24. mars 2010

Kvótagjöld á skötusel í Namibíu

Skömmu eftir sjálfstæði Namibíu tóku stjórnvöld þar upp kvótakerfi í fiskveiðum. Úthlutun er hagað á nokkuð annan hátt en í íslenska kerfinu og deila má um gegnsæi hennar. Hins vegar var strax mörkuð sú stefna að auðlindin ætti að gefa af sér pening til þjóðarinnar.

Auðlindagjald.

Þótti eðlilegt að 5-15% af löndunarverðmæti rynni í ríkissjóð. Var því sett á kvótagjald sem greiðist af úthlutuðum kvóta. Til að flækja málið eru kvótagjöld breytileg eftir því hvort landað er til vinnslu eða fryst á sjó. Löndun til vinnslu ber lægri kvótagjöld því fleiri fá atvinnu en ef fryst er á sjó.

Kvótagjöld á skötusel eru 400 Namibíudalir á tonn ef landað er til vinnslu, en 750 Namibíudalir ef fryst er á sjó. Fyrri upphæðin samsvarar um 7.000 krónum á tonn og sú síðari góðar 13.000 kr. Ef 2.000 tonn af skötusel væru fryst á sjó fengi ríkið 26 milljónir króna í tekjur.

23. mars 2010

Bankaklúður á skattaframtali

Var að skila skattaframtalinu. Húrra!

Alltaf jafngaman að koma þessu frekar leiðinlega skylduverki frá. Verst ég lauk þessu ekki á föstudags- eða laugardagskvöldi. Þá hefði verið flott að opna rauðvínsflösku. Nú, eða böbblí, eins og sagt er á enskunni. Læt smálögg af amarúlla duga í kvöld.

Eitt þótti mér stórfurðulegt við framtalið þetta árið. Við Gulla erum með húsnæðislán hjá Nýja Kaupþingi, aka Aríón banki. Ég var ekki alveg sáttur við forskráðu lánaupplýsingarnar. Náði ég því í reikninga ársins og fór að leggja saman. Exsellaði dæmið. Komst ég að því, mér til mikillar undrunar, að stór hluti forskráðu talnanna var hreinlega rangur. Í okkar tilviki munaði þónokkru. Vaxtagjöldin voru vantalin um meira en tuttugu prósent! Aðeins.

Einhvern veginn hélt ég, þrátt fyrir allt, að bankarnir væru með samlagningu á hreinu.

A.m.k. hjá okkur, þessum venjulegu húsnæðislánþegum.

En aldeilis ekki.

Hafið því varann á.

21. mars 2010

Namibía 20 ára

Í dag er þjóðhátíðardagur hér í Namibíu. Stórafmæli, en í dag eru tuttugu ár síðan landið fékk frelsi frá nágrönnum sínum í Suður Afríku. Auðvitað eru skiptar skoðanir um framfarir áratuganna tveggja frá sjálfstæði. En í dag er fagnað.

Kannski er vel við hæfi að við Íslendingar hleypum eldgosi af stað á þessum merkisdegi í sögu Namibíu. Enda ríkja kærleikar þjóðanna á milli.

Reyndar hófust hátíðarhöld fyrir einhverjum dögum síðan. Við Rúnar Atli fórum í gær að fylgjast með skrúðgöngu mikilli eftir Sjálfstæðiströð hér í Windhoek-borg. Þar átti að ganga fylktu liði og sýna gestum og gangandi ýmiskonar hernaðartæki.

Við feðgarnir komum okkur vel fyrir fyrir utan gluggann á skrifstofunni minni, en skrifstofan stendur við áður nefnda Sjálfstæðiströð. Eftir nokkra bið birtist hersingin.

Fyrst kom lúðrasveit hersins, sem spilaði „fallerí, fallera“ með flottum takti. Manni lá helst við að fara að marsera þar sem maður stóð.



Þó nokkrir hópar hermanna gengu síðan taktfast í kjölfar lúðrasveitarinnar. Auðvitað eru mismundandi deildir innan hersins, sem ég kann engin skil á, og þurftu allar að sýna sig á þessum degi. Athygli mína vöktu kvenhermenn, eða herkonur að sögn sonar míns. Voru a.m.k. þrír hópar herkvenna.


