26. apríl 2012

Þá skal hjólað!

Eftir góða hjólaskorpu í fyrra seig mjög á ógæfuhliðina eftir flutninginn til Lílongve. Frá seinni hluta apríl í fyrra og fram í ágúst, ja, eiginlega fram á síðasta dag áður en við fluttum, þá hjólaði ég næstum upp á hvern einasta dag. Til og frá vinnu, 8-12 km hvora leið eftir því hversu miklu stuði ég var í. Svo tók ég stundum langa hjólatúra um helgar. Skemmtilegast var þegar Rúnar Atli fór að hjóla með mér.

En svo fluttum við til Malaví. Þar er mikið hjólað. Má segja að varla sé þverfótað fyrir hjólreiðafólki. Reiðhjólin, hins vegar, þættu ekki fínn pappír á Íslandi. Eins ódýr og hægt er að finna. Flest frá Indlandi. Níðþungir hlunkar sem virðast með slæmu jafnvægi margir hverjir. Handbremsurnar á mörgum hjólum eru ekki með víra frá handfanginu til bremsunnar, heldur málmstangir. Enda sýnist mér mörg hjólanna hérna vera bremsulaus. En svoleiðis smámunir eru ekki settir fyrir sig.

Að kaupa hjól eins og seld eru í íslenskum hjólabúðum er ekki auðvelt. Þess háttar hjól fást einfaldlega ekki í búðum hér. Hins vegar er til á netinu spjallrás fyrir Lílongve-búa og þar eru stundum auglýst góð fjallahjól. Yfirleitt eru eigendurnir útlendingar sem eru að flytja aftur heim og vilja losa sig við hitt og þetta.

Ég hef um nokkurt skeið fylgst með spjallrásinni og núna loksins var auglýst hjól. Reyndar tvö. Í gær fórum við Rúnar Atli að skoða. Konan sem var að selja hjólin er suður-afrísk og er að flytja aftur heim eftir 12 ára veru í Malaví. Hún er kennari við skólans hans Rúnars, þ.a. hann átti ekki í erfiðleikum með að halda henni á snakki á meðan ég prufaði hjól.

Þessi kona er hjólanörd. Það er eina lýsingarorðið sem mér dettur í hug. Pabbi hennar á hjólabúð í Jóhannesarborg og hún ólst upp í allskonar hjólastússi. Hefur tekið þátt í mörgum hjólreiðakeppnum. Hún var svo heilluð af syni mínum að hún náði í fullan kassa af notuðum hjólafatnaði og gaf Rúnari Atla tvær hjólreiðakeppnistreyjur og hjólastuttbuxur með púðum á réttum stöðum. ,,Sonur þinn er æðislegur,'' hvíslaði hún að mér þegar við fórum. ,,Eins og pabbinn," hugsaði ég, en sagði ekki...

En ég keypti annað hjólið af henni. Tveggja ára gamalt Giant Iguana hjól, sem pabbi hennar átti. Þetta er án efa langsamlega flottasta hjól sem ég hef nokkurn tímann átt. Skítlétt með 27 gírum og framdempurum. Þrusuflott. Eina vandamálið er að pedalarnir eru fyrir ,,klíta", hjólaskó sem festast við pedalana. Þótt hægt sé að hjóla í venjulegum skóm á þessum pedölum finnst mér það óþægilegt því þeir eru svo mjóir. Það er auðveldara hér að kaupa nýja pedala frekar en hjólaskó og ég geri það örugglega. Kannski kíki ég í hjólabúð næst þegar ég kem til Jóhannesarborgar og fjárfesti í svona skóm.

Við Rúnar Atli skutumst lítinn hring um nágrennið í gær og svo skaust ég í tíu mínútna túr áðan. Ég verð smástund að læra á hjólið, því það er aðeins frábrugðið gamla hjólinu mínu.

En við Rúnar Atli erum farnir að skipuleggja lengri ferð. Líklega notum við sunnudagsmorguninn í hana.

Hér sést svo stoltur kappi með nýja hjólið sitt.

 

14. apríl 2012

Kvikmyndaklassík

Eftir síðasta beltapróf hjá Rúnari Atla í karate hefur áhugi hans á íþróttinni tvíeflst. Hann stundar æfingar af mikilli alvöru. Í páskafríinu féllu niður æfingar í skólanum hans, en krakkarnir máttu mæta á æfingar hjá sama þjálfara annars staðar í bænum. Held ég að guttinn hafi ekki misst úr æfingu.

