27. janúar 2008

Hreyfing

Doddi var eitthvað að nöldra um daginn eins og honum er einum lagið. Skemmst er frá því að segja að lítið hefur verið um líkamsrækt undanfarnar vikur. Ekki hefði þó veitt af eftir Íslandsferðina því eitthvað af kílóum bættust á kappann. Alveg ótrúlegt hvað maður dettur oft í íslenskt sælgæti þegar maður skreppur heim. Jólin auðvitað ekki besti tíminn.

En, hreyfing hefur sem sagt verið af skornum skammti. Ég hef aðeins verið að dunda mér við smíðar á kvöldin í bílskúrnum, en ekkert annað. Þó fór eitt kíló í síðustu viku, hverju sem veldur.

Tók mig svo loksins til áðan og hugsaði mér til hreyfings. Dustaði rykið af reiðhjólinu mínu. Verður að segjast að í gegnum nokkra köngulóarvefi þurfti að berjast. Pumpaði í dekkin, þreif hjálminn, greip gemsann - ef ske kynni að maður yrði strandaglópur einhvers staðar - og hjólaði af stað.

Lenti reyndar í smáklemmu með hjólreiðafatnað. Á einhvers staðar þessar fínu hjólabuxur með svampi á viðeigandi stöðum, en þær eru líklega heima á Fróni. Æfingabuxurnar urðu því fyrir valinu, og rakst svo á sérkennilegan undirfatnað í skápnum mínum. Bláar buxur með einhverjum gulum kórónum á. Ákvað að nota þær þótt tilfinningin væri ekki alltof þægileg.

Var búinn að hugsa mér 20-30 mínútna túr svona í fyrsta skipti og kominn með leið í kollinn. Eftir 35 mínútur var enn heilmikið eftir að leiðinni svo ég sá mér þann kost vænstan að stytta mér leið. Ekki veit ég hvort ég er hreinlega orðinn svona slappur að hjóla, en þykir það nú ólíklegt, eða þannig sko. Gætu verið undirbuxurnar...

Einn galli er við að hjóla hér í Windhoek. Sá er hversu hæðótt borgin er. Auðvitað hefur það kosti, sér í lagi þegar hallar niðurímóti. Þá næ ég oft mikilli siglingu og vindurinn þýtur um eyru. Ekki fráleitt að ferðin sé milli 40 og 50 km á klst þegar best lætur. En ég er nú ekki frá því að gallarnir, þ.e. að hjóla mikið uppímóti séu nú verri en kostirnir. Staðsetning hússins okkar er efst upp á hæð og skiptir engu máli úr hvaða átt er komið, alltaf er brött og löng brekka í restina. Vippaði, ja, vippaði er nú kannski fullsterkt að orði komist, en notum það samt. Vilhjálmur, sem sagt, vippaði sér af hjólhestinum og staulaðist með hann upp síðustu brekkuna. Ja, fram að síðasta horni, því auðvitað varð að koma hjólandi í hlað. Hvað ef sonurinn hefði verið að horfa út um gluggann og séð karl föður sinn koma teymandi fákinn? Það hefði verið erfitt að útskýra.

En þetta hafðist að lokum og nú er ekki frá því að strengir séu að gera vart við sig.

14. janúar 2008

Fyrsti í leikskóla

Ekki efast ég um að lesendur þessara dagbókarbrota séu miklir bókmenntaunnendur. Áreiðanlega eru fagurbókmenntir í miklu uppáhaldi hjá þeim. Því þarf ég varla að rifja upp söguþráð hinnar sígildu skemmtilegu smábarnabókar nr. 33, en hún nefnist auðvitað Kolur í leikskóla. Höfundur er hin geysivinsæla og eitursnjalla Lucille Hammond og íslenskan texta útbjó Stefán Júlíusson af stakri snilld, eins og honum einum er lagið.

Fyrir þá sem þessi bók hefur rykfallið hjá, þá er runninn upp merkisdagur hjá aðalsöguhetjunni, hvolpinum Koli. Hann á nefnilega að fara í leikskóla í fyrsta sinn. Ekki er hvolpur alveg sáttur við það. Vill ekki fara, og reynir ýmis brögð til að komast undan þessu. En ekkert múður þýðir við móðurina og í leikskólann fer hann. Auðvitað verður þessi dagur stórskemmtilegur og Kolur hlakkar mikið til næsta dags í bókarlok.

