Í morgun var árlegur basar alþjóðakvenfélagsins í Malaví. Gulla er auðvitað komin í þennan hóp og sem eiginmaður hennar var ég munstraður í djobb þarna. Var við einn innganginn að rukka aðgangseyri.
Hálfgerður handrukkari, kannski.
Þarna stóð ég í nær tvo tíma og rukkaði 500 kvatsa fyrir fullorðna og 300 fyrir börn. Gulla var með mér megnið af tímanum, enda mér varla treystandi fyrir peningum annarra.
Hagfræðingur, sjáiði til.
En þetta var fínt. Fullt af fólki mætti. Sumir reyndu að svindla sér inn á barnagjaldi, en handrukkararnir tóku hart á slíkri vitleysu. Enda verið að safna fyrir góð málefni.
Létt var yfir fólki, enda alltaf gaman þegar skemmtilegur viðburður brýtur upp daglega mynstrið.
Eftir að vinnunni lauk, þá röltum við um svæðið. Keyptum við Rúnar Atli okkur norskar vöfflur með jarðaberja og hindberjasultum. Mjög góðar, þó mínar vöfflur slái þeim auðvitað við. En norsku konurnar önnuðu varla eftirspurn, enda fátt betra en nýbökuð sultuvaffla.
Svo keyptum við okkur indverskt naan-brauð með einhverri frábærri kjúklingabitasósu. Indverskur matur er ótrúlega góður.
Þetta væri auðvitað ekki hægt á Íslandi. Að elda mat ofan í fólk án þess að nota stimpluð og vottuð iðnaðareldhús...
Æ, hvað við Íslendingar sem hópur erum óendanlega misheppnaðir.
En, ég nenni ekki að velta mér upp úr því. Ekki núna.
Við rákumst á golfkennarann hans Rúnars Atla. Hann sagði mér að sonur minn væri áhugasamasti nemandinn sinn. Þá veit maður það. Ætli maður verði ekki að fjárfesta í golfsetti handa drengnum eftir áramótin.
Basarinn var skemmtilegur og ábyggilega mikið af peningum sem safnaðist. Það var fyrir mestu í dag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli