28. desember 2011

26. desember 2011

Hvað gerðirðu í gær?

Skrapp með frúnni áðan í matvörubúðina. Eigum von á matargestum í kvöld og aðeins þurfti að bæta á búrið.

Náunginn sem vigtar ávexti og grænmeti í búðinni spurði mig hvernig jólin hefðu verið.

,,Jú, ágæt, þakka þér fyrir,'' svaraði ég. ,,En þín jól?"

Náunginn hristi höfuðið og andvarpaði: ,,Ekki góð."

,,Nú?"

,,Mig vantar peninga," var svarið, ,,ef maður á peninga, þá er allt miklu betra."

Við ræddum aðeins hvort peningar væru virkilega svarið við öllu. Að lokum sagði hann: ,,Allt er á leiðinni fjandans til."

Ég var forvitinn hvað hann ætti við.

,,Jú, heimsendir nálgast. Allir spádómar Biblíunnar eru að rætast. Bráðum kemur heimsendir."

Þegar þarna var komið sögu var allt grænmeti vigtað, svo ég þakkaði pent fyrir og hélt áfram að versla. Heimsendir kemur varla í dag.

Svo kom að því að borga. Mjög almennileg afgreiðslustúlka spurði mig hvernig jólin hefðu verið. Þegar ég hafði sagt henni það kom næsta spurning:

,,Fórstu í messu í gær?"

Ekki gat ég svarað því með jái. Og fann vandlætingarstrauma frá þessari annars vinalegu stúlku.

Á leiðinni út í bíl velti ég því fyrir mér hvort hún hefði haldið að hefði farið í kirkju og því væri þetta gott umræðuefni, eða hvort augljóst væri að ég hefði ekki farið og því væri ráð að reyna að bjarga villuráfandi sauði.

Ætli seinni valkosturinn sé ekki líklegri.

25. desember 2011

Aðfangadagur; kominn og farinn

Jóladagur runninn upp hér í Lílongve. Þrjátíu-og-eitthvað stiga hiti og allir taka lífinu með ró. Rúnar Atli dundar sér í dótinu sínu, Tinna Rut og ég sitja úti bak við hús, hundurinn liggur undir borði og hrýtur, Dagmar Ýr prjónar og Gulla farin að stússast í eldhúsinu. Kötturinn... veit ekki hvað hann er að gera, en hænurnar vappa um garðinn.

Gærdagurinn var fínn, eins og við var að búast. Fyrri hluti hans fór í snatt, því ýmislegt þurfti að útrétta, svona eins og gengur og gerist. Svo var ýmislegt smálegt sem þurfti að klára. Síðast jólaskrautið þurfti að komast upp. Dútl við smákökur þurfti að klára og ýmislegt í þeim dúr.

Smákökur, já. Ég bakaði eina tegund, súkkulaðibitasmákökur, Tinna Rut og Gulla tóku piparkökur saman og Dagmar Ýr bakaði mömmukökur. Aðalmálið var auðvitað að leyfa Rúnari Atla að taka þátt í smákökubakstri, en svo æxluðust mál þannig að hann var alltaf upptekinn við eitthvað annað og tók því minnstan þátt í kökubakstrinum.

Svo var það piparkökuhúsið.

Æ, nei, ég held ég sleppi því að segja frá því. Skemmst er frá að segja að það mistókst. Allhrapalega.

Og ekki orð um það meir.

Jólin voru hefðbundin, ja, svona eins og hægt er þegar úti er hásumar og yfir þrjátíu stiga hiti. Jólafötin okkar Rúnars Atla voru t.d. ekki hefðbundin. Báðir vorum við í stuttbuxum og stuttermaskyrtu. Ætli við höfum ekki öll verið berfætt. Held það bara.

Jólasteikin var þó hefðbundin. Við fundum nefnilega svínahamborgarahrygg hér í búð um daginn. Hann smakkaðist vel. Við sáum úti við, en bak við hús erum við með ágætissvæði með matarborði og þar er líka sófasett og grillaðstaða. Þar er yfirleitt svalur vindblær um kvöldmatarleytið og því þægilegt að sitja þar úti og borða.

Ætli sé ekki við hæfi að fyrsta myndin hér sýni uppvöskunarliðið?


Við Dagmar Ýr vorum upptekin við ýmislegt annað mikilvægt, he-humm.

Heyrðu, svo gerðist reyndar merkilegur atburður seinnipartinn í gær. Algjörlega óundirbúinn.

Rúnar Atli missti tönn. Önnur tönnin sem fer þegar hann er að þurrka sér eftir sturtuferð. Ekki veit ég hvernig honum tekst að flækja handklæðinu utan um tönn, en hann hefur nú gert þetta tvisvar. Auðvitað var tekin mynd í tilefni atburðarins.


Þegar hann fór í háttinn um kvöldið, þá átti hann í miklu sálarstríði. Átti hann að setja tönnina undir koddann og fá 500 malavíska kvaka fyrir tönnina, eða átti hann að eiga hana sjálfur og fórna peningunum? Hann ákvað að halda þessari tönn og er því ekki 500 kvökum ríkari í dag. En er sáttur.

Jólatréið var óhefðbundið þetta árið. Við vorum aðeins of sein að kaupa okkur jólatré og voru þau búin þegar til átti að taka. Því skreyttum við bara í kringum arininn, sem við notum aldrei til að kveikja eld í, og skelltum pökkunum inn í arininn. Kom bara vel út.

Hér er myndin sem alltaf er tekin: Börnin hjá „tréinu“ og pökkunum. Takið eftir, öll eru berfætt.


Í bakgrunni sjást marglitir miðar upp á vegg. Á þeim stendur gleðileg jól á margvíslegustu tungumálum.  Veggurinn setur skemmtilegan svip á stofuna.

Eins og hefð er fyrir, þá sá Rúnar Atli um að sækja pakka, lesa á þá, og útdeila til viðeigandi fjölskyldumeðlims. Hann hefur sjóast í þessu í gegnum tíðina og er orðinn glúrinn við að dreifa gjöfunum, þ.a. sá sami sé ekki að opna marga í röð. Ja, reyndar gildir sú regla ekki alveg um hann sjálfan, en ástæðan er jú sú að hann fær megnið af gjöfunum og þarf því stundum að taka upp nokkra í röð.

En hér er guttinn að finna fyrsta pakkann. Ég held meira að segja að þetta sé pakki handa föður hans.


En eins og segir í einhverjum söngtexta, þá var gleðin við völd hjá okkur í gær. Hér er Rúnar Atli spenntur við að opna einn pakka. Auðvitað var hann ánægður með innihaldið. Hvað annað?


Eitthvað hefur stundum gengið brösulega hjá okkur Gullu að láta heimilisbókhaldið ganga upp í lok mánaðar. Því fékk ég þá snilldarhugmynd að gefa henni reiknivél. Héðan í frá mun bókhaldið sko ganga upp. Ekki spurning.


Ein besta gjöfin hennar Tinnu Rutar kom frá systur hennar. Nestisbox og -brúsi merkt bíómyndinni Martröðin fyrir jólin (e. The nightmare before Christmas). Þessi ungdómur er bara ekki alveg í lagi...


Úr Eyjabakkanum komu tvær syrpur. Kátína yfir þeim. Fótboltasokkarnir voru líka vel þegnir, þótt engin sé mynd af þeim.


„Bíddu, hvað er að þessu liði? Bíómynd handa mér sem var búin til þegar pabbi og mamma voru enn táningar.“ Þetta virtust fyrstu viðbrögð Rúnars Atla þegar hann fékk fyrstu myndina um ferðalög Griswald fjölskyldunnar. Honum þykir jólamyndin með skemmtilegri myndum, en eitthvað virtist hann efins um gæði þessarar.


„Hver fær næsta pakka?“ Vandasamt val.


Að lokum er hér ein mynd af Rúnari Atla í jólagjöfinni frá ömmu sinni. Keppnistreyja UMF Grundarfjarðar. Fer honum vel. Enda númer 10, alveg eins og Messi!


Allir fóru sofa í gærkvöldi, þreyttir en sáttir.

Kvöldið var skemmtilegt, þótt á nýjum stað væri. Það undarlegasta var þegar nágrannar okkar tóku upp á því að skjóta upp flugeldum. Það hef ég aldrei vitað neins staðar á aðfangadagskvöldi. Hundurinn okkar var ekki sáttur og kom fljúgandi inn í stofu, hríðskjálfandi. Þetta er annars útihundur, sem aldrei fær að koma inn, en við sáum aumur á honum í gær útaf þessum hávaða. Flugeldahernaðurinn stóð þó ekki yfir lengi.

Svo má ekki gleyma að minnast á flotta gjöf sem við Gulla fengum frá dætrum okkar. Myndaalbúm með hinum og þessum myndum úr okkar lífi. Þær eyddu þónokkrum tíma í að finna myndir og skanna inn og síðan létu þær gera flotta bók úr þessu hjá Odda. Alveg meiriháttar flott gjöf, sem kom foreldrunum mjög á óvart.

Skemmtilegt aðfangadagskvöld þetta árið.

21. desember 2011

Feðgin

Í gær skellti fjölskyldan sér á veitingastað. Þá var þessi mynd tekin af mér og Dagmar Ýri. Sjö ára myndasmiður stóð sig vel þar.Skriffinnskan endalausa

Nú reiknast mér til að við séum búin að eiga heima í Malaví í ríflega fjóra mánuði. Allan þann tíma höfum við staðið í stappi við að skrá bílinn okkar. Bílinn komum við með frá Namibíu og reiknuðum ekki með neinu veseni við þetta. En, þetta hefur reynst vera sagan endalausa. Alltaf eitthvað nýtt sem þarf að gera, alltaf nýtt eyðublað sem þarf, og ég veit ekki hvað og hvað. Líklega hefur pirrað mig mest hvað erfitt hefur reynst að fá upplýsingar um ferlið fyrirfram. Oft virðist viðhorfið hér vera á þann veg að ef ekki er spurt nákvæmlega um hlutinn þá þurfi ekki að segja frá honum. Reyndar lendir maður líka í þessu í Namibíu, en hér virðist þetta útbreiddari siður.

En í gær gerðist hið ótrúlega: Bíllinn komst á malavískar númeraplötur! Og kerran okkar líka.Ekki er verra að hafa fengið flott númer.

Í dag verður svo gengið frá tryggingu og þá er allt í höfn.

Eftir rúmlega fjögurra mánaða stapp.

Skiptir stærðin máli?

Þá eru fyrstu eggin komin. Loksins eru hænurnar farnar að skilja til hvers er ætlast af þeim.

En spurningin er þó: skiptir stærðin máli?

Hér á myndinni eru fimm egg frá okkar hænum og eitt búðarkeypt egg.


Okkar egg eru nú ósköp lítil, ekki satt?

