30. september 2007

Símamál

Fjárfestum í smartsíma hjá Hive þegar Gulla var heima á Fróni. Þetta er græja sérstaklega hönnuð fyrir Íslendinga í útlöndum og tengjum við hana við ADSLið okkar. Með tækinu fáum við íslenskt símanúmer og þurfum bara að tengja símtæki við þetta. Kostar ekkert fyrir okkur að hringja í íslenska heimasíma og innanlandstaxti fyrir þá sem hringja í okkur.

Eftir nokkura daga vesen tókst loksins í gær að fá græjuna í samband. Hringdi fyrst í Dagmar Ýr og gekk símtalið bara ágætlega. Hringdi síðan í mömmu, en það gekk hins vegar illa. Held að hún hafi haldið að einhver væri að gera símaat í henni. Og síðan í dag gekk ekki vel að nota apparatið.

Hins vegar sé ég að einhverra hluta vegna er nettengingin sein í dag, en því miður virðast viðgerðarmenn hjá símafyrirtækinu lítið vera fyrir að vinna um helgar. Vonast ég því eftir að á morgun gangi þetta betur.

Símanúmerið okkar er 496-1991 og endilega prófið að slá á þráðinn. Munið þó að við erum tveimur tímum á undan, þ.a. símtöl mikið seinna á kvöldin en hálfníu að íslenskum tíma eru ekki endilega vel séð...

Við höldum áfram að prófa tæknina, þ.a. ekki verða foj ef þið fáið símtal sem byrjar með þögn... ekkert afbrigðilegt í gangi.

A.m.k. ekki ef við erum að hringja...

29. september 2007

Bleyjuleysi

Hálfdasaður í dag, verð ég að viðurkenna. Sé líka að dagbókarfærslan frá í gær var sett inn þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í tvö ... eftir miðnætti.

En frétt dagsins snýst nú um hann Rúnar Atla. Ekki í fyrsta sinn, eða hvað?

Fyrir rúmri viku forvitnaðist leikskólakennarinn afar pent um hvort við værum eitthvað að spá í að venja soninn af bleyju... Maður kveikti nú áður en skall í tönnum. Í vikunni höfum við því verið að láta drenginn vera bleyjulausan eftir hádegið. Hlaupið svo reglulega með hann á salernið til að gá hvort eitthvað gerist.

Síðan á fimmtudag gerist það að hann segist þurfa að pissa, og viti menn, svo kom pissið í klósettið. Ekki er laust við að foreldrarnir hafi tapað sér smávegis í fagnaðarlátum og hrósi.

En svoleiðis er þetta nú bara.

Guttinn var sendur bleyjulaus á leikskólann á föstudaginn og eingöngu eitt slys. En hann hefur látið vita og þrátt fyrir eitt og eitt slys þá hefur þetta gengið glettilega vel.

Svo í dag var greinilegt að eitthvað meira þurfti að gera en bara að pissa. Voru stanslaus hlaup fram og til baka á klóið, en ekkert gerðist. Pabbinn, verður að viðurkennast, var farinn að þreytast aðeins á þessu og sá stutti var greinilega búinn að átta sig á því. Kemur svo allt í einu fram og tilkynnir að hafi verið að kúka. Nú, foreldrarnir hlupu upp til handa og fóta og könnuðu málið. Mikið rétt, hann hafði skilað einu stykki eða svo á réttan stað.

Við foreldrarnir erum ósköp glaðir yfir hversu vel þetta gengur. Nú erum við hins vegar byrjuð að sigta út almenningssalerni hér í Windhoekborg. Líklegt að heimsóknum á þau fjölgi á næstunni.

Partístand

Í kvöld buðum við nokkrum Íslendingum heim. Jú, og tveimur Namibíumönnum.

Rúnar Atli var í essinu sínu og sneri kvenfólkinu um fingur sér. Sjáið bara:


Hann er annars ósköp ábyrgur piltur. Fyrst bauðst hann til að ná tappa úr flösku fyrir gestina,...


...en þegar hann uppgötvaði áhrif hins görótta drykkjar, þá fór hann að tryggja að ekki yrði neytt meira af mjöðinum góða:

23. september 2007

Kökubakstur

Staðið í stórræðum í dag. Rúnar Atli, ásamt mömmu sinni, tóku bakstursskorpu. Ein smákökutegund og svo súkkulaðimúffur.

