28. september 2011

Smíðavinna

Jæja, kominn af stað í smíðar. Eftir þónokkurt hlé, verður að segjast. Ég hef varla gert nokkuð af viti síðan ég útbjó sjónvarpsskáp fyrir Tinnu Rut hér um árið. En nú þarf að smíða hænsnakofa á næstunni.

Fyrsta skrefið á nýjum stað var að finna út hvar hægt væri að kaupa timbur. Malavískir samstarfsmenn mínir horfðu grunsemdaraugum á mig þegar ég spurði þá. „Hvað vill hann með timbur?“ hugsuðu menn greinilega. Kannski lít ég ekki mjög smiðslega út í mínum daglega vinnufatnaði. Hvað um það, mér var bent á einhverja búð og fór þangað.

„Timbur?“ sagði afgreiðslumaðurinn, og mældi mig með augunum hátt og lágt, „við seljum ekki svoleiðis.“

„...og hvar skyldi vera hægt að kaupa það?“

„Nú, á markaðnum,“ var svarið og bent um leið í suðvestur.

Ég þakkaði fyrir og rölti af stað. Í hverfinu sem ég var, indverska hverfinu sem kallað er, úir og grúir af alls konar smáverslunum. Selja þær allt milli himins og jarðar. Verst að skiltin og búðarheitin eru oft ekki mjög lýsandi um það sem er innan dyra.

Ég fór inn í aðra búð, en af skilti utan við hana mátti ráða að hægt væri að kaupa krossvið þar.

„Timbur?“ hváði afgreiðslumaðurinn. Hann hafði greinilega ekki heyrt neitt jafnfyndið lengi. „Það fæst á markaðinum!“ og benti í svipaða átt og fyrri afgreiðslumaðurinn. Hristi hausinn og sagði eitthvað á arabísku við kollega sinn. Ég var feginn að kunna ekki arabísku.

Ég ákvað að þetta þýddi ekki lengur. Ég yrði bara að finna þennan markað. Ég rölti því af stað í þá átt sem mér vart bent.

Endalausar búðir og sölubásar eru í þessu indverska hverfi. Skrýtin nöfn á sumum fyrirtækjum. Mest sló í augun Niggarafarsímaviðgerðir. Nefnilega.

Í því sem ég geng framhjá litlu sundi, að mér sýndist, þá sé ég nokkra spýtustafla þar inni. Beygi því inn í sundið, sem reyndar var ekki sund, heldur inngangur að þeirri stærstu timbursölu sem ég hef á æfinni séð. Þarna eru timburstaflar eftir timburstafla, alveg endalausir.

Auðvitað hrúguðust strax að mér sölumenn, og voru mjög forvitnir að vita hvaða plankastærðir mig vantaði. Urðu hálfhneykslaðir að ég væri bara að skoða. En tóku mér þó vel og fræddu mig í allan sannleik um timbrið þarna.

Hér kaupir maður ekki spónaplötur eða MDF. Nei, plankar er það sem allt snýst um. Auðvitað hlýtur einhvers staðar hægt að vera að fá plötur, en eftir að hafa séð þennan sæg af timbri, þá fer maður ekkert að kaupa manngerðar plötur.

Næsta dag fór ég og fjárfesti í nægu timbri til að smíða vinnuborð. Ég verð jú að hafa borð til að geta byggt hænsnakofa.

Annað gengur ekki.

En þetta er svolítið meira mál eða að kaupa tilbúið smíðatimbur í Bykó eða Húsasmiðjunni. Hér þarf að rétta af horn og hefla og meira vesen. En ég er kominn af stað og reikna með að borðið verði tilbúið um helgina.

Þá styttist í hænsakofann.

Teikningin er tilbúin.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...