29. september 2010

Fyrsti í rigningu

Þá er farið að rigna í Windhoek. Ætli séu ekki fimm mánuðir frá síðustu ofankomu. Ég sat rétt áðan inni í stofu þegar skyndilega birti til. Skömmu síðar heyrðist í svakalegri skruggu. Svo fór að rigna. Nú gengur á með þrumum og eldingum.

Skemmtilegt.

Nú verða allir glaðir í fyrramálið.

Myndir af brunanum í Okahandja

Mér áskotnuðust nokkrar ljósmyndir af brunanum í Okahandja. Hræðilegur þessi bruni, en sem betur fer urðu engin slys á fólki.




28. september 2010

Nafn borið með rentu?

Öðru hverju sé ég umræðu um klúður bifreiðaframleiðenda þegar valið er nafn á nýjar gerðir bíla. Vandamálið er jú sá aragrúi tungumála sem talaður er í heiminum. Þessi grúi leiðir til þess að stundum veljast nöfn sem eru dónalega á einhverjum tungumálum.

Mér datt þetta í hug í dag. Þá sá ég bíl, reyndar frekar lítinn bíl, koma á móti mér. Eins og gengur og gerist þá hefur eigandinn splæst í einkanúmer á þennan fína bíl.

Og hvert skyldi einkanúmerið vera?

TIPPI.

Og ekki orð um það meir.

27. september 2010

Trévörumarkaður í Okahandja fuðrar upp

Margir sem komið hafa til Namibíu kannast við trévörumarkaðinn í Okahandja. Markaðirnir eru reyndar tveir í þeim bænum, en flestir túristar heimsækja líklega þann sem er nær þjóðveginum. Þarna eru endalausir básar af kaupmönnum að reyna að pranga inn á mann allkyns handunnum trévörum.

Sl. föstudag vildi ekki betur til en svo að það kviknaði í stráþaki á lóð ekki langt frá markaðinum. Stráþök af þessu tagi eru mjög algeng í görðum hjá fólki. Iðulega er grillaðstaða undir þakinu og útiborð og -stólar. Undir svona þaki er gott að sitja í skugga á heitasta tíma ársins og fá sér bjór eða gin og tónik. Nú eða hvað það annað sem manni finnst gott að drekka í miklum hita.

En, sem sagt, það kviknaði í svona þaki og þar sem var sterkur vindur þennan dag þá fór svo illa að logandi strá bárust yfir á trévörumarkaðinn og kviknaði í þaki á einum sölubásnum. Á augabragði breiddi eldurinn úr sér og varð ekki neitt við ráðið. Markaðurinn fuðraði bara upp eins og hann lagði sig.

Þar eyðilögðust 110 sölubásar með öllum þeim lager af trévörum sem í þeim var. Er áætlað að um 1.000 manns hafi viðurværi af þessum markaði á einn eða annan hátt. Einnig er mat manna að tjónið liggi í fimm milljónum namibískra dala, sem samsvarar 85 milljónum króna.

Mikil reiði ríkir núna útí bæjaryfirvöld, en tveir tímar liðu áður en eini slökkvibíll bæjarins mætti til leiks. Þá hafði allt brunnið sem brunnið gat og gerði slökkvibíllinn lítið annað en slökkva í glæðunum.

Stundum er sagt að sjaldan sé ein báran stök og á það við um bæjarfélagið í Okahandja. Bærinn hefur verið mikið í fréttunum undanfarnar vikur. Ekki af góðu. Fyrst skal nefna að rafmagnsveita ríkisins lokaði á rafmagn til bæjarins, því bæjaryfirvöld skulduðu henni himinháar upphæðir. Hér er það þannig að stærri bæjarfélög kaupa rafmagn af rafmagnveitu ríkisins og áframselja síðan til fyrirtækja og einstaklinga í bæjarfélaginu. Þetta er ein af tekjulindum bæjarins. En ef bæjaryfirvöldum gengur illa að innheimta, þá er voðinn vís, því ekki eiga þau varasjóði til að ganga í. Skuld Okahandja var víst orðin svo há að rafmagnsveitan sá sér ekki annað fært en loka fyrir rafmagnið. Svona aðgerðir hafa auðvitað áhrif á alla, bæði slóðana en líka þá sem hafa staðið í skilum við bæjarfélagið. Þetta mál var bæjaryfirvöldum ekki til framdráttar, svo ekki sé fastar kveðið að orði.

