9. desember 2012

Fríhöfn hvað?

Einhvern tímann um daginn uppgötvaði ég að til eru s-afrískar kæfur sem eru virkilega góðar.

Nú held ég hún móðir mín blessunin krossi sig í bak og fyrir: „Vilhjálmur farinn að borða kæfu! Skyldi sólin ekki bara farin að ganga í kringum tunglið!“

Kannski.

Þessar kæfur sem ég komst upp á lagið með eru reyndar ekki kindakæfur, heldur gnýjakæfa og spjóthafrakæfa. (Gnýr nefnist gnu eða wildebeest á útlensku, og spjóthafur oryx eða gemsbok).

Í flottu kringlunni í Jóhannesarborg hef ég fundið sælkeraverslun sem selur svona hnossgæti. Ekki bara þessar tvær tegundir, heldur líka kæfur af sebrahestum, strútum og krókódílum. Og kannski einhverjum dýrum fleiri. Lítil dós af svona löguðu kostar 42 rönd, sem jafngildir 600 krónum. Svona hérumbil.

Og þá er komið að tilgangi þessa pistils.

Á flugvellinum hér í Jóhannesarborg - uppáhaldsflugvellinum mínum, vel að merkja - rakst ég á svona kæfur í búð einni áðan. Fríhafnarbúð, skal tekið fram.

Og hvað skyldi hnossgætið hafa kostað þar?

Jú, ekki nema 90 rönd dósin!

Aðeins 114 prósentum dýrari en í kringlunni flottu. Og kringla sú er ekki sú ódýrasta í veröldinni.

Sér er nú hver fríhöfnin...

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...