14. apríl 2012

Kvikmyndaklassík

Eftir síðasta beltapróf hjá Rúnari Atla í karate hefur áhugi hans á íþróttinni tvíeflst. Hann stundar æfingar af mikilli alvöru. Í páskafríinu féllu niður æfingar í skólanum hans, en krakkarnir máttu mæta á æfingar hjá sama þjálfara annars staðar í bænum. Held ég að guttinn hafi ekki misst úr æfingu.

Á daginn er hann endalaust að æfa hinar og þessar hreyfingar, högg og spörk. Eigum við Gulla stundum fótum fjör að launa.

Okkur Gullu finnst skemmtilegt að fara á æfingar og fylgjast með, því krakkarnir virðast allir fullir áhuga og stunda æfingarnar af mikilli alvöru. Þjálfarinn er líka áhugasamur og akkúrat. Um daginn var hann að kenna krökkunum virðingu fyrir búningnum og beltinu sínu. Alltaf að laga hann til þegar tækifæri gefst og passa að beltið sé rétt bundið. Í gær var ákafinn hjá Rúnari Atla fullmikill í einni sparkæfingunni og hann missti jafnvægið. Tveir félagar hans hlógu aðeins, svona eins og maður á til að gera þegar félaga manns verður á klaufaskapur. Kennarinn leit ísköldum augum á þá tvo og sagði: „Í karate hlæjum við ekki hvert að öðru! Tíu armbeygjur fyrir ykkur tvo.“ Þeir gerðu armbeygjurnar möglunarlaust.

Einhvern tímann á síðasta ári rakst ég í einhverri búð á „költ“myndina, Í klóm drekans með Bruce Lee. Ekki alveg sú nýjasta, framleidd 1973. En jú undanfari allra þeirra austurlensku slagsmálamynda sem síðar komu. Fjárfesti ég í eintaki af myndinni.

Í gærkvöld tókum við Rúnar Atli okkur til og horfðum á myndina. Fyrsta skipti hans. Skemmtum við okkur þrælvel. Auðvitað er þetta B-mynd að svo mörgu leyti, en það breytir ekki því að Bruce Lee er alveg stórkostlegur í sínu hlutverki. Sveipaður dulúð um leið og hann er náttúrulegur töffari fram í fingurgóma.

Helsti munurinn á þessari mynd og slagsmálamyndum síðari ára er að þarna eru engar brellur eða sjónhverfingar notaðar. Öll sú fimi sem Bruce sýnir er hans eigin. Engin trikk til að láta hann svífa þrisvar sinnum lengur í loftinu en mannlega er mögulegt eða taka sjöfalt heljarstökk. Nei, í þessari mynd veit maður að fimin er raunveruleg. Það er frískandi að horfa á þannig mynd.

Mikil synd að Bruce Lee skyldi falla frá áður en myndin var frumsýnd. Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvernig hans ferill hefði orðið ef hann hefði lifað lengur.

Rúnari Atla fannst Bruce flottur. Hvað annað? Ég á allt eins von á að þurfa að horfa fljótlega aftur á þessa mynd og þurfa að ræða sum atriðin út í þaula.

En það er bara skemmtilegt.

Ætli þurfi ekki að reyna að grafa upp hinar myndirnar sem Bruce Lee gerði á undan þessari?

Ein mynd af goðinu að lokum:

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...