28. desember 2007

Námshestar

Þann 21. des. sl. útskrifaðist Dagmar Ýr nýstúdent. En fleiri í fjölskyldunni hafa stundað nám á síðustu mánuðum og í gærkvöldi fengum við Gulla viðurkenningu fyrir að hafa lokið námskeiðinu Táknmál 1 hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, SHH.

Í tilefni þessa áfanga var fámennt, en góðmennt, boð haldið í Æsufellinu. Þar var setið fram eftir kvöldi (les: nóttu) við hámenningarlegar umræður. Tókst okkur Gullu að nýta örlítið okkar táknmálskunnáttu, en ekki skal neita að hófleg neysla hvítvíns og rauðvíns liðkaði aðeins til.

Verður að viðurkennast að við eigum langt í land með að geta tjáð okkur almennilega á táknmáli, enda er táknmál ekkert öðrum vísi en önnur tungumál og því tekur langan tíma að læra það. En ótrúlega gaman er að fylgjast með umræðum á táknmáli og er ekki spurning að þetta mál ættu sem flestir að ná sér í grunnþekkingu á.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að læra táknmál, þá má finna stundaskrá táknmálskennslu SHH á netinu. Þarna sjást námskeið næstu annar.

Heyrt í bílnum

„Pabbi, ég vil ekki hlusta á ensku í útvarpinu, bara íslensku!“

Þar með var svissað yfir á rás tvö, sem til allrar hamingju var að spila íslenska tónlist.

25. desember 2007

Rólegheit, mikil rólegheit

Já, ekki er ofsögum sagt að lífinu hafi verið tekið með mikilli ró í dag, sjálfan jóladag. Allir sváfu út og lítið hefur verið um snöggar hreyfingar. Eina afrekið var að fara út í hressan skafrenning og dusta snjóinn af bílnum. Síðan var mamma sótt, en til stóð að hafa hangikjöt og alles í mat. Hins vegar var ástandið þannig eftir köku- og nammiát að ákveðið var að fresta þeirri máltíð til morguns...

Segi ekki meira í bili.

Aðfangadagskvöld

Þetta árið eins og önnur ár þá runnu jólin í garð kl. sex að kvöldi 24. desember. Nokkur spenningur ríkti fram eftir degi, eins og eðlilegt er. Hamborgarahryggurinn fór í pottinn um fjögurleytið og smátt og smátt barst ilmurinn af honum um alla íbúð.

Til siðs er að taka mynd af matarborðinu áður en sest er við það. Brá svo við í ár að einn fjölskyldumeðlimur var svo svangur að hann lenti með á myndinni. Var víst lítið búinn að borða yfir daginn fyrir spenningi og nennti því ekkert að bíða eftir hinum.


Maturinn brást ekki þessi jólin. Kjötið bókstaflega bráðnaði í munnum okkar. Eins og oft áður var erfitt að kunna sér magamál, þótt nokkur pressa væri frá börnunum að drífa þetta nú af og setjast inn í stofu.

Auðvitað beið uppvaskið þó. Nú brá svo við að dæturnar tvær tóku verkið að sér. Man ég bara ekki eftir sambærilegum atburði fyrr og var hann því festur á filmu. Einhverja sönnun verður að hafa. Kannski er hér vísir að nýrri hefð, hver veit?


Ekki má bregða út af vananum og voru teknar myndir af börnunum við jólatréð áður en rifið var utan af pökkum. Fylgja hér tvær þess háttar myndir.



Loksins, loksins var farið að opna pakka. Rúnar Atli fékk það mikilvæga hlutverk að velja pakka undan trénu. Hann afhenti þá síðan Tinnu Rut sem las á merkimiðann. Síðan tók Rúnar Atli aftur við pakkanum og færði þeim sem pakkann átti. Fyrirkomulagið gekk nokkuð snurðulaust fyrir sig, nema þegar Rúnar Atli var svo önnum kafinn við nýju gröfurnar sínar að hann hreinlega mátti ekki vera að þeim hégóma að sækja fleiri pakka.

Tók eitthvað yfir tvo tíma að opna alla pakka. Kunnum við öllum þeim sem gáfu okkur gjafir hinar bestu þakkir fyrir. Vonandi áttu allir okkar vinir jafnnotalegt aðfangadagskvöld og við.

Í lokin fylgir hér mynd af gleði Tinnu Rutar þegar hún opnaði pakka frá systur sinni. Með innihaldi pakkans mun gamall draumur rætast, gat í naflann!



Gleðileg jól öllsömul!

24. desember 2007

Jólatréð

Þannig er að frá 1991 höfum við ætíð skreytt jólatréð okkar viku fyrir jól. Sem næst afmælisdeginum mínum, sem sagt.

Eitthvað klikkaði þetta hjá okkur í ár, en við keyptum ekki tré fyrr en 18. des. og skreyttum ekki fyrr en næsta dag. Svona svipað og með hangikjötssuðuna í gær, við virðumst bara vera svo afslöppuð að hefðirnar fá að fjúka...

En, tréð var keypt í heimabyggð, í Garðheimum. Það virkaði nú frekar temmilegt í skemmunni hjá þeim, svona tæplega tveggja metra hátt og nokkuð þétt og fínt.

Svo kom tréð heim...

Greinilegt var að mér hafði hlaupið kapp í kinn við valið. Ég ætti líklega að taka fram að ég sá einn um valið í ár. Ja, spurði reyndar Rúnar Atla hvort þetta tré væri ekki flott og fékk samsinni við því. Veit ekki hvort það dregur eitthvað úr ábyrgð minni.

En í sínu tilvonandi umhverfi var tréð kannski svona obbolítið smáræðis ofurlítið í stærra lagi. Hæðin var í lagi, en fullbomsamikið var tréð. Á tilætluðum stað gerði tréð að verkum að erfitt var að komast inn í eldhúsið.

Þ.a. nú þurfti að grisja. Engar fundust trjáklippurnar. Jú, reyndar fann ég klippur sem ég notaði á aspirnar á Stillholtinu, en þær eru með metralöngu skafti og því ekki vel til þess fallnar að snyrta og snurfusa jólatré innandyra. Því var aftur brunað í Garðheima og fjárfest í litlum handklippum. Svo var farið að grisja.

Smátt og smátt tók tréð á sig mynd, en hrúgan af greinaafklippum á gólfinu stækkaði og stækkaði. Að lokum mátti varla á milli sjá hvort fleiri grenigreinar voru á trénu eða á gólfinu. Afskurðurinn fyllti einn svartan ruslapoka leikandi létt.

En að þessari snyrtingu lokinni var tréð orðið fantafínt og tekið til við að skreyta. Sumir voru í frekar óhefðbundnum klæðnaði við verkið, en áhuginn og einbeitingin skein engu að síður úr andlitinu.

Þorláksmessa

Dagurinn tekinn snemma á Þorláksmessu. Aðallega svona til að lesa blöðin og sötra tebollann í ró og næði. Við Rúnar Atli fórum síðan í smákökubakstur en Gulla skrapp í verslunarleiðangur. Okkur fannst nauðsynlegt að geta sagst hafa bakað fyrir jólin og því fundum við tvær uppskriftir í kökublaði Vikunnar.

Síðan eftir hádegið fórum við feðgar í göngutúr. Ákváðum að heimsækja Loga Snæ og aðra meðlimi hans fjölskyldu og röltum okkur því niður í hið neðra.

Neðra-Breiðholt þ.e.a.s.

Þar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Litlu frændurnir hurfu inn í herbergi og léku sér sem bestu vinir. Boðið var upp á graflax og Davíð dró upp eina af mörgum rauðvínsflöskum sem hann hefur sankað að sér. Veit víst ekki tölu á flöskunum skilst mér.

Síðan var farið í Just4Kids að leita að gjöfum handa syninum. Ekki var laust við að hægt væri að finna eins og eina eða tvær þarna inni... Eins gott að guttinn var skilinn eftir heima, segi nú ekki meira.

Um kvöldið fórum við feðgarnir í Smáralindina í smáútréttingar. Á leiðinni út í bíl fékk Rúnar Atli að setjast upp í „Lightning McQueen“ og pabbinn átti meira að segja hundraðkall í vasanum til að koma græjunni í gang. Mikil lukka þar.


Rétt fyrir klukkan ellefu um kvöldið uppgötvaðist að gleymst hafði að sjóða jóladagshangikjötið, en það gerum við ætíð á Þorláksmessu. Ekki mikið verið að stressa sig á hlutunum, eða hvað?

En kjötinu var bara skellt í pott og svo kom suðan upp og síðan fylltist íbúðin af hangikjötsilmi. Nokkuð skárri en skötulyktin í stigaganginum í Eyjabakkanum...

Að lokum var farið að pakka inn gjöfum, og nú er tími til að fara í háttinn.

Jólin koma „næsta dag“ eins og Rúnar Atli segir.

23. desember 2007

Nýstúdentinn!

Föstudagurinn var „bissí“ dagur hér á bæ. Eldsnemma farið á fætur, en klukkan tíu var mæting á Ljósmyndastofu Gunnar Ingimarssonar í Suðurveri. Þar voru teknar stúdentamyndir og síðan var smásyrpa í lokin af börnunum öllum þremur. Frá Gunnari hafa alltaf komið pottþéttar myndir og eigum við ekki von á öðru núna frekar en áður. Sumir biðu stilltir og þægir eftir myndatökunni...


Vatnsgreiddur og sykursætur


Að þessu loknu var arkað heim til að undirbúa veisluna. Ýmislegt sem gera þurfti, en planið okkar stóðst nú nokkuð vel og ekkert meiriháttar stress í gangi.

Þannig.

Síðan nálgaðist klukkan tvö, en þá hófst útskriftarathöfnin í Háskólabíói. Eitthvað var ég ekki alveg með tímann á hreinu, því allt í einu kom upp úr kafinu að klukkuna vantaði 25 mínútur í og ég ekki kominn í jakkafötin. Tókum við nú út stressskammtinn, en náðum í bíóið svona sjö mínútur fyrir tvö, Dagmar Ýr segir örugglega að klukkuna hafi vantað tvær mínútur í...

Athöfnin gekk vel fyrir sig. Ræður haldnar og heyrðum m.a. sögu um krókódíla og tvær ástralskar systur. Ég áttaði mig nú ekki alveg á skilaboðum þeirrar sögu. Enda langt síðan ég varð stúdent.

En útskriftin gekk að öðru leyti mjög vel og Dagmar Ýr fékk hvíta kollinn, eins og sést.

Dagmar Ýr í hópi samstúdenta


Nýstúdentinn


Svo var farið heim á leið. Sú ferð tók nú tímann sinn. Reykavík var hreinlega í lamasessi, því allir sem vettlingi gátu valdið virtust hafa ákveðið að skreppa í bíltúr. Tók okkur góðan klukkutíma að komast upp í Æsufellið, en það hafðist að lokum.

Um kvöldið var síðan veislan haldin. Rúmlega 30 manns mættu á svæðið. Ýmsar kræsingar voru á borðum og tókst allt meiriháttar vel. Gaman að fá tækifæri til að halda veislu þegar komið er til Íslands. Sumt fólk þarna hafði ég ekki hitt í þónokkuð mörg ár.

Nýstúdentinn tók síðan upp gjafirnar sínar og allir fóru ánægðir að sofa.

20. desember 2007

Sitt lítið af hverju

Nú er að verða liðin vika á Íslandi.

Og alltaf jafnskemmtilegt.

Þó var svolítið vesen þegar myndlykillinn fraus allt í einu, kl. 20:16 á laugardagskvöldið. Netaðgangur gufaði upp í leiðinni og í þrjá daga var ekki hægt að komast á netið, né horfa á sjónvarp í gegnum myndlykilinn. Ekki var ég nú sáttur við þjónustuna hjá Símanum í það skiptið. Æsti mig meira að segja í símann, sem gerist víst ekki oft.

Nóg um þetta. Ýmislegt hefur verið brallað, flest í tengslum við nýju íbúðina. Hillur voru settar upp í búrinu, skipt um uppþvottavél, nýja þvottavélin tengd, rúmið hans Rúnars Atla sett saman og eitthvað fleira. Svo er búið að flækjast milli búða og Gulla og Tinna Rut búnar að skreppa upp á Skagann.

Næst á dagskránni er útskriftin hennar Dagmarar. Föstudagurinn er sá stóri. Í dag sóttum við stúdentahúfuna og á morgun þarf að klára allt sem gera þarf. Þýðir víst ekki að sofa frameftir á morgun...

13. desember 2007

Ástkær fósturjörð

Við erum komin í Æsufellið. Loksins leit ég augum íbúðina sem ég er búinn að eiga helming í síðan á miðju ári. Er bara sáttur. Sit núna við borðstofuborðið og horfi út yfir Reykjavíkina. Ægifagurt útsýni.

Ýmislegt þarf að gera í þessari íbúð, en þó ekkert sem er bráðnauðsynlegt í skyndi. Helst að eldhúsið sé áberandi slappast.

Ekki var verra að fá svo jólasnjó. Skaust með Tinnu Rut í Kringluna áðan, þar sem hún hitti vinkonur af Skaganum. Snjónum kyngdi niður. Á leiðinni til baka tók Breiðholtsbrautin töluvert lengri tíma en venjulega útaf sumardekkjabílum sem komust ekki spönn frá rassi. En sem betur fer virðist nóg af jeppakörlum sem fá ánægju af því að bjarga náunganum. Kræsslerinn fór létt með þetta á sínum heilsársdekkjum.

Seinnipartur gærdagsins í Lundúnaborg var frekar tíðindalítill. Við fórum öll fjögur í verslanamiðstöðina og eyddum drúgum tíma þar. Hellingur af fólki. Síðan lagði ég mig í svona tvo tíma. Þreyttur eftir flugferðina. Hraut víst, heyrði ég utanaðmér, en veit ekki hvort ég tek það trúanlegt...

Við Rúnar Atli fórum svo í þriðja verslunarleiðangurinn um kvöldmatarleytið. Hann hefur mikið gaman af peningaplokksbílunum, sem juggast fram og til baka í eina mínútu eða svo.

Síðan var farið að sofa. Fínt hótelherbergi, og ef einhverjir þurfa að gista nálægt Gatwick flugvellinum, þá getum við alveg mælt með Arora hótelinu. Svolítið dýrt, en allt pottþétt.

Já, við fórum að sofa, en síðan vakna ég við eitthvað brambolt í henni Gullu. Hún var eitthvað mikið að stússast og var búin að kveikja öll ljós. Ég lít á klukkuna og kalla í frúna: „Þú veist að klukkan er einungis að nálgast þrjú um miðja nótt?“

Löng þögn...

„Ertu viss? Er ekki klukkan að verða fimm?“

Gulla hafði sem sagt ekki áttað sig á því að farsíminn hennar var enn stilltur á Namibíutíma...

Við þurftum að vakna klukkan fimm til að ná út á völl í tíma. Henni fannst því vel til fundið þegar hún vaknaði tuttugu míntútum fyrr - skv. sinni klukku - að fara að mála sig. Þ.a. klukkan þrjú var hún orðin stórglæsileg og til í allt.

Nema að sofna aftur. Hver skyldi fara að sofa nýmáluð?

Já, ýmislegt skondið á sér stað í okkar ofurvenjulega lífi.

12. desember 2007

Fyrsti verslunartúrinn

Við Rúnar Atli gáfumst upp á svefnpurkunum tveimur, sem ferðast með okkur, og fórum í verslunarleiðangur. Mættum í County Mall á slaginu klukkan níu, en þá opnar allt. Þarna eru allar mögulegar og ómögulegar verslanir, sjálfsagt einhverjar í eigu útrásaríslendinga. Við röltum okkur þarna um í einn og hálfan tíma og keyptum skó handa pilti, því skóbúnaður hans er ekki alveg við hæfi á Fróni um miðjan vetur.

