26. desember 2012

Kastljóss brúnaðar kartöflur á fínum aðfangadegi

Þá er jóladagur að kveldi kominn. Dagmar Ýr leikur sér með eina jólagjöf, Rúnar Atli liggur fyrir framan sjónvarpið að horfa á Jóa enska, spæjara núll, núll og nix, en sú bíómynd kom úr einum pakkanum í gær. Gulla les bækur og mamma er á fésinu.

Ég var að skoða nokkrar ljósmyndir sem ég tók í gær og ákvað að skella nokkrum inn hingað.

Aðfangadagur var fínn. Ekkert stress í gangi. Gulla sér auðvitað um að allt sé tilbúið. Ég geri svona einn og einn hlut, sem ég tel mér trú um að telji í stóra samhengi jólanna. Hef líklega rangt fyrir mér þar.

Tréð var keypt fyrir nokkrum dögum. Eftir að koma inn á gólf hjá okkur lækkaði það líklega um eina fjörutíu sentimetra við afskurð. Rúnar Atli var sáttur við það. Hann sér nefnilega um að setja toppinn á tréð og var þetta í fyrst sinn sem hann þurfti ekki að sitja á háhesti á föður sínum.
Toppnum tyllt á toppinn
Guttinn var annars þrælduglegur. Eftir að fara í sturtu og klæða sig í jólafötin fór hann í eldhúsið og reddaði rjómaskreytingunni á frómasinn fyrir mömmu sína.
Að skreyta frómas er nákvæmnisverk sem krefst einbeitni
Enda var móðirin sátt við framtak drengsins
Ánægð og stolt móðir. Drengur lætur ekki truflast
Ekki má gleyma sögunni um brúnuðu kartöflurnar. Þannig kartöflur tilheyra jú aðfangadagskvöldi á okkar heimili. Yfirleitt takast þær ágætlega, en stundum hafa karamellurnar orðið fullharðar. Núna fyrir einhverjum dögum horfðum við á Kastljós og þar var kokkur að fara yfir ýmis heilræði um jólamatreiðsluna. Nema hvað, þar kom trix um brúnaðar kartöflur. Við Gulla horfðum hvort á annað og sammæltumst um að muna trixið.

En mundum við það á aðfangadagskvöld? Ó, nei, ó, nei. Við brutum og brutum heilann - báða heilana vel að merkja - en gátum bara ekki munað neitt. Ég þaut því að tölvunni - rúv punktur is skástrik kastljós - og fann umræddan þátt. „Æ, já, auðvitað!“ sögðum við bæði.

Ég tók að mér að trix-brúna kartöflurnar og fórst það vel úr hendi. Greinilega gagnlegt trix.

Við borðstofuborðið var kátt - enda kartöflurnar góðar...
Móðir og dóttir

Sonur og móðir
Svo þurfti auðvitað að vaska upp. Ef dæma á af jólamyndum síðustu ára hefur mér tekist á undraverðan hátt að forðast uppvaskið. Í gær slapp ég hins vegar ekki. Enda þótti öðrum skemmtilegt að fylgjast með.
„Mamma, truflum pabba!“
Svo var farið að huga að tréinu og því sem þar lá undir. Að sjálfsögðu var hin hefðbundna mynd af börnum, tréi og pökkum tekin. Nema hvað, þar sem Tinnu Rut vantaði þetta árið, þá skaust móðirin sem elding inn á myndina. Myndin varð nú bara betri fyrir vikið.
Nú er farið að styttast í pakkana!
Að opna pakkana tók góða stund. Eins og alltaf. Mikið af bókum kom úr pökkunum þetta árið. Síðan litu margar skemmtilegar gjafir dagsins ljós, sumar meira að segja gagnlegar. Hún fjarverandi Tinna Rut stal þó senunni með sínum frábæru gjöfum.
Sveitalubbavínglas vakti mikla kátínu, en það er ríflega 30 sentilítrar að rúmmáli og með sultuloki.

Ekki var Ofurkonusvuntan síðri - alveg frábær svunta
Já, við söknuðum Tinnu Rutar. Því er ekki að neita. En kannski verðum við öll saman næstu jól. Hver veit?

Aðfangadagskvöld var skemmtilegt. Góð fjölskyldustund.

Alveg eins og á að vera.

24. desember 2012

Mamma, amma og langamma

Í gær, Þorláksmessu, ókum við Rúnar Atli ásamt ömmu hans frá Grundarfirði í bæinn. Gert var stans á nokkrum stöðum, m.a. á dvalarheimilinu í Borgarnesi. Sjálfsagt heitir dvalarheimilið einhverju flottu nafni, en ég þekki það ekki. Hún amma býr þarna og langaði okkur öll að sjá hana. Rúnar Atli minnist þess ekki að hafa hitt hana, en sjálfsagt sá amma barnabarnabarnið sitt þegar það var um ársgamalt. Ég hef ekki hitt ömmu í mörg ár og man hreinlega ekki hvenær við hittumst síðast.

Þarna hittust fjórir ættliðir, Rúnar Atli, pabbi hans, amma hans og langamma. Það gerist nú ekki á hverjum degi hjá syni mínum. Hann á nefnilega bara eina ömmu og eina langömmu. Hvorki afa né langafa. Þykir gutta þetta hið versta mál og hefur farið í það að útvega sér fósturafa. Hefur einn frændi hans samþykkt að vera kallaður afi af drengnum.

Nóg um það.

Þeir sem þekkja hana ömmu vita jú að hún stríðir við sjúkdóm sem veldur minnistapi. Vissi ég því ekki á hverju var von. En skemmst er frá að segja að gamla konan kom mér skemmtilega á óvart. Vissulega er minnið illilega farið, en amma var eiturhress og kjaftaði á henni hver tuska.

Alveg eins og ég man hana.

Hún sagðist muna eftir mér, virtist alveg með á hreinu hver Villi var, en sagðist þó ekki hefðu þekkt mig út á götu.

„Þú ert svo forstjóralegur,“ sagði gamla konan, „að ég hefði aldrei þekkt þig!“

Hm, ég er semsagt ekki forstjóralegur í hennar minningum. Jæja, ég get þó huggað mig við að vera forstjóralegur í dag. Þótti það reyndar skrýtið því ég var í gallabuxum og hnepptri lopapeysu.

Ég held að merkilegast við ömmu hafi mér fundist að hún gerir sér alveg grein fyrir sínu minnisleysi. Ég átti einhvern veginn ekki von á því. Einhvern tímann í samræðunum spurði hún mömmu hvort hún (amma) hefði tekið saman við pabba mömmu. Jú, jú, mamma hélt nú það.

„Og eignuðumst við einhver börn til viðbótar,“ vildi amma fá að vita. „Jú,“ sagði mamma, „tíu stykki!“

Þetta þótti ömmu stórmerkilegt, og tísti í henni yfir því að hafa átt svo mörg börn.

Svona gengu samræðurnar. Mér fannst gaman að því hve amma vildi fræðast mikið um sína eigin hagi. Eins og ég sagði að ofan, þá kom mér á óvart hvað hún gerði sér góða grein fyrir minnistapinu og spyr mikið um gamla tíð.

Og svo, alveg eins og í gamla daga, streymdu ráðleggingarnar frá gömlu konunni. Ég er núna miklu fróðari um barnauppeldi og Rúnar Atli veit að það má ekki láta allt eftir honum. Ég get þá vitnað í langömmu hans ef hann fer eitthvað að ybba gogg. Rúnar Atli gleymir henni ekki svo glatt. Honum fannst magnað að hún væri áttatíuogníu ára.

Rúnar Atli og langamma
Þegar við héldum á brott, eftir að kveðja og óska gleðilegrar hátíðar, þá þótti mér gott að hafa hitt ömmu. Henni virðist líða vel og það er fyrir mestu.

17. desember 2012

Eins og á stríðsárunum...

„Hvað er þetta með ykkur tvo?“ spurði Dagmar Ýr okkur Rúnar Atla rétt í þessu.

„Þetta er eins og á stríðsárunum hjá ykkur!“ bætti hún við.

Hvert var tilefni þessara ummæla frumburðarins?

Jú, við Rúnar Atli sátum inni í stofu og hlustuðum á útvarpið! Já, gömlu gufuna meira að segja.

Við vorum að hlusta á Leynifélagið, en þar var viðtal við Grýlu og jólaköttinn sjálfan.

Ef stríðsárin voru svona, þá hafa þau ekki verið alslæm.

