29. júlí 2011

Kuldalegt í Afríkunni

Jóhannesarborg.

Hér lentum við í morgun klukkan sjö að staðartíma. Fimm að íslenskum tíma.

Langa flugið gekk þokkalega. Tíu og hálfur tími í flugvél er reyndar í það mesta. Ekki síst þegar vélin er gömul og ekki með prívat sjónvarpsskjá. Það var bömmer. En, Gulla lá í paddanum sínum og við Rúnar Atli horfðum á eitthvað í poddunum okkar. Svo var reynt að sofa. Maður festi svefn í einhverja klukkutíma, þótt sá svefn væri kannski ekki í háum gæðaflokki.

Flugvélin sem við ferðuðumst með var Airbus með tvö sæti við glugga og fjögur sæti á milli ganga. Við Rúnar Atli sátum gluggamegin og svo var Gulla hinum megin við ganginn í sömu röð. Henni leist ekki alveg á blikuna þegar þéttvaxinn S-Afríkumaður hlammaði sér niður við hlið hennar. Sá hún fram á næstu 10 tímana eða svo hangandi yfir sætisarminn vegna plássleysis.

En hún er sjóuð í ferðalögum. Yppti öxlum yfir þessu og sagði: „Hvítvín og kæruleysi leysa þetta vandamál!“

Það var nefnilega það.

Hvítvín og kæruleysi.

En svo skipti sá þéttvaxni um sæti við töluvert grennri dóttur sína, svo Gulla var í betri málum.

Hérna í sunnanverðri Afríku er vetur. Seinnihluti vetrar, reyndar, en vetur samt. Þegar við lentum í Jóhannesarborg tilkynnti flugstjórinn að hitinn úti væri ein gráða á Selsíus!

Ein gráða...

Enda þegar ég nefndi hitastigið við einn starfsmann flugvallarins, þá leit hann alvarlegum augum á mig og sagði: „Hryllingur - hreinn og tær hryllingur!“

Svo mörg voru þau orð.

Fjórir tímar í viðbót hér og þá hefst tveggja tíma flug til Windhoek.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...