Eitt vakti eftirtekt okkar beggja. Ótrúlegur fjöldi fólks hér ekur um í rafknúnum hjólastólum. Ekki finnst mér það tiltökumál fyrir eldra fólk, en þó nokkuð er hér af fólki á miðjum aldri sem notar svona tæki. Undarlegt að sjá fólk lítið eldra en maður sjálfur á þessum apparötum.

Sinn er siður í landi hverju.

Lundúnir

Þá er fjölskyldan komin til Lundúna, búin að koma sér fyrir á hótelherbergi og allt í góðu.

Ferðin og flugið hingað gekk mjög vel. Ja, fyrir utan það að Rúnari Atla tókst á einhvern undarlegan hátt að losa sig úr sætisbeltinu og velta sér yfir arminn á sætinu og steypast niður á ganginn. Allt þetta steinsofandi. Ég hrökk upp við dynk, og bara enginn Rúnar Atli við hliðina á mér. Nokkrar ægilangar sekúndur fóru í að losa beltið mitt og síðan náði ég honum upp af gólfinu. Enginn skaði skeði og ekki man hann neitt eftir þessu núna.

Að öðru leyti gerðist lítið markvert á leiðinni.

Í Lundúnum var fimm stiga gaddur þegar við lentum. Frískandi svalt.

Byrjuðum á því að fara á kaffihús þegar töskurnar voru komnar. Biðum síðan í nokkra stund eftir skutlunni á hótelið. Tinnu Rut var orðið nokkuð kalt á tánum, en ekkert sem hlý sæng á hótelherberginu reddar ekki.

Svo erum við búin að skrá okkur inn á hótelið og snúum okkur við frá afgreiðsluborðinu. Standa þar tveir flugmenn sem heilsa Rúnari Atla á íslensku! Þetta voru sem sagt flugmenn frá Flugleiðum. Rúnar Atli varð steinhissa en eftirá þótti spennandi að hafa hitt flugmenn. Við Gulla fórum hins vegar að velta því fyrir okkur hvort við hefðum nú sagt eitthvað á íslensku í þeirra áheyrn sem sé ekki fyrir eyru allra...

Þegar birta fer af degi munum við fara að kíkja í kringum okkur og sjá hvað hægt er að gera hér í nágrenni hótelsins. Vonandi eitthvað skemmtilegt.

8. desember 2007

Íslandsför

Nú styttist í Íslandsförina. Rúnar Atli hefur undanfarnar vikur samviskusamlega komið með mér út á flugvöll að keyra hina ýmsu Íslendinga sem á ferðinni hafa verið. Honum er þó farið að lengja í að fara sjálfur, en nú fer að koma að því.

Við yfirgefum Namibíu kl. 20:40 að staðartíma á þriðjudag og lendum í Lundúnum um fimm að morgni næsta dags. Ætlum að stoppa þann daginn í heimsborginni og förum síðan til Íslands á fimmtudagsmorgninum. Áætlaður lendingartími í Keflavíkinni er 11:20.

Á Fróni verðum við í u.þ.b. fjórar vikur. Leggjum af stað til baka 11. janúar.

Helsti viðburður ferðarinnar er stúdentaútskrift Dagmarar Ýrar. Hinn 21. desember verður hún stúdent. Búið er að panta tíma hjá ljósmyndara þennan morguninn og síðan er sjálf útskriftin klukkan tvö. Stefnt er að smákaffisamsæti um kvöldið, en skipulagning þess bíður heimkomunnar.

Við höfum verið að kíkja á leikhúsferðarmöguleika. Erum að spá í að panta okkur miða á Gosa og fara í leikhús rétt eftir áramótin. Alltaf gaman að gera sér glaðan dag og fara á leikrit.

Síðan verður líklega merkileg upplifun að koma í nýtt húsnæði, sem ég hef aldrei séð áður, og allt manns hafurtask komið á staðinn á undan manni. Skyldi manni standa einhverslags áfallahjálp til boða?

Sjóræningjar

Í dag fór Rúnar Atli í sitt fyrsta afmælispartí, svona alvörupartí. Besti vinur hans af leikskólanum, Sanjeev, varð þriggja ára 3. des. og hélt upp á það í morgun. Sanjeev er bandaríkjamaður af indverskum ættum og eru þeir Rúnar Atli óaðskiljanlegir á leikskólanum. Alveg lygilegt að heyra þá tala saman, því Sanjeev slettir á íslensku og Rúnar Atli slettir víst á Hindí. „Let's do svona,“ er eitt dæmi.

Nóg um það. Afmælið hófst klukkan níu og var búið um hádegi. Ekki þýðir að hafa veislur um eftirmiðdaginn vegna hita, svona ef þið eruð að velta tímasetningunni fyrir ykkur. Eins og sönnum Könum sæmir var búið að skipuleggja partíið út í ystu æsar. Sjóræningjaþema, og voru margir skemmtilegir leikir á dagskránni. Skipulagið var þvílíkt að í pabbanum heyrðist: „Tíu mínútur í tertuskurð.“ Ekta amerískt.

En, það verður nú að viðurkennast að partíið tókst virkilega vel og allir skemmtu sér konunglega, hvort sem um var að ræða börn eða fullorðna.

Fyrsti leikurinn snerist um að gefa hákarli að éta. Sést hér Rúnar Atli í maga hins ógnvænlega hákarls.


Ekki var nóg með að vera étinn af hákarli, heldur þurftu menn líka að ganga plankann. Eins og sést var Rúnari Atla um og ó, en lét sig hafa það.


Alvöru sjóræningjar þurfa húðflúr og hér er Rúnar Atli kominn með eitt slíkt á upphandlegginn. Hann þarf þó aðeins að æfa sig í vöðvahnyklingum, en það kemur allt.


Eins og áður sagði skemmtu allir sér vel, en nú er spurning hvort við Íslendingarnir þurfum ekki að fara að plana partíð sem halda þarf í ágúst á næsta ári...

29. nóvember 2007

28. nóvember 2007

Ljósaperurnar


Í stofunni hjá okkur er nokkuð hátt til lofts. Ein hæð var látin hverfa þegar húsið var tekið í gegn og því er í raun tvöföld lofthæð.

Mjög flott.

En galli er þó á gjöf Njarðar, nefnilega að ekki er alltof létt verk að skipta um ljósaperur. Ég er hálflatur við þetta. Leiðist að hanga í stiga og reyna að vinna uppfyrir mig.

Tinna Rut tók sig því til - með stuðningi móður sinnar - og skellti sér upp í stigann í gærkvöldi. Auðvitað var tuðað yfir því að faðir hennar gerði þetta ekki. Hún lét sig þó hafa þetta og nú eru allar perur í góðu lagi.

A.m.k. á þessum vegg...

25. nóvember 2007

Tíunda bekk lokið

Þá eru prófin hjá Tinnu Rut búin. Tíundi bekkur yfirstaðinn og nú tekur við sumarfrí fram í miðjan janúar. Mikil ánægja að þessi prófraun sé yfirstaðin, bæði hjá Tinnu Rut sem og foreldrunum. Nú eru bara tvö ár eftir þar til stúdentsprófið, ja, eða ígildi þess, verður komið í hús.

Íslandsferðin er næst á dagskrá, rétt rúmar tvær vikur í brottför frá Namibíu. Við hlökkum öll til að komast í svalt veður og jólaskammdegi með tilheyrandi ljósadýrð. Sama hversu lengi við búum hér, þá er einfaldlega stórfurðulegt að heyra jólalög og skoða jólaskreytingar í 32 stiga hita.

12. nóvember 2007

Úgandaferðin, smáviðbót

Eitthvað dróst að „framkalla“ myndir frá Úganda. Hér kemur ein af henni Gullu við miðbaug:


Með annan fótinn á suðurhveli og hinn á norðurhveli. Vetur öðrum megin og sumar hinum megin...

7. nóvember 2007

Gróðurhúsaáhrifin

Hér er búið að vera þokkalega heitt undanfarna daga. Við höfum rætt svolítið við Rúnar Atla að hitt og þetta geti bráðnað þegar sólin er svona heit.

Hann hefur líka svolítið verið að spá í muninn á strákum og stelpum, en munurinn liggur auðvitað í hvort fólk sé með sponna eða pjásu. Þetta er svolítil spurning um hvort hægt sé að skipta um græjur, t.d. með því að toga nógu fast í sponnann.

Nóg um það. Við sátum öll fjölskyldan í bílnum um daginn og eitthvað barst hitinn í tal. Segir þá guttinn: "Ef sponninn bráðnar, þá fæ ég pjásu!"

Það er nefnilega það.

Nú er loksins komin skýring á gróðurhúsaáhrifunum.

Þetta er auðvitað rauðsokkuplott til að losna við okkur karlmenn!

4. nóvember 2007

Ferming

Nú er farið að vora í Windhoek. Eins og fylgir vorkomunni annars staðar, þá er tími ferminga runninn upp. Og í dag fórum við í eina slíka.

Sonur hennar Lidiu, húshjálparinnar okkar, var nefnilega að fermast í dag. Fyrir langalöngu var Lidia búin að spyrja mig hvort ég gæti mætt í ferminguna og tekið fyrir sig myndir. Ekki mikið mál þótti mér.

Við reyndar bökuðum líka tvær tertur og gáfum henni til að bjóða fólki upp á. Íslenskar tertur að sjálfsögðu.

En, við Gulla mættum klukkan átta í morgun fyrir utan kirkjuna. Athöfnin átti að hefjast níu, en samist hafði um að við mættum fyrr til að taka myndir. Hins vegar gekk það ekki, því öll börnin voru komin inn í kirkjuna og mátti ekki hreyfa þau þaðan.

Heilmikið af fólki var mætt þetta snemma og stóð fyrir utan kirkjudyrnar. Voru sungnir sálmar af miklum móði og var Rúnar Atli alveg bergnuminn af söngnum. Okkur Gullu voru boðin sæti á fremsta bekk, en við afþökkuðum gott boð því við höfðum grun um að athöfnin tæki nú góða stund.

Var því gripið til þess ráðs að hún Lidia myndi senda okkur sms þegar tími væri á myndatökur.

Hvað gerði fólk fyrir tíma sms-a?

Um 11-leytið kemur kallið. Við aftur af stað. Þá ber ekki öðrum vísi við að ég er dreginn inn í kirkjuna og barasta alveg upp að altari. Múgur og margmenni var þarna og þurfti ég að biðja a.m.k. tvisvar afsökunar á að hafa stigið ofan á tær. Þregslin voru mikil eins og sést hér.


Þarna sést hluti af kirkjunni og er megnið af þeim sem á myndinni sjást fermingarbörn.

Sem sagt, ég er dreginn alveg í hið allra heilagasta og er kominn bak við prestinn.

Bíddu, sagði ég prestinn?

Ég meinti prestana. Þarna var akkorðsvinna í gangi. Þrír prestar fermdu í einu, ja, eða skiptust á. Fleiri prestar voru þarna, þ.a. jafnvel virtist vera einhver varamannabekkur í gangi. Hvað um það, hvert barn rétti prestinum miða með nafni sínu og fleiri upplýsingum og presturinn lagði síðan hönd á höfuð barninu og las upp einhvern fermingarpistil. Um leið og það var búið, þá tók næsti prestur við, en á meðan las fyrsti presturinn yfir blaðið hjá næsta barni, til að vera tilbúinn þegar röðin kæmi að honum á nýjan leik.

Vonandi átta lesendur sig á þessu.

En, þetta var ekki allt. Á bak við prestana stóðu síðan ættingjar með myndavélar. Maður reyndi sem sagt að halla sér á milli prestana á réttu augnabliki til að ná mynd af fermingarathöfninni. Menn voru með allt frá farsímum upp í fínar myndavélar. Var heilmikill handagangur í öskjunni á bak við prestana þegar myndasmiðir voru að tryggja sér rétta stöðu og síðan þurfti að mjaka sér í burtu þegar búið var að smella af.

Heilmikill æsingur. Síðan var mikið skvaldur í kirkjunni og jafnvel verið að tala við kunningjana sem biðu fyrir utan kirkjugluggann.

Morgan heitir sonur hennar Lidiu sem var að fermast, og eins og sést hér, þá er þetta stilltur piltur og mikið prúðmenni.


Eða hvað?

Hér er mynd af honum nokkrum klukkutímum eftir athöfnina, og nú er stíllinn orðinn annar... Kominn í tölu fullorðina.


Athöfnin hófst klukkan níu, eins og áður sagði, og lauk ekki fyrr en þrjú! Sex tímar, ekki minna.

Við fórum síðan heim til Lidiu og kíktum í kaffi. Þar var mikið fjör og ég beðinn að taka myndir á myndir ofan. Fannst mér það hið besta mál, enda eignaðist ég margar fínar myndir í Namibíusafnið mitt.

Síðan er víst brúðkaup í maí, og hver haldiði að eigi að mæta með myndavélina??

31. október 2007

Úgandaferð

Í síðustu viku lögðum við hjónin land undir fót og skruppum til Úganda. Ekki förum við nú oft tvö ein í ferðalög, síðast fórum við til Sossusvlei, sem er túristastaður hér í Namibíu. Það var á tvítugsbrúðkaupsafmælinu. Þar á undan. Ja, ég man nú bara ekki hvenær svona lagað gerðist.

Á mánudagsmorgninum í síðustu viku lögðum við af stað. Tinna Rut og Rúnar Atli skilin eftir heima, og Flora leit eftir guttanum. Tinna sá víst mikið til um eldamennskuna. Við Gulla flugum í tvo tíma til Jóhannesarborgar, biðum þar í einhverja klukkutíma og síðan áfram til Entebbe í Úganda. Lentum þar um kvöldmatarleytið.

Frá Entebbe eru góðir 30 km til Kampala, höfuðborgarinnar. Sú leið tók um klukkutíma, enda mikið af fólki, bílum, reiðhjólum og skellinöðrum. Smávegis munur frá Namibíu þar sem 42 km frá höfuðborginni út á flugvöll taka tæpar 25 mínútur.

Gistum á golfvallarhóteli borgarinnar, ekki það að við séum mikið í höggleik. Splunkunýtt hótel og fín þægindi. Ginið og tónikkið smakkaðist vel.

Lentum reyndar í því að vakna eina nóttina við óeinkennileg hljóð. Kom í ljós eftir smáeftirgrennslan að vatn lak niður af hæðinni fyrir ofan og dropaði á skrifborð sem var í herberginu. Næsta dag vorum við flutt tveimur hæðum neðar. Sváfum vært þar.

En næsta morgun kom í ljós að heilmikið vatn hafið lekið að ofan inn á baðherbergið okkar! Gert var síðan við, svo við þurftum ekki að flytja aftur.

Ég var svo í endalausu fundastússi frá þriðjudagsmorgni fram til hádegis á föstudegi. Komst þá aðeins í búðir. Gulla hins vegar var í túristahlutum. Ferðaðist eitthvað um borgina. Fór að miðbaug þar sem hún sá vatnið renna réttsælis, rangsælis og beint niður eftir því hvorumegin við miðbaug hún staðsetti sig. Svo komst hún líka að upptökum Nílar og sigldi á báti út á Viktoríuvatn.

Á laugardagsmorgni var vaknað eldsnemma og lagt af stað út á flugvöll á nýjan leik. Fjögurra tíma flug til Jóhannesarborgar, smábið og síðan tveggja tíma flug til Windhoek. Bíllinn var enn á bílastæðinu, sem betur fer.

