26. apríl 2012

Þá skal hjólað!

Eftir góða hjólaskorpu í fyrra seig mjög á ógæfuhliðina eftir flutninginn til Lílongve. Frá seinni hluta apríl í fyrra og fram í ágúst, ja, eiginlega fram á síðasta dag áður en við fluttum, þá hjólaði ég næstum upp á hvern einasta dag. Til og frá vinnu, 8-12 km hvora leið eftir því hversu miklu stuði ég var í. Svo tók ég stundum langa hjólatúra um helgar. Skemmtilegast var þegar Rúnar Atli fór að hjóla með mér.

En svo fluttum við til Malaví. Þar er mikið hjólað. Má segja að varla sé þverfótað fyrir hjólreiðafólki. Reiðhjólin, hins vegar, þættu ekki fínn pappír á Íslandi. Eins ódýr og hægt er að finna. Flest frá Indlandi. Níðþungir hlunkar sem virðast með slæmu jafnvægi margir hverjir. Handbremsurnar á mörgum hjólum eru ekki með víra frá handfanginu til bremsunnar, heldur málmstangir. Enda sýnist mér mörg hjólanna hérna vera bremsulaus. En svoleiðis smámunir eru ekki settir fyrir sig.

Að kaupa hjól eins og seld eru í íslenskum hjólabúðum er ekki auðvelt. Þess háttar hjól fást einfaldlega ekki í búðum hér. Hins vegar er til á netinu spjallrás fyrir Lílongve-búa og þar eru stundum auglýst góð fjallahjól. Yfirleitt eru eigendurnir útlendingar sem eru að flytja aftur heim og vilja losa sig við hitt og þetta.

Ég hef um nokkurt skeið fylgst með spjallrásinni og núna loksins var auglýst hjól. Reyndar tvö. Í gær fórum við Rúnar Atli að skoða. Konan sem var að selja hjólin er suður-afrísk og er að flytja aftur heim eftir 12 ára veru í Malaví. Hún er kennari við skólans hans Rúnars, þ.a. hann átti ekki í erfiðleikum með að halda henni á snakki á meðan ég prufaði hjól.

Þessi kona er hjólanörd. Það er eina lýsingarorðið sem mér dettur í hug. Pabbi hennar á hjólabúð í Jóhannesarborg og hún ólst upp í allskonar hjólastússi. Hefur tekið þátt í mörgum hjólreiðakeppnum. Hún var svo heilluð af syni mínum að hún náði í fullan kassa af notuðum hjólafatnaði og gaf Rúnari Atla tvær hjólreiðakeppnistreyjur og hjólastuttbuxur með púðum á réttum stöðum. ,,Sonur þinn er æðislegur,'' hvíslaði hún að mér þegar við fórum. ,,Eins og pabbinn," hugsaði ég, en sagði ekki...

En ég keypti annað hjólið af henni. Tveggja ára gamalt Giant Iguana hjól, sem pabbi hennar átti. Þetta er án efa langsamlega flottasta hjól sem ég hef nokkurn tímann átt. Skítlétt með 27 gírum og framdempurum. Þrusuflott. Eina vandamálið er að pedalarnir eru fyrir ,,klíta", hjólaskó sem festast við pedalana. Þótt hægt sé að hjóla í venjulegum skóm á þessum pedölum finnst mér það óþægilegt því þeir eru svo mjóir. Það er auðveldara hér að kaupa nýja pedala frekar en hjólaskó og ég geri það örugglega. Kannski kíki ég í hjólabúð næst þegar ég kem til Jóhannesarborgar og fjárfesti í svona skóm.

Við Rúnar Atli skutumst lítinn hring um nágrennið í gær og svo skaust ég í tíu mínútna túr áðan. Ég verð smástund að læra á hjólið, því það er aðeins frábrugðið gamla hjólinu mínu.

En við Rúnar Atli erum farnir að skipuleggja lengri ferð. Líklega notum við sunnudagsmorguninn í hana.

Hér sést svo stoltur kappi með nýja hjólið sitt.

 

1 ummæli:

Jóhanna sagði...

Sko þú verður flottur á þessu hjóli að þeysast um göturnar :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...