Þarna hittust fjórir ættliðir, Rúnar Atli, pabbi hans, amma hans og langamma. Það gerist nú ekki á hverjum degi hjá syni mínum. Hann á nefnilega bara eina ömmu og eina langömmu. Hvorki afa né langafa. Þykir gutta þetta hið versta mál og hefur farið í það að útvega sér fósturafa. Hefur einn frændi hans samþykkt að vera kallaður afi af drengnum.
Nóg um það.
Þeir sem þekkja hana ömmu vita jú að hún stríðir við sjúkdóm sem veldur minnistapi. Vissi ég því ekki á hverju var von. En skemmst er frá að segja að gamla konan kom mér skemmtilega á óvart. Vissulega er minnið illilega farið, en amma var eiturhress og kjaftaði á henni hver tuska.
Alveg eins og ég man hana.
Hún sagðist muna eftir mér, virtist alveg með á hreinu hver Villi var, en sagðist þó ekki hefðu þekkt mig út á götu.
„Þú ert svo forstjóralegur,“ sagði gamla konan, „að ég hefði aldrei þekkt þig!“
Hm, ég er semsagt ekki forstjóralegur í hennar minningum. Jæja, ég get þó huggað mig við að vera forstjóralegur í dag. Þótti það reyndar skrýtið því ég var í gallabuxum og hnepptri lopapeysu.
Ég held að merkilegast við ömmu hafi mér fundist að hún gerir sér alveg grein fyrir sínu minnisleysi. Ég átti einhvern veginn ekki von á því. Einhvern tímann í samræðunum spurði hún mömmu hvort hún (amma) hefði tekið saman við pabba mömmu. Jú, jú, mamma hélt nú það.
„Og eignuðumst við einhver börn til viðbótar,“ vildi amma fá að vita. „Jú,“ sagði mamma, „tíu stykki!“
Þetta þótti ömmu stórmerkilegt, og tísti í henni yfir því að hafa átt svo mörg börn.
Svona gengu samræðurnar. Mér fannst gaman að því hve amma vildi fræðast mikið um sína eigin hagi. Eins og ég sagði að ofan, þá kom mér á óvart hvað hún gerði sér góða grein fyrir minnistapinu og spyr mikið um gamla tíð.
Og svo, alveg eins og í gamla daga, streymdu ráðleggingarnar frá gömlu konunni. Ég er núna miklu fróðari um barnauppeldi og Rúnar Atli veit að það má ekki láta allt eftir honum. Ég get þá vitnað í langömmu hans ef hann fer eitthvað að ybba gogg. Rúnar Atli gleymir henni ekki svo glatt. Honum fannst magnað að hún væri áttatíuogníu ára.
Rúnar Atli og langamma |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli