2. apríl 2012

Villi á vellinum!

Búinn að fara á völlinn í Tórínó. Þvílík upplifun. Þetta var skemmtilegt.

Ég lagði af stað tveimur tímum fyrir leik. Veitti ekki af. Ferðalagið í strætó tók ríflega klukkutíma og svo tók hálfan klukkutíma að komast inn á völlinn. Þurfti að finna minn inngang, svo að bíða í röð. Þá var nafnið á miðanum borið saman við skilríki. Því næst önnur röð. Þá var aðeins klappað á vasana til að sjá hvort ég væri með eitthvað hættulegt. Svo önnur röð. Þá í gegnum eitthvað málmleitartæki og miðaskönnun.

Þá kominn inn.

Völlurinn er flottur.


Eins og geimskip á að líta. Svipað og Leiknisvöllurinn. Nema að stúkan nær hringinn á Júventus vellinum. Og er líklega fimmtíu raðir upp í topp. Ekki fimm. Annað er svipað...

Svo var að finna sætið. Það gekk vel. Ég sat á fínum stað. Fyrir miðjum öðrum vallarhelmingnum. Og þvílík læti þarna inni. Ég segi inni, þótt völlurinn sé úti, því stúkan er yfirbyggð, auðvitað. Maður fékk alveg gæsahúð þegar glumdi JUVE, JUVE um allt. Þetta var allt öðrum vísi upplifun en að horfa á leik í sjónvarpinu. Hávaðinn svakalegur. Ég heyrði yfirleitt ekki í flautu dómarans, ekki nema hann væri mjög reiður og blési þar af leiðandi fastar í flautuna.

Svo gerði Júventus mér sérstaklega þann greiða að spila ekki í KR búningum í kvöld. Mikið var það fínt. Bleikar treyjur eru líka miklu flottari en svart-hvítar.

En, Júventus var sem sagt að spila við Napólí í kvöld. Napólí er nú ekkert sérstakt lið. Enginn Maradona þar lengur. Ég verð að viðurkenna að ég þekkti ekki eitt einasta nafn í þessu Napólíliði.

En það kom ekki að sök. Það var auðvitað Júventus sem ég kom til að sjá. Þar eru nokkrir leikmenn sem ég er mjög ánægður yfir að hafa séð í eigin persónu. Fyrstan ber að nefna Gianluigi Buffon, markvörð þeirra. Sá maður er goðsögn í lifanda lífi. Hann þurfti nú ekkert að taka á stóra sínum í þessum leik, enda slappir mótherjar. En, ég hef a.m.k. séð hann.

Svo er það hann Alessandro Del Piero. Hann er síst minni goðsögn er Buffon. Hefur verið lengi í Júventus og er greinilega í guðatölu í Tórínó. Hann kom inn á þegar 10 mínútur voru eftir og allt varð vitlaust á vellinum. Allir sem einn stóðu á fætur og hylltu goðið. Svo í fyrsta skipti sem hann fékk boltann þá sólaði hann þrjá Napólímenn upp úr skónum og lagði upp lokamark Júventusmanna. Eins og að drekka vatn. Hann hefði síðan átt að skora eitt sjálfur, en var óheppinn.

Síðast en ekki síst dauðlangaði mig að sjá Andrea Pirlo. Hann hefur lengi verið einn minn uppáhaldsleikmaður, enda spilaði hann lengi með AC Mílan. Sem er jú mitt lið á Ítalíu. En, einhverra hluta vegna var hann seldur til Júventus fyrir yfirstandandi tímabil. Það ætti þó ekki eftir að koma í bakið á þeim frá Mílanó? Hver veit.

En Pirlo er snillingur. Hann er allt í öllu hjá þessu Júventus liði og það er greinilegt að áhorfendur vita það. Hann fékk mestu hrópin og klöppin þegar liðið var kynnt. Helst Buffon sem var nálægt honum í þessu.

Hér er mynd af kappanum að undirbúa aukaspyrnu á hættulegum stað...


 ... en ekkert kom reyndar úr henni.

Ég prófaði að taka vídeó með litlu myndavélinni minni og náði næstum því marki.





Leikurinn var frekar daufur í fyrri hálfleik. Ég dundaði mér með myndavélina og fylgdist með áhorfendum. Þeir algjörlega lifa sig inn í leikinn. Völlurinn var þéttsetinn, einhver sæti laus, en ekki mörg. Þarna inn komast ríflega 40.000 manns og ekki vantaði mikið upp á. Napólí-áhangendur fengu smáflís af áhorfendabekkjunum og mikið heyrðist í þeim í upphafi. Svo dró úr kappi þeirra. Þegar dró nær leikslokum þá tók ég eftir að voru komnir lögreglumenn á milli Júventus og Napólí-áhangendanna. Svo þegar leiknum lauk þá færðu þeir sig í jafnri línu og ýttu Júventus-áhangendunum inn í útgöngustigann. Nokkuð fagmannlega gert.

Talandi um öryggi. Það voru a.m.k. 70 öryggisverðir sem sátu hringinn í kringum völlinn með bakið í hann. Allan leikinn.

Í seinni hálfleik ákvað ég að lifa mig inn í leikinn. Pakkaði myndavélinni, færði mig fram á brún sætisins og fór að hrópa og kalla öðru hverju. Sessunautur minn annar gjóaði stundum augunum til mín. Líklega ekki vanur að heyra: „Júve - koma svo!“ hrópað fullum rómi...

Svo fóru mörkin að koma. Þrjú urðu þau þegar upp var staðið. Öll skoruð af Júventusmönnum í rétt mark. Og þegar mark var skorað, maður minn. Allt varð auðvitað klikkað. Ég komst að því að einhver Júventus maður hefur horft á íslenska landsliðið í handbolta. Þeir notuðu sama trikkið. Þulurinn hrópað fornafnið á þeim sem skoraði og allur völlurinn hrópaði eftirnafnið. Þetta var endurtekið þrisvar sinnum í hvert sinn sem mark var skorað.

Þulurinn: Leonardo... og áhorfendur: BONUCCI! en hann skoraði fyrsta markið.

Mér kom á óvart að stóru sjónvarpsskáirnir voru ekkert notaðir til að sýna úr leiknum. Ekki einu sinni endurtekningar á mörkunum. Skrýtið, fannst mér.

Svo að leik loknum tók við löng heimferð. Bið eftir fyrsta strætó, sá tafðist vegna umferðaslyss, þ.a. ég missti af þeim næsta. Ég lagði því land undir fót og kom heim 20 mínútum seinna ég áætlað. 20 mínútur fyrir eitt að morgni. Sex tímar fóru í þetta ævintýri.

En ef við ættum heima í ítalskri borg með seríu A lið, þá myndi ég örugglega kaupa ársmiða fyrir mig og Rúnar Atla. Og auðvitað Gullu ef hún hefði áhuga.

Að lokum. Mynd af mér á vellinum:


FORCA JUVE!

1 ummæli:

davíð sagði...

Djö... snilld.

Krefst þess að það verði meiri undirbúningur næst, þá kaupi ég mér flugmiða og kem með.

Skil ekki af hverju mér datt það ekki strax í hug.

Djö... snilld.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...