Kannski er vel við hæfi að við Íslendingar hleypum eldgosi af stað á þessum merkisdegi í sögu Namibíu. Enda ríkja kærleikar þjóðanna á milli.
Reyndar hófust hátíðarhöld fyrir einhverjum dögum síðan. Við Rúnar Atli fórum í gær að fylgjast með skrúðgöngu mikilli eftir Sjálfstæðiströð hér í Windhoek-borg. Þar átti að ganga fylktu liði og sýna gestum og gangandi ýmiskonar hernaðartæki.
Við feðgarnir komum okkur vel fyrir fyrir utan gluggann á skrifstofunni minni, en skrifstofan stendur við áður nefnda Sjálfstæðiströð. Eftir nokkra bið birtist hersingin.
Fyrst kom lúðrasveit hersins, sem spilaði „fallerí, fallera“ með flottum takti. Manni lá helst við að fara að marsera þar sem maður stóð.
Þó nokkrir hópar hermanna gengu síðan taktfast í kjölfar lúðrasveitarinnar. Auðvitað eru mismundandi deildir innan hersins, sem ég kann engin skil á, og þurftu allar að sýna sig á þessum degi. Athygli mína vöktu kvenhermenn, eða herkonur að sögn sonar míns. Voru a.m.k. þrír hópar herkvenna.
Síðan birtust allskonar hertæki. Sem friðelskur Íslendingur verð ég að viðurkenna að þekkja ekki tilgang allra þessara tækja. En mikilfenglegt var þetta.
Í lokin flugu svo nokkrar þyrlur yfir og herþotur þutu um loftið.
En þetta var dagur ánægju og dagurinn í dag líka.
Auðvitað veifaði Rúnar Atli nýja fánanum sínum sem mest hann mátti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli