25. mars 2009

Hver ræður hverju?

Fyrir einu eða tveimur kvöldum heyri ég hávaðarifrildi þar sem ég var að raka mig. Voru það mín ástkær eiginkona og elskulegur sonur okkar að skætast.

Hvað er eiginlega í gangi, vildi ég vita.

Jú, sagði sá stutti, mamma sagði að ég ráði ekki hvað eigi að gera, en ég segi: jú, ég ræð!

Nú, nú, sagði ég.

Svo bað ég hann að fara fram og elda matinn...

Ha??? Ég kann ekki að elda mat, sagði hann.

Jú, en sá sem ræður, verður að elda matinn. Og líka fara út í búð. Farðu nú og keyptu kartöflur í búðinni.

Ég get það ekki, svaraði Rúnar Atli.

Já, en þú segist ráða, sagði ég. Sá sem ræður verður að gera þetta líka.

Drengurinn hugsaði sig aðeins um.

Já, en pabbi, ég ræð bara hvað ég má leika mér...

24. mars 2009

Styttist í páska

Bráðum koma blessaðir páskarnir. Einn fylgifiskur þeirra er föndur á leikskólanum. Í morgun sáum við Gulla að við áttum að koma með sex útblásin egg í skólann. Áttum við víst að koma með þau núna í morgun, en einhverra hluta vegna hafði tilkynningin farið fram hjá mér.

Við fengum eins dags frest.

En þá tók ekki betra við. Hvernig í ósköpunum blæs maður út egg? Höfum bara aldrei nokkurn tímann gert þess háttar gjörning. Tinna Rut var því send á netið og gúgglaði eggjaútblástur.

Gerið gat á eggið, takið sprautu með nál og stingið í gatið...

Ha?! Við eigum enga sprautu. Engir sprautufíklar hér á bæ.

Ókey, gúggla meira.

Gat sitthvoru megin, stinga með nál í rauðuna og blása svo í breiðari endann á egginu. Þessi fornaldaraðferð hljómaði betur en sprautuleiðin.

Gulla galvaska reið á vaðið. Blés og blés.

En eitthvað var árangurinn slælegur.

Tinna táningur var næst í röðinni.



Það gerðist bara ekki nokkur skapaður hlutur...

Arrgh, þetta er bara ekki hægt!!!


Þá var röðin komin að Villa villta. Ekki voru átökin spöruð, enda orðspor karlmanna að veði.

Blásið var hrauslega...


... og út kom eggið. Hvað annað!?

En átökin voru mikil. Hnykklaðar augabrýr og allt gefið í þetta. Eitthvað heyrist af veðmáli hvort kæmi fyrst, eggið eða reykur úr eyrum. Þær eru svo innilega fyndnar þessar stúlkur í fjölskyldunni.

Kom því í hlut minn að blása út öll sex eggin. Jæja, fimm og hálft, því Gulla komst svolítið áleiðis.

Að verki loknu áttaði ég mig á snilld kvenfólksins.

Þykast ekkert geta. Allt lendir á okkur karlmennunum...

15. mars 2009

Fagn

Húrra, búinn að skila inn skattaframtalinu. Suður-afrísk rauðvínsflaska opin í tilefni þess!!

6. mars 2009

Gamlir taktar

Við komum í hús um daginn vestur í Hvalaflóa. Stóðst Gulla ekki mátið að fá að gefa litlu barni pela.


En frekar er svipurinn á syninum óræður...

Gengið á vatni

Óhætt er að segja að sonurinn er gæddur ýmsum merkilegum hæfileikum...

3. mars 2009

Sótsvartur...

Hmm, þarf nokkuð að segja? Ja, kannski þó það að drengurinn var ekki heima hjá sér...

2. mars 2009

Gatnakerfið

Eitthvað var Davíð nú að gera grín að „off-road“ ævintýrum okkar hér í Namibíu. Staðreyndin er hins vegar sú, að það þarf nú ekki að aka langt til að komast í hann krappan.

Í gegnum hverfið okkar, sem heitir Litla Vindhúkk, liggur árfarvegur. Litla Vindhúkk áin, nefnist áin að sjálfsögðu. Sjaldnast er vatnsdropi í ánni og tekur maður bara eftir henni vegna þess að göturnar síga aðeins þegar ekið er yfir árfarveginn. Núna, hins vegar, þegar búið er að rigna upp á hvern einasta dag svo vikum skiptir, þá er hins vegar vatn í ánni.

