30. júlí 2011

Morgunn í Windhoek

Fyrsti morgunn í Windhoek.

Skítkalt.

En sólin er komin hátt á loft, þ.a. ég býst við að eftir klukkustund eða tvær verði hitinn orðinn fínn. A.m.k. utandyra.

Við gerðum nú frekar lítið í gær. Komum til borgarinnar um fjögurleytið. Hittum svo finnska kunningja okkar sem litu eftir bílnum okkar. Þau eru að flytja til Víetnam og annað þeirra flýgur þangað núna í dag þ.a. þetta var síðasti fundur okkar í langan tíma reiknum við með.

Svo keyptum við okkur pitsur - bestu pitsur í heimi fást nefnilega á ítölskum veitingastað í Windhoek, Sardinia - og fórum snemma í háttinn.

Mér kom á óvart hvað Rúnar Atli er spenntur yfir að vera kominn aftur til Windhoek. Kannski ætti það ekki að koma mér á óvart, því hér hefur hann átt heima megnið af sinni ævi. En, alls konar hlutir rifjuðust upp fyrir honum þegar við vorum að versla og sækja pitsurnar. Gaman að því.

29. júlí 2011

Kuldalegt í Afríkunni

Jóhannesarborg.

Hér lentum við í morgun klukkan sjö að staðartíma. Fimm að íslenskum tíma.

Langa flugið gekk þokkalega. Tíu og hálfur tími í flugvél er reyndar í það mesta. Ekki síst þegar vélin er gömul og ekki með prívat sjónvarpsskjá. Það var bömmer. En, Gulla lá í paddanum sínum og við Rúnar Atli horfðum á eitthvað í poddunum okkar. Svo var reynt að sofa. Maður festi svefn í einhverja klukkutíma, þótt sá svefn væri kannski ekki í háum gæðaflokki.

Flugvélin sem við ferðuðumst með var Airbus með tvö sæti við glugga og fjögur sæti á milli ganga. Við Rúnar Atli sátum gluggamegin og svo var Gulla hinum megin við ganginn í sömu röð. Henni leist ekki alveg á blikuna þegar þéttvaxinn S-Afríkumaður hlammaði sér niður við hlið hennar. Sá hún fram á næstu 10 tímana eða svo hangandi yfir sætisarminn vegna plássleysis.

En hún er sjóuð í ferðalögum. Yppti öxlum yfir þessu og sagði: „Hvítvín og kæruleysi leysa þetta vandamál!“

Það var nefnilega það.

Hvítvín og kæruleysi.

En svo skipti sá þéttvaxni um sæti við töluvert grennri dóttur sína, svo Gulla var í betri málum.

Hérna í sunnanverðri Afríku er vetur. Seinnihluti vetrar, reyndar, en vetur samt. Þegar við lentum í Jóhannesarborg tilkynnti flugstjórinn að hitinn úti væri ein gráða á Selsíus!

Ein gráða...

Enda þegar ég nefndi hitastigið við einn starfsmann flugvallarins, þá leit hann alvarlegum augum á mig og sagði: „Hryllingur - hreinn og tær hryllingur!“

Svo mörg voru þau orð.

Fjórir tímar í viðbót hér og þá hefst tveggja tíma flug til Windhoek.

28. júlí 2011

Lagst í víking, enn á ný

Dagur að kvöldi kominn.

Í fyrramálið höldum við út í óvissuna. Leggjum af stað til Malaví þar sem við munum búa næstu árin. Spennandi, en þó smákvíði. Enda væri annað líklega óeðlilegt.

Undanfarnir dagar hafa farið í stúss af ýmsu tagi. Tveir tröllakassar fylltir af ýmsum nauðsynjum. Ja, fyrst og fremst leikföngum fyrir soninn. Kassarnir voru sóttir í morgun og verða líklega komnir til Malaví í næstu viku.

Það sem af er viku höfum við ekki snætt kvöldmat heima hjá okkur. Heimboð á hverju kvöldi. Enda þarf að kveðja ýmsa.

Í dag var hitt og þetta gert. Tekið til í bílskúrnum, svo hann er flottari en nokkru sinni fyrr. Og þá fer maður í burtu.

Dæmigert.

Síðan liggja þrjár ferðatöskur á stofugólfinu, en þær fylltust smátt og smátt eftir því sem leið á daginn. En við munum nú ekki ná 60 kg farangurskvótanum sem við þrjú höfum. Mest er þetta fatnaður sem fer í töskurnar og ýmis konar tækjasnúrur.

Merkilegt hvað nútímalífi fylgja margar snúrur. Og allar með mismunandi endum.

Annars skruppum við Rúnar Atli á völlinn nú í kvöld. Horfðum á Leikni taka Þróttara í nefið. Fimm mörk Leiknispilta yljuðu okkur á meðan Þróttarar náðu einungis einu marki. Ekki skemmdi að Rúnar Atli uppgötvaði um daginn að einn frændi hans styður Þrótt. Það er Gústi, bróðir Ollý ömmu.  Verst að Rúnar Atli mun ekki hitta Gústa neitt á næstunni til að núa úrslitunum honum um nasir.

En 5-1 var flott kveðjugjöf til okkar feðganna. Við munum sakna þess að fara á Leiknisvöllinn, en við höfum verið mjög duglegir við það í sumar.

Tröllakassarnir munu ná til Malaví á undan okkur ferðalöngunum. Við byrjum nefnilega á kunnuglegum slóðum í Namibíu. Þar verður vikustopp. Við eigum enn bíl í Windhoek og ætlum að aka á honum yfir til Malaví. Stoppa aðeins á leiðinni hjá Viktoríufossum, en annars samanstendur ferðalagið af fimm akstursdögum. Löngum akstursdögum.

Namibía, Botsvana, Simbabve, Sambía og Malaví.

En nú er tími til að bjóða góða nótt. Fyrsta flugvél fer í loftið klukkan 7:20 í fyrramálið, en sú vél fer til Lundúna. Við þurfum því að fara á fætur um klukkan hálffimm.

Meira síðar.

19. júlí 2011

Reiðnámskeið

Rúnar Atli hefur verið duglegur í frístundum. Núna síðustu tvær vikur var hann á reiðnámskeiði hjá Reiðskólanum Faxabóli. Hefur honum þótt þetta mjög skemmtilegt og vill alveg eignast sinn eigin hest.

Kannski honum kippi í kynið í móðurættina, hver veit?

Í lok síðustu viku var haldin sýning fyrir foreldra. Að sjálfsögðu mættum við Gulla og vorum alveg að rifna úr stolti yfir afkvæminu.

Hvað annað?

Hér fylgja svo tvær myndir af Rúnari Atla og Stóra Stjarna.


Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...