21. október 2011

Nappaður!

Í síðustu viku lá leið mín sem oftar til Apaflóa. Varla í frásögur færandi, því líklega eru færri vikur sem ég hef ekki ekið þessa 200 km leið.

En í þetta sinn lenti ég í löggunni. Já, var nappaður fyrir of hraðan akstur af malavísku löggunni.

Leiðin til Apaflóa liggur í gegnum bæ sem heitir Dedza. Þjóðvegurinn liggur yfir litla hæð og þar sem maður ekur niður hæðina þá er fallegt skilti við vegarkantinn. Býður það mann velkominn til bæjarins. En, neðst á skiltinu stendur smáum stöfum að ekki skuli aka hraðar en á 50 km hraða í gegnum bæinn. Hins vegar blekkir mann að vegurinn sjálfur breytist ekkert þarna. Er beinn og breiður og engin hús við veginn. Bærinn liggur að mestu leyti norðan við veginn og því er lítið sem bendir til að maður sé kominn inn í þéttbýli.

Þetta veit auðvitað löggan og situr hún þarna flesta daga með hraðabyssuna sína. Veit ég ekki fyrir en lögreglukona stígur út á veginn og gefur mér merki að stöðva bílinn.

„Þú ókst of hratt,“ tjáði hún mér, alvarleg í fasi.

Ja, hvað gat ég sagt. Var á rúmlega 80 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Ég gekkst auðvitað við öllu, enda ekki gáfulegt að rífast við lögregluna.

Í Malaví er það þannig að ökumenn þurfa að punga út fyrir sektum á staðnum. Sem betur fer var ég með pening í vasanum. Fimm þúsund kvatsa hljóðaði sektin upp á. Þætti nú vel sloppið heima á Fróni að borga um 3.500 krónur fyrir að vera 30 og eitthvað kílómetra yfir hámarkshraða.

Ég borgaði, hélt á brott og hét því að gæta mín í framtíðinni á þessum stað.

En sögunni lauk ekki þar.

Næsta dag lá leið mín frá Apaflóa til bæjar sem nefnist Mangotsí. Sá liggur við syðri enda Malaví-vatns og er rúmlega 60 km frá Apaflóa. Samskipti mín við lögguna höfðu vakið smávegis kátínu meðal innlendra samstarfsmanna minna deginum áður. Var ég varaður við því að löggan ætti sér tvo uppáhaldsstaði á leið minni þennan dag og liði varla sá dagur að hún dúkkaði ekki upp á öðrum hvorum þeirra.

Ég passaði mig. Um leið og ég sá 50 km hraðaskilti þá lagðist fótur minn með miklum þunga á bremsuna og svo var lullað á meðan sá hraði var í hámarki.

Nema hvað, ég sé lögguna vera að mæla. Ekki vandamál, hugsa ég, enda á 50 eins og leyfilegt er.

Nei, nei, haldiði ekki að ein löggan gangi út á götuna og stöðvi mig.

„Þú ókst of hratt, vinur minn,“ sagði löggan.

„Ha!“

Ég hváði og kannaðist ekki við neitt.

„Jú, þú ókst á 52!“

52!!!

Hver skyldu eiginlega skekkjumörkin vera á svona hraðamælingu?

„En, ég sleppi þér með viðvörun í þetta sinn,“ tjáði góðhjörtuð löggan mér.

Viðvörun!

Núna fer ég niður í 45 km hraða þegar ég nálgast hættusvæðin.

Hef ekki verið tekinn síðan.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...