Stórbókmenntir.

Bók þessi hefur verið í miklu uppáhaldi hjá Rúnari Atla undanfarnar vikur. Rúnar Atli er svolítill dellukarl og bækur detta í uppáhald hjá honum og þýðir ekkert að reyna að stinga upp á öðrum bókum til lestrar fyrir svefninn.

Ekki veit ég hvort Kolur hefur haft einhver áhrif á son minn, en um nokkura daga skeið hefur Rúnar Atli sagt okkur að hann vilji ekki fara á leikskólann. „Ég vill'ill ekki, ekki fala í gólann,“ hefur verið vinsæl setning ef leikskólann ber á góma.

Í dag rann svo upp merkisdagur í lífi Rúnars Atla. Hann átti að fara í nýjan leikskóla. Kannski ekki beint nýjan, en þar sem hann er vaxinn upp úr litlubarnadeildinni þá flyst hann í stórubarnadeildina, sem er ekki í sama húsi og sú fyrrnefnda. Auk þess eru gjörsamlega ókunnar fóstrur. Segir maður kannski leikskólakennarar? Hún MM hlýtur að segja mér hvað sé rétt í þeim efnum.

Fjölmenntum við Gulla á staðinn í morgun. Mættum sem sagt bæði. Þarna var hópur af krökkum og einhverjar fóstrur, nú eða leikskólakennarar. Eftir nokkrar mínútur látum við Rúnar Atla vita að foreldrarnir séu að hverfa á braut og spyrjum hvort það sé ekki í lagi.

„Kem ég heim á eftir?“ spyr sá stutti.

Jú, jú, pabbi hans ætlaði að koma í hádeginu.

„Allt í lagi.“

Og þar með var allt búið og hann hafði bara engan meiri áhuga á foreldrum sínum. Vildi bara vera viss að foreldrarnir myndu ekki gleyma sér.

Harður nagli.

12. janúar 2008

Hella fyrir eyrum

Við flugtak frá Keflavík í gær þá sá ég að Rúnar Atli var að nudda eyrun. Spurði ég hann hvort hann finndi til í eyrunum og samsinnti hann því. Sagði ég honum að svona eyrnaverk mætti laga með tyggjói. Fór ég á stúfana og í einni tösku fannst tyggjópakki. Rétti ég honum eitt tyggjóstykki. Tók hann tyggjóið og stakk því umsvifalaust í eyrað!!

Sem betur fer ótuggið...

Komin aftur til Windhoek

Rétt um hálftíu í morgun að namibískum tíma, hálfátta að íslenskum, lentum við á alþjóðaflugvellinum í Windhoek. Brottför frá Keflavík var um 19 tímum fyrr og er þetta með því stysta sem gerist á þessari leið.

Ferðin gekk vel og í raun frá litlu að segja. Innritun í Keflavík var sem smurð og þar sem okkar vél var sú eina sem yfirgaf Ísland í kringum hádegið þá var lítið af fólki í fríhöfninni. Heiðskýrt var og því var útsýni gott yfir Reykjavík og meðfram suðurströnd landsins.

Á Gatwick beið okkar heilmikill göngutúr, eins og alltaf. Þó sagði flugstjórinn að aðkomuhliðið væri nálægt miðju vallarins og því stutt að fara. Ekki vorum við alveg sammála fjarlægðarmati hans.

Við innskráningarborðið hittum við konu eina frá Windhoek sem rekur vínbúð. Hverju sem veldur kannaðist hún við okkur. Kannski kaupum við okkur of oft vín með matnum, hver veit...?

Komumst svo inn á brottfararsvæðið og eyddum nokkrum klukkutímum þar. Síðan var farið um borð og flogið af stað.

Rúnar Atli svaf mestan hluta ferðarinnar, en við hin sváfum minna. Gott var síðan að koma á leiðarenda, en allt var hér með kyrrum kjörum.

11. janúar 2008

Styttist...

Þá er Íslandsförin að renna sitt skeið. Kláraði að pakka um miðnætti, ja, Tinna Rut er eitthvað að drolla.