Og stundum ekkert smá.

Fyrir nokkrum dögum fór ég á stjá og tók nokkrar myndir. Fylgja þær hér. Allt er þetta sama áin, en við fjórar mismunandi götur.

Ekki nema von að ein og ein númeraplata týnist.

Ef klikkað er á myndirnar þá koma stærri myndir.

Fyrsta myndin er frá Von Eckenbrecher stræti. Einu sinni bjuggum við aðeins ofar í götunni en þessi mynd er tekin.

Svo er það Nelson Mandela-vangurinn. Ein helsta umferðaræð borgarinnar gjörsamlega ófær. Ég hef aldrei nokkurn tímann séð svona mikið vatn á þessum stað. Ekki kæmi mér á óvart að dýptin þarna hafi verið rúmlega metri og nokkuð öflugur straumur.

Metje stræti, en þar mjókkar áin aðeins sem þýðir auðvitað miklu meiri kraftur í rennslið. Þetta er sú mynd sem best sýnir lætin í ánni.

Að lokum Schanzen vegur, en þar ek ég flesta daga. Ekki þó þennan dag. Þurfum við að taka á okkur heljarinnar krók til að komast milli heimilis og miðbæjarins.

Þannig að ekki er alltaf sólin í Afríkunni.

Sönnunin!

Gulla búin að gista á fína hótelinu í Swakopmund. Algjört æði. Hér er mynd af henni og Rúnari Atla við brottför. Ó, ekki má gleyma Tobba Lobba Súpermanni, en hann fékk að vera með á myndinni.

1. mars 2009

Hættur í umferðinni

Þetta er mynd af sólgleraugunum mínum. Fékk þau í jólagjöf frá eldri dóttur minni. Virkilega góð gleraugu sem ég nota mikið. Takið þó eftir nefhlífunum. Nokkuð hvassar útlits...

Hmm, af hverju er ég að segja ykkur frá hvössum nefhlífum?

Jú, helginni eyddum við hjónin, ásamt syninum, í Swakopmund. Ókum niðureftir á föstudaginn og ákváðum að taka útsýnisleiðina. Tiltölulega fáfarinn malarvegur, sem liggur í gegnum fjöllin vestan við Vindhúkk. Útsýnið á stundum stórfenglegt.

Hins vegar hefur rignt meira hér í Namibíu undanfarinn mánuð en elstu menn muna. Öll áveitulón 100% full, sum meira að segja 106% full. Ár, sem yfirleitt eru þurrar, eru nú í rennsli og ein afleiðing er að ýmsir vegir eru sundurskornir og illa farnir. Þegar styttast tók til Swakopmund, þá kom um 50 km kafli þar sem vegurinn var vægast sagt slæmur. Á stundum varla hægt að sjá hvar vegurinn lá. Gulla var undir stýri og allt í einu birtist hvarf í veginum án nokkurs fyrirvara. Við hjónin tókum heljarinnar hopp inni í bílnum og var ég svo léttur á mér að stanga þakið á bílnum. Væri nú vanalega ekki í frásögur færandi, nema fyrir þá staðreynd að ég var með fínu sólgleraugun. Þó ekki á nefinu, því ég hafði rennt þeim upp á höfuð til að fylgjast betur með veginum. Fór ekki betur en svo að önnur nefhlífin stakkst á bólakaf ofan í höfuðkúpuna á mér.

Hafiði heyrt um fáránlegra slys??

Fossblæddi úr sárinu, en mér tókst þó að stökkva út úr bílnum áður en blóðslettur sulluðust út um allt inn í bílnum. Sem betur fer var sjúkrakassi í bílnum og fannst þessi fína grisja með böndum. Líklega sérhönnuð fyrir höfuðmeiðsl, en varla vegna sólgleraugna.

Rúnar Atli náði í myndavélina og náði þessari fínu mynd af pabba sínum:

Ég lít svona út eins og skæruliðaforingi - ekki satt?

En sem betur fer þá var þetta ekki alvarlegur skurður og allt á góðum batavegi. Bíllinn dældaðist ekki einu sinni.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...