Á daginn er hann endalaust að æfa hinar og þessar hreyfingar, högg og spörk. Eigum við Gulla stundum fótum fjör að launa.

Okkur Gullu finnst skemmtilegt að fara á æfingar og fylgjast með, því krakkarnir virðast allir fullir áhuga og stunda æfingarnar af mikilli alvöru. Þjálfarinn er líka áhugasamur og akkúrat. Um daginn var hann að kenna krökkunum virðingu fyrir búningnum og beltinu sínu. Alltaf að laga hann til þegar tækifæri gefst og passa að beltið sé rétt bundið. Í gær var ákafinn hjá Rúnari Atla fullmikill í einni sparkæfingunni og hann missti jafnvægið. Tveir félagar hans hlógu aðeins, svona eins og maður á til að gera þegar félaga manns verður á klaufaskapur. Kennarinn leit ísköldum augum á þá tvo og sagði: „Í karate hlæjum við ekki hvert að öðru! Tíu armbeygjur fyrir ykkur tvo.“ Þeir gerðu armbeygjurnar möglunarlaust.

Einhvern tímann á síðasta ári rakst ég í einhverri búð á „költ“myndina, Í klóm drekans með Bruce Lee. Ekki alveg sú nýjasta, framleidd 1973. En jú undanfari allra þeirra austurlensku slagsmálamynda sem síðar komu. Fjárfesti ég í eintaki af myndinni.

Í gærkvöld tókum við Rúnar Atli okkur til og horfðum á myndina. Fyrsta skipti hans. Skemmtum við okkur þrælvel. Auðvitað er þetta B-mynd að svo mörgu leyti, en það breytir ekki því að Bruce Lee er alveg stórkostlegur í sínu hlutverki. Sveipaður dulúð um leið og hann er náttúrulegur töffari fram í fingurgóma.

Helsti munurinn á þessari mynd og slagsmálamyndum síðari ára er að þarna eru engar brellur eða sjónhverfingar notaðar. Öll sú fimi sem Bruce sýnir er hans eigin. Engin trikk til að láta hann svífa þrisvar sinnum lengur í loftinu en mannlega er mögulegt eða taka sjöfalt heljarstökk. Nei, í þessari mynd veit maður að fimin er raunveruleg. Það er frískandi að horfa á þannig mynd.

Mikil synd að Bruce Lee skyldi falla frá áður en myndin var frumsýnd. Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvernig hans ferill hefði orðið ef hann hefði lifað lengur.

Rúnari Atla fannst Bruce flottur. Hvað annað? Ég á allt eins von á að þurfa að horfa fljótlega aftur á þessa mynd og þurfa að ræða sum atriðin út í þaula.

En það er bara skemmtilegt.

Ætli þurfi ekki að reyna að grafa upp hinar myndirnar sem Bruce Lee gerði á undan þessari?

Ein mynd af goðinu að lokum:

12. apríl 2012

Notaleg kvöldstund feðga

Gulla er alltaf í einhverju félagsmálastússi. M.a. er hún í stjórn foreldrafélags skólans hans Rúnars Atla. Í kvöld var stjórnarfundur. Því vorum við feðgarnir einir heima. Við höfðum það notalegt. Lögðumst upp í hjónarúmið með eina af nýju bókunum hans og flettum henni fram og til baka. Fimmhundruð hugmyndir fyrir Legókrakka heitir bókin, eða eitthvað í þá áttina. Margt fannst Rúnari Atla mjög flott. Efast ég ekki um að á laugardaginn mun hann setjast niður með alla kubbana sína og reyna að herma eftir hugmyndunum þarna.

Á meðan hlustuðum við á John Denver. Rúnar Atli kom nefnilega heim úr skólanum um daginn sönglandi ,,Take me home, country roads." Ég fór að forvitnast um þetta lag hjá honum. Kom í ljós að krakkarnir hafa verðið að læra um John Denver í tónmennt og Rúnari Atla finnst þetta lag æðislegt.

Ég keypti mér því safndisk með John. Diskur gefinn út 1973! Greinilega klassík sem yfirvinnur öll kynslóðabil.