Keypti kardimommudropa og sósulit áðan, en þessir hlutir fást ekki í Namibíu. Engar kleinur á kardimommu...

Fimm mínútur yfir hádegi á morgun förum við í loftið. Mæting um 10, sem er flottur tími. Ekkert að vakna klukkan fjögur að morgni eins og þegar flogið er með Flugleiðum.

10. janúar 2008

Háspenna!!!

Í morgun fórum við Dagmar Ýr með Doddsinn í skoðun. Undanfarin þrjú ár a.m.k. höfum við fengið grænan miða og því var ákveðið að vekja Dagmar Ýr snemma, þrátt fyrir að hún hefði verið á kvöldvakt í gær, svo hún hefði skoðunarferlið á hreinu ef endurskoðun þyrfti.

Við ókum bílnum inn og fórum svo á kaffistofuna, þar sem ég drakk ómælt magn af kakói til að „díla“ við stressið. Síðan fór skoðunarmaðurinn að þrífa númerið til að líma nýjan miða á.

Hætti svo allt í einu við... og fór að skoða bílinn eitthvað betur. Lyfti honum aftur upp og fór eitthvað að hrista dekkin.

Síðan fór hann aftur að stússast í númerinu. Við Dagmar Ýr stóðum með öndina, og ég með kakóið, í hálsinum.

Spenna.

Og, ... og ... og EKKI!!! grænn miði!!!

Mikið vorum við ánægð þegar við ókum í burtu. Svo ánægð að ég villtist á bílaplaninu fyrir utan og ók næstum á móti einstefnu...

9. janúar 2008

Tekinn í bakaríið

Undanfarna daga hefur bakverkur verið að angra mig. Ekkert alltof alvarlegt, en þó tilefni til að láta hnykkja á sér.

Á stofunni er afslöppuð stemming og ró og friður svífur yfir vötnum. Ekkert er verið að stressa sig um of á hlutunum.

Gott dæmi um þetta átti sér stað í fyrradag, en þá átti ég tíma. Stundvíslega kom ég á staðinn og þá mætti mér þessi sjón


Maður verður jú að komast í bakaríið...

Endurnar á tjörninni

Í síðustu viku þurftum við Rúnar Atli að finna leið til að eyða góðum hálftíma. Vorum við í nágrenni tjarnarinnar og skruppum því að kíkja á endurnar... og gæsirnar... og svanina... og dúfurnar... og mávana. Þótti okkur illt að hafa ekki brauðmola því greinilegt var að fiðruðu vinir okkar bjuggust við einhverju frá okkur.

Sórum við því heit að snúa aftur.

Í fyrradag stóðum við við heiti okkar. Mættum við á nýjan leik. Ásamt Tinnu Rut, sem þó ákvað að sitja í bílnum frekar en að sjást við barnalegar athafnir. Vorum við vopnaðir poka með nokkura daga gömlum brauðsneiðum. Nú urðu íbúar tjarnarinnar ekki fyrir vonbrigðum og hópuðust að okkur. Rúnar Atli átti í mestu vandræðum með að koma brauðmolunum til þeirra sem honum þótti að ættu að fá mola. Hann, nefnilega, vorkenndi sumum fuglunum sem honum þótti verða undir í baráttunni um molana. Mávarnir voru aðgangsharðir en okkur tókst að koma slatta af molum til þeirra sem okkur fannst eiga skilið að fá bita.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá var þetta bara nokkuð skemmtileg lífsreynsla og ég er ánægður að hafa náð að gera þetta með syninum.

Þrettándinn

Skruppum út á Seltjarnarnes í þrettándagleði. Rúnar Atli var svolítið hugaðri heldur en á gamlárskvöld. Núna fór hann með að sjá brennuna, sem var nokkuð flott

og síðan hélt guttinn á kúlublysi, stóru vel að merkja, og störnuljósum. Efa ég ekki að eftir nokkur ár verði hann jafnáhugasamur um flugeldaskotmennsku og Ari Ellason...

5. janúar 2008

Leikhúsferð

Gerðum okkur dagamun fyrr í dag. Fórum í Borgarleikhúsið að sjá Gosa. Öll fjölskyldan, að Tinnu Rut undanskilinni, mætti. Var þetta fyrsta ferð Rúnars Atla í leikhúsið.

