Í fyrrakvöld fór ég ásamt „bekkjarfélögum“ mínum út að borða. Þetta var í boði námskeiðshaldara og lá leiðin í rútu niður í miðbæ Tórínó. Þar fórum við inn á veitingastað sem ég því miður veit ekki hvað heitir. Maturinn var fínn og þetta var hið skemmtilegasta kvöld. Setið var við fjögur stór hringborð. Umhverfis borðið mitt vorum við tólf. Er við settumst voru þrjár rauðvínsflöskur á borðinu. Eftir smástund rann upp fyrir mér skemmtilegt ljós. Þrír af okkur sem sátum þarna voru kristnir, Íslendingur, Simbabvebúi og Bosníumaður. Einn líklega hindúi, Pakistani, og átta múslímar. Múslímarnir voru frá Írak, Egyptalandi og Nígeríu. Það skemmtilega við þetta var aðeins þrír okkar, þessir kristnu, drekka vín. Og einhvern veginn æxlaðist þetta þannig að við sætaniðurröðunin var að hver okkar þriggja var með vínflösku beint fyrir framan sig.
Vínflaska á mann. Ekki slæmt.
En, þið trúið ekki hvað var gaman að Írökunum og Egyptunum. Þeir voru sko glaðir og lifandi allt kvöldið. Heimtuðu að fá kók og sprite á borðið. Helltu gosdrykkjunum svo í vínglös og skiptust á að taka myndir hver af öðrum þar sem þeir héldu á fullu vínglasi í annarri hendi og rauðvínsflösku í hinni.
Hlógu svo þvílíkt að undir tók í veitingahúsinu. Þessar myndir átti að sýna vinum og samstarfsfólki heima fyrir. Og sjálfsagt segja lygasögur í leiðinni.
Á leiðinni aftur „heim“ í rútunni fór einn Írakinn með farsímann sinn að míkrafóninum í rútunni og spilaði arabíska tónlist fyrir okkur öll sem í rútunni voru. Og þvílík gleði og læti í þeim. Sungið, klappað og trallað og svo urðu vonbrigðin mikil þegar rútan renndi í hlað.
Stúlka frá Aserbaídjan hvíslaði að mér að það væri eins gott að þeir mættu ekki drekka. „Sjáðu hvað þeir eru hressir án áfengis. Hvernig heldurðu að þeir yrðu eftir nokkra drykki?“
Við spurningunni átti ég ekki svar.
En menningar- og trúarbragðamunurinn hamlaði hópnum ekkert í að skemmta sér saman.
Þannig á lífið að vera.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli