26. desember 2012

Kastljóss brúnaðar kartöflur á fínum aðfangadegi

Þá er jóladagur að kveldi kominn. Dagmar Ýr leikur sér með eina jólagjöf, Rúnar Atli liggur fyrir framan sjónvarpið að horfa á Jóa enska, spæjara núll, núll og nix, en sú bíómynd kom úr einum pakkanum í gær. Gulla les bækur og mamma er á fésinu.

Ég var að skoða nokkrar ljósmyndir sem ég tók í gær og ákvað að skella nokkrum inn hingað.

Aðfangadagur var fínn. Ekkert stress í gangi. Gulla sér auðvitað um að allt sé tilbúið. Ég geri svona einn og einn hlut, sem ég tel mér trú um að telji í stóra samhengi jólanna. Hef líklega rangt fyrir mér þar.

Tréð var keypt fyrir nokkrum dögum. Eftir að koma inn á gólf hjá okkur lækkaði það líklega um eina fjörutíu sentimetra við afskurð. Rúnar Atli var sáttur við það. Hann sér nefnilega um að setja toppinn á tréð og var þetta í fyrst sinn sem hann þurfti ekki að sitja á háhesti á föður sínum.
Toppnum tyllt á toppinn
Guttinn var annars þrælduglegur. Eftir að fara í sturtu og klæða sig í jólafötin fór hann í eldhúsið og reddaði rjómaskreytingunni á frómasinn fyrir mömmu sína.
Að skreyta frómas er nákvæmnisverk sem krefst einbeitni
Enda var móðirin sátt við framtak drengsins
Ánægð og stolt móðir. Drengur lætur ekki truflast
Ekki má gleyma sögunni um brúnuðu kartöflurnar. Þannig kartöflur tilheyra jú aðfangadagskvöldi á okkar heimili. Yfirleitt takast þær ágætlega, en stundum hafa karamellurnar orðið fullharðar. Núna fyrir einhverjum dögum horfðum við á Kastljós og þar var kokkur að fara yfir ýmis heilræði um jólamatreiðsluna. Nema hvað, þar kom trix um brúnaðar kartöflur. Við Gulla horfðum hvort á annað og sammæltumst um að muna trixið.

En mundum við það á aðfangadagskvöld? Ó, nei, ó, nei. Við brutum og brutum heilann - báða heilana vel að merkja - en gátum bara ekki munað neitt. Ég þaut því að tölvunni - rúv punktur is skástrik kastljós - og fann umræddan þátt. „Æ, já, auðvitað!“ sögðum við bæði.

Ég tók að mér að trix-brúna kartöflurnar og fórst það vel úr hendi. Greinilega gagnlegt trix.

Við borðstofuborðið var kátt - enda kartöflurnar góðar...
Móðir og dóttir

Sonur og móðir
Svo þurfti auðvitað að vaska upp. Ef dæma á af jólamyndum síðustu ára hefur mér tekist á undraverðan hátt að forðast uppvaskið. Í gær slapp ég hins vegar ekki. Enda þótti öðrum skemmtilegt að fylgjast með.
„Mamma, truflum pabba!“
Svo var farið að huga að tréinu og því sem þar lá undir. Að sjálfsögðu var hin hefðbundna mynd af börnum, tréi og pökkum tekin. Nema hvað, þar sem Tinnu Rut vantaði þetta árið, þá skaust móðirin sem elding inn á myndina. Myndin varð nú bara betri fyrir vikið.
Nú er farið að styttast í pakkana!
Að opna pakkana tók góða stund. Eins og alltaf. Mikið af bókum kom úr pökkunum þetta árið. Síðan litu margar skemmtilegar gjafir dagsins ljós, sumar meira að segja gagnlegar. Hún fjarverandi Tinna Rut stal þó senunni með sínum frábæru gjöfum.
Sveitalubbavínglas vakti mikla kátínu, en það er ríflega 30 sentilítrar að rúmmáli og með sultuloki.

Ekki var Ofurkonusvuntan síðri - alveg frábær svunta
Já, við söknuðum Tinnu Rutar. Því er ekki að neita. En kannski verðum við öll saman næstu jól. Hver veit?

Aðfangadagskvöld var skemmtilegt. Góð fjölskyldustund.

Alveg eins og á að vera.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...