Hlutverk Rúnars Atla er fyrst og fremst gæðaeftirlit, og hér sést hann tryggja að kökudeigið uppfylli ströngustu staðla Evrópusambandsins.

22. september 2007

Fótbolti, hvað?

Hér í sunnanverðri Afríku er lítið rætt um fótbolta þessa dagana. Nei, rúbbí og krikket eru mál málanna, enda eru heimsmeistaramót í gangi um þessar mundir í báðum þessum íþróttagreinum.

Rúnar Atli hefur fengið mikinn rúbbíáhuga. Suður-Afríka á eitt allra besta rúbbílið í heimi og síðan náði Namibía að vinna sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu.

Við horfum því á rúbbí dag eftir dag, en því miður er Namibía að bíða hroðalega útreið gegn Argentínumönnum í kvöld. Ákvað ég því að blogga frekar en að horfa á seinni hálfleikinn...

Í dag uppfyllist ein ósk Rúnars Atla, en hún var að eignast rúbbíbolta. Hér sjáiði guttann með fína nýja boltann.


Síðan var einbeitingin mikil að kasta boltanum...
...og ekki er hægt að segja annað en drengnum hafi farist þetta vel úr hendi.

Grilltíð

Ákváðum að grilla í dag. Í þetta sinn þótti okkur við hæfi að vígja grillaðstöðuna á neðri hæð hússins. Höfum aldrei grillað þar áður, enda er aðeins lengra í eldhúsið þaðan. En, eins og þið sjáið er aðstaðan ágæt.


Grilluðum kannski fullmikið af mat. En gerir maður það ekki alltaf? Rússneskar pylsur, kótilettur, hamborgarahryggsneiðar, búapylsa, nokkrar nautasneiðar, og ég veit ekki hvað og hvað. Smárauðvín með, auðvitað.

11. september 2007

Litli frændi

Við Rúnar Atli vorum að lesa moggann áðan.

Á bls. 21 er verið að segja frá því að glænýir foreldrar þurfi líka hvíld. Þar er mynd af splunkunýju barni hágrátandi og vakti það eftirtekt Rúnars Atla.

„Hver er þetta?” spurði hann.

„Er þetta Aron Kári?” bætti hann við.

Klár drengur að þekkja litla frænda

9. september 2007

Talnagaldrar

Sátum við úti á svölum áðan að borða kvöldmatinn. Lambakótilettur, ofnbakaðar kartöflur og gulrætur og sitthvað meira meðlæti.

Maturinn ekki aðalatriði í sögunni, en vildi bara láta koma fram að Tinna Rut hrósaði eldamennskunni.

Rúnar Atli var að reyna að fá okkur til að gera eitthvað fyrir sig og reyndi að kaupa okkur með því að segja „I love you.” Tinnu Rut þótti þetta voðalega sætt og segir: „I love you too.”

Heyrist þá í þeim stutta: „I love you three” en skipti svo um skoðun: „Nei, I love you one.”

Gullkornin flæða á þessum aldri.

Nennirðu...?

Þegar við búum jafnlangt í burtu frá íslenskumælandi fólki og raun ber vitni, þá hefur sonurinn auðvitað ekki margar íslenskufyrirmyndir heldur en þá örfáu fjölskyldumeðlimi sem hann býr með. Reyndar er oft hlustað á Rás 2 og Bylgjuna um helgar og þekkir hann þær tvær stöðvar ósköp vel og raular stundum: „ráááás tvööööö.”

En helstu fyrirmyndirnar eru fáar og stundum hugsa ég hvort ég tali virkilega á þann hátt sem tungutak sonarins gefur til kynna.

Um sjálfan mig hef ég þá skoðun að ég tali alveg þokkalega íslensku. Á til að skella smáorðinu sko í lok setninga og segi kannski fulloft maður, einnig í lok setninga. En svona heilt yfir, álít ég að íslenskan mín sé ágæt.

Kannski lifi ég í einhverri draumaveröld í þessu samhengi.

Eitt dæmi.

Eitt af algengustu orðum sonar míns þessa dagana er: nennirðu.