Við erum nú ekki miklir bændur og vitum lítið hvað við erum að gera í þessu blessaða dýrahaldi. Mér finnst ekki ólíklegt að eggin stækki eftir því sem hænurnar eldast.

Kemur í ljós.

14. desember 2011

Silfur-hvað?

Tuttugu og fimm ár eru langur tími.

Aldarfjórðungur.

Ríflega helmingur af minni ævi. Svona nokkurn veginn 53%.

Silfur, segja þeir sem þekkja til.

Silfurbrúðkaup.

Já, í dag eru 25 ár síðan við Gulla giftumst.

Mér finnst nú ekkert svo rosalega langt síðan. Einhvern veginn finnst mér að talningin hljóti eitthvað að vera vitlaus hjá okkur. En svo er víst ekki. 2011 mínus 1986 gera víst 25.

Ég man að einhver spurði okkur í kringum brúðkaupsdaginn: Og hvenær kemur svo barnið?

Gulla hlyti auðvitað að vera ófrísk úr því við vorum að taka upp á þessu. Ég 21 árs, alveg að verða 22 og hún 19 ára. Nei, ekkert barn á leiðinni. Það kom ríflega einu og hálfu ári síðar.

Skondið er til þess að hugsa að eldri dóttirin er í dag 23 ára og sú yngri 19. Á þeim aldri sem við vorum þegar við giftum okkur.

Eftir því sem ég best veit eru þær ekkert á þeim buxunum að gifta sig á næstunni.

En það er skemmtilegt að kíkja á moggann frá 14. desember 1986 og sjá hvað var helst í fréttum (á bls. 2, því þá voru bara erlendar fréttir á forsíðu):
  • Mæðrastyrksnefnd: Ástandið síst betra en í fyrra
  • Mælingar sýna fleiri gos undir jöklinum
  • Fjárlög samþykkt til þriðju umræðu
Hefur nokkuð breyst?

Veit það svei mér þá ekki. Þetta gæti vel verið úr mogganum í dag.

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig okkur hefur tekist að vera gift svona lengi. Ekki síst þegar ég les fréttir af hjónaböndum fræga fólksins, sem oftar en ekki telja endingartíma í mánuðum. Ég veit svei mér ekki svarið. En mér virðist þó að oftast líði okkur Gullu vel saman. Þyki gott að vita af hvort öðru nálægt.

Hvað ætlum við svo að gera til hátíðarbrigða?

Ekkert voðalega mikið. Við skellum okkur líklega út að borða í kvöld, en lítið annað er planað. Guttinn verður auðvitað í eftirdragi. Ekki þýðir að skilja hann eftir útundan. Við höfum sjaldan haldið mikið upp á daginn. Fórum á súperflott og rándýrt gistihús í eyðimörkinni í Namibíu fyrir fimm árum. Ætli við gerum ekki eitthvað flott á perlubrúðkaupinu.

En dæturnar tvær eru á leiðinni til okkar, sitja núna á flugvelli í Lundúnum, og það verður besta gjöfin að öll fjölskyldan verður saman um jólin.

Úff, manni verður nú hálfóglatt af væmninni...

En, þetta er samt satt.

Gulla, skál fyrir 25 árunum okkar! Megi þau verða mörg til viðbótar.

12. desember 2011

Fjölhæf frúin í starfsnámi

Fyrir einhverjum vikum komum við á stað þar sem konur nokkrar voru að mala maísbaunir. Gulla fékk að prófa við mikla kátínu nærstaddra. Hún bar sig nú þokkalega að við þetta, en ég veit ekki hvort hún myndi endast í djobbinu dag eftir dag.


Lífið er ljúft

Hvað er betra en að slaka á í jólafríinu með paddann hennar mömmu sinnar á grjónapúða systur sinnar?


Æ, já, lífið er ljúft.

11. desember 2011

Kominn aftur til Lílongve

Kominn aftur heim til Lílongve. Skemmtilegri ferð til Namibíu lokið. Þangað er alltaf gaman að koma.

En, sem sagt kominn heim á nýjan leik. Það var gaman að hitta Gullu og Rúnar Atla á ný.

Nú vantar bara dæturnar. Og það styttist í þær. Akkúrat þegar ég skrifa þetta, þá situr Tinna Rut á flugvellinum í Vancouver. Búin með fyrsta áfangann á ferðalaginu sínu. Á morgun lendir hún í Keflavík. Gistir á Fróni í tvær nætur og síðan halda systurnar saman í Afríkuferð. Á fimmtudag lenda þær hér hjá okkur.

Þá verður gaman!

10. desember 2011

Gripinn ,,glóðvolgur''

Lentur í Jóhannesarborg á leiðinni til Lílongve. Þarf að gista hér eina nótt, því flug til Lílongve eru ekki mörg á hverjum degi.

Ég þarf því formlega að fara inn í Suður-Afríku, með tilheyrandi innflytjendaeftirliti. Yfirleitt gengur það smurt fyrir sig. Einn af kostum þess að vera með íslenskt vegabréf er að hægt er að fara til mjög margra landa án vegabréfsáritunar.

Rétt áður en kemur að manni, þá þarf maður að horfa í myndavél sem á einhvern snilldarhátt mælir hitastig húðarinnar á viðkomandi. Komu þeir með þetta fyrir nokkrum árum þegar allir voru skíthræddir við svína- eða fuglaflensu. Þetta tekur augnablik og fólk rennur framhjá þessari myndavél. Fær grænt ljós í bókstaflegri merkingu. Þeir sem sjá um myndavélina virðast frekar leiðir. Enda lítið að gerast.

Þar til kom að mér!

Fór ekki bévítans vélin að blikka rauðu ljósi. Ég bölvaði klaufaskapnum í sjálfum mér að geta ekki staðið kjurr, en það þarf maður að gera. Reyni því að vera grafkyrr, en alltaf blikkar rautt.

Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að vera svellkaldur og labba til næsta innflytjendaeftirlitsfulltrúa? Í því sem svona hugsanir þjóta um kollinn á mér, þá lifnar allt í einu yfir verðinum sem glápir á myndavélina. Hann kallar á stúlku sem kemur til mín, segir mér að véli mæli líkamshita minn 37,85 gráður. Því þurfi ég að tala við hjúkkuna á vakt.

Fyrst fékk ég þau að fá stimpilinn í vegabréfið, en síðan var ég leiddur eins og glæpamaður í öfuga átt við alla hina.

Skemmtilegt.

Ég hafði þá tilfinningu að allir væru að stinga saman nefjum og velta því fyrir sér hvað þessi vafasamlega útlítandi náungi hefði til saka unnið.

Ég hitti hjúkkuna. Sagði henni að ég hefði verið í rótarfyllingu hjá tannlækninum mínum í Windhoek fyrr í dag. Sem var satt.

Þess vegna ertu svona bólginn á vinstri kinninni? spurði hún.

Sjálfsagt leit ég út fyrir að hafa lent í slagsmálum og með nokkra daga skeggbrodda til að kóróna allt.

Hjúkkan stakk hitamæli í eyrað á mér. 37,5 var útkoman þar.


Svo þakkaði hún fyrir og bað mig að fara vel með mig í kvöld.

Það ætla ég að gera.

4. desember 2011

Jólalegt í Jóhannesarborg

Sit nú á flugvellinum í Jóhannesarborg.

Uppáhaldsflugvellinum mínum. Drekk kaffi mokka, maula smáköku og spjalla við eiginkonuna á feisbúkk.

Hér óma jólalög úr hátölurum flugstöðvarinnar.

Hér er ein mynd úr komusalnum. Risastórt jólatré þar.


Svei mér þá ef ég fer ekki að komast í jólaskap.

Hávaðasamir ferðalangar

Að mínu mati er ég frekar umburðalyndur.

Eins og flestir hef ég þó mína fordóma. Reyni þó eftir fremsta megni að halda þeim fyrir sjálfan mig og umgangast alla eins. Annarra er að dæma hvernig það gengur.

Þó eru einir fordómar mínir sem mér reynist erfitt að hemja. Þetta eru fordómar gagnvart Bandaríkjamönnum á ferðalögum. Fæ ég iðulega ónotatilfinningu þegar ég heyri í Bandaríkjamönnum nálægt mér á flugvöllum.

Á ferðalögum lendi ég oft í því að spjalla við samferðafólk mitt um daginn og veginn. Held ég rómi mínum þá frekar lágum, þ.a. viðmælandinn heyri í mér og kannski heyra einhverjir sem nálægt standa samtalið, ef þeir hafa áhuga.

Bandaríkjamenn, almennt, haga sér öðrum vísi. Einhverra hluta vegna er þeim nauðsynlegt að allir innan 50 metra radíuss, að lágmarki, heyri allt sem þeir hafa að segja. Ég gæti því núna sagt ykkur allt sem skiptir máli um bandarískan trúboða og hans fjölskyldu, en þau hafa búið í Malaví í tvö ár. Bróðir konunnar rekur þjónustufyrirtæki í Bandaríkjunum og eiginmaðurinn vann fyrir hann á árum áður. Fyrirtæki bróðurins gengur ágætlega, þótt tæpt hafi staðið eftir fjármálakrísuna 2008. Ég get sagt ykkur ýmislegt sem þetta fólk upplifði á stúdentagörðunum í háskóla í Missouri fylki í Bandaríkjunum. Að þau hafa svolitlar áhyggjur af uppeldi barnanna sinna í Malaví, og nú eru þau að fara til Bandaríkjanna í frí í þrjár vikur. Faðir konunnar flýgur mikið með Delta flugfélaginu og þykir það besta flugfélag í heimi. Bróðir eiginmannsins þarf mikið að ferðast í vinnunni og hann er algjörlega sammála þessu um Delta flugfélagið.

Úff, og á milli mín og þessa fólks stóðu líklega um 10 manns.

Svo voru aðrir Bandaríkjamenn sem eru að flytja fyrir fullt og allt frá Malaví eftir fimm ára veru. Þeirra fjölskyldur í Bandaríkjunum ....

... æ-nei, ég hlífi ykkur við þeirra sögu.

3. desember 2011

Horft á heiminn úr lofti

Í dag átti ég ágætt tækifæri að horfa úr lofti á tvö lönd. Malaví, annars vegar, og S-Afríku, hins vegar. Ég flaug reyndar yfir Simbabve líka, en var ekkert að glápa út um gluggann þá.

 Malaví er eitt af þéttbýlustu löndum í heimi. Ef vötn eru dregin frá, þá búa tæplega 16 milljónir manna á rúmlega 94 þúsund ferkílómetrum. Níu þúsund færri ferkílómetrar en Ísland. Margfalt fleira fólk. En það svæði sem ég sá út um gluggann í dag (flugleiðin milli Lílongve og Blantyre) var ekki þéttbýlt. Fjalllent og ekki mikið af íbúum og ekki mikið af ökrum.

