14. janúar 2008

Fyrsti í leikskóla

Ekki efast ég um að lesendur þessara dagbókarbrota séu miklir bókmenntaunnendur. Áreiðanlega eru fagurbókmenntir í miklu uppáhaldi hjá þeim. Því þarf ég varla að rifja upp söguþráð hinnar sígildu skemmtilegu smábarnabókar nr. 33, en hún nefnist auðvitað Kolur í leikskóla. Höfundur er hin geysivinsæla og eitursnjalla Lucille Hammond og íslenskan texta útbjó Stefán Júlíusson af stakri snilld, eins og honum einum er lagið.

Fyrir þá sem þessi bók hefur rykfallið hjá, þá er runninn upp merkisdagur hjá aðalsöguhetjunni, hvolpinum Koli. Hann á nefnilega að fara í leikskóla í fyrsta sinn. Ekki er hvolpur alveg sáttur við það. Vill ekki fara, og reynir ýmis brögð til að komast undan þessu. En ekkert múður þýðir við móðurina og í leikskólann fer hann. Auðvitað verður þessi dagur stórskemmtilegur og Kolur hlakkar mikið til næsta dags í bókarlok.

Stórbókmenntir.

Bók þessi hefur verið í miklu uppáhaldi hjá Rúnari Atla undanfarnar vikur. Rúnar Atli er svolítill dellukarl og bækur detta í uppáhald hjá honum og þýðir ekkert að reyna að stinga upp á öðrum bókum til lestrar fyrir svefninn.

Ekki veit ég hvort Kolur hefur haft einhver áhrif á son minn, en um nokkura daga skeið hefur Rúnar Atli sagt okkur að hann vilji ekki fara á leikskólann. „Ég vill'ill ekki, ekki fala í gólann,“ hefur verið vinsæl setning ef leikskólann ber á góma.

Í dag rann svo upp merkisdagur í lífi Rúnars Atla. Hann átti að fara í nýjan leikskóla. Kannski ekki beint nýjan, en þar sem hann er vaxinn upp úr litlubarnadeildinni þá flyst hann í stórubarnadeildina, sem er ekki í sama húsi og sú fyrrnefnda. Auk þess eru gjörsamlega ókunnar fóstrur. Segir maður kannski leikskólakennarar? Hún MM hlýtur að segja mér hvað sé rétt í þeim efnum.

Fjölmenntum við Gulla á staðinn í morgun. Mættum sem sagt bæði. Þarna var hópur af krökkum og einhverjar fóstrur, nú eða leikskólakennarar. Eftir nokkrar mínútur látum við Rúnar Atla vita að foreldrarnir séu að hverfa á braut og spyrjum hvort það sé ekki í lagi.

„Kem ég heim á eftir?“ spyr sá stutti.

Jú, jú, pabbi hans ætlaði að koma í hádeginu.

„Allt í lagi.“

Og þar með var allt búið og hann hafði bara engan meiri áhuga á foreldrum sínum. Vildi bara vera viss að foreldrarnir myndu ekki gleyma sér.

Harður nagli.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jújú leikskólakennari er rétt starfsheiti á þeim sem vinna á leikskóla og eru búnir með 3ja ára langt háskólanám í þeim tilgangi:-)
koss og knús frá MM

Nafnlaus sagði...

ég er fullkomlega sammála síðasta ræðumanni :) leikskólakennari er jú rétta starfsheitið.
kv. Hulda leikskólakennari og núna kennari :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...