Leikritið var alveg þokkalegt, en mér fannst þó vanta einhvern neista. Eitthvað sem hélt manni opinmynntum á sætisbrúninni.

Rúnar Atli skemmti sér ágætlega, en varð þó svolítið óttasleginn þegar hvalurinn mætti á svæðið og gleypti aðalsöguhetjurnar.

En heimurinn er ekki stór. Þarna rákumst við á mann einn sem var í Vancouver á þeim tíma sem við fluttum þangað fyrir sextán og hálfu ári. Hann býr í Ohio í Bandaríkjunum og við í Namibíu.

Auðvitað rekumst við þá á hann í Borgarleikhúsinu, hvar annars staðar?

Meiri snjó, meiri snjó

Ég sá að hún MM segir að snjór sé ekki skemmilegur fyrir fullorðna.

Ekki er ég alveg sammála þessu. (Ó, já, MM er ekki María mey, heldur Maja mágkona...).

Hér fylgja tvær myndir teknar af svölunum í Æsufelli nú um jólin sem eru að renna sitt skeið.





Snjórinn er alltaf skemmtilegur...

3. janúar 2008

Jólatrésfagnaður

Í dag fórum við Rúnar Atli á jólatrésfagnað. Sá var haldin á ekki ómerkari stað en Bessastöðum, en forseti lýðveldisins og frú bjóða til þessa fagnaðar á hverju ári. Einhverjir tugir barna mættu. Eins og sést þá leið Rúnari Atla bara vel þarna, í stássstólum Bessastaða.


Hann tók rogginn í hönd forsetans, en vildi ekki heilsa forsetafrúnni.

Skemmtunin hófst með göngu í kringum jólatréð. Reynir Jónasson harmonikkuleikari lék undir og var glettilegt hvað rifjaðist um af jólasöngvunum. Síðan var boðið upp á kaffi og kökur. Greinilega voru kleinurnar heimabakaðar, sem og dýrindisskúffukaka skreytt með smarties og bangsaávaxtahlaupi. Létum við ekki okkar eftir liggja í þessari deildinni.

Að þessi loknu kallaði forsetinn börnin til sín og kynnti skemmtiatriði. Voru það engar aðrar en Skoppa og Skrýtla sem mættu á svæðið við þónokkurn fögnuð barnanna.
Létu þær börnin taka þátt í skemmtiatriðunum og var Rúnar Atli með í að syngja um Kalla litla könguló sem klifraði upp á vegg. Hann var heillaður af Skoppu og þótti greinilega mikið til hennar koma.


Að lokum mættu jólasveinar á staðinn. Ekki bara einn og ekki bara tveir, heldur fjórir jólasveinar. Rúnar Atli var hinn brattasti og ræddi við Hurðaskelli, líklega um sameiginleg áhugamál.


Síðan var forsetinn kvaddur og tók Rúnar Atli virðulega í hönd hans.

Var þetta hin mesta skemmtun og ekki skemmdi góðgætispokinn sem Hurðaskellir gaf Rúnari Atla að skilnaði.

1. janúar 2008

Rúnar Atli milli jóla og nýs árs

Fyrr í dag tæmdi ég myndir af myndavélinni og fann nokkrar góðar af syninum. Auðvitað vil ég deila þeim myndum með lesendum þessara dagbókarbrota.

Að eiga heimili á tveimur stöðum veldur því stundum, því miður, að leikföng eru af skornum skammti fyrir Rúnar Atla. Því þarf oft að nota ímyndunaraflið, sem, jú, er auðvitað hið besta mál.

Dag einn langaði hann mikið í flugvél og helst vildi hann vera flugmaður. Ekki var lengi verið að redda því. Tveir kollar, skál úr eldhúsinu og lok af kubbadollu og, sjá, komin hin fínasta flugvél með flottum flugstjóra:


Svo hittust frændurnir Rúnar Atli og Aron Kári í fyrsta sinn. Vel fór á með þeim tveimur.


En þrátt fyrir að frændurnir hafi sett upp sinn fínasta svip fyrir myndavélina, þá kraumar undir yfirborðinu. Gengið hefur verið frá því að Aron Kári fái nokkrar hluti frá Rúnari Atla, t.d. gamla rimlarúmið. Einnig var rætt um hókus-pókusstól sem Rúnar Atli notaði á unga aldri.

