa haldið dagbók alla ævi.

Elli, það væru sjálfsagt einhverjar skemmtilegar sögur til frá níunda áratugnum, eða hvað?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...