Í bílnum spyr hann: „Nennirðu að hækka/lækka?” Er þá að tala um útvarpið. „Nennirðu að opna?” „Nennirðu að skrúfa?” „Nennirðu að gefa mér mjólk?” og svo framvegis og svo framvegis.

Æ, ég nenni ekki að skrifa meira...

3. september 2007

Vorið

Æ, mikið er gott hvað farið er að hlýna.

Í kvöld sátum við Rúnar Atli í miklum kvennafans; fimm íslenskar konur - ef Tinna Rut er talin með - sátu hjá okkur í kvöld. Kínamatur var pantaður og held ég allir hafi skemmt sér nokkuð vel.

Nú sit ég enn úti á verönd, aleinn reyndar, klukkan farin að ganga ellefu, og hitastigið alveg meiriháttar fínt. Svona á lífið að vera, að geta setið utandyra langt fram eftir kvöldi. Blankalogn og það eina sem heyrist er hundgá og skordýrasmellir. Einstaka bíll álpast framhjá húsinu en þeir eru ekki margir.

Já, og svo yljar hvítvínið ágætlega.

2. september 2007

Góðir mannasiðir

Sonur minn er orðinn kurteis með eindæmum. Til lengri tíma fékkst hann ekki til að þakka fyrir nokkurn skapaðan hlut, en nú er öldin önnur. Ef einhver hnerrar, þá kallar hann „Guð hjálpi þér.”

Að máltíðum loknum þurfa allir að segja „takk fyrir mig” við hann, svo hann geti sagt „verði þér að góðu.” Síðan þarf hann auðvitað að þakka fyrir sig svo við getum sagt „verði þér að góðu” við hann.

Nú sló hann þó öll met. Hann var búinn með miðdegisblundinn sinn og ég var að sækja hann inn í herbergi. Ég spurði hann, svona í gamni, hvort hann vildi sofa lengur.

Svarið kom fljót:

„Nei, ... takk.”

Flutningi að ljúka

Gærdagurinn var strembinn hjá Gullu og Dagmar Ýr. Klukkan 10 mætti flutningabíll á Stillholtið og var tekið að bera út í bíl. Ýmsum hreystimönnum, af báðum kynjum, hafði verið stefnt á staðinn og var víst handagangur í öskjunni við kassa- og húsgagnaburð.

Fljótlega kom í ljós að einn bíll dugði engan veginn og var því kallaður út annar flutningabíll. Síðan var öllu hrúgað inn í Æsufellið og gekk allt víst bara vel fyrir sig.

Voru víst allir mjög þreyttir í gærkvöldi, og sváfu mæðgurnar þar af leiðandi vel fyrstu nóttina í nýju sveitarfélagi.

Enn er eitthvað smálegt eftir á Akranesi og er Gulla víst í því núna að flytja restar. Nú er flott að eiga strumparútu. Þegar búið er að taka öll sæti úr, þá er hægt að koma slatta af drasli fyrir í bílnum.

En það sér semsagt fyrir endann á þessu.

Nú þarf bara að leyfa aumum vöðvum að jafna sig og nokkrir eru víst marblettirnir á handleggjum og lærum hef ég frétt.

Við hér í Namibíu reyndum okkar ýtrasta til að senda góðar bylgjur til burðardýranna. Við hófum daginn á kaffihúsi og dunduðum okkur við verslanaleiðangra í búðum. Vorum líka þreytt eftir... en fáir marblettir þó.

1. september 2007

Fyrsti í vori

Dagurinn í dag, 1. september, er fyrsti vordagur hér í Namibíu. Ekkert stórmennskubrjálaði hér eins og hjá Íslendingum að kalla einhvern dag á miðjum vetri sumardaginn fyrsta.

Nei, fyrsti vordagur.

Hann stóð alveg undir nafni. Töluvert hefur hitnað hér undanfarna daga og er maður jafnvel farinn að gjóa augum að viftunum.

Síðan er tímabreyting hér í nótt. Þá verðum við tveimur tímum á undan Íslandi og verðum það næstu sjö mánuði. Þannig að þegar ég vakna kortér yfir fimm á morgnana hér, þá er klukkan kortér yfir þrjú heima á Fróni.

Spurning að senda öllum kunningjum á Íslandi „góðan daginn“ sms þegar verið er að hita tevatnið...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...