Síðan voru fagnaðarfundir þegar heim var komið. Ja, sonurinn fagnaði okkur, en Tinna Rut var á einhverri októberhátíð...

7. október 2007

Partípollur

Við Rúnar Atli stungum okkur aðeins til sunds áðan. Í fyrsta skipti á þessu vori.

Undanfarið höfum við staðið í stórræðum og unnið hörðum höndum að undirbúningi. Mælt klórmagn og sýrustig og hreinsað ruslasíur í hreinsikerfinu. Nýlega fjárfestum við í ryksugu sem nefnist barrakúða, eða pílugedda á því ylhýra. Þessi gedda þýtur eins og píla um botn laugarinnar og fjarlægir óæskilega hluti sem safnast þar fyrir.

En það verður nú að segjast að varla er hægt að kalla þetta sundlaug. A.m.k. ekki í þeim skilningi sem Íslendingar leggja í það orð. Partípollur væri kannski betra orð. Ef maður væri með uppblásið barborð fljótandi þarna, þá væri þetta orð að sönnu. Rétt undir yfirborði laugarinnar er þetta líka fínerís ljós sem skiptir litum og skapar partístemmingu þegar skyggja tekur.

En ég dembdi mér sem sagt á bólakaf áðan. Rúnar Atli var ekki alveg eins brattur, því honum fannst laugin fullköld. Hitamælirinn sagði 26 gráður, en ekki veit ég hversu nákvæmur hann er. En ég sé alveg fyrir mér að stinga mér þarna ofaní þegar sumarið kemur.

Eina spurningin hvort tekst að herða Rúnar Atla upp í þetta.

6. október 2007

Knattleikur karlmanna

Nú er heimsmeistaramótið í rúbbí u.þ.b. hálfnað. Eftir standa átta lið og fellur helmingur þeirra út núna um helgina.

Ég hef fylgst nokkuð með mótinu og er smátt og smátt að læra reglurnar. Hér er sko íþrótt karlmennskunnar. Er ekki nokkur vafi í mínum hug að knattleikur sá sem getið er um í Íslendingasögunum hefur líkst rúbbí.

Sjáiði bara hann Sebastian Chabal, tæplega tveggja metra jötunn í franska liðinu, fúlskeggjaður og með hár niður á herðar. Augnaráðið eitt og sér gæti rotað meðalmann. Þegar hann ryðst áfram með knöttinn þá skilur hann eftir sig blóði drifna slóð, og vita menn sem lenda fyrir honum varla í þennan heim né annan.


Kappinn hlýtur bara að vera afsprengi íslenskra víkinga, annað getur bara ekki átt sér stað.

Blóðið flýtur í stríðum straumum, en öfugt við knattspyrnu, þar sem smáhnjask skilur menn eftir sem skotna, þá í rúbbíi halda menn bara áfram blóði drifnir.


Enda er til máltæki: Gefðu meira blóð, spilaðu rúbbí.

5. október 2007

Fréttapistill

Eitthvað hefur gengið illa hjá mér að „dagbókast“ undanfarið. Datt mér því í hug að skella saman smápistli um hitt og þetta, nú þar sem ég sit við eldhúsborðið og hlusta á rás 2 úr tölvunni.

Húsmæðraorlof

Í gær lagði hún Gulla mín land undir fór. Fór ásamt Arndísi, sem er starfsnemi á skrifstofunni hjá mér, til Höfðaborgar (Keip tán fyrir þá sem dýrka og dá enska tungu). Á eftir fara héðan Júlía táknmálskennari og Eyrún táknmálstúlkur og ætla að reyna að finna Gullu og Arndísi í stóru borginni. Þær ætla að vera þarna fram á sunnudagskvöld, Gulla þó til mánudagsmorguns, og skemmta sér vel og mikið.

Er mikið búið að hlakka til þessarar ferðar og miklir verslunarleiðangrar skipulagðir. Það vill þannig til að hótelið sem þær gista á er inni í stærstu verslunarmiðstöð í allri heimsálfunni! Hægt víst að labba þar um svo klukkutímum skiptir án þess að fara tvisvar í sömu búðina.

Bleyjumál

Skemmst er frá að segja að hann Rúnar Atli hefur tekið bleyjuleysið með trompi. Eitt og eitt slys hefur gerst, en langt er á milli. Við vorum eins og þeytispjöld með drenginn á salernið um og eftir síðustu helgi, þar til mér var sagt á leikskólanum: „hann segir okkur ekki þegar honum er mál, hann bara fer á klósettið sjálfur!“

Góður með sig að láta foreldrana snúast í kringum afturendann á sér að óþörfu.

Við fórum, öll nema Tinna Rut, á Ratatoille í bíó sl. sunnudag. Pilturinn að sjálfsögðu bleyjulaus. Svo, þremur mínútum fyrir lok myndarinnar kom: „pabbi, þarf að pissa...“ og þar með misstum við af endinum.

Kannski var þetta leikflétta til að komast aftur í bíó á sömu myndina, veit það ekki.

Síminn íslenski

Það fór sem mig grunaði. Strax eftir helgi var miklu betra að tala í smarta símann með íslenska númerinu. Við höfum talað þó nokkuð til Íslands og síðan líka við Dodda í Svíþjóð og Maju í Noregi. Gengur þetta bara mjög vel. Svíþjóð og Noregur eru þó með svolitla töf, en ekkert sem ekki má sætta sig við. Íslandssamtölin ganga bara mjög vel og þegar hugsað er um vegalengdina, þá er þetta alveg glimrandi.

Endilega látið heyra frá ykkur. Fyrir þá sem nenna ekki að fletta í gömlu færsluna, 496 1991 er síminn.

Táknmál

Eins og athugulir lesendur tóku án efa eftir, voru tvær af „húsmæðrunum“ táknmálseitthvað. Eyrún verður hér í mánuð, en Júlía út nóvember. Rætt hefur verið um að taka Íslendingana hér í borginni í táknmálsnámskeið - táknmál 1 - og hófst kennslan á miðvikudaginn var. Mætti hópur fólks heim til okkar og hóf að læra stafrófið á táknmáli og spyrja hvað fólk heitir og eitthvað á þeim nótunum. Eftir um sjötíu mínútna kennslu var ekki laust við að fólk væri farið að finna fyrir verkjum í fingrum og jafnvel smáseiðing af sinaskeiðabólgu.

Síðan var pantaður kínamatur, og auðvitað hélt lærdómurinn áfram. Ýmis orð sem tengjast áfengi voru kirfilega skoðuð og eins orð eins og tískugallabuxur, því ekki veitir af fyrir kráa- og verslunarleiðangurinn í Höfðaborg.

Stendur til að endurtaka leikinn í næstu viku, en ekki er þó vitað hvaða slangur og soraorð hafa lærst í húsmæðraorlofinu.

30. september 2007

Símamál

Fjárfestum í smartsíma hjá Hive þegar Gulla var heima á Fróni. Þetta er græja sérstaklega hönnuð fyrir Íslendinga í útlöndum og tengjum við hana við ADSLið okkar. Með tækinu fáum við íslenskt símanúmer og þurfum bara að tengja símtæki við þetta. Kostar ekkert fyrir okkur að hringja í íslenska heimasíma og innanlandstaxti fyrir þá sem hringja í okkur.

Eftir nokkura daga vesen tókst loksins í gær að fá græjuna í samband. Hringdi fyrst í Dagmar Ýr og gekk símtalið bara ágætlega. Hringdi síðan í mömmu, en það gekk hins vegar illa. Held að hún hafi haldið að einhver væri að gera símaat í henni. Og síðan í dag gekk ekki vel að nota apparatið.

Hins vegar sé ég að einhverra hluta vegna er nettengingin sein í dag, en því miður virðast viðgerðarmenn hjá símafyrirtækinu lítið vera fyrir að vinna um helgar. Vonast ég því eftir að á morgun gangi þetta betur.