Kvöldstundin var hin notalegasta. Skyldi Rúnar Atli muna eftir henni eftir 30 ár ef hann heyrir lag með John Denver?

 

Bókaormur

Okkur Gullu finnst báðum gaman að bókum. Fátt er skemmtilegra en að lesa góða bók, nú eða blaða í flottri fræðibók. Sem betur fer haf börnin okkar erft þennan áhuga. En í Lílongve er skortur á bókabúðum. Auðvitað er hægt að panta bækur í gegnum Amazon. Stundum gerum við það. Tvisvar, þrisvar á ári kemur Rúnar Atli með bókapöntunarlista úr skólanum. Síðast töpuðum við okkur alveg og pöntuðum margar bækur fyrir soninn. Í dag fékk hann svo sendinguna.

Fimmtán bækur! Og það flottar og veglegar bækur. Hér sést drengurinn umvafinn nýju bókunum sínum.

Sáttur með lífið.

Því skyldi hann ekki vera það? Í bunkanum er alfræðiorðabók, bók um regnskóga, matreiðslubók, bók sem segir frá alls konar íþróttum, bók fyrir upprennandi njósnara og margt fleira.

Hann er núna í kvöld búinn að vera að blaða í bókunum og var ekki alveg sáttur þegar ég slökkti ljósið. En í staðinn lofaði ég honum að hann mætti skoða bækurnar sínar annað kvöld eins lengi og hann vill.

Það er skemmtilegt að vera bókaormur.

9. apríl 2012

Horft á kassann

Ekki veit ég hvort Rúnar Atli sé einmana í páskafríinu. Kannski má draga þá ályktun af þessari mynd sem ég náði af honum áðan. Hann og kisan Sallý að horfa saman á sjónvarpið.

8. apríl 2012

Páskaegg að hætti Ítala

Ítalir virðast sólgnir í súkkulaði og ég sá nokkrar litlar súkkulaðisérverslanir í Tórínó. Í einni þeirra ákvað ég að kaupa eitt páskaegg og taka sénsinn á að koma því óbrotnu heim. Afgreiðslustúlkan, sem upprunnin var í Rúmeníu, tók að sér að pakka því vandlega inn. Ekki get ég kvartað yfir handverki hennar, því eftir eins-og-hálfs sólarhringsferðalag kom eggið nær óskemmt upp úr ferðatöskunni.

Ítölsku páskaeggin finnast mér falleg útlits og í raun listaverk. Brjóstsykur notaður til að gera mynd framan á eggið.

Hér bíður Gulla spennt eftir að myndatöku ljúki svo megi fara að gæða sér á dýrindunum.

Myndin framan á egginu er af tveimur fuglum á flögri í kringum trjágrein.

Ekki skemmir að súkkulaðið er gott á bragðið.

Flottur Juve-gaur

Í einhverri vímu eftir leikinn á Júventusvellinum þá keypti ég Júventusgalla handa syninum. Hann er mjög ánægður með gallann og tekur sig vel út í honum.

6. apríl 2012

Léttir og skemmtilegir félagar frá fjarlægum slóðum

Í fyrrakvöld fór ég ásamt „bekkjarfélögum“ mínum út að borða. Þetta var í boði námskeiðshaldara og lá leiðin í rútu niður í miðbæ Tórínó. Þar fórum við inn á veitingastað sem ég því miður veit ekki hvað heitir.  Maturinn var fínn og þetta var hið skemmtilegasta kvöld. Setið var við fjögur stór hringborð. Umhverfis borðið mitt vorum við tólf. Er við settumst voru þrjár rauðvínsflöskur á borðinu. Eftir smástund rann upp fyrir mér skemmtilegt ljós. Þrír af okkur sem sátum þarna voru kristnir, Íslendingur, Simbabvebúi og Bosníumaður. Einn líklega hindúi, Pakistani, og átta múslímar. Múslímarnir voru frá Írak, Egyptalandi og Nígeríu. Það skemmtilega við þetta var aðeins þrír okkar, þessir kristnu, drekka vín. Og einhvern veginn æxlaðist þetta þannig að við sætaniðurröðunin var að hver okkar þriggja var með vínflösku beint fyrir framan sig.

Vínflaska á mann. Ekki slæmt.

