9. júlí 2018

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem stökkpall. Konunglega hollenska flugfélagið, betur þekkt sem KLM, flýgur beint frá Amsterdam til Entebbe í Úganda. Iðulega á ferðum mínum til Afríku hef ég þurft að millilenda tvisvar og skipta um flugvélar og finnst mér miklu muna að þurfa bara að skipta einu sinni um vél. Annað sem mér finnst ágætt við þetta KLM flug er að það er dagflug. Mér finnst betra að fljúga að deginum til heldur en að nóttu til. Þá er ég ekkert að reyna að sofna og dunda mér frekar við lestur eða sjónvarpsáhorf. Nú, eða jafnvel reyni að skrifa bloggpistil.

Ekki er óalgengt að Afríkuflugin mín séu á milli 8 og 11 klukkutíma. Næturflugin lenda snemma morguns og þá er ég yfirleitt frekar illa fyrirkallaður. Illa sofinn en á heilan dag framundan. Ekki er gott að fara þá að sofa, því það ruglar mig svolítið í ríminu. Nei, dagflugið finnst mér betra. Þá lendir vélin að kvöldi til og þá er einfaldlega tími til að fara að sofa. Síðan er sofið í heila nótt svo ég vakna hress og kátur næsta morgun.

En ég ætlaði að skrifa eitthvað um Amsterdam. Vegna flugtenginga þurfti ég að gista eina nótt þar. Morgunflugin frá Íslandi lenda í Amsterdam um hádegisbilið, en Entebbe flugið fer skömmu fyrir 11 að morgni. Ég bókaði því herbergi á Hilton hótelinu sem er á Schiphol flugvelli. Mjög fínt hótel fyrir einnar nætur stans, því ekki þarf einu sinni að fara út undir bert loft, heldur er gengið eftir löngum gangi að anddyri hótelsins. Ætli göngutúrinn sé ekki um 6-8 hundruð metrar eftir að búið er að sækja farangurinn. Á sama gangi er líka Sheraton hótel, en ég hef aldrei gist þar.

En ég var með plön fyrir Amsterdam. Ég var búinn að finna reiðhjólaverslun sem mig langaði að heimsækja. Ég hjóla jú iðulega til og frá vinnu og að sjálfsögðu þarf græjur af ýmsu tagi til svoleiðis hluta. Auðvitað eru búðir á Íslandi sem selja hjólagræjur, en stundum finnst mér úrvalið takmarkað og svo verður hreinlega að segja að margt kostar meira heima á Fróni en í útlandinu. Eftir að stúdera götukortin hjá hr. Gúgli þá ákvað ég að kíkja í verslun sem heitir Kaptein tweewielers. Þótt ég kunni nú ekki hollensku þá má líklega þýða búðarheitið sem ,,skipperinn tvíhjólandi." Ekki veit ég hvað ykkur finnst, en svona skipper hlýtur að vita lengra en nef hans nær um hjólreiðar.

Hr. Gúgull sagði mér líka hvernig best væri að komast frá hótelinu að þessari verslun. Ég sagðist vilja nota almenningssamgöngur og fékk tvo valkosti. Ég valdi þann fljótari, auðvitað. Hann fólst í að taka lest frá flugvellinum að stórri skiptistöð. Þar ætti ég síðan að taka borgarlestarvagn, sem kallast trammi, en hann fer um á teinum og tengist raflínum einhverja metra yfir götum borgarinnar. Þetta er svona hollenskt borgarlínudæmi. Svo þrjár stoppistöðvar og þar væri bara búðin mín mjög skammt undan. Tæplega hálftíma ferðalag frá hótelinu og á leiðarenda.

Borgarlestarvagn í Amsterdam
Ég byrjaði á því að finna sölustað fyrir samgöngukort. Borgaði ég 16 evrur fyrir sólarhringskort sem hægt er að nota í lestum, borgarvögnum og venjulegum strætisvögnum innan Amsterdam. Þetta eru snertilaus kort sem mjög þægilegt er að nota. Maður skannar til að komast inn á lestarstöðvar og einnig til að komast út. Í strætóunum eru skannar inni í þeim og skannar maður þegar maður kemur inn í vagninn og svo aftur þegar maður fer út. Þetta svínvirkaði hjá mér.

Ég fann síðan brautarpallinn minn og þar var lestin við það að fara. Svo á skiptistöðinni beið ég í nokkrar mínútur. Þarna voru skjáir sem sýndu hvaða vagnar væru að koma og hversu langt væri þangað til. Stoppistöðvarnar fyrir borgarlestarvagnana eru oft á eyjum á miðjum götum svo maður þarf að fara yfir götu til að komast á áfangastað. Ég snerist í tvo, þrjá hringi fyrir utan stoppistöðina þar sem ég fór úr vagninum, gjörsamlega áttavilltur, en svo sá ég Kafteininn! Eins og hr. Gúgull hafði sagt þá var hann steinsnar frá.

Inni í versluninni var margt hægt að fá sem tengdist hjólreiðum. Greinilega eru þeir sem vinna þarna hjólagúrúar sem hafa gaman að hjólreiðum og vita margt. Mér tókst nú ekki að finna allt sem ég var að leita að því vetrarklæðnaður selst ekki mikið á þessum árstíma í Hollandi! Það er reyndar ekki undarlegt, en það var 26 gráðu hiti úti þegar ég var þarna. En einn gúrúinn fór inn á lager og gróf upp einhverja kassa með vetrarjökkum.

Þegar ég var búinn að versla og kom út á götu, sé ég ekki hvar vagninn ,,minn" er að renna frá stoppistöðinni. En það var ekki mikið vandamál því sá næsti kom innan við fimm mínútum seinna. Á stóru skiptistöðinni beið ég svo í tvær mínútur eftir lestinni minni. Já, ég hef oft talað um mikilvægi þess að tíðni vagna sé ör, því þá er möguleiki að fólk fari meira og meira að nota almennissamgöngur. Það gengur ekki að þurfa að bíða í hálftíma ef maður missir af vagni.

En á hótelið komst ég aftur áfallalaust. Þegar þarna var komið sögu var hálfleikur í leik Englendinga og Svía í átta liða úrslitum á HM í knattspyrnu. Ég horfði á seinni hálfleikinn á BBC 1 og naut þess að hlusta á ensku þulina lýsa leiknum af mikilli innlifun.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...