10. desember 2012

Gullkorn eins átta ára

Áðan fórum við í gegnum öryggisskoðun á Heathrow flugvellinum. Þegar við vorum búin að láta gegnumlýsa handtöskur og okkur sjálf, spurði Rúnar Atli:

„Erum við núna frjáls?“

Kominn til Evrópu

Mættur til Lundúna. Flugið gekk vel og yfir litlu að kvarta. Lentum þó aftur í að sitja út í vél í nærri klukkustund áður en lagt var af stað. Skýringin í þetta sinn var að einhver lyftubúnaður sem notaður er til að koma farangri um borð var í ólagi. Því tók miklu lengri tíma en venjulega að hlaða vélina. En þetta hafðist nú allt að lokum.

Svo þurftum við að sækja töskur hér og koma að Flugleiðaborðinu. Mættum einum og hálfum tíma áður en Flugleiðir opnuðu, þ.a. við settumst á kaffistað og nutum lífsins og kaffis fram að opnun. Ekkert koníak...

Núna sitjum við á eðalstofu, í boði frúarinnar, og drepum tímann. Þrjár klukkustundir til brottfarar, sex klukkustundir til lendingar í Keflavík.

Allt kemur þetta með kalda vatninu.

9. desember 2012

Fríhöfn hvað?

Einhvern tímann um daginn uppgötvaði ég að til eru s-afrískar kæfur sem eru virkilega góðar.

Nú held ég hún móðir mín blessunin krossi sig í bak og fyrir: „Vilhjálmur farinn að borða kæfu! Skyldi sólin ekki bara farin að ganga í kringum tunglið!“

Kannski.

Þessar kæfur sem ég komst upp á lagið með eru reyndar ekki kindakæfur, heldur gnýjakæfa og spjóthafrakæfa. (Gnýr nefnist gnu eða wildebeest á útlensku, og spjóthafur oryx eða gemsbok).

Í flottu kringlunni í Jóhannesarborg hef ég fundið sælkeraverslun sem selur svona hnossgæti. Ekki bara þessar tvær tegundir, heldur líka kæfur af sebrahestum, strútum og krókódílum. Og kannski einhverjum dýrum fleiri. Lítil dós af svona löguðu kostar 42 rönd, sem jafngildir 600 krónum. Svona hérumbil.

Og þá er komið að tilgangi þessa pistils.

Á flugvellinum hér í Jóhannesarborg - uppáhaldsflugvellinum mínum, vel að merkja - rakst ég á svona kæfur í búð einni áðan. Fríhafnarbúð, skal tekið fram.

Og hvað skyldi hnossgætið hafa kostað þar?

Jú, ekki nema 90 rönd dósin!

Aðeins 114 prósentum dýrari en í kringlunni flottu. Og kringla sú er ekki sú ódýrasta í veröldinni.

Sér er nú hver fríhöfnin...

Beðið eftir flugvél

Nú sitjum við fjölskyldan á alþjóðaflugvellinum í Jóhannesarborg. Mættum tímanlega, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Enda þurftum við að treysta á nókía-dömuna með yndisþýðu röddina, og vildum því hafa vaðið fyrir neðan okkur. Tókum einu sinni eða tvisvar ranga beygju, en enduðum á réttum áfangastað. Reyndar ætluðum við á ákveðinn veitingastað fyrst og nókía-daman lóðsaði okkur þangað. En viti menn, ekkert veitingahús! Kannski er götukortið í símanum orðið gamalt og veitingastaðurinn kominn á hausinn. Gæti svosum vel verið, því ég hef ekkert spáð í kortafídusinn í símanum lengi, lengi.

Þar sem við mættum snemma, var rólegt við innritunarborðið og eins í öryggiseftirlitinu og vegabréfsskoðuninni. Við komum okkur fljótlega fyrir á kaffistað, hvers nafn útleggst Bollinn og baunin á því ylhýra.

Núna drekk ég mjólkurhristinginn minn eins hægt og mögulegt er, en við viljum sitja hér í góða stund enn. Pöntum eitthvað smálegt öðru hverju til að halda þjóninum heitum.

Fyrir höndum er ellefu tíma flug til Lundúna. Ekkert okkar hlakkar sérlega til þessa flugs, en þetta fylgir því að eiga heima langt í burtu frá Fróni. Ekki bætir úr skák að þurfa að sækja töskurnar á Heathrow og koma þeim á réttan stað. Eitthvað bull um að suður-afrísku flugleiðirnar og þær íslensku séu ekki með einhvern samstarfssamning. Ekki veit ég hversu oft við höfum ferðast milli Jóh.borgar og Keflavíkur og tékkað farangurinn alla leið. En, einstaka sinnum lendir maður á einhverjum flugvallarstarfsmanni sem höndlar þetta ekki.