En, þið trúið ekki hvað var gaman að Írökunum og Egyptunum. Þeir voru sko glaðir og lifandi allt kvöldið. Heimtuðu að fá kók og sprite á borðið. Helltu gosdrykkjunum svo í vínglös og skiptust á að taka myndir hver af öðrum þar sem þeir héldu á fullu vínglasi í annarri hendi og rauðvínsflösku í hinni.

Hlógu svo þvílíkt að undir tók í veitingahúsinu. Þessar myndir átti að sýna vinum og samstarfsfólki heima fyrir. Og sjálfsagt segja lygasögur í leiðinni.

Á leiðinni aftur „heim“ í rútunni fór einn Írakinn með farsímann sinn að míkrafóninum í rútunni og spilaði arabíska tónlist fyrir okkur öll sem í rútunni voru. Og þvílík gleði og læti í þeim. Sungið, klappað og trallað og svo urðu vonbrigðin mikil þegar rútan renndi í hlað.

Stúlka frá Aserbaídjan hvíslaði að mér að það væri eins gott að þeir mættu ekki drekka. „Sjáðu hvað þeir eru hressir án áfengis. Hvernig heldurðu að þeir yrðu eftir nokkra drykki?“

Við spurningunni átti ég ekki svar.

En menningar- og trúarbragðamunurinn hamlaði hópnum ekkert í að skemmta sér saman.

Þannig á lífið að vera.

Ekki mitt dót...

„Pabbi, ekki skilja dótið mitt eftir, en þú getur skilið dótið hennar mömmu eftir!“ voru skilaboðin sem ég fékk frá syni mínum í morgun. Hann frétti nefnilega að ég væri í vandræðum með að koma farangrinum ofan í töskuna...

2. apríl 2012

Villi á vellinum!

Búinn að fara á völlinn í Tórínó. Þvílík upplifun. Þetta var skemmtilegt.

Ég lagði af stað tveimur tímum fyrir leik. Veitti ekki af. Ferðalagið í strætó tók ríflega klukkutíma og svo tók hálfan klukkutíma að komast inn á völlinn. Þurfti að finna minn inngang, svo að bíða í röð. Þá var nafnið á miðanum borið saman við skilríki. Því næst önnur röð. Þá var aðeins klappað á vasana til að sjá hvort ég væri með eitthvað hættulegt. Svo önnur röð. Þá í gegnum eitthvað málmleitartæki og miðaskönnun.

Þá kominn inn.

Völlurinn er flottur.


Eins og geimskip á að líta. Svipað og Leiknisvöllurinn. Nema að stúkan nær hringinn á Júventus vellinum. Og er líklega fimmtíu raðir upp í topp. Ekki fimm. Annað er svipað...

Svo var að finna sætið. Það gekk vel. Ég sat á fínum stað. Fyrir miðjum öðrum vallarhelmingnum. Og þvílík læti þarna inni. Ég segi inni, þótt völlurinn sé úti, því stúkan er yfirbyggð, auðvitað. Maður fékk alveg gæsahúð þegar glumdi JUVE, JUVE um allt. Þetta var allt öðrum vísi upplifun en að horfa á leik í sjónvarpinu. Hávaðinn svakalegur. Ég heyrði yfirleitt ekki í flautu dómarans, ekki nema hann væri mjög reiður og blési þar af leiðandi fastar í flautuna.

Svo gerði Júventus mér sérstaklega þann greiða að spila ekki í KR búningum í kvöld. Mikið var það fínt. Bleikar treyjur eru líka miklu flottari en svart-hvítar.

En, Júventus var sem sagt að spila við Napólí í kvöld. Napólí er nú ekkert sérstakt lið. Enginn Maradona þar lengur. Ég verð að viðurkenna að ég þekkti ekki eitt einasta nafn í þessu Napólíliði.

En það kom ekki að sök. Það var auðvitað Júventus sem ég kom til að sjá. Þar eru nokkrir leikmenn sem ég er mjög ánægður yfir að hafa séð í eigin persónu. Fyrstan ber að nefna Gianluigi Buffon, markvörð þeirra. Sá maður er goðsögn í lifanda lífi. Hann þurfti nú ekkert að taka á stóra sínum í þessum leik, enda slappir mótherjar. En, ég hef a.m.k. séð hann.