Síðan birtust allskonar hertæki. Sem friðelskur Íslendingur verð ég að viðurkenna að þekkja ekki tilgang allra þessara tækja. En mikilfenglegt var þetta.





Í lokin flugu svo nokkrar þyrlur yfir og herþotur þutu um loftið.

En þetta var dagur ánægju og dagurinn í dag líka.

Auðvitað veifaði Rúnar Atli nýja fánanum sínum sem mest hann mátti.

19. mars 2010

Alveg obbosslega frægur...

Nú svelgdist mér á morgunkaffinu.

Haldiði ekki að fimm ára sonurinn hafi afrekað það sem föðurnum hefur aldrei tekist! Að komast á forsíðu Namibian, mest lesna enska dagblaðins í Namibíu. Annar frá vinstri í efri röð.


Tilefnið er að á sunnudaginn kemur, 21. mars, verða 20 ár liðin frá sjálfstæði Namibíu. Einhverra hluta vegna kíkti blaðaljósmyndari í skólans hans Rúnars Atla.

Ég toppa þetta víst seint.

16. mars 2010

Útblásinn

Greinilegt að páskar nálgast. Í gær kom bréf frá skólanum hans Rúnars Atla þar sem sagt var frá páskastússi og -föndri næstu tveggja vikna. Og svo beiðnin: „Vinsamlegast komið með fjögur til sex útblásin egg, bitte.“

Er virkilega heilt ár liðið síðan við vorum að þessu síðast?

Úff, ekki ber á öðru.

Jæja, en hvað gerir maður ekki fyrir börnin sín? Ég náði í eggjabakka áðan og fór að pota göt með nálum og svo að blása. Og blása. Mér datt bara í hug sagan um stóra vonda úlfinn sem var að reyna að blása um koll múrsteinshúsið sem klárasta svínið hafði byggt. Og hann blés og blés og ...

Þetta hafðist nú allt að lokum. Að þessu sinni var myndavélin víðsfjarri. Ef einhver vill sjá hvernig þetta er gert þá voru settar myndir inn af samskonar athöfn rétt fyrir páskana í fyrra.

En nú er ég sem sagt algjörlega útblásinn og tími á háttinn hér í sunnanverðri Afríku.

15. mars 2010

Varalitavá!

Eins og flesta aðra daga sótti ég Rúnar Atla í forskólann í dag. Ekki lengur í leikskóla, en þó ekki kominn í skóla. Eitthvað á milli.

Það er nokkur gangur frá innganginum í skólann og út að hliði. Á hægri hönd er stór grasflöt og við fjærenda hennar eru rólur og önnur leikföng. Sem við göngum þarna í mestu makindum, þá er guttanum litið á rólurnar. Þar róla sér tveir krakkar. Hrópar hann upp yfir sig „Nein!“ Bíður svo ekki boðanna og tekur til fótanna út að hliði. „Hjúkk,“ heyrist svo í honum þegar hann er kominn í öruggt skjól að hans mati.

Ég skil ekki neitt í neinu yfir þessum látum í drengnum. Spyr hann svo út í þetta.

„Jú, pabbi, þetta er stelpan með varalitinn!“ segir hann og er mikið niðri fyrir.

„Stelpan með varalitinn?“ hváir pabbinn og skilur hvorki upp né niður.

Eftir nokkrar útskýringar lítur málið þannig út fyrir mér. Stúlka þessi er greinilega alræmd meðal bekkjarbræðra sinna. Hún á það til að koma með varalit í skólann. Ekki á munninum, skiljiði, heldur í vasanum. Grípur hún greinilega hvert tækifæri sem gefst, situr um strákana og varalitar þá á munninn. Bara strákana. Ekki stelpurnar.

Svo ef hún er ekki með varalit, þá á hún það til að ráðast á strákana og gefa þeim rembingskoss!

Ekki var laust við að hrollur færi um son minn þegar hann sagði mér frá þessu lævísa kvendi.