Símanúmerið okkar er 496-1991 og endilega prófið að slá á þráðinn. Munið þó að við erum tveimur tímum á undan, þ.a. símtöl mikið seinna á kvöldin en hálfníu að íslenskum tíma eru ekki endilega vel séð...

Við höldum áfram að prófa tæknina, þ.a. ekki verða foj ef þið fáið símtal sem byrjar með þögn... ekkert afbrigðilegt í gangi.

A.m.k. ekki ef við erum að hringja...

29. september 2007

Bleyjuleysi

Hálfdasaður í dag, verð ég að viðurkenna. Sé líka að dagbókarfærslan frá í gær var sett inn þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í tvö ... eftir miðnætti.

En frétt dagsins snýst nú um hann Rúnar Atla. Ekki í fyrsta sinn, eða hvað?

Fyrir rúmri viku forvitnaðist leikskólakennarinn afar pent um hvort við værum eitthvað að spá í að venja soninn af bleyju... Maður kveikti nú áður en skall í tönnum. Í vikunni höfum við því verið að láta drenginn vera bleyjulausan eftir hádegið. Hlaupið svo reglulega með hann á salernið til að gá hvort eitthvað gerist.

Síðan á fimmtudag gerist það að hann segist þurfa að pissa, og viti menn, svo kom pissið í klósettið. Ekki er laust við að foreldrarnir hafi tapað sér smávegis í fagnaðarlátum og hrósi.

En svoleiðis er þetta nú bara.

Guttinn var sendur bleyjulaus á leikskólann á föstudaginn og eingöngu eitt slys. En hann hefur látið vita og þrátt fyrir eitt og eitt slys þá hefur þetta gengið glettilega vel.

Svo í dag var greinilegt að eitthvað meira þurfti að gera en bara að pissa. Voru stanslaus hlaup fram og til baka á klóið, en ekkert gerðist. Pabbinn, verður að viðurkennast, var farinn að þreytast aðeins á þessu og sá stutti var greinilega búinn að átta sig á því. Kemur svo allt í einu fram og tilkynnir að hafi verið að kúka. Nú, foreldrarnir hlupu upp til handa og fóta og könnuðu málið. Mikið rétt, hann hafði skilað einu stykki eða svo á réttan stað.

Við foreldrarnir erum ósköp glaðir yfir hversu vel þetta gengur. Nú erum við hins vegar byrjuð að sigta út almenningssalerni hér í Windhoekborg. Líklegt að heimsóknum á þau fjölgi á næstunni.

Partístand

Í kvöld buðum við nokkrum Íslendingum heim. Jú, og tveimur Namibíumönnum.

Rúnar Atli var í essinu sínu og sneri kvenfólkinu um fingur sér. Sjáið bara:


Hann er annars ósköp ábyrgur piltur. Fyrst bauðst hann til að ná tappa úr flösku fyrir gestina,...


...en þegar hann uppgötvaði áhrif hins görótta drykkjar, þá fór hann að tryggja að ekki yrði neytt meira af mjöðinum góða:

23. september 2007

Kökubakstur

Staðið í stórræðum í dag. Rúnar Atli, ásamt mömmu sinni, tóku bakstursskorpu. Ein smákökutegund og svo súkkulaðimúffur.

Hlutverk Rúnars Atla er fyrst og fremst gæðaeftirlit, og hér sést hann tryggja að kökudeigið uppfylli ströngustu staðla Evrópusambandsins.

22. september 2007

Fótbolti, hvað?

Hér í sunnanverðri Afríku er lítið rætt um fótbolta þessa dagana. Nei, rúbbí og krikket eru mál málanna, enda eru heimsmeistaramót í gangi um þessar mundir í báðum þessum íþróttagreinum.

Rúnar Atli hefur fengið mikinn rúbbíáhuga. Suður-Afríka á eitt allra besta rúbbílið í heimi og síðan náði Namibía að vinna sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu.

Við horfum því á rúbbí dag eftir dag, en því miður er Namibía að bíða hroðalega útreið gegn Argentínumönnum í kvöld. Ákvað ég því að blogga frekar en að horfa á seinni hálfleikinn...

Í dag uppfyllist ein ósk Rúnars Atla, en hún var að eignast rúbbíbolta. Hér sjáiði guttann með fína nýja boltann.


Síðan var einbeitingin mikil að kasta boltanum...




...og ekki er hægt að segja annað en drengnum hafi farist þetta vel úr hendi.

Grilltíð

Ákváðum að grilla í dag. Í þetta sinn þótti okkur við hæfi að vígja grillaðstöðuna á neðri hæð hússins. Höfum aldrei grillað þar áður, enda er aðeins lengra í eldhúsið þaðan. En, eins og þið sjáið er aðstaðan ágæt.


Grilluðum kannski fullmikið af mat. En gerir maður það ekki alltaf? Rússneskar pylsur, kótilettur, hamborgarahryggsneiðar, búapylsa, nokkrar nautasneiðar, og ég veit ekki hvað og hvað. Smárauðvín með, auðvitað.

11. september 2007

Litli frændi

Við Rúnar Atli vorum að lesa moggann áðan.

Á bls. 21 er verið að segja frá því að glænýir foreldrar þurfi líka hvíld. Þar er mynd af splunkunýju barni hágrátandi og vakti það eftirtekt Rúnars Atla.

„Hver er þetta?” spurði hann.

„Er þetta Aron Kári?” bætti hann við.

Klár drengur að þekkja litla frænda

9. september 2007

Talnagaldrar

Sátum við úti á svölum áðan að borða kvöldmatinn. Lambakótilettur, ofnbakaðar kartöflur og gulrætur og sitthvað meira meðlæti.

Maturinn ekki aðalatriði í sögunni, en vildi bara láta koma fram að Tinna Rut hrósaði eldamennskunni.

Rúnar Atli var að reyna að fá okkur til að gera eitthvað fyrir sig og reyndi að kaupa okkur með því að segja „I love you.” Tinnu Rut þótti þetta voðalega sætt og segir: „I love you too.”

Heyrist þá í þeim stutta: „I love you three” en skipti svo um skoðun: „Nei, I love you one.”

Gullkornin flæða á þessum aldri.

Nennirðu...?

Þegar við búum jafnlangt í burtu frá íslenskumælandi fólki og raun ber vitni, þá hefur sonurinn auðvitað ekki margar íslenskufyrirmyndir heldur en þá örfáu fjölskyldumeðlimi sem hann býr með. Reyndar er oft hlustað á Rás 2 og Bylgjuna um helgar og þekkir hann þær tvær stöðvar ósköp vel og raular stundum: „ráááás tvööööö.”

En helstu fyrirmyndirnar eru fáar og stundum hugsa ég hvort ég tali virkilega á þann hátt sem tungutak sonarins gefur til kynna.

Um sjálfan mig hef ég þá skoðun að ég tali alveg þokkalega íslensku. Á til að skella smáorðinu sko í lok setninga og segi kannski fulloft maður, einnig í lok setninga. En svona heilt yfir, álít ég að íslenskan mín sé ágæt.

Kannski lifi ég í einhverri draumaveröld í þessu samhengi.

Eitt dæmi.

Eitt af algengustu orðum sonar míns þessa dagana er: nennirðu.

Í bílnum spyr hann: „Nennirðu að hækka/lækka?” Er þá að tala um útvarpið. „Nennirðu að opna?” „Nennirðu að skrúfa?” „Nennirðu að gefa mér mjólk?” og svo framvegis og svo framvegis.

Æ, ég nenni ekki að skrifa meira...

3. september 2007

Vorið

Æ, mikið er gott hvað farið er að hlýna.

Í kvöld sátum við Rúnar Atli í miklum kvennafans; fimm íslenskar konur - ef Tinna Rut er talin með - sátu hjá okkur í kvöld. Kínamatur var pantaður og held ég allir hafi skemmt sér nokkuð vel.

