24. mars 2009

Styttist í páska

Bráðum koma blessaðir páskarnir. Einn fylgifiskur þeirra er föndur á leikskólanum. Í morgun sáum við Gulla að við áttum að koma með sex útblásin egg í skólann. Áttum við víst að koma með þau núna í morgun, en einhverra hluta vegna hafði tilkynningin farið fram hjá mér.

Við fengum eins dags frest.

En þá tók ekki betra við. Hvernig í ósköpunum blæs maður út egg? Höfum bara aldrei nokkurn tímann gert þess háttar gjörning. Tinna Rut var því send á netið og gúgglaði eggjaútblástur.

Gerið gat á eggið, takið sprautu með nál og stingið í gatið...

Ha?! Við eigum enga sprautu. Engir sprautufíklar hér á bæ.

Ókey, gúggla meira.

Gat sitthvoru megin, stinga með nál í rauðuna og blása svo í breiðari endann á egginu. Þessi fornaldaraðferð hljómaði betur en sprautuleiðin.

Gulla galvaska reið á vaðið. Blés og blés.

En eitthvað var árangurinn slælegur.

Tinna táningur var næst í röðinni.



Það gerðist bara ekki nokkur skapaður hlutur...

Arrgh, þetta er bara ekki hægt!!!


Þá var röðin komin að Villa villta. Ekki voru átökin spöruð, enda orðspor karlmanna að veði.

Blásið var hrauslega...


... og út kom eggið. Hvað annað!?

En átökin voru mikil. Hnykklaðar augabrýr og allt gefið í þetta. Eitthvað heyrist af veðmáli hvort kæmi fyrst, eggið eða reykur úr eyrum. Þær eru svo innilega fyndnar þessar stúlkur í fjölskyldunni.

Kom því í hlut minn að blása út öll sex eggin. Jæja, fimm og hálft, því Gulla komst svolítið áleiðis.

Að verki loknu áttaði ég mig á snilld kvenfólksins.

Þykast ekkert geta. Allt lendir á okkur karlmennunum...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er sko ekki af okkur kvenfólkinu skafið - algjörir snillingar he he :-)

kv,
Gulla

Nafnlaus sagði...

Minnir mann á þjóðsöguna sem ég heyrði einhverntíman af Villa í sjónvarpssal RÚV að ná epli upp úr bala fullum af vatni. Engar hendur, bara munnurinn. Þetta var löngu fyrir tíma youtube og örugglega í svarthvítu ef sagan er sönn.
Spurning um að sýna gamla takta og henda inn eintaki á youtube.

Nafnlaus sagði...

gargggggggg...... tárin steyma af hlátri..... shit hvað ég hefði viljað vera fluga á vegg á þessari stundu

Nafnlaus sagði...

Sagan er sönn

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...