1. janúar 2008

Gamla árið kvatt

2008 mætt á svæðið.

Ótrúlegt en satt.

Hér var fjölmennt í gærkvöldi. Davíð og Jóhanna mættu með sínar fjölskyldur og ættmóðirin var hér líka. Aldrei hefur allur þessi hópur verið saman kominn áður. Fimmtán manns voru í mat og þurfti að spila aðeins af fingrum fram við að búa til nógu langt borðstofuborð. Voru vinnubúkkar úr bílskúrnum og skrifstofustólar kallaðir til aðstoðar. Útkoman varð ágætis langborð.


Sjáum við að hægt er að koma fyrir tuttugu manns án erfiðleika við langborð hjá okkur. Ekki slæmt fyrir blokkaríbúð á holtinu breiða.

Á borðum var kalkúnn à la Gulla og saltkjöt og baunasúpa. Reyndist þetta ótrúlega kostablanda, því allir fengu mat við sitt hæfi. Ekki er mikið um afganga, nú á nýársdag.

Sumir gengu harðar fram en aðrir í að næla sér í bita...



Í eftirrétt töfraði Sigga fram franska súkkulaðitertu og súkkulaðigúmmelaðe með jarðarberjum og kíví. Tinna Rut brá sér í eldhúsið og þeytti rjóma undir haukfránum eftirlitsaugum matgæðingsins Davíðs.

Dularfullar dósir af ólífum gerðu vart við sig, en enginn virtist vita hvað við þær ætti að gera. Eigum við von á að þessar dósir stingi aftur upp kollinum seinna.

Svo leið að miðnætti. Auðvitað var horft á skaupið, þótt reyndar gerði fjöldi ungra drengra í boðinu erfiðara en ella að fylgjast með. En skaupið þótti gott. Auglýsingin var hins vegar hálfslöpp. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti auglýsingu í skaupinu, en sjónvarpsmenn voru búnir að tala um þvílíkar gæðakröfur sem gerðar hefðu verið. Hvað var þetta svo? Fólk að faðma steypu...

Veðrið var ásættanlegt. Svolítið rok var greinilega, en „svalaveðrið“ var fínt. Rúnar Atli var búinn að tala fjálglega um að skjóta upp og gekk um með öryggisgleraugun frá hádegi. Meira að segja skartaði hann gleraugunum í Bónus. En þegar á reyndi var hjartað ekki stórt. Um leið og farið var að skjóta hér fyrir utan og alvöru sprengihávaði barst upp á svalir, þá hvarf öll sjálfsstjórn unga piltsins og grátur hófst. Endaði hann fyrir innan borðstofugluggann og horfði þar á flugeldasýninguna.

Logi Snær var nokkuð sjóaðri í þessum bissness og þótti ekki mikið mál að halda á stjörnuljósi.


Ekki er hægt að lýsa því öðrum vísi en að við horfðum á dýrðina úr stúkusæti. Útsýnið af svölunum er ótrúlega gott og á svona kvöldi stórfenglegt. Ég gerði myndatökutilraunir en var ekki mjög ánægður með útkomuna. Læt þó eina mynd fylgja.


Greinilega er svæðið hér fyrir framan þekkt útsýnissvæði, því um eitthundrað bílar voru hér fyrir utan.

Allt gekk stórslysalaust fyrir sig hjá okkur. Gulla reyndar brenndi sig á fljúgandi rófubita og eitt kristalsglas kvaddi heiminn. En Tinna Rut komst ósködduð frá kvöldinu.

Óskum við öllum farsæls nýs árs og þökkum fyrir liðnu árin.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...