Nú sit ég enn úti á verönd, aleinn reyndar, klukkan farin að ganga ellefu, og hitastigið alveg meiriháttar fínt. Svona á lífið að vera, að geta setið utandyra langt fram eftir kvöldi. Blankalogn og það eina sem heyrist er hundgá og skordýrasmellir. Einstaka bíll álpast framhjá húsinu en þeir eru ekki margir.

Já, og svo yljar hvítvínið ágætlega.

2. september 2007

Góðir mannasiðir

Sonur minn er orðinn kurteis með eindæmum. Til lengri tíma fékkst hann ekki til að þakka fyrir nokkurn skapaðan hlut, en nú er öldin önnur. Ef einhver hnerrar, þá kallar hann „Guð hjálpi þér.”

Að máltíðum loknum þurfa allir að segja „takk fyrir mig” við hann, svo hann geti sagt „verði þér að góðu.” Síðan þarf hann auðvitað að þakka fyrir sig svo við getum sagt „verði þér að góðu” við hann.

Nú sló hann þó öll met. Hann var búinn með miðdegisblundinn sinn og ég var að sækja hann inn í herbergi. Ég spurði hann, svona í gamni, hvort hann vildi sofa lengur.

Svarið kom fljót:

„Nei, ... takk.”

Flutningi að ljúka

Gærdagurinn var strembinn hjá Gullu og Dagmar Ýr. Klukkan 10 mætti flutningabíll á Stillholtið og var tekið að bera út í bíl. Ýmsum hreystimönnum, af báðum kynjum, hafði verið stefnt á staðinn og var víst handagangur í öskjunni við kassa- og húsgagnaburð.

Fljótlega kom í ljós að einn bíll dugði engan veginn og var því kallaður út annar flutningabíll. Síðan var öllu hrúgað inn í Æsufellið og gekk allt víst bara vel fyrir sig.

Voru víst allir mjög þreyttir í gærkvöldi, og sváfu mæðgurnar þar af leiðandi vel fyrstu nóttina í nýju sveitarfélagi.

Enn er eitthvað smálegt eftir á Akranesi og er Gulla víst í því núna að flytja restar. Nú er flott að eiga strumparútu. Þegar búið er að taka öll sæti úr, þá er hægt að koma slatta af drasli fyrir í bílnum.

En það sér semsagt fyrir endann á þessu.

Nú þarf bara að leyfa aumum vöðvum að jafna sig og nokkrir eru víst marblettirnir á handleggjum og lærum hef ég frétt.

Við hér í Namibíu reyndum okkar ýtrasta til að senda góðar bylgjur til burðardýranna. Við hófum daginn á kaffihúsi og dunduðum okkur við verslanaleiðangra í búðum. Vorum líka þreytt eftir... en fáir marblettir þó.

1. september 2007

Fyrsti í vori

Dagurinn í dag, 1. september, er fyrsti vordagur hér í Namibíu. Ekkert stórmennskubrjálaði hér eins og hjá Íslendingum að kalla einhvern dag á miðjum vetri sumardaginn fyrsta.

Nei, fyrsti vordagur.

Hann stóð alveg undir nafni. Töluvert hefur hitnað hér undanfarna daga og er maður jafnvel farinn að gjóa augum að viftunum.

Síðan er tímabreyting hér í nótt. Þá verðum við tveimur tímum á undan Íslandi og verðum það næstu sjö mánuði. Þannig að þegar ég vakna kortér yfir fimm á morgnana hér, þá er klukkan kortér yfir þrjú heima á Fróni.

Spurning að senda öllum kunningjum á Íslandi „góðan daginn“ sms þegar verið er að hita tevatnið...

31. ágúst 2007

Margt ber að varast

Nokkuð þurrkaástand ríkir hér í Namibíu núna, en lítið rigndi á síðasta regntímabili og hefur það leitt af sér að mörg vatnsból eru tóm. Ein afleiðing af þessu er að dýr eru meira á ferli að leita sér að drykkjarvatni.

Hefur nú ráðuneyti umhverfis- og ferðamála gefið út fílaviðvörun. Fílar drekka mikið vatn, þurfa svona 120-180 lítra á dag, og nú eru þeir mikið á ferðinni. Því hefur fólki í Kaprívísýslu, sér í lagi, verið ráðlagt að halda sig innan dyra eftir að fer að skyggja.

Áætlað er að í Namibíu séu milli 23 og 25 þúsund fílar, en 2004 voru um 16 þúsund fílar í landinu, þ.a. aukningin er mikil. Því hefur fjölgað mikið tilvikum þar sem fílar ráðast á fólk. Fyrir um tveimur vikum tróðst fíll yfir konu nokkra og lést hún í kjölfarið. Konugreyið var víst á leið heim úr kirkju ásamt manni sínum og átti sér einskis ills von.

Maður einn var á leið hjólandi til vinnu snemma morguns þegar hann rakst á fíl, sem reiddist svo að hann kastaði manninum til hliðar. Afleiðingarnar voru heilahristingur, en lífi hélt þó maðurinn.

Fleiri svona sögur heyrast. Síðan er daglegt brauð að fílar skemmi hús, girðingar, vatnsdælur og fleira þar fram eftir götunum.

Í næstu viku mun ráðherra umhverfis- og ferðamála senda frá sér tilkynningu vegna fílavandans.

Leyfi ykkur að fylgjast með.

Styttist í jól?

Rúnar Atli fékk í jólagjöf í fyrra mynddisk sem heitir Jólasveinarnir - syngja og dansa. Ég hef nú ekkert verið voðalega hrifinn af þessum diski, finnst hann frekar illa unninn og svo er dauðasyndin að í einu laginu skuli vera sungið margoft: „Mig hlakkar svo til.”

Mig hvað?

Ég hlakka til!

Nú vildi svo til um daginn að Rúnar Atli rekst á þennan disk og tekst að plata einhvern til að setja hann í spilarann. Nema hvað, vinsældir þessa disks urðu um leið gríðarlegar, ekki minni en Simpson's eða Bjarnabóls.

Nú heyrir maður í sífellu Adam átti syni sjö, jólahókípókí, gekk ég yfir sjó og land og þar fram eftir götunum.

Síðan þegar verið er að keyra í bílnum og eitthvað lag kemur í útvarpinu sem mér dettur í hug að raula með, þá heyrist án undantekninga úr aftursætinu: „...hann sáði, hann sáði...”

Eini ljósi punkturinn er að drengurinn mun þekkja íslensku jólalögin mörg hver þegar við komum til Íslands um næstu jól.

En stundum er of mikið af því góða...

30. ágúst 2007

Hversu mikils virði er farsíminn?

Fyrir átta dögum þá tók ungur maður sig til hér í Windhoek og hrifsaði farsíma af 16 ára stúlku og hljóp á braut. Sá líklega fyrir sér auðveldan ránsfeng. Þvílík mistök. Töluverður hópur fólks var þarna á ferli og tók fjöldi þeirra sig til og hófu að elta þjófinn uppi. Eltingarleikurinn barst meira en kílómetra í burtu og þegar þjófurinn kom að stóru uppistöðulóni grýtti hann símanum frá sér, reif sig úr bolnum og stakk sér til sunds.

Sást hvorki tangur né tetur til hans, þó lengi væri beðið.

Nú, átta dögum síðar, kom í ljós að þjófurinn var ekki syndur. Lík hans rak nefnilega að landi í gær, nær alveg á sama stað og hann steypti sér út í lónið.

Hversu mikils virði er farsíminn?

29. ágúst 2007

ÞRIGGJA ára!!

Þá kom loksins að því! Höfuðdagur rann upp, sólbjartur og fínn. Og Rúnar Atli þar með orðinn þriggja ára.

Þegar hann var sóttur af leikskólanum í gær fylgdi sú beiðni frá kennurunum að eitthvert góðgæti kæmi með honum í dag til hátíðarbrigða.