Akrarnir í Malaví eru frekar litlir, enda einstaklingar sem plægja þá með eigin vinnuafli. Engir traktorar og engir uxar sem draga plóga. Nei, tvær, þrjár manneskjur sem rífa upp jörðina með einhverju áhaldi sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku. Handplógur, kannski?

 Þá voru nú akrarnir öðrum vísi nálægt Jóhannesarborg. Stærðarinnar flæmi. Það sem ég tek alltaf eftir þegar ég flýg þarna yfir er hversu margir akranna þar eru kringlóttir. Eins og einhver hafi tekið risastóran sirkil og teiknað heilmikið af kringlóttum ökrum. Þeir eru misstórir, þeir stærstu hljóta að vera með radíus á annað hundrað metra. Reyndar er erfitt að meta þetta úr lofti. Lögunin er til komin vegna vökvunarkerfisins. Frá miðju hringsins er sett upp vatnsrör á hjólum sem nær út að jaðri hringsins. Einhver mótor sér svo til þess að rörið fer hring eftir hring þegar er vökvað. Nokkuð sniðugt kerfi, sem ég hef líka séð sumstaðar í Namibíu.

 Í Malaví eru áveitukerfi fátíð. Þar treysta menn á rigninguna, þ.e.a.s. guð og lukkuna. Stundum er lukkan hliðholl, stundum ekki. Þessa dagana liggja menn á bæn og biðja þess að rigningartímabilið hefjist. Ef það gerist ekki bráðum, þá verður lítill matur til á næsta ári.

Jólaboðskapur

Jæja, þá er ég búinn að horfa á Love actually. Einhvern veginn er orðinn fastur punktur hjá mér á aðventunni að horfa á þessa mynd. Er með hana á ipodinum mínum og horfði á hana í flugvélinni til Jóhannesarborgar.

Mjúkur karlmaður.

Margar af smásögunum í þessari mynd finnast mér skemmtilegar. Sumar þó síður, en engin skemmir myndina.

Boðskapur myndarinnar er fyrst og fremst að á jólunum eigi maður að segja sannleikann, láta allt flakka, þótt maður sé skíthræddur við það. Og að þeir sem heyra sannleikann eigi ekki að erfa það við mann.

Ég man nú ekki eftir þessum boðskap í kringum íslensk jól. Allir eiga að vera góðir og svoleiðis, en að menn eigi að segja sannleikann á þessum tíma frekar en öðrum... nei, ég man ekki til þess.

Kannski er þetta eitthvað sem við ættum að taka upp?

Ferðalagið mjakast

Það hafðist að komast til Jóhannesarborgar. Ég fékk brottfararspjald á elleftu stundu í Blantyre, en vélin var full útúr dyrum. Við vorum nokkur sem lentum á biðlista, en allir komust með. Einni fjögurra manna fjölskyldu var sagt að þrjú sæti væru laus: „Hvert ykkar ætlar að verða eftir?“

Svo bætti starfsmaður flugfélagsins snöggt við: „Bara að grínast! Þið komist öll með.“

Hefðu ekki einhverjir sprungið? Nokkuð hugaður náungi að koma með svona brandara. Kannski er hann bara svona einfaldur að fatta ekki að mörgum þætti svona spaug ekki mjög spaugilegt.

En, ég komst sem sagt til Jóhannesarborgar. Það tók mig smástund að finna einhvern á flugvellinum sem þekkti mín mál, en það tókst á endanum. Núna sit ég á litlu gistiheimili ekki langt frá vellinum. Gistihús Petru heitir það. Lítið en huggulegt.

Þeir stórgræða á vandræðum Air Malaví, eigendur þessa gistihúss. Allt upp í þrjátíu gestir í einu hafa gist hér strandaglópar. Hér er mér sagt að Air Malaví komist ekki í gang með millilandaflug fyrr en í janúar.

Flugfélagið hlýtur að tapa formúu á þessu. Og svo er það algjörlega rúið trausti. Það er auðvitað það versta.

Hér verð ég til ellefu í fyrramálið. Þá held ég út á flugvöll og flýg til Windhoek.

Ég hlakka til.

Spenna á flugvelli

Er nú kominn til Blantyre í fyrsta sinn. Ja, allavegana kominn á flugvöllinn þar. Hér er ég búinn að sitja í þrjá tíma. Góður tveir og hálfur tími eftir.

Ég vona í það minnsta að biðin verði ekki lengri.

En ýmislegt getur enn gerst.

Þegar ég tékkaði mig inn áðan var mér tjáð að vélin væri full. En, sem greiðasemi við Air Malaví væri ég þó efstur á biðlistanum.

Maður er þó í fyrsta sæti einhvers staðar.

Nú er bara að bíða og sjá.

30. nóvember 2011

Eintómt vesen

Æ, það ríður ekki við einteyming hér í Malaví.

Í næstu viku verð ég í Namibíu. Þarf að skoða það allra síðasta sem íslenskir skattgreiðendur aðstoða Namibíumenn við. Síðustu sex vatnsveiturnar hjá Himbaættbálkinum í norður-Namibíu.

Þetta verður örugglega skemmtileg ferð. Ég hef jú eytt níu árum ævi minnar í Namibíu og mér finnst ég alltaf vera að koma heim þegar ég lendi á flugvellinum í Windhoek. Áreiðanlega fæ ég þá tilfinningu líka í þetta sinn.

Ég átti að fara héðan á sunnudaginn kemur, flug með Air Malaví klukkan níu að morgni, millilenda í Jóhannesarborg, bíða þar í smátíma og svo flug áfram til Windhoek.

En nú er komið babb í bátinn.

Air Malaví á eina flugvél fyrir millilandaflug. Er reyndar leiguvél að ég held. Sú er búin að sitja á jörðu niðri í rúma viku. Ekki er alveg á hreinu hvers vegna, einhver viðhaldsspurning að mér skilst. En, á morgun, 1. desember, átti hún að fara af stað aftur. Fyrr í dag fékk ég hins vegar símtal frá ferðaskrifstofunni minni þar sem mér var tjáð að vélin yrði ekki komin aftur í gagnið á sunnudag.

Því þarf ég núna að vakna eldsnemma á laugardaginn og fljúga klukkan sjö að morgni til Blantyre, sem er hin stóra borgin í Malaví. Fimmtíu mínútna flug, eða svo. Síðan þarf ég að hanga á þeim flugvelli, sem er víst ekkert mjög heimsborgarlegur, í nálega sex klukkutíma og fljúga síðan til Jóhannesarborgar með Flugleiðum Suður-Afríkumanna. Treðst inn á hótel, á kostnað Air Malaví vel að merkja, og þarf að vera þar eitthvað fram yfir hádegi á sunnudag.

Ekki mjög spennandi að þurfa að bæta degi við ferðalagið. Ef ég kæmist alla leið til Windhoek væri mér sama, en að hanga í Jóhannesarborg þykir mér ekki skemmtileg tilhugsun.

Einhvern vegist virðist óhamingju Malaví verða allt að vopni um þessar mundir.

26. nóvember 2011

Öryggið ekki alveg á oddinum

Ýmislegt í Malaví er ekki eins og á Íslandi. T.d. er frágangur af ýmsu tagi frekar lakari hér en heima á Fróni. Yfirleitt skiptir þetta nú ekki máli, en þegar kemur að rafmagni þá er mér stundum um og ó.

Hér lafa rafmagnsleiðslur þvers og kruss um húsið okkar. Ljósastæði lafa á vírunum og aukainnstungur eru búnar til eftir behag. Ekki má gleyma öllum innileiðslunum sem eru utandyra.

Nei, stundum finnst mér furðulegt að húsið skuli ekki löngu vera búið að fuðra upp.

Svo eru stöðugar rafmagnstruflanir ekki til að róa mann. Því þegar rafmagnið kemur á eftir hlé, þá kemur oft „rafmagnshögg“ sem er mun öflugra en straumurinn er venjulega og á það til að skemma rafmagnstæki.

Svo virðist ekki vera til einn einasti útlærði rafvirki í landinu. Allir sem gefa sig út fyrir að laga rafmagnsvandamál virðast almuligmenn, sem gera við allt sem gera þarf við. Og árangurinn er misjafn.

Það nýjasta var vandamál með þvottavélina okkar. Slökknaði bara á henni, en með því að slá hressilega á klóna í innstungunni þá hrökk hún í gang á nýjan leik.

Í smástund.

Svo bara hætti þvottavélin að virka.

Ég tók mig til í morgun að skoða þetta. Fljótlega beindist athygli mín að klónni. Gekk mér illa að ná henni úr. Var eins og límd. Tókst þó að lokum með hjálp „leðurmannsins“ míns.

Ekki mætti mér fögur sjón.


Er nokkur furða að mig undri að kofinn sé ekki búinn að fuðra upp?

Keypti mér nýja kló. S-afríska, því bresku klærnar sem seldar eru hér eru handónýtar eftirlíkingar. Og nú er þvottavélin farin að þvo á nýjan leik.

Þá er bara spurningin hvernig maður tekur á vatnsleysinu...?

Flogist á við fiðurfé

Nú fara hænsnin hennar Gullu út á hverjum degi. Garðyrkjumaðurinn okkar, Fillimon, spurði mig hvort hann ætti að setja þau inn áður en hann færi heim. Mér þótti það hinn mesti óþarfi. Einn dag um daginn sáum við Gulla og Rúnar Atli nefnilega um að gera þetta og gekk vel.

Þegar fór að rökkva fórum við Rúnar Atli út til að koma hænsnunum inn. Fengum vörðinn með okkur í lið. Hundurinn og kötturinn fylgdust líka með atganginum. En, ekki tókst nú betur til en svo að þrjár af fimmtán afvegaleiddust og hittu ekki á réttar dyr.

Fylgdi þessu ævintýri greinilega mikið hugarangur, því tvær hænur tókust á háaloft við að reyna að sleppa frá okkur. Fór þetta þannig að króa þurfti hverja af fyrir sig og tvær þurfti að handsama. Sú þriðja sá sitt óvænna og fór fríviljug inn.

Rúnari Atla þótti þetta gaman. Ekki síst vegna þess að hann fékk að halda á tveimur.

Snúllu líst ekkert á þetta. Líklega abbó.

Hér er drengur orðinn alvanur og ánægður með sjálfan sig.  Snúlla niðurbeygð í baksýn.
Eitt lærðum við af þessu. Það er auðveldara að reka stærri hænsnahóp heldur en minni.

Svo lærir sem lifir.

25. nóvember 2011

30 ár eru langur tími

Í dag eru 30 ár síðan karl faðir minn lést.

Það er langur tími.

