28. júlí 2011

Lagst í víking, enn á ný

Dagur að kvöldi kominn.

Í fyrramálið höldum við út í óvissuna. Leggjum af stað til Malaví þar sem við munum búa næstu árin. Spennandi, en þó smákvíði. Enda væri annað líklega óeðlilegt.

Undanfarnir dagar hafa farið í stúss af ýmsu tagi. Tveir tröllakassar fylltir af ýmsum nauðsynjum. Ja, fyrst og fremst leikföngum fyrir soninn. Kassarnir voru sóttir í morgun og verða líklega komnir til Malaví í næstu viku.

Það sem af er viku höfum við ekki snætt kvöldmat heima hjá okkur. Heimboð á hverju kvöldi. Enda þarf að kveðja ýmsa.

Í dag var hitt og þetta gert. Tekið til í bílskúrnum, svo hann er flottari en nokkru sinni fyrr. Og þá fer maður í burtu.

Dæmigert.

Síðan liggja þrjár ferðatöskur á stofugólfinu, en þær fylltust smátt og smátt eftir því sem leið á daginn. En við munum nú ekki ná 60 kg farangurskvótanum sem við þrjú höfum. Mest er þetta fatnaður sem fer í töskurnar og ýmis konar tækjasnúrur.

Merkilegt hvað nútímalífi fylgja margar snúrur. Og allar með mismunandi endum.

Annars skruppum við Rúnar Atli á völlinn nú í kvöld. Horfðum á Leikni taka Þróttara í nefið. Fimm mörk Leiknispilta yljuðu okkur á meðan Þróttarar náðu einungis einu marki. Ekki skemmdi að Rúnar Atli uppgötvaði um daginn að einn frændi hans styður Þrótt. Það er Gústi, bróðir Ollý ömmu.  Verst að Rúnar Atli mun ekki hitta Gústa neitt á næstunni til að núa úrslitunum honum um nasir.

En 5-1 var flott kveðjugjöf til okkar feðganna. Við munum sakna þess að fara á Leiknisvöllinn, en við höfum verið mjög duglegir við það í sumar.

Tröllakassarnir munu ná til Malaví á undan okkur ferðalöngunum. Við byrjum nefnilega á kunnuglegum slóðum í Namibíu. Þar verður vikustopp. Við eigum enn bíl í Windhoek og ætlum að aka á honum yfir til Malaví. Stoppa aðeins á leiðinni hjá Viktoríufossum, en annars samanstendur ferðalagið af fimm akstursdögum. Löngum akstursdögum.

Namibía, Botsvana, Simbabve, Sambía og Malaví.

En nú er tími til að bjóða góða nótt. Fyrsta flugvél fer í loftið klukkan 7:20 í fyrramálið, en sú vél fer til Lundúna. Við þurfum því að fara á fætur um klukkan hálffimm.

Meira síðar.

2 ummæli:

davíð sagði...

Botnbaráttan í 1. deildinni verður spennandi þótt okkur finnist litli klúbburinn í efra komin fullnálægt stórveldinu í neðra.

Vonum að þetta gangi nú sem best hjá ykkur. Bíð spenntur eftir ferðasögunni með myndum.

Jóhanna sagði...

Góða ferð í hina heimsálfuna... leiðinlegt að missa af ykkur i gærkvöldi :(

XOXOX frá litlu systur

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...