Svo er það hann Alessandro Del Piero. Hann er síst minni goðsögn er Buffon. Hefur verið lengi í Júventus og er greinilega í guðatölu í Tórínó. Hann kom inn á þegar 10 mínútur voru eftir og allt varð vitlaust á vellinum. Allir sem einn stóðu á fætur og hylltu goðið. Svo í fyrsta skipti sem hann fékk boltann þá sólaði hann þrjá Napólímenn upp úr skónum og lagði upp lokamark Júventusmanna. Eins og að drekka vatn. Hann hefði síðan átt að skora eitt sjálfur, en var óheppinn.

Síðast en ekki síst dauðlangaði mig að sjá Andrea Pirlo. Hann hefur lengi verið einn minn uppáhaldsleikmaður, enda spilaði hann lengi með AC Mílan. Sem er jú mitt lið á Ítalíu. En, einhverra hluta vegna var hann seldur til Júventus fyrir yfirstandandi tímabil. Það ætti þó ekki eftir að koma í bakið á þeim frá Mílanó? Hver veit.

En Pirlo er snillingur. Hann er allt í öllu hjá þessu Júventus liði og það er greinilegt að áhorfendur vita það. Hann fékk mestu hrópin og klöppin þegar liðið var kynnt. Helst Buffon sem var nálægt honum í þessu.

Hér er mynd af kappanum að undirbúa aukaspyrnu á hættulegum stað...


 ... en ekkert kom reyndar úr henni.

Ég prófaði að taka vídeó með litlu myndavélinni minni og náði næstum því marki.

Leikurinn var frekar daufur í fyrri hálfleik. Ég dundaði mér með myndavélina og fylgdist með áhorfendum. Þeir algjörlega lifa sig inn í leikinn. Völlurinn var þéttsetinn, einhver sæti laus, en ekki mörg. Þarna inn komast ríflega 40.000 manns og ekki vantaði mikið upp á. Napólí-áhangendur fengu smáflís af áhorfendabekkjunum og mikið heyrðist í þeim í upphafi. Svo dró úr kappi þeirra. Þegar dró nær leikslokum þá tók ég eftir að voru komnir lögreglumenn á milli Júventus og Napólí-áhangendanna. Svo þegar leiknum lauk þá færðu þeir sig í jafnri línu og ýttu Júventus-áhangendunum inn í útgöngustigann. Nokkuð fagmannlega gert.

Talandi um öryggi. Það voru a.m.k. 70 öryggisverðir sem sátu hringinn í kringum völlinn með bakið í hann. Allan leikinn.

Í seinni hálfleik ákvað ég að lifa mig inn í leikinn. Pakkaði myndavélinni, færði mig fram á brún sætisins og fór að hrópa og kalla öðru hverju. Sessunautur minn annar gjóaði stundum augunum til mín. Líklega ekki vanur að heyra: „Júve - koma svo!“ hrópað fullum rómi...

Svo fóru mörkin að koma. Þrjú urðu þau þegar upp var staðið. Öll skoruð af Júventusmönnum í rétt mark. Og þegar mark var skorað, maður minn. Allt varð auðvitað klikkað. Ég komst að því að einhver Júventus maður hefur horft á íslenska landsliðið í handbolta. Þeir notuðu sama trikkið. Þulurinn hrópað fornafnið á þeim sem skoraði og allur völlurinn hrópaði eftirnafnið. Þetta var endurtekið þrisvar sinnum í hvert sinn sem mark var skorað.

Þulurinn: Leonardo... og áhorfendur: BONUCCI! en hann skoraði fyrsta markið.

Mér kom á óvart að stóru sjónvarpsskáirnir voru ekkert notaðir til að sýna úr leiknum. Ekki einu sinni endurtekningar á mörkunum. Skrýtið, fannst mér.

Svo að leik loknum tók við löng heimferð. Bið eftir fyrsta strætó, sá tafðist vegna umferðaslyss, þ.a. ég missti af þeim næsta. Ég lagði því land undir fót og kom heim 20 mínútum seinna ég áætlað. 20 mínútur fyrir eitt að morgni. Sex tímar fóru í þetta ævintýri.

En ef við ættum heima í ítalskri borg með seríu A lið, þá myndi ég örugglega kaupa ársmiða fyrir mig og Rúnar Atla. Og auðvitað Gullu ef hún hefði áhuga.

Að lokum. Mynd af mér á vellinum:


FORCA JUVE!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...