Þá var ég 16 ára. Ekki mjög gamall. Ég man mér þóttu fréttirnar óraunverulegar og einhvern tíma tók fyrir þær að síast þannig inn að ég skildi þær.

En 30 ár eru langur tími.

Í dag man ég ekki hvernig rödd pabba var. Það finnst mér leiðinlegt. Þá voru ekki upptökuvélar á hverju strái eins og í dag. Því verður maður að treysta á minningarnar og þær verða auðvitað gloppóttar með tímanum. Oft tengjast minningarnar ljósmyndum og mig grunar að smátt og smátt breytist minningarnar á þann hátt að maður fari að búa til einhvern viðburð í kringum myndina. Sérstaklega þegar maður var mjög ungur sjálfur.

Hér erum við feðgarnir á góðri stundu. Á sólríkum vetrardegi á Snæfellsnesinu.


Stundum velti ég fyrir mér hvað honum hefði þótt um líf mitt. Ég ímynda mér að honum hefði þótt það forvitnilegt. Að sonurinn skyldi enda sem einhvers konar heimshornaflakkari. Ég hef nefnilega þá tilfinningu að hann hafi haft ævintýraþrá, þótt ég svosum viti það ekki. Ég hef síðar á ævinni áttað mig á því að ég þekki pabba ekki mjög vel. Ekki sem einstakling. Þekki hann auðvitað sem föður, en veit ekki hvað honum þótti skemmtilegt, hvað honum þótti fyndið, hvað fór í taugarnar á honum. Og þar fram eftir götunum.

En mig grunar að í honum hafi blundað ævintýraþrá.

Einhvern tímann á sjötta áratug síðustu aldar fór hann til Bandaríkjanna í boði Catepillar-verksmiðjanna. Sagan segir að hann hafi þótt það flinkur á vinnuvélar að honum hafi staðið til boða starf í Bandaríkjunum. Ekkert varð þó af því.

Kannski eins gott, því allt eins er líklegt að ég hefði aldrei fæðst ef hann hefði flutt þangað.

20. nóvember 2011

Ung sál og Rocky 4

Undanfarið hefur ein sjónvarpsstöð hér farið í gegnum Rocky-myndirnar. Sá ég um daginn fyrstu myndina og skemmti mér vel yfir henni. Ekki er ég frá því að hún sé besta myndin, ekki síst vegna endisins. Í gær rákum við augun í að sýna átti fjórðu myndina, þessa þar sem Dolph Lundgren leikur sovéska boxmaskínu sem enginn mannlegur máttur getur stöðvað. Ákváðum við að gera fjölskyldukvöld úr þessu: bíómynd og popp og kósí fílingur í sófanum. Rúnar Atli hefur aldrei séð Rocky mynd áður og þótti spennandi tilhugsun að sjá mynd um hnefaleika.

Svo byrjaði myndin og frekar snemma deyr einn vinur Rockys í hringnum eftir þung högg frá þeim sovétska. Vitum við ekki fyrr en Rúnar Atli rekur upp þetta skaðræðisóp og fer að hágráta. Drengur var bara óhuggandi. Við skildum ekki neitt í neinu og reyndum að fá uppúr honum hvort, og þá hvar, hann væri slasaður.

Loks nær hann að stynja upp: ,,Þetta er svo sorgleg mynd!''

Það var nefnilega það. Saklausri og ungri sál ofbauð óréttlætið sem hún varð þarna vitni að.

En gráturinn rénaði að lokum og myndin var tekin í sátt.

17. nóvember 2011

Útsýnið af skrifstofunni

Er þessa vikuna í Mangochi við strendur Malaví-vatns. Útsýnið af „skrifstofunni” er flott, ekki satt?


16. nóvember 2011

Fjölþjóðlegur skóli

Í hádeginu sl. mánudag fór ég í heimsókn í bekkinn hans Rúnars Atla. Tilefnið var að bekkurinn hans var búinn með arkitektarþemað og var foreldrum kynnt nýtt þema, en það er um mat. Foreldrarnir áttu því að koma með einhvern rétt með sér. Krakkarnir eiga núna að grafast fyrir um hvaðan maturinn, sem er á þeirra borðum á hverjum degi, kemur. Mér finnst þessi kennsluaðferð skemmtileg. Það er alltaf eitthvað þema í gangi, þ.a. krakkarnir eru með eitthvað markmið að vinna að, og síðan er fléttað inn í þetta lestri, skrift og reikningi. Ég ímynda mér að skólinn verði skemmtilegri fyrir vikið. Þarna læra krakkarnir líka að vinna undir pressu, því þemað endar á ákveðnum degi og þá þarf allt að vera tilbúið. Núna eiga þau að skrifa litla bók um hvernig maturinn fer frá því að vera í sveitinni þangað til hann endar á disknum.

Í árganginum hans Rúnars Atla, sem kallast þriðja ár - samsvarar öðrum bekk heima - eru líklega nálægt 50 krakkar í þremur bekkjum. Allir voru saman að heilsa upp á foreldrana. Gaman er að sjá hversu blandaður hópurinn er. Þrír hópar eru mest áberandi, hvítir, svartir og indverskir, en svo er slæðingur af krökkum annars staðar frá. Þegar maður sér svona blandaðan hóp þá sér maður vel hvað krakkar eru allsstaðar eins. Allir spenntir að sýna foreldrunum hvað verið er að gera, allir fóru að kjafta hver við annan ef kennarinn gaf aðeins lausan tauminn o.s.frv. Að vera í svona hóp hlýtur að gefa krökkum allt aðra mynd af öðrum menningar- og trúarheimum en þegar maður er í einsleitum hóp, eins og t.d. þegar ég var í skóla.

Fínt mál.

13. nóvember 2011

Margt lagt á sig fyrir börnin

Gulla er í foreldraráði í skólanum hans Rúnars Atla. Mætir öðru hverju á fundi vegna þessa, en annars verð ég nú lítið var við þetta stúss hennar.

Þar til á fimmtudaginn.

Þegar ég kom heim úr vinnunni þann daginn biðu mín átta kíló af maísbaunum.

„Viltu poppa, Villi minn?“

Daginn eftir var nefnilega fjáröflunarsamkunda. Verið að safna fyrir einhverju skýli til að börnin geti verið í skjóli í frímínútum. Var haldin skemmtun á einum af íþróttavöllum skólans. Þar spilaði hljómsveit, hægt var að kaupa sér ýmislegt í svanginn og svo var flugeldasýning. Heilmikið um að vera.

„Jú, jú, ég skal poppa.“

Ríflega þrír tímar fóru í poppunina. Sjálfsagt fjóra lítra af jurtaolíu þurfti. Vandamálið var þó helst að átta kíló af maísbaunum taka töluvert pláss þegar búið er að poppa þau. Því þurfti að leita nýrra hugmynda um ílát. Sem betur fer eigum við nokkra stóra plastkassa og svo endaði ég með að nota stórt kælibox undir popp þegar allt annað þraut.

Ég hef aldrei poppað svona mikið á ævinni í einu. Í dag er þetta alltaf örbylgjupopp. Minnir að einhvern tímann hafi ég poppað tvo potta fyrir mörgum árum. Þeir urðu sko gott fleiri en tveir í þetta sinn. Um tíma var ég reyndar með tvo potta á eldavélinni í einu, en svo fór að brenna við í öðrum, þannig að ég snarlega hætti með hann. Úff, en sóðaskapurinn sem fylgir svona löguðu. Gólfið varð flughált af olíunni.

Gulla gerði svo sitt. Mokaði poppinu í litla plastpoka og batt fyrir. Guð má vita hversu margir þeir urðu.

Margir.

En ég var ekki sloppinn þar. Gulla hafði náðarsamlegast boðið mig fram sem grillara á föstudagskvöldið. Ég mætti því með mína grilltöng og derhúfu með eðalsænsku ljósi undir derinu. Maður verður jú að sjá það sem maður grillar.

Við grillið stóð ég svo í tæpa þrjá klukkutíma. Ekki veit ég hvað ég grillaði mikið af kjúklingaborgurum, pylsum og kjúklingum á spjóti. En heitt var mér orðið.

Ég er ekki frá því að hafa verið með harðsperrur í gær eftir þetta.

Þrátt fyrir puð var þetta gaman. Og tíminn leið hratt. Ábyggilega safnaðist hellingur af peningum, því þarna var fullt af fólki.

Flugeldasýningin var flott. Jafnaðist ekki á við áramótasýningar á Íslandi, en hér eru flugeldar sjaldséðir. Það flottasta fannst mér var hversu áhorfendur lifðu sig inn í flugeldasýninguna. Hrifningarandköf tekin yfir hverjum einasta flugeldi og úað og æjað þegar ljósadýrðin lýsti allt upp.

Það hefði verið flott að hafa eina stóra áramótatertu að heiman.

12. nóvember 2011

Margt kemur út úr skápnum

Stóð í stússi í morgun að koma skrifborðinu mínu í gagnið heima fyrir. Þurfti að sækja eitthvað í neðstu hillu í skáp. Þá mætir mér könguló á leið út úr skápnum.

Ég hef aldrei séð jafnstóra könguló heima hjá mér. Dæmi hver sem vill:8. nóvember 2011

Fólksflutningar frá Grikklandi

Fyrir mörgum árum lærði ég smávegis í lýðfræði sem hluta af einhverjum námskeiðum í háskóla. Þar man ég eftir kenningum um hverjir það væru sem leggðu helst í það ævintýri að flytjast með fjöldskylduna til útlanda og setjast þar að. Kenningarnar voru flestar á þann veg að þarna væri fólk sem hefði áræði og þor. Hefði frumkvæði og elju. Væri yfirleitt á fyrri hluta starfsævi sinnar og ætti því mörg ár eftir sem skattgreiðendur. Væri vel menntað og hefði menntast á kostnað heimalandsins. Væri yfirleitt fólk sem eftirsjá væri af.

Undanfarna daga hef ég hugsað svolítið um þetta. Í bílnum hlusta ég mikið á afrísku útgáfu BBC fréttastöðvarinnar, því helstu útvarpsstöðvar hér í Malaví senda iðulega út á tungumáli sem ég skil ekki. Það er reyndar lítið sem gefur til kynna þessa dagana að þetta sé afríkönskuseruð útgáfa af fréttum, því  vandamál Evrópu taka mest af útsendingartímanum. Þar á meðal ástandið í Grikklandi.

BBC gerir mikið af því að fá fólk í því landi sem til umfjöllunar er til að taka þátt í umræðum. Þetta er auðvelt á tölvuöldinni. Ég hef undanfarið heyrt marga unga Grikki, líklega á aldrinum 25-35 ára, ræða ástandið í sínu heimalandi. Yfirleitt vel menntað fólk sem talar góða ensku. Það sem einkennir tal þeirra er gríðarlegt vonleysi. Fólk sér enga leið úr þeim vanda sem Grikkland er komið í. Einnig eru þau reið. Mikil reiði ólgar í þeim, bæði gagnvart stjórnvöldum og þeim ríku (hverjir sem það nú eru). Allir segjast vera að spá í að flytjast á brott og allir segja að flestir sínir vinir séu þegar farnir.