Rúnar Atli vildi „brúna köku“ svo pabbinn bakaði súkkulaðitertu bæjarstjórans úr gömlum Gestgjafa. Tertan vakti mikla lukku á leikskólanum og ekki var einn mylsnubiti eftir handa bakaranum...

En það var þónokkuð gert úr deginum á leikskólanum. Rúnar Atli fékk fína kórónu sem hann tók ekki af sér allan daginn. Síðan fékk hann bók frá leikskólakrökkunum. Í bókinni eru málingarför lófa allra krakkana á leikskólanum. Mjög skemmtileg hugmynd.

Hér sést afmælisbarnið með kórónuna góðu og lófabókina.


Síðan í hádeginu voru opnaðir pakkar frá systrum hans Rúnars Atla. Eins og sést var einbeitingin mikil. Það minnkar ekki spenningurinn þótt bætist við pakkana.



Hér sést bílaflutningabíllinn sem Dagmar Ýr gaf honum,


og síðan Benz pallbíllinn frá Tinnu Rut.


Að lokum var Tinnu Rut rekinn rembingskoss fyrir pakkann sinn, en kossinn til Dagmarar Ýrar bíður betri tíma.

27. ágúst 2007

Meiri framtakssemi

Honum Rúnari Atla þótti orðið fullmikið af skítugu leirtaui og tók til sinna ráða...

Litlu börnin

Eins og ég hef sagt frá þá var ég í fundarferð norður í landi fyrir u.þ.b. 10 dögum. Þar voru eftirfarandi tvær myndir teknar. Fékk ég að halda á einu litlu kríli af Ovazemba ættbálkinum, en heilmikið var þarna af ungabörnum frá svona tveggja til sex mánaða.


26. ágúst 2007

Framtakssamur gutti

Dagurinn byrjaði rólega í morgun. Feðgarnir bara tveir einir heima. Þó var vaknað til að fylgjast með ferðalagi Gullu. Sms tæknin notuð til þess.

Að loknum vöfflubakstri og -áti héldum við tveir í rólegheitum niður í bílskúr. Smátt og smátt er nefnilega verið að hefja smíðar hér í Namibíunni. Í gær var fjárfest í hillum til að hafa í bílskúrnum og vorum við langt fram eftir morgni að skrúfa saman rær og bolta.

Eins og sést var mikil hjálp af syninum, en honum þótti samsetningin skemmtileg, en nokkuð strembin.

25. ágúst 2007

Afmælisveisla

Í dag héldum við upp á afmælið hans Rúnars Atla. Jú, nokkrum dögum fyrir tímann, en þar sem Gulla verður á Íslandi á sjálfan afmælisdaginn var ákveðið að taka forskot á sæluna.

Bakaðar voru tvær tertur og eins og sjá má náði Rúnar Atli að slökkva á öllum þremur kertunum í fyrstu tilraun.


En aðalstuðið var þó að opna stóra pakkann, og mikil var einbeitingin...


Pappírtætlur flugu í allar áttir, svo við hin áttum fótum fjör að launa


Fljótlega kom í ljós að í pakkanum var þríhjól, og minnkaði ákafinn ekki við það.


Hins vegar gekk erfiðlega að ná öllum pappírnum af, þrátt fyrir hetjulega baráttu.


Að lokum tókst þó að ná hjólinu út og fyrsta verk var að ná í Lubba svo hann gæti komið með í jómfrúarferðina.


Hér er ánægður gutti, og hundurinn hans, að tæta upp flísarnar á veröndinni.


Smáerfiðleikum var bundið að samræma fótahreyfingarnar til að fá þríhjólið til að fara í rétta átt, en það horfir allt til betri vegar.

24. ágúst 2007

Sitt lítið af hverju

Úff, það er svo langt síðan ég skrifaði dagbókarfærslu síðast að ég var næstum því búinn að gleyma lykilorðinu til að komast inn að skrifa.

En bara næstum því.

Undanfarnar vikur hafa verið nokkuð strembnar. Ég tók upp á því í annarri viku ágústmánaðar að veikjast. Fékk hita og beinverki og leiðindahósta. Þetta kom ekki á góðum tíma, akkúrat í viku sem ég átti þrjá kvöldverði skipulagða í vinnunni, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Ég hékk því í vinnunni eitthvað fram yfir hádegi, fór síðan heim í bælið og skalf í 2-3 tíma og síðan út að borða. Ég skal alveg viðurkenna að hafa oft verið duglegri að skófla í mig mat á veitingahúsum. Síðan í vikunni á eftir var heljarinnar reisa skipulögð norður í land, heimsækja verkefni og halda fundi með hinum og þessum. Síðan átti að nýta ferðina til smátúristaferðar og leyfa Dagmar Ýr og Þórdísi vinkonu hennar að sjá aðrar hliðar á Namibíu en sjást í Windhoek. Ferðin gekk alveg þokkalega, en heilsan var ekki alveg upp á það besta. Lá í hóstaköstum fram eftir nóttum, en var þó þokkalegur að deginum til. Ekki veit ég hvað margir kílómetrar lágu að baki þegar ferðinni lauk, en við höfum líklega verið kominn vel á annan hring á hringvegi okkar Íslendinga. Vegirnir voru nú frekar misjafnir og fylgir hér mynd af einum vegi sem við þurftum að fara, ef veg skyldi kalla.


Við fórum í Etoshaþjóðgarðinn á bakaleiðinni. Tók okkur sex og hálfan tíma að komast í gegnum hann, en við sáum líka mikið af dýrum í ferðinni. Fíla og gíraffa og milljón sebrahesta og allskonar antílópur. Við sjáum líka nokkur ljón við tvö vatnsból, en þau hef ég aldrei séð áður í þvílíku návígi. Hér fylgja myndir af gíraffa og fílum.

Mér fannst þetta sjónarhorn af fílunum nokkuð skemmtilegt. Hálfgerður perraháttur kannski að taka myndir af afturendunum þeirra. En ég get fullvissað ykkur um að ég á helling af myndum af framendunum líka...

Gíraffinn þessi leit með þessum líka ótrúlega yfirlætissvip á okkur. Eins og honum finndist algjör óþarfi að við værum að trufla hann í matmálstímanum. Hann hafði sjálfsagt rétt fyrir sér.


Svo er Dagmar Ýr kominn heim til Fróns eftir að eyða sumrinu hér í Namibíu. Hún stóð sig alveg ágætlega í fjarnáminu, en hún lauk fjórum námskeiðum í sumar. Nú er hún byrjuð í Fjölbraut í Ármúla, en ég hef nú ekki heyrt hvernig henni líkar. En um jólin útskrifast hún sem stúdent, gaman, gaman.

Hér er ein mynd af henni þar sem himbakona nokkur er að leyfa henni að fá smáprufu af kreminu sem þær himbakonur bera á sig. Það er ótrúlega sterkur litur í þessu kremi. Ég hugsa að ef Dagmar bæri svona á sig alla, þá væri enginn litamunur á henni og himbakonunum, þrátt fyrir að þær séu bikasvartar undir kreminu en Dagmar hvít.


En ferðalagið gekk almennt séð vel, þrátt fyrir hóstaköst. Þær Dagmar og Þórdís virtust ánægðar og sáu margt sem kom þeim spánskt fyrir sjónir.

Síðan á morgun fer hún Gulla heim til að flytja af Stillholtinu í Æsufellið. Stendur til að hafa forafmælisveislu á morgun fyrir Rúnar Atla og er ég núna að baka tvær tertur. Gulla verður heima í um þrjár vikur, en eftir viku fáum við lyklana að Æsufellinu. Þykist ég nokkuð viss um að Gullu þætti ekki verra að fá nokkra sjálfboðaliða til að hjálpa sér með flutningana.

Ég læt þetta duga í bili. Heilsan er öll orðin skárri, síðasta nótt var sú fyrsta í langan tíma sem ég vakna ekki upp í hóstakasti.

Batnandi manni er best að lifa...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...