Já, það er margt sem ber að varast í forskólanum.

14. mars 2010

Rólyndis helgi

Enn ein rólyndishelgin hjá okkur. Meira að segja fékk ég laugardagsmorgun alveg fyrir mig. Gulla var búin að lofa að vera viðstödd þegar einhver hjúkrunarkona er að skoða ungabörn í fátækrarhverfinu. Tók hún Rúnar Atla með sér og var ég aleinn heima megnið af morgninum. Notalegt.

Annars hefur helgin helst farið í stúss í eldhúsinu. Ég eldaði roastbeef í gær sem tókst mjög vel. Meira að segja tókst mér að elda hluta nautsins á hátt sem Gullu líkar við, þ.e. gegnsteikt, og hluta á minn hátt, þ.e. meðalsteikt. Í kvöld verður síðan heill kjúklingur, uppáhald Rúnars Atla. Og reyndar Tinnu Rutar og Dagmarar Ýrar ... ef þær væru hér. Gulla sér um kjúklinginn.

Döðlubrauð kom svo úr brauðvélinni. Mmm. Síðan bakaði Gulla meira að segja jólaköku, en sonurinn hefur átt svoleiðis inni lengi.

Það eina sem gert var að við Rúnar Atli brugðum okkur í sund í dag. Sundlaugar í Windhoek eru frekar í kaldara lagi þessa dagana. Bæði er farið að hausta og eins hefur rignt nokkuð undanfarna viku eða tvær. Laugin var um 24 gráður. En ein köfunardýfa kemur blóðinu á hreyfingu og þá er laugin orðin fín. Annars er guttinn orðin virkilega flinkur að synda. Hann hefur tekið miklum framförum frá áramótum. Ætli það séu ekki allar sundferðir feðganna um jól og áramót?

Sem sagt, rólyndis helgi.

13. mars 2010

Kvótakerfi eða ekki kvótakerfi. Eða hvað?

Hef verið hugsi undanfarið yfir umræðu um sjávarútvegsmál. Fyrningarleið er oft talað um. Þjóðaratkvæðagreiðsla um kvótakerfið, eða afnám þess, hefur líka verið rædd. Meira að segja er búið að stofna samtök, Þjóðareign, sem vilja atkvæðagreiðslu af þessu tagi. Ýmsir málsmetandi Íslendingar standa að samtökunum.

Kannski skil ég umræðuna ekki alveg af því ég bý langt í burtu frá Íslandi.

Grundvallaratriði í fiskveiðistjórnun er að hefta ásókn sjómanna í fiskinn. Ég held að allir skilji það, enda eru ofveiddir fiskistofnar í öllum heimsins höfum. Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. álítur að um 30% af fiskistofnum heimsins séu ofnýttir eða hrundir og 50% séu nýttir að fullu. Aldrei hef ég heyrt nokkurn halda því fram að þetta sé ofmat.

Þ.a. fiskifræðingar meta af bestu getu hversu mikið má veiða af fiski á hverju ári. Svo er vandamálið hvernig eigi að tryggja að ekki sé veitt meira en það. Hér á landi tökum við magnið sem má veiða og deilum niður á skip. Kvótakerfi.

Auðvitað má fara aðrar leiðir. Sóknardagakerfi var notað áður fyrr. Þá reikna menn út hversu marga daga taki flotann að veiða leyfilegan afla og þann dagafjölda má veiða. Sums staðar hafa verið þreyttar ólympískar veiðar. Þá veiða menn og veiða þar til leyfilegur hámarksafli er kominn á land, en þá verða allir að hætta. Ýmsar aðrar leiðir má hugsa sér.

Hvað meina menn með afnámi kvótakerfisins? Hvers konar kerfi á að koma í staðinn?

Sumir tala um sóknardagakerfi, en mér sýnist að flestir vilji halda í kvótakerfi.

Bara öðrum vísi kvótakerfi.

Kvótakerfi með öðrum eigendum.

Fyrningarleiðin virðist t.d. ganga út á að taka kvóta frá núverandi eigendum á 20 ára tímabili og síðan sjái ný ríkisstofnun um að leigja út kvótann. Að mér sýnist til eins árs í senn.