Ég veit auðvitað ekkert hversu dæmigert þetta fólk er fyrir unga Grikki. En, allt þetta fólk sem ég heyri í er á sama máli: Engin framtíð bíður þeirra í Grikklandi.

Ef það stendur við orð sín og flyst af landi brott, þá velti ég fyrir mér áhrifunum á Grikkland að því loknu. Í ljósi kenningana sem ég nefndi í upphafi, þá eru líkur á að fólkið sem flyst erlendis sé einmitt fólkið sem best væri fyrir Grikkland að flytti ekki.

Stóra spurningin hlýtur að vera hvernig megi halda í þetta fólk.

Pólitíkusar eiga sjálfsagt mörg moðreyks svör við svoleiðis spurningu. Ég hins vegar á ekki neitt konkret svar.

7. nóvember 2011

Læri í heilu á grillið

Því að flytja á nýjan stað fylgir að sjálfsögðu að leita sér nýrra kunningja. Fjölskyldan, þótt skemmtileg sé, getur ekki endalaust setið ein heima með sjálfri sér. Síðasta laugardagskvöld buðum við því tveimur fjölskyldum í grillmat, en þarna var um að ræða skólafélaga Rúnars Atla og foreldra þeirra.

Kvöldið tókst vel. Ég grillaði lambalæri í heilu og kom það vel út. Malavískt lambalæri. Það var aðeins minna en ég er vanur að heiman. Rétt rúm tvö kíló að þyngd með beini og öllu. Langaði að prófa eitthvað nýtt og fann á netinu uppskrift að kryddblöndu fyrir lambalæri og einnig uppskrift að kaldri grískri sósu sem á að vera æðisleg með lambi. Sem hún var. Nýjungin fyrir okkur Gullu var að nota heilan helling af hvítlauk. Við erum yfirleitt frekar passasöm á hann, en ekki í þetta sinn. Ég saxaði niður endalausan fjölda af hvítlauksrifjum. Svo var hægt að nýta kryddjurtagarðinn hennar Gullu. Minta, kóríander, rósmarín og basílikum eru þar m.a. Ég er enn að átta mig á þessari snilld að geta labbað út í garð og náð í kryddjurtir. Alveg frábært.

Auk lærisins buðum við líka upp á tandoori-kjúklingastrimla og grillbrauð. Íslensk skúffukaka var svo í eftirrétt. Því miður var ekki hægt að bjóða upp á þeyttan rjóma með henni, því rjómi fannst hvergi í búðunum hér í síðustu viku.

Maturinn var velheppnaður, þrátt fyrir allan hvítlaukinn. Kannski einmitt vegna hans? Gæti verið.

Önnur fjölskyldan er frá Frakklandi og hin frá Simbabve. Margt fróðlegt var rætt og mikið hlegið. Alltaf er forvitnilegt að heyra reynslusögur fólks frá öðrum löndum. Kannski læt ég einhverjar frásagnir koma síðar.  Sumt tekur tíma að melta.

En, þrátt fyrir að koma frá ólíkum löndum og ólíkum menningarheimum þá höfum við flest sama markmiðið. Að búa þannig í haginn fyrir börnin okkar að þau hafi það betra en foreldrarnir. Um þetta snýst líf langflestra sem við kynnumst.

Er það ekki hið besta mál?

Vísindamaður í smíðum

Í morgun var foreldrum barna á þriðja ári í Bishop Mackenzie-skólanum boðið í stutta heimsókn í skólann. Undanfarnar vikur hafa krakkarnir lært um arkitektúr og náði þemað hápunkti með þessari heimsókn foreldra. Þarna sýndu þau okkur afraksturinn, en hann fólst í teikningum af byggingum sem börnin voru að reyna að sannfæra okkur um að væru góðra gjalda verð. Foreldrarnir brugðu sér nefnilega í gervi skipulagsfulltrúa og áttu að pumpa krakkana um bygginguna sína. T.d. áttum við að spurja um varnir gegn náttúruhamförum og eins hversu umhverfisvæn byggingin væri.

Þetta var svolítið gaman, fannst mér. Krakkarnir mættu í sínu fínasta pússi í skólann. Áttu að klæða sig sem arkitektar. Það er allur gangur á því hvernig þau - og foreldrarnir - halda að arkitektar líti út. Rúnar Atli fór með málband hangandi í buxnastrengnum og með penna upp úr brjóstvasanum. Hann var nú ekki alveg sannfærður að svona væri klæðnaður arkitekta, en fannst þó sennilegt að málband kæmi sér vel fyrir svoleiðis mann og auðvitað þarf arkitekt að hafa góðan penna.

Hópurinn hans Rúnars Atla. Hann lengst til vinstri, og sjá má pennann í brjóstvasanum og málbandið í buxnastrengnum. Til hægri sést í klemmuspjald skipulagsfulltrúa nokkurs.

Ekki ætla ég að reyna að þykjast vera hlutlaus, en ég var montinn af verkefni Rúnars Atla. Rígmontinn, þótt ég reyndi að sjálfsögðu að halda andlitinu.

Hann er hugmyndafrjór - hugsar út fyrir boxið, eins og stundum er sagt. Það er greinilegt.

Flest verkefnin voru frekar venjuleg. Þ.e. byggingarnar voru hefðbundnar. T.d. íbúðarhús, skólar, kirkjur og þar fram eftir götunum. Ekki misskilja mig. Teikningarnar voru virkilega flottar og krakkarnir höfðu útpælt þetta allt saman. Hallandi þök til að verjast snjóþyngslum! Hverjum dettur svoleiðis í hug í Malaví?

En, byggingin hans Rúnars Atla var ekki venjulega bygging.

Nei, vélmennamiðstöð!

Hann hafði teiknað rannsóknarstofu þar sem vélmenni skipuðu stóran sess.

Og af hverju? var hann spurður.

Jú, svaraði hann, ég ætla að verða vísindamaður og þá þarf vélmennamiðstöð.

Þá vitum við það.

Dómadagshávaði

Við vöknuðum í nótt, svona kl. hálfþrjú við þennan líka dómadagshávaða. Var eins og himinn og jörð væru að farast.

Það var farið að rigna.

Lætin voru þvílík, þegar rigningin buldi á bárujárninu, að manni datt helst í hug að þakið gæfi sig.

Síðan hefur rignt stanslaust, en dregið hefur úr látunum.

Ég er ekki frá því að grasið á blettinum fyrir framan húsið sé töluvert grænna og hærra en í gær.

Líklega markar þessi nótt upphaf regntímans hér í Malaví. Þá fara bændur að taka við sér því sá þarf fyrir uppskeru næsta árs.

21. október 2011

Nappaður!

Í síðustu viku lá leið mín sem oftar til Apaflóa. Varla í frásögur færandi, því líklega eru færri vikur sem ég hef ekki ekið þessa 200 km leið.

En í þetta sinn lenti ég í löggunni. Já, var nappaður fyrir of hraðan akstur af malavísku löggunni.

Leiðin til Apaflóa liggur í gegnum bæ sem heitir Dedza. Þjóðvegurinn liggur yfir litla hæð og þar sem maður ekur niður hæðina þá er fallegt skilti við vegarkantinn. Býður það mann velkominn til bæjarins. En, neðst á skiltinu stendur smáum stöfum að ekki skuli aka hraðar en á 50 km hraða í gegnum bæinn. Hins vegar blekkir mann að vegurinn sjálfur breytist ekkert þarna. Er beinn og breiður og engin hús við veginn. Bærinn liggur að mestu leyti norðan við veginn og því er lítið sem bendir til að maður sé kominn inn í þéttbýli.

Þetta veit auðvitað löggan og situr hún þarna flesta daga með hraðabyssuna sína. Veit ég ekki fyrir en lögreglukona stígur út á veginn og gefur mér merki að stöðva bílinn.

„Þú ókst of hratt,“ tjáði hún mér, alvarleg í fasi.

Ja, hvað gat ég sagt. Var á rúmlega 80 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Ég gekkst auðvitað við öllu, enda ekki gáfulegt að rífast við lögregluna.

Í Malaví er það þannig að ökumenn þurfa að punga út fyrir sektum á staðnum. Sem betur fer var ég með pening í vasanum. Fimm þúsund kvatsa hljóðaði sektin upp á. Þætti nú vel sloppið heima á Fróni að borga um 3.500 krónur fyrir að vera 30 og eitthvað kílómetra yfir hámarkshraða.

Ég borgaði, hélt á brott og hét því að gæta mín í framtíðinni á þessum stað.

En sögunni lauk ekki þar.

Næsta dag lá leið mín frá Apaflóa til bæjar sem nefnist Mangotsí. Sá liggur við syðri enda Malaví-vatns og er rúmlega 60 km frá Apaflóa. Samskipti mín við lögguna höfðu vakið smávegis kátínu meðal innlendra samstarfsmanna minna deginum áður. Var ég varaður við því að löggan ætti sér tvo uppáhaldsstaði á leið minni þennan dag og liði varla sá dagur að hún dúkkaði ekki upp á öðrum hvorum þeirra.

Ég passaði mig. Um leið og ég sá 50 km hraðaskilti þá lagðist fótur minn með miklum þunga á bremsuna og svo var lullað á meðan sá hraði var í hámarki.

Nema hvað, ég sé lögguna vera að mæla. Ekki vandamál, hugsa ég, enda á 50 eins og leyfilegt er.

Nei, nei, haldiði ekki að ein löggan gangi út á götuna og stöðvi mig.

„Þú ókst of hratt, vinur minn,“ sagði löggan.

„Ha!“

Ég hváði og kannaðist ekki við neitt.

„Jú, þú ókst á 52!“

52!!!

Hver skyldu eiginlega skekkjumörkin vera á svona hraðamælingu?

„En, ég sleppi þér með viðvörun í þetta sinn,“ tjáði góðhjörtuð löggan mér.

Viðvörun!

Núna fer ég niður í 45 km hraða þegar ég nálgast hættusvæðin.

Hef ekki verið tekinn síðan.

15. október 2011

Draumur ungs drengs

Sonur minn ungur tjáði mér rétt í þessu að sig langi til Havaí.

Nú, af hverju, vildi ég vita.

Þar er strönd og stelpur sem dansa, sagði hann ábúðarfullur.

Það var nefnilega það.

Ég held ég fari örugglega með rétt mál er ég segi að sjö ára gamall hafi ég ekki velt mikið fyrir mér dansandi stelpum.

Svona breytist allt.

