12. apríl 2012

Notaleg kvöldstund feðga

Gulla er alltaf í einhverju félagsmálastússi. M.a. er hún í stjórn foreldrafélags skólans hans Rúnars Atla. Í kvöld var stjórnarfundur. Því vorum við feðgarnir einir heima. Við höfðum það notalegt. Lögðumst upp í hjónarúmið með eina af nýju bókunum hans og flettum henni fram og til baka. Fimmhundruð hugmyndir fyrir Legókrakka heitir bókin, eða eitthvað í þá áttina. Margt fannst Rúnari Atla mjög flott. Efast ég ekki um að á laugardaginn mun hann setjast niður með alla kubbana sína og reyna að herma eftir hugmyndunum þarna.

Á meðan hlustuðum við á John Denver. Rúnar Atli kom nefnilega heim úr skólanum um daginn sönglandi ,,Take me home, country roads." Ég fór að forvitnast um þetta lag hjá honum. Kom í ljós að krakkarnir hafa verðið að læra um John Denver í tónmennt og Rúnari Atla finnst þetta lag æðislegt.

Ég keypti mér því safndisk með John. Diskur gefinn út 1973! Greinilega klassík sem yfirvinnur öll kynslóðabil.

Kvöldstundin var hin notalegasta. Skyldi Rúnar Atli muna eftir henni eftir 30 ár ef hann heyrir lag með John Denver?

 

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...