1. janúar 2008

Rúnar Atli milli jóla og nýs árs

Fyrr í dag tæmdi ég myndir af myndavélinni og fann nokkrar góðar af syninum. Auðvitað vil ég deila þeim myndum með lesendum þessara dagbókarbrota.

Að eiga heimili á tveimur stöðum veldur því stundum, því miður, að leikföng eru af skornum skammti fyrir Rúnar Atla. Því þarf oft að nota ímyndunaraflið, sem, jú, er auðvitað hið besta mál.

Dag einn langaði hann mikið í flugvél og helst vildi hann vera flugmaður. Ekki var lengi verið að redda því. Tveir kollar, skál úr eldhúsinu og lok af kubbadollu og, sjá, komin hin fínasta flugvél með flottum flugstjóra:


Svo hittust frændurnir Rúnar Atli og Aron Kári í fyrsta sinn. Vel fór á með þeim tveimur.


En þrátt fyrir að frændurnir hafi sett upp sinn fínasta svip fyrir myndavélina, þá kraumar undir yfirborðinu. Gengið hefur verið frá því að Aron Kári fái nokkrar hluti frá Rúnari Atla, t.d. gamla rimlarúmið. Einnig var rætt um hókus-pókusstól sem Rúnar Atli notaði á unga aldri.

Nú brá hins vegar þannig við að sjaldan hefur Rúnar Atli fundið jafnmagnað leikfang og þennan stól. Snýr drengurinn stólnum á alla kanta og prílar upp og niður og aftur upp. Það besta er að hann þarf enga hjálp við stólinn heldur dröslar honum sjálfur um allt og kemst í og úr honum á eigin spýtur.

Að Aron Kári fái stólinn? Hm, greinilega þarf eitthvað að ræða þau mál betur áður en fyrir endann sér...

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...