9. október 2011

Sum hjörtu brostin, önnur ekki

Í morgun brustu mörg suður-afrísk hjörtu. Stökkhafrarnir þeirra töpuðu nefnilega fyrir Áströlum í fjórðungsúrslitum á heimsmeistaramótinu í rúbbíi.

Ekki kæmi á óvart að nöldrað verði yfir frammistöðu dómarans á kaffistofum þar syðra á morgun.

Frakkar hins vegar eru í skýjunum eftir að vinna sigur í gær á erkifjendunum frá Englandi í gær. Rúnar Atli fór í afmæli í gær til fransks bekkjarbróður síns. Pabbi hans var í skýjunum yfir sigri Frakka. Ekki skemmdi fyrir að hann horfði á leikinn í breska sendiráðinu hér í borg. Greinilega var sú upplifun algjör rúsîna í pylsuenda.

Já, hvernig væri lífið ef engar væru íþróttirnar?

8. október 2011

G en ekkert T

Á þessum sjö, átta vikum sem við höfum búið í Lílongve erum við búin að átta okkur á tvennu í sambandi við innkaup. Hægt að kaupa allflest það sem hugurinn girnist hér í borginni. En, og það er hinn lærdómurinn, vandamálið er að finna búðina sem býður upp á það sem hugurinn girnist þá stundina.

Einn daginn svigna mjólkurhillur undan endalausum tegundum af jógúrt, svo dæmi sé tekið. Tveim dögum seinna eru sömu hillur eins og eyðimörk. Þá hefst leit að annarri verslun með svignandi hillum.

Nú í dag lenti ég í smávanda.

Við kíktum í matvörubúðina og ég ákvað að grípa með mér einni flösku af Malaví gini.

Já, hér er áfengi selt í matvörubúðunum og engum þykir neitt merkilegt við það. Ja, reyndar ekki í búðum sem eru í eigu múslíma.

Malaví gin er ágætis drykkur. Reyndar nokkuð frábrugðið því gini sem maður kaupir annars staðar, en alveg ágætt engu að síður.

En út í gin þarf auðvitað tónik.

Og þar vandaðist málið.

Ekki tónikflösku að sjá í búðinni.

Ekki einu sinni tómt gler, hvað þá meir.

Ég fór í aðra búð.

Sama saga.

Það verður því freyðivín í glasi hjá mér í kvöld við grillið, ekki gin og tónik.

En á morgun hlýt ég að finna einhvers staðar tónik.

Þjóðarstolt eða sölumennska

Var að skoða hjólbörur í búð einni í indverska hverfinu hér í Lílongve. Þarf eiginlega að fjárfesta í þannig grip. Í búðinni voru til þrjár tegundir.

Kínversk framleiðsla, indversk framleiðsla og suður-afrísk framleiðsla.

Og hvernig þekkir maður svo gæðin?

Þær kínversku kosta 10 þúsund kvatsa (u.þ.b. 7.500 kr).

Þær inversku 12.500 kvatsa og þær s-afrísku 15.000 kvatsa.

Þetta er yfirleitt standardinn hér, kínverskt lélegast, inverskt þokkalegt og s-afrískt best.

Allir sölumenn búast við að útlendingur eins og ég kaupi bestu gæðin, þ.e. það dýrasta.

En svo hvíslaði afgreiðslumaðurinn, af indverskum ættum, laumulega í eyra mér: „Þær indversku eru alveg jafngóðar og þær s-afrísku.“

Þarna varð þjóðarstoltið yfirsterkara sölumannseðlinu.

4. október 2011

Húrra, rigning!

Núna eftir hádegið fór að rigna í Lílongve.

Hér hefur ekki rignt síðan við komum fyrir tæpum tveimur mánuðum. Og þá var ekki búið að rigna í einhverja mánuði.

Regntímabilið fer bráðum að hefjast, en ég held reyndar að þetta sé smáforskot á sæluna.

Rigningin var ekta. Alveg eins og í Windhoek. Núna dembist hún niður með hávaða og látum.

Og sama lykt og í Windhoek fyllir hér vitin. Lykt af þurrum jarðvegi sem verður blautur á svipstundu.

Lykt gróðurs.

Lykt gleði.

A.m.k. fylgdi ávallt gleði rigningu í Windhoek.

Á morgun kemst ég vonandi að því hvort gleði fylgi líka rigningu í Lílongve.

1. október 2011

Kvenfélagsbasar í Lílongve

Enn runninn upp laugardagur. Og nýr mánuður í leiðinni. Tíminn líður, um það þarf ekki að deila.

Í morgun var árlegur basar alþjóðakvenfélagsins í Malaví. Gulla er auðvitað komin í þennan hóp og sem eiginmaður hennar var ég munstraður í djobb þarna. Var við einn innganginn að rukka aðgangseyri. 

Hálfgerður handrukkari, kannski.

Þarna stóð ég í nær tvo tíma og rukkaði 500 kvatsa fyrir fullorðna og 300 fyrir börn. Gulla var með mér megnið af tímanum, enda mér varla treystandi fyrir peningum annarra.

Hagfræðingur, sjáiði til.

En þetta var fínt. Fullt af fólki mætti. Sumir reyndu að svindla sér inn á barnagjaldi, en handrukkararnir tóku hart á slíkri vitleysu. Enda verið að safna fyrir góð málefni.

Létt var yfir fólki, enda alltaf gaman þegar skemmtilegur viðburður brýtur upp daglega mynstrið. 

Eftir að vinnunni lauk, þá röltum við um svæðið. Keyptum við Rúnar Atli okkur norskar vöfflur með jarðaberja og hindberjasultum. Mjög góðar, þó mínar vöfflur slái þeim auðvitað við. En norsku konurnar önnuðu varla eftirspurn, enda fátt betra en nýbökuð sultuvaffla.

Svo keyptum við okkur indverskt naan-brauð með einhverri frábærri kjúklingabitasósu. Indverskur matur er ótrúlega góður. 

Þetta væri auðvitað ekki hægt á Íslandi. Að elda mat ofan í fólk án þess að nota stimpluð og vottuð iðnaðareldhús...

Æ, hvað við Íslendingar sem hópur erum óendanlega misheppnaðir. 

En, ég nenni ekki að velta mér upp úr því. Ekki núna.

Við rákumst á golfkennarann hans Rúnars Atla. Hann sagði mér að sonur minn væri áhugasamasti nemandinn sinn. Þá veit maður það. Ætli maður verði ekki að fjárfesta í golfsetti handa drengnum eftir áramótin.

Basarinn var skemmtilegur og ábyggilega mikið af peningum sem safnaðist. Það var fyrir mestu í dag.

28. september 2011

Smíðavinna

Jæja, kominn af stað í smíðar. Eftir þónokkurt hlé, verður að segjast. Ég hef varla gert nokkuð af viti síðan ég útbjó sjónvarpsskáp fyrir Tinnu Rut hér um árið. En nú þarf að smíða hænsnakofa á næstunni.

Fyrsta skrefið á nýjum stað var að finna út hvar hægt væri að kaupa timbur. Malavískir samstarfsmenn mínir horfðu grunsemdaraugum á mig þegar ég spurði þá. „Hvað vill hann með timbur?“ hugsuðu menn greinilega. Kannski lít ég ekki mjög smiðslega út í mínum daglega vinnufatnaði. Hvað um það, mér var bent á einhverja búð og fór þangað.

„Timbur?“ sagði afgreiðslumaðurinn, og mældi mig með augunum hátt og lágt, „við seljum ekki svoleiðis.“

„...og hvar skyldi vera hægt að kaupa það?“

„Nú, á markaðnum,“ var svarið og bent um leið í suðvestur.

Ég þakkaði fyrir og rölti af stað. Í hverfinu sem ég var, indverska hverfinu sem kallað er, úir og grúir af alls konar smáverslunum. Selja þær allt milli himins og jarðar. Verst að skiltin og búðarheitin eru oft ekki mjög lýsandi um það sem er innan dyra.

Ég fór inn í aðra búð, en af skilti utan við hana mátti ráða að hægt væri að kaupa krossvið þar.

„Timbur?“ hváði afgreiðslumaðurinn. Hann hafði greinilega ekki heyrt neitt jafnfyndið lengi. „Það fæst á markaðinum!“ og benti í svipaða átt og fyrri afgreiðslumaðurinn. Hristi hausinn og sagði eitthvað á arabísku við kollega sinn. Ég var feginn að kunna ekki arabísku.

Ég ákvað að þetta þýddi ekki lengur. Ég yrði bara að finna þennan markað. Ég rölti því af stað í þá átt sem mér vart bent.

Endalausar búðir og sölubásar eru í þessu indverska hverfi. Skrýtin nöfn á sumum fyrirtækjum. Mest sló í augun Niggarafarsímaviðgerðir. Nefnilega.

Í því sem ég geng framhjá litlu sundi, að mér sýndist, þá sé ég nokkra spýtustafla þar inni. Beygi því inn í sundið, sem reyndar var ekki sund, heldur inngangur að þeirri stærstu timbursölu sem ég hef á æfinni séð. Þarna eru timburstaflar eftir timburstafla, alveg endalausir.

Auðvitað hrúguðust strax að mér sölumenn, og voru mjög forvitnir að vita hvaða plankastærðir mig vantaði. Urðu hálfhneykslaðir að ég væri bara að skoða. En tóku mér þó vel og fræddu mig í allan sannleik um timbrið þarna.

Hér kaupir maður ekki spónaplötur eða MDF. Nei, plankar er það sem allt snýst um. Auðvitað hlýtur einhvers staðar hægt að vera að fá plötur, en eftir að hafa séð þennan sæg af timbri, þá fer maður ekkert að kaupa manngerðar plötur.

Næsta dag fór ég og fjárfesti í nægu timbri til að smíða vinnuborð. Ég verð jú að hafa borð til að geta byggt hænsnakofa.

Annað gengur ekki.

En þetta er svolítið meira mál eða að kaupa tilbúið smíðatimbur í Bykó eða Húsasmiðjunni. Hér þarf að rétta af horn og hefla og meira vesen. En ég er kominn af stað og reikna með að borðið verði tilbúið um helgina.

Þá styttist í hænsakofann.

Teikningin er tilbúin.

11. september 2011

Kvalakofinn

Síðusta eina og hálfa árið okkar í Namibíu þá var ég nokkuð duglegur í heilsuræktinni. Byrjaði þó frekar með hangandi hendi. Var orðinn svo slæmur í baki að eitthvað varð að taka til bragðs. Fór á stað sem er einhvers konar sambland af heilsurækt og sjúkraþjálfun. Kallast „biokinetics“ á engilsaxnesku, en ég veit ekki hvert íslenskt heiti gæti verið. Fyrstu sex mánuðina af þessu tímabili varð ég smátt og smátt áhugasamari. Síðasta árið stundaði ég leikfimina grimmt. Mætti iðulega hálfsex á morgnana. Enda bar þetta árangur. Lesturinn af vigtinni varð skemmtilegri og jafnvel spennandi, og síðan varð ég líkamlega styrkari og þolnari en ég hef verið í a.m.k. 15 ár. Er þetta orðið þannig að ef ég fæ í bakið þá lagast það yfirleitt af sjálfu sér á nokkrum dögum.

Eftir að koma til Íslands í ársbyrjun þá velti ég því fyrir mér hvernig ég gæti haldið áfram að hreyfa mig. Ekki heilluðu líkamsræktarstöðvarnar mig. Endaði ég á að flikka upp á reiðhjólið mitt og fór að hjóla í tíma og ótíma. Fékk algjörlega nýja sýn á höfuðborgina okkar. Fannst mér þetta mjög skemmtilegt, en gjörsamlega yfirkeyrði hjólið. Endaði ég með að skilja það eftir í Keðjuverkun hjólanýting á Skólavörðustíg daginn áður en við flugum af stað til útlanda á ný.

En, hvað skal svo gera í Lílongve?

Við Rúnar Atli vorum reyndar komnir með plan fyrir löngu síðan. Að útbúa okkar eigin leikfimiaðstöðu. Við vorum búnir að sanka að okkur ýmsum gagnlegum hlutum fyrir svona lagað. Nokkur lóð, tvo pilates-bolta, tvo þunga æfingabolta, tvær dýnur, stigpall (frá Gullu) og, rúsínuna í pylsuendandum, boxpoka og hanska.

„Og, pabbi, við setjum upp miða á vegginn þar sem stendur We love pain!

Nefnilega. Við viljum kveljast!

House of Pain heitir aðstaðan því.

Kvalakofinn!

Í dag gengum við í að koma aðstöðunni í gagnið. Bak við húsið okkar er lítið yfirbyggt svæði sem við notum ekkert og ákváðum við að þetta væri tilvalinn staður. Ég dró upp höggborvélina og útbjó traustar festingar fyrir boxpokana og svo röðuðum við græjunum okkar upp. Enn vantar ýmislegt. Bekk til ýmissa nota og betri geymsluaðstöðu fyrir allt dótið. En það kemur.

Svo þurfti generalprufu.

Hvað annað?

Upphitunin fólst í göngutúr með hundinn. Ja, göngutúr fyrir mig en hjólatúr fyrir Rúnar Atla. Síðustu 4-500 metrana hlupum við Snúlla meira að segja. En, um leið og við komum inn á lóðina snarhemlaði hún og neitaði að hreyfa sig meir. Enda líklega í kringum áttrætt í mennskum árum...

Svo var tekið á!

Kveljast! Og kveljast svo meir!

Kallinn góður. Vel að merkja, litli boltinn í útréttum stálörmum er 5 kg að þyngd. Geri aðrir betur.

Hnefaleikar. Góðir taktar ef tekið er tillit til þess að hnefaleikar voru bannaðir öll mín uppvaxtarár. Kannski mætti ég þó vera aðeins fjaðurmagnaðri í fótunum. En bara aðeins...

En hér er meistarinn mættur. Alvörutaktar, enda karate-þjálfaður náungi hér á ferð. Boxhanskar, hvað? Svoleiðis nokk er bara fyrir vælukjóa.

Fylgt eftir alveg út í það ýtrasta.

Og hafðu það! Einbeitingin allsvakaleg.

6. september 2011

Alþjóðavæðing í Malaví

Alþjóðavæðingin lætur ekki að sér hæða. Þessi mynd var tekin 7 km fyrir utan bæinn við Apaflóa.

Vöruúrvalið var reyndar örlítið annað en í þeim verslunum með þessu nafni sem ég hef komið í annars staðar.30. ágúst 2011

Föstu lýkur

Á morgun lýkur Ramadan, föstu íslamstrúarmanna. Þá hefst hátíð sem á ensku nefnist Eid al-Fitr og stendur í þrjá daga, eða svo. Reyndar hófst hún sums staðar í dag, en upphaf hátíðarinnar veltur víst á því hvenær sést til tungls.

Í Malaví munu um 13% íbúa vera íslamstrúar. Ekki langt frá húsinu okkar er stór moska og stundum heyri ég söngl frá henni í kringum fimmleytið á morgnana. Á morgun er almennur frídagur í landinu vegna hátíðarinnar. Því þarf ég ekki að mæta til vinnu.

Skólinn hans Rúnars Atla ruglaðist aðeins í ríminu og var frídagur þar í dag. Líklega fóru þeir línuvillt í töflunni sem tiltekur hvenær hátíðin hefst í hinum mismunandi löndum. Kom bréf frá skólastjóranum í dag þar sem ítrekað er að það verður skóli á morgun, þrátt fyrir hátíðina. Auðvitað munu þau börn sem eru íslamstrúar ekki mæta, en skólastjórinn lofaði að sjá til þess að þeim yrði bætt tapið upp.

Rúnar Atli er hálffúll yfir þessu. Hann í skólanum en pabbinn í fríi úr vinnu.

Ekki sanngjarnt, finnst honum.

En, lífið er náttúrulega ekki sanngjarnt.

29. ágúst 2011

Hoppandi og skoppandi afmælisdagur

Í dag átti sonur minn afmæli.

Orðinn sjö ára gamall.

Ekki var nú mikið haft fyrir afmælisdeginum að þessu sinni. Við erum svo nýflutt hingað að vinir eru enn af skornum skammti. Afmælisveislan í fyrra var heljarinnar fyrirtæki með hoppukastala og alles. Því var samið að afmælið í ár yrði rólegt, en þeim mun meira verði gert á næsta ári.

En, þó fékk hann köku í skólann. Og afmælissöng í skólanum.

Afmælisgjöf var smáhöfuðverkur fyrir foreldrana. Það verður að segjast að þær dóta- og tómstundabúðir sem við höfum fundið í Lílongve eru fáar. Þær sem við höfum fundið eru fullar af drasli. Lítið spennandi þar.

En við duttum þó niður á góða lausn.

Trampólín. Þrír metrar í þvermál.

Drengur var ánægður.

En fyrst þurfti að setja trampólínið saman.

„Pabbi, þetta á örugglega að snúa svona.“


„Pabbi, ég sá leiðbeiningar hér einhvers staðar. Eigum við ekki að skoða þær?“

Göngum við í kringum...
 En að lokum hafðist nú að koma þessu saman. Og þá var farið að hoppa og skoppa.

Fyrst svona venjulegt hopp...

... og svo smá trix.

Svo kom meistarinn!
Gulla fékkst ekki til að hoppa.

Ekki að þessu sinni.

Hundur og köttur

Gulla náði góðri mynd af Sallý (kettinum) og Snúllu (hundinum) áðan.


Einnig náðist fín mynd af Rúnari og Snúllu að leik.


27. ágúst 2011

Sveit í borg

Ég var að heiman frá mánudegi til föstudag. Þegar ég kom heim aftur þá voru Gulla og Rúnar Atli búin að næla sér í nokkra hænuunga. Fimmtán stykki. Aðeins.

Þetta kom reyndar ekki á óvart því Gulla hefur átt þann draum í nokkurn tíma að verða pútnaeigandi. Þegar orðið var víst að við færum til Malaví þá varð bjargföst ákvörðun hennar að nú skyldi þessi draumur rætast.

Og það hefur hann gert.

Það eru nokkur herbergi í garðinum okkar, sjálfsagt fyrir vinnufólk, og er núna eitt þeirra orðið að hænsnaherbergi. Búið er að strá sagi á gólfið og einum flottum pappakassa var fórnað í þetta stúss. Inn í pappakassann var lagt rafmagn og logar nú 100 kerta pera þar dag og nótt. Þeim má víst ekki verða kalt þessum litlu ungum. Þeir eru víst um átta vikna gamlir og orðnir nokkuð stórir. Ja, fyrir hænuunga. Í dag fengu þeir einhver vítamín, sem á víst að losa um stress... Það er víst mjög stressandi fyrir hænuunga að koma á nýjar slóðir.

En eftir mánuð eða svo dugar ekki þetta herbergi lengur. Þá þarf hænsnakofa. Ég kíkti því á netið í gærkvöldi og fann fullt af leiðbeiningum um hvernig eigi að smíða svoleiðis híbýli. Bandaríkjamenn eru nú léttruglaðir verð ég að segja. Ýmsir þeirra virðast vera fyrir hænsnarækt. Sumir hænsnakofarnir eru nokkuð flottir, sbr. þennan.

Ég þarf að leggja höfuðið aðeins í bleyti út af þessu.

En, ekki var víst nóg að fá fimmtán hænuunga.

Í dag bættust tveir meðlimir við fjölskylduna. Annars vegar hundur og hins vegar köttur.

Þessi dýr voru í eigu Breta sem búið hefur hér í tvö ár, en nú er hann að fara til Líbíu. Af öllum stöðum. En hann var að leita að fólki til að taka að sér þessi tvö dýr. Þar sem búið var að lofa Rúnari Atla að fá hund, og jafnvel kött, þá var ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi.

Í morgun komu þau. Hundurinn er Labrador. Líklega að nálgast tíu ára aldurinn. Þetta er tík sem heitir Snapper. Það mætti útleggja sem Glefsa á íslensku, en Bretinn sór og sárt við lagði að tíkin bæri ekki nafn með rentu.

Kötturinn er að öllum líkindum eitthvað eldri. Þetta er læða sem heitir Sallý.

Þær stöllur eru núna að átta sig á öllu. Þær hafa verið í eigu a.m.k. þriggja eigenda, en alltaf búið í sama húsinu. Þetta eru því nokkur viðbrigði.

Ég set inn myndir síðar.

En nú búum við semsagt í sveit í borg.

23. ágúst 2011

Bananauppskeran

Var á leið til Apaflóa í gær. Ók þá fram á þennan vel hlaðna vörubíl með bananauppskeruna og alla vinnumennina.


Hvað ætli fulltrúum umferðarstofu þætti um þetta?

20. ágúst 2011

Vantar ykkur flottar naríur?

Rúbbí-naríur

Rúbbí - íþrótt karlmanna

Þá fer stundin að renna upp.

Sjöunda heimsmeistarakeppnin í rúbbíi hefst eftir 19 daga, 13 klukkustundir og einhverjar mínútur. Níunda september hefst hún og stendur til 23. október. Stökkhafrarnir frá Suður-Afríku eru núverandi heimsmeistarar - mitt lið - en þeir Kolsvörtu frá Nýja-Sjálandi - Gullu lið - verða til alls líklegir á heimavelli. Reyndar eru Namibíumenn með í keppninni, en þeir ná varla í gegnum riðlakeppnina. Því miður.