En sem betur fer er nægur tími í Lundúnum.

Svo er flug þaðan klukkan eitt e.h. að staðartíma og lending heima klukkan fjögur.

Ætli maður verði ekki að fara úr stuttbuxunum og fara í síðar áður en vélin opnar dyrnar í Keflavík?

Gæti trúað því.

Fjölmenn brúðkaupsveisla

Athygli okkar hefur vakið hversu mikið af indverskum múslímum er hér á hótelinu. Án efa stór meirihluti hótelgesta. Einnig hefur okkur virst að þeir þekkist flestir.

Nú í morgun fór einn þeirra að spjalla við okkur í lyftunni. Eldri maður sem var forvitinn um okkar hagi. Kom upp úr kafinu að hann var í Jóhannesarborg til að sækja brúðkaupsveislu.

„Og eru margir gestir?“ spurðum við.

„Já, eitthvað yfir þúsund,“ svaraði hann.

Maður varð eiginlega kjaftstopp.

Þúsund manna brúðkaupsveisla. Ég vissi varla að svoleiðis væri hægt.

8. desember 2012

Týndur farþegi, áttavillt fjölskylda - fríið byrjað

Þá er jólafríið byrjað. Við lögðum af stað í gær frá Lílongve, en þaðan er ríflega tveggja tíma flug til Jóhannesarborgar. Þar stoppum við í tvær nætur, svona til að fá tilfinningu fyrir því að vera í fríi.

Í Lílongve er búið að vera yfirvinnubann hjá flugvallarstarfsmönnum, sem þýðir að ekkert gerist á flugvellinum í hádeginu. En þá er einmitt mesta traffíkin um völlinn. Flugvélin sem við tókum lendir t.d. um hálfeitt og er farin aftur þremur korterum seinna. Því vissum við ekki alveg hvort allt yrði á réttum tíma. En í gær virtist þetta komið í lag. Við mættum á réttum tíma, fengum brottfararspjöld og vorum komin út í vél um eittleytið.

Allt eftir bókinni.

En svo gerist ekkert. Allir sestir, en einhverju virðist beðið eftir. Tuttugu mínútum eða svo eftir áætlaða brottför segir flugstjórinn okkur að það vanti einn farþega. Vandamálið sé að það sé ekki alveg vitað hver það sé. Auðvitað má ekki fljúga með töskur einhvers sem hverfur svona, en til að finna töskurnar þarf að vita hver maðurinn er.

Skömmu síðar koma flugfreyjurnar með farþegalistann. „Hvað heitið þið?“ vorum við spurð. Hinum megin við ganginn sat kínverskur maður sem virtist ekki tala ensku. Eftir smástund tekst flugfreyjunni þó að fá brottfararspjaldið hjá honum. Upphófst þá mikið óðagot við að koma okkur af stað. Þarna var nefnilega týndi maðurinn kominn!

Sat allan tímann út í vél.

Fjörutíu mínútna seinkun út af engu.

Viðbúið er að flugstjórinn hafi blótað allhressilega.

Svo lentum við í Jóhannesarborg. Náðum okkur í bílaleigubílinn og Gulla sat með leiðbeiningar frá hótelinu um hvernig ætti að komast á hótelið. Hún var sem sagt lóðsinn.

Vandamálið var hins vegar að greinilega vantaði upplýsingar um fyrstu götuna sem fara átti á!

Við hringsóluðum því í kringum flugvöllinn í góða stund, leitandi að veganúmeri sem hvergi sást.

Á endanum datt mér í hug að gamli Nókía-síminn minn er með einhverjum kortafídus. Kveikti á þessu, og viti menn, síminn vissi hvar við vorum.

Sló síðan inn hótelheitinu og, viti menn aftur! Síminn gat sagt mér að þangað væru 14,8 kílómetrar.

Akstursleiðbeiningar, var það næsta sem ég bað um.

Jú, „taktu vinstri beygju eftir 350 metra og svo strax vinstri beygju.“

Við brunuðum af stað og undir skýrum leiðbeiningum einhverrar dásamlegrar kvenraddar komumst við klakklaust á leiðarenda. Beygði reyndar vitlaust einu sinni, en daman var enga stund að koma mér aftur á beinu brautina.

Já, er ekki tæknin dásamleg?

Nú er bara að njóta lífsins fram á sunnudag.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...