Nú brá hins vegar þannig við að sjaldan hefur Rúnar Atli fundið jafnmagnað leikfang og þennan stól. Snýr drengurinn stólnum á alla kanta og prílar upp og niður og aftur upp. Það besta er að hann þarf enga hjálp við stólinn heldur dröslar honum sjálfur um allt og kemst í og úr honum á eigin spýtur.

Að Aron Kári fái stólinn? Hm, greinilega þarf eitthvað að ræða þau mál betur áður en fyrir endann sér...

Gamla árið kvatt

2008 mætt á svæðið.

Ótrúlegt en satt.

Hér var fjölmennt í gærkvöldi. Davíð og Jóhanna mættu með sínar fjölskyldur og ættmóðirin var hér líka. Aldrei hefur allur þessi hópur verið saman kominn áður. Fimmtán manns voru í mat og þurfti að spila aðeins af fingrum fram við að búa til nógu langt borðstofuborð. Voru vinnubúkkar úr bílskúrnum og skrifstofustólar kallaðir til aðstoðar. Útkoman varð ágætis langborð.


Sjáum við að hægt er að koma fyrir tuttugu manns án erfiðleika við langborð hjá okkur. Ekki slæmt fyrir blokkaríbúð á holtinu breiða.

Á borðum var kalkúnn à la Gulla og saltkjöt og baunasúpa. Reyndist þetta ótrúlega kostablanda, því allir fengu mat við sitt hæfi. Ekki er mikið um afganga, nú á nýársdag.

Sumir gengu harðar fram en aðrir í að næla sér í bita...



Í eftirrétt töfraði Sigga fram franska súkkulaðitertu og súkkulaðigúmmelaðe með jarðarberjum og kíví. Tinna Rut brá sér í eldhúsið og þeytti rjóma undir haukfránum eftirlitsaugum matgæðingsins Davíðs.

Dularfullar dósir af ólífum gerðu vart við sig, en enginn virtist vita hvað við þær ætti að gera. Eigum við von á að þessar dósir stingi aftur upp kollinum seinna.

Svo leið að miðnætti. Auðvitað var horft á skaupið, þótt reyndar gerði fjöldi ungra drengra í boðinu erfiðara en ella að fylgjast með. En skaupið þótti gott. Auglýsingin var hins vegar hálfslöpp. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti auglýsingu í skaupinu, en sjónvarpsmenn voru búnir að tala um þvílíkar gæðakröfur sem gerðar hefðu verið. Hvað var þetta svo? Fólk að faðma steypu...

Veðrið var ásættanlegt. Svolítið rok var greinilega, en „svalaveðrið“ var fínt. Rúnar Atli var búinn að tala fjálglega um að skjóta upp og gekk um með öryggisgleraugun frá hádegi. Meira að segja skartaði hann gleraugunum í Bónus. En þegar á reyndi var hjartað ekki stórt. Um leið og farið var að skjóta hér fyrir utan og alvöru sprengihávaði barst upp á svalir, þá hvarf öll sjálfsstjórn unga piltsins og grátur hófst. Endaði hann fyrir innan borðstofugluggann og horfði þar á flugeldasýninguna.

Logi Snær var nokkuð sjóaðri í þessum bissness og þótti ekki mikið mál að halda á stjörnuljósi.


Ekki er hægt að lýsa því öðrum vísi en að við horfðum á dýrðina úr stúkusæti. Útsýnið af svölunum er ótrúlega gott og á svona kvöldi stórfenglegt. Ég gerði myndatökutilraunir en var ekki mjög ánægður með útkomuna. Læt þó eina mynd fylgja.


Greinilega er svæðið hér fyrir framan þekkt útsýnissvæði, því um eitthundrað bílar voru hér fyrir utan.

Allt gekk stórslysalaust fyrir sig hjá okkur. Gulla reyndar brenndi sig á fljúgandi rófubita og eitt kristalsglas kvaddi heiminn. En Tinna Rut komst ósködduð frá kvöldinu.

Óskum við öllum farsæls nýs árs og þökkum fyrir liðnu árin.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...