Rúbbí er hinn sanna íþrótt karlmanna. Ekki pláss fyrir neina vælukjóa eins og þá sem spila fótbolta. Kristíanó Rónaldó besta dæmið. Ekkert verið að setja gel í hárið fyrir leiki.

Ó, nei. Blóðið flýtur í þessari íþrótt, sbr. þennan s-afríska stökkhafur (Heinrich Brussouw)  sem lenti í klóm þeirra kolsvörtu fyrr í dag.


Stökkhafrarnir unnu reyndar leikinn í dag, 18-5.

Rúbbí er þrælskemmtilegt áhorfs. Mér hefur nú gengið illa að læra allar reglurnar, en það skemmir ekkert fyrir.

Svo er gaman að því að hjónin skuli halda með sitthvoru liðinu.

Af hverju heldur Gulla með þeim kolsvörtu?

Jú, svarið er einfalt. Í upphafi hvers landsleiks þá stíga þeir kolsvörtu stríðsdans Maóría, haka nefnist dansinn.


Dansinn er reyndar gríðarlega flottur og skapar mikla stemmingu.

Heimsmeistaramótið í rúbbíi fer að byrja!

Sloppið með skrekkinn

Hann Rúnar Atli kann að halda foreldrum sínum við efnið.

Haldiði ekki að hann hafi tekið upp á því eftir skóla í gær að kollsteypast ofan af mannhæðarháum vegg niður á flísalagða stétt. Hárgreiðsluvinkona mín úr Reykjavík hefði ábyggilega veinað ó-mæ-godd yfir þessu.

En fyrir einhverja guðsmildi þá náði hann að bera hendurnar fyrir sig og þær tóku mesta höggið. Þó fékk hann vænt högg á munninn og kvarnaðist úr báðum stóru framtönnunum hans. Gulla hrökk upp við skaðræðisöskur og hljóp af stað. Hringdi svo í mig í vinnuna og ég gekk í að finna tannlækni med-det-samme.

Ekki leið mér vel þegar ég heyrði fréttirnar. Rann kalt vatn milli skinns og hörunds, því þetta hefði getað farið svo miklu, miklu verr.

Í raun er ótrúlegt hvað drengurinn slapp vel.

Við komumst til tannlæknis. Eldri maður, líklega af egypskum uppruna, sem var hinn rólegasti yfir þessu öllu saman. Mjög traustvekjandi maður. Önnur framtönnin losnaði aðeins, en mjög lítið. Hann reiknar með að hún festist á ný án nokkurar aðgerðar. Hann pússaði aðeins yfir þar sem hafði flísast úr þeirri tönn, því sárið var flugbeitt. Síðan fékk Rúnar Atli fúkkalyf til að hindra sýkingu í tannholdinu. Eftir viku heimsækjum við tannsa á ný og þá tekur hann röntgenmynd til að sjá hvort allt sé ekki örugglega eins og á að vera.

Rúnar Atli er eins og nýsleginn túskildingur og ekki sér neitt á honum. Ég skil það varla.

En feginn er ég.

18. ágúst 2011

Gjaldeyrir og bensín

Í Malaví er skortur á gjaldeyri.

Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, sem ég þekki ekki allar. Ein er sú að tóbaksverð hefur verið frekar lágt og minni spurn er eftir því en menn áætluðu. Tóbak er nefnilega sú vara sem Malaví flytur mest út af. Síðan hafa menn barist við að halda gengi gjaldmiðilsins háu, en það veldur lægri útflutningstekjum. Svo hefur forsetinn átt í erjum við Breta, sem hefur valdið því að minna kemur inn af gjafafé frá erlendum þjóðum.

Allt þetta leiðir til þess að erlendan gjaldeyri vantar.

Hvernig sést þetta? Jú, fyrst og fremst í biðröðum eftir eldsneyti. Margar bensínstöðvar eiga ekki neitt eldsneyti. Svo þegar það berst þá flýgur fiskisagan og allir fara í biðröð. Þegar ég kom úr vinnunni fyrr í dag þá lá leið mín í gegnum hringtorg. Sem ég beygi út úr hringtorginu þá sé ég helling af bílum á akreininni á móti.

Ég er ennþá að ná áttum hér í borginni og fór að velta fyrir mér hvert allir þessir bílar væru að fara. Allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Þeir voru í biðröð inn á bensínstöð sem er rétt við hringtorgið. Ég giska á að þarna hafi ekki minna en 70 bílar verið í röð. Ekki veit ég hvort bensín var komið, eða frést hefði af sendingu. En öftustu bílstjórarnir voru líklega að horfa á 3-4 klukkustunda bið.

Í besta falli.

Kannski verður sendingin búin áður en þeir öftustu komast að.

Ekki gaman.

15. ágúst 2011

Netið og fyrsti skóladagur

Þá er komin nettenging í húsið okkar hér í Lílongve. Reyndar vildi nú svo heppilega til að rétt hjá okkur er svokallaður heitur reitur, þannig að við gátum keypt okkur tímabundinn aðgang að netinu strax á öðrum degi og þannig verið í lágmarkssambandi. En nú erum við komin með okkar eigin tengingu. Mikill munur, þótt hún sé nú ekki sú hraðvirkasta í heimi. Ekki veit ég hvort skype gengur, en við prófum það við tækifæri.

Þ.a. tengið ykkur á skype...

Í dag var fyrsti skóladagur Rúnars Atla. Því var dagurinn tekinn snemma. Eins og í Namibíu hefst skóladagurinn snemma. Drengurinn þarf að vera mættur tíu mínútur yfir sjö á morgnana og er í skólanum til hálftvö. En reyndar er farið að birta af degi uppúr kl. sex á morgnana.

Í Bishop Mackenzie alþjóðaskólanum, en svo heitir skólinn, klæðast börnin skólabúningum. Það finnst okkur Gullu meiriháttar, því þá er aldrei vesen á morgnana hvaða fötum á að klæðast. Svo er búningurinn bara nokkuð fínn hér, stuttermaskyrta, stuttbuxur og háir sokkar. Ekkert bindisvandamál.

Enda tók gaurinn sig vel út í morgun.


Reyndar eru skórnir ekki alveg samkvæmt staðlinum, en við vissum ekki hvaða kröfur eru gerðar til skóbúnaðar. Því fékk hann að fara í ljósbláu Hummel skónum sínum í dag.

Skóladagurinn var skemmtilegur að Rúnars Atla sögn. Kennarinn hans heitir ungfrú Daigneault, sem þykir nokkur tungubrjótur. Því er hún kölluð ungfrú Djé - Miss Dee, á enskunni. Bekkurinn er því 3-D og það fannst Rúnari Atla flott.

Þrívíddarbekkurinn.

Þessir krakkar!

En hér lenti hann í þriðja bekk, ekki öðrum. Það virðist sem krakkar byrji ári fyrr í þessum skóla en í íslenskum skólum. Rúnar Atli er því með sínum jafnöldrum. Vorum við foreldrarnir ánægðir með það, því á aldurinn lögðum við nokkra áherslu.

Hann segist þegar vera búinn að eignast vin, svo allt virðist í himnalagi. Hann plummar sig á enskunni, virðist vera, þrátt fyrir að vera nokkuð ryðgaður þegar við mættum til Namibíu fyrir 10 dögum, eða hvað það nú var.

Gulla er farin að hætta sér út í umferðina hérna og farin að spá í verslanir og ýmsa þjónustu sem þarf að nota. Umferðin er nokkuð öðrum vísi en maður á að venjast. Hér er gangandi fólk út um allt. Og hjólandi fólk. Það eru þó engar gangstéttir, heldur malarstígar við hliðina á malbikinu. Hins vegar eru margar götur farnar að láta hressilega á sjá. Bæði eru þær holóttar og eins hefur brotnað upp úr köntunum á þeim. Því eru oft stórhættulegar brúnir í götukantinum og maður vill ekki missa bílinn þar niður. Því halda bílar sig nær miðju heldur en vegkanti og þá vandast stundum málið þegar mætast þarf.

En Gulla er hetja og farin að kljást við þetta á fullu.

11. ágúst 2011

Kominn til Malaví

Loksins kominn heim. Á nýjan stað þar sem við munum búa okkur heimili næstu árin.

Ferðin frá Lusaka gekk vel. Við höfðum tímann fyrir okkur og vorum komin út í bíl rétt rúmlega sex um morguninn. Enda var lítið af bílum á ferðinni. Umhverfið var fallegt á leiðinni. Töluvert skóglendi og nokkuð hæðótt. Við bara keyrðum og keyrðum, enda rúmir 600 km til landamæra Sambíu og Malaví. Síðan 120 km frá landamærunum til Lilongve.

Reyndar þurftum við að fylla á bensíntankinn einu sinni úr bensínbrúsa sem við vorum með á kerrunni. Það var nefnilega engin bensínstöð í tæpa 600 km. Líklega hefðum við slefað það á einum tanki, en engin ástæða til að storka forlögunum að óþörfu.

Landamærin gengu smurt. Fljótustu landamærin í ferðinni. En smástund tók að venjast því að hámarkshraðinn í Malaví á þjóðvegum er ekki nema 80 km/klst. Meira að segja ekki nema 50 km/klst með kerru. En ég ákvað að halda mig við 80. Nógu erfitt var nú samt að halda sig á þeirri ferð.

Við römbuðum beint á húsið og gengum inn um dyrnar um hálffimm leytið.

Kvöldinu eyddum við í að opna kassa. Ég skaust út um kvöldmatarleytið og náði að finna skyndibitastað svo hægt væri að seðja sárasta hungrið. Fínn kjúklingur af stað sem heitir MacDauds. Eftirlíking af einhverjum þekktum stað...

En það er svolítið ævintýri að keyra um götur Lilongve eftir myrkur. Engin götulýsing, og fullt af gangandi fólki og reiðhjólum. Að ógleymdum holunum í malbikinu. Ekki bætir úr skák þegar ökumaðurinn ratar mjög takmarkað. Já, þá verða stuttir bíltúrar ævintýri.

Gott var að leggjast á koddann í gærkvöldi. Öll steinsváfum við til morguns. Í dag höfum við haldið áfram kassabaráttunni, svo heimilið er að taka á sig mynd. Okkur líst vel á þetta.

Á morgun fer Rúnar Atli í námsmat í skólanum og byrjar svo á fullu í honum í næstu viku. Ég fer þá líka að vinna af fullum krafti og þá byrjar daglega stritið.

9. ágúst 2011

Þrjár myndir úr ferðalagi

Kagginn og kerran. Mynd tekin í einskismannslandi milli Namibíu og Botsvönu

Við hjónin og stytta af Livingstone sjálfum. Myndasmiður: Rúnar Atli

Við þrjú við Viktoríufossana

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...