13. mars 2010

Kvótakerfi eða ekki kvótakerfi. Eða hvað?

Hef verið hugsi undanfarið yfir umræðu um sjávarútvegsmál. Fyrningarleið er oft talað um. Þjóðaratkvæðagreiðsla um kvótakerfið, eða afnám þess, hefur líka verið rædd. Meira að segja er búið að stofna samtök, Þjóðareign, sem vilja atkvæðagreiðslu af þessu tagi. Ýmsir málsmetandi Íslendingar standa að samtökunum.

Kannski skil ég umræðuna ekki alveg af því ég bý langt í burtu frá Íslandi.

Grundvallaratriði í fiskveiðistjórnun er að hefta ásókn sjómanna í fiskinn. Ég held að allir skilji það, enda eru ofveiddir fiskistofnar í öllum heimsins höfum. Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. álítur að um 30% af fiskistofnum heimsins séu ofnýttir eða hrundir og 50% séu nýttir að fullu. Aldrei hef ég heyrt nokkurn halda því fram að þetta sé ofmat.

Þ.a. fiskifræðingar meta af bestu getu hversu mikið má veiða af fiski á hverju ári. Svo er vandamálið hvernig eigi að tryggja að ekki sé veitt meira en það. Hér á landi tökum við magnið sem má veiða og deilum niður á skip. Kvótakerfi.

Auðvitað má fara aðrar leiðir. Sóknardagakerfi var notað áður fyrr. Þá reikna menn út hversu marga daga taki flotann að veiða leyfilegan afla og þann dagafjölda má veiða. Sums staðar hafa verið þreyttar ólympískar veiðar. Þá veiða menn og veiða þar til leyfilegur hámarksafli er kominn á land, en þá verða allir að hætta. Ýmsar aðrar leiðir má hugsa sér.

Hvað meina menn með afnámi kvótakerfisins? Hvers konar kerfi á að koma í staðinn?

Sumir tala um sóknardagakerfi, en mér sýnist að flestir vilji halda í kvótakerfi.

Bara öðrum vísi kvótakerfi.

Kvótakerfi með öðrum eigendum.

Fyrningarleiðin virðist t.d. ganga út á að taka kvóta frá núverandi eigendum á 20 ára tímabili og síðan sjái ný ríkisstofnun um að leigja út kvótann. Að mér sýnist til eins árs í senn.

Frjálst framsal kvótans virðist líka þyrnir í augum marga. Til að losna við óæskilegar afleiðingar kvótasölu vilja sumir byggðakvóta, þar sem sveitarfélögin sjá síðan um að velja hverjir fá að veiða.

Ég veit ekki hvort þessar leiðir verða eitthvað betri eða réttlátari en sú sem notuð er í dag. Eru t.d. menn í bæjarstjórnum bestir til að sjá um úthlutun kvóta í sínu bæjarfélagi?

En, sem sagt, ég er í vandræðum með að skilja nákvæmlega hvað menn ætla sér að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið.

1 ummæli:

Jóhannes Laxdal sagði...

Sæll Vilhjálmur, þú ert ekki einn um að skilja ekki tilgang samtakanna "þjóðareign" Ég kallaði þá óvart Lukkuriddara og fékk bágt fyrir

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...