Frjálst framsal kvótans virðist líka þyrnir í augum marga. Til að losna við óæskilegar afleiðingar kvótasölu vilja sumir byggðakvóta, þar sem sveitarfélögin sjá síðan um að velja hverjir fá að veiða.

Ég veit ekki hvort þessar leiðir verða eitthvað betri eða réttlátari en sú sem notuð er í dag. Eru t.d. menn í bæjarstjórnum bestir til að sjá um úthlutun kvóta í sínu bæjarfélagi?

En, sem sagt, ég er í vandræðum með að skilja nákvæmlega hvað menn ætla sér að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið.

12. mars 2010

Gott að vera kona... eða hvað?

Gulla var að fara út rétt áðan. Hátíðarkvöldverður, eingöngu fyrir konur, til styrktar einhverju góðu málefni. Auðvitað þurfti hún að stríla sig upp. Gengur ekki að mæta í bol og gallabuxum á svona viðburð.

Við feðgarnir hjálpuðum henni við uppástrílinginn. Helsta vandamálið var að velja skó. Rúnar Atli hafði greinilega aldrei pælt mikið í háhæluðum skóm áður. Fékk hann að prófa eitt par. Prófunin stóð ekki lengi yfir.

„Ég er glaður að vera ekki kona,“ klykkti hann út með.

2. mars 2010

Karlmennska völtum fótum?

Færa má rök fyrir því að fæturnir séu með mikilvægustu líkamshlutum okkar. Án þeirra væri margt erfitt. Þó er það nú þannig að við, a.m.k. karlmenn, hugsum nú ekkert sérstaklega um þá. Um nokkurt skeið hafa þessir mikilvægu líkamshlutar mínir valdið mér hugarangri. Ekkert alvarlegt þannig séð, en pirrandi. Ég vil nú ekkert fara meira út í þá sálma, nema þó að einsýnt hefur verið um skeið að einhvers konar sérfræðingur þyrfti að kíkja á þá.

Eftir að humma þetta fram af mér lengi, þá braut ég odd af oflæti mínu og pantaði mér tíma í fótasnyrtingu.

Já, les og skrifa  f ó t a s n y r t i n g u.

Reyndar... reyndar pantaði ég ekki tímann heldur mín elskulega eiginkona. En að minni beiðni.

Fótasnyrtinum leist víst ekki meira en svo á blikuna. Konan sú sagðist ekki vera vön karlmannafótum á sínum meðferðarbekk, en gerði þó undantekningu. Enda er Gulla góður viðskiptavinur hennar.

Kannski er ekki skrýtið að henni hafi litist illa á. Mjög algengt er að hvítir karlmenn í Namibíu gangi berfættir hér um götur. Sem strákar var ekki verið að troða þeim í skó og bera fætur margra þeirra þess merki. Heljarinnar óhreininda- og sigglag neðan á iljum ver fætur þeirra.

Eftir því sem leið nær fundi mínum og fótasnyrtisins fékk ég fleiri og fleiri bakþanka. Ég hef t.d. alltaf verið frekar kitlinn í fótunum og kann því illa þegar aðrir koma við þá. Og, hversu karlmannlegt er nú að fara í svona meðferð?

En ég mætti þó í tímann. Gat ekki verið þekktur fyrir að gugna á síðustu stundu.

Þrautgóðir á raunastund - ef þannig ber undir gröfum við okkur í fönn. Sem sagt, íslenskir karlmenn eru sko alls engar gungur...

Mikið kom þetta á óvart. Fótasnyrtir þessi er greinilega mjög fær í sínu fagi og þykir gaman að stússast með fætur fólks.

Hversu „korní“ sem það nú hljómar.

Mig kitlaði ekkert í fæturna á meðan á meðferðinni stóð. Heilar 50 mínútur af allskonar sköfun, skröpun og klippingum. Núna er ég með þessar líka mjúku og fínu fætur. Og líður betur í þeim en í langan tíma.

Og karlmennskan?

Jú, hún hefur bara ekkert breyst. Meiri ef eitthvað er.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...