Síðan komu upp mál þar sem börnum var vísað úr skólum í Okahandja því foreldrar gátu ekki greitt í svonefndan þróunarsjóð skólanna. Svona gerist reyndar víðsvegar um landið, en kastljós fréttamanna var á Okahandja vegna rafmagnsklúðursins og því lá bærinn vel við höggi.

Síðan birtust myndir af börnum sem lifa á sorphaugum bæjarins og finna sér mat og eitthvað til að selja með því að fara í gegnum sorpið. Þarna voru krakkar sem ekki höfðu neina skólagöngu því þau þurfa að hjálpa fjölskyldu sinni að finna eitthvað ætilegt á haugunum. Eins var talað við börn sem höfðu verið rekin úr skólanum vegna þess að foreldrarnir áttu ekki pening fyrir þróunarsjóðsgjaldinu og enda svo krakkagreyin þarna.

Æ, þetta er hræðilegra en orð fá lýst. Ég hef komið á þessa sorphauga og er sjónin átakanleg, svo ekki sé meira sagt.

Nýjasta vandræðamálið er svo að slökkvibílinn skyldi vera eins lengi á leiðinni og raun bar vitni að trévörumarkaðsbrunanum. Kaupmennirnir segja auðvitað að bæjaryfirvöldum sé alveg sama um þá. Að ef þetta hefði verið „alvörufyrirtæki” sem kviknað hefði í þá hefði ekki staðið á viðbrögðum.

Vonandi fer nú að rofa til fyrir Okahandja. Ekki veitir af.

24. september 2010

Matnum „úðað” í sig

Við Gulla skruppum á kaffihús fyrr í dag. Tvö ein. Einstaka sinnum verða hjón jú að fá smátíma útaf fyrir sig.

Við ræddum heimsins gagn og nauðsynjar, ástandið á Fróni og svo auðvitað reyndum við að skipuleggja framtíðina. En, í hreinskilni skilaði umræðan nú litlu „konkrít” svo maður sletti aðeins.

En kaffihúsið var skemmtilegt. Þetta er staðurinn þar sem afmælisveislan hans Rúnars Atla var haldin um daginn. Núna er farið að hitna hressilega hér í Windhoek og stundum er hreinlega of heitt að sitja úti, þótt í skugga sé.

Eigendur þess kaffihúss hafa fundið skemmtilega lausn á því vandamáli.

Undir segldúknum, sem teygir sig yfir nær allt útisvæði kaffihússins og veitir skugga, er mjó vatnsslanga. Með stuttu og reglulegu millibili fara úðarar á slöngunni í gang. Skila þeir yfir mann örfínum vatnsúða. Verður að segjast að þetta er  snilldarlausn á hitanum. Merkilegt hvað fimm eða tíu sekúndur af þessum fína úða kæla mann niður.

Enda sátum við lengur en við gerum venjulega á kaffihúsum.

Billegt rauðvín

Við Gulla kíktum í vínbúðina áðan. Gulla er helst fyrir hvítvínið, en ég meira í því rauða. Pinotage þrúgan finnst mér einna best, en hún kemur víst frá Suður-Afríku. Í það minnsta man ég ekki eftir að kaupa mér pinotage flösku sem olli mér vonbrigðum.

Spurning hvort það segi meira um vínþrúguna eða mig?

Algengt verð á rauðvínsflösku er á milli 800 og 1.500 krónur. Auðvitað er hægt að fá miklu dýrara rauðvín ef maður vill.

En, sem ég rölti að kassanum með skammtinn minn þá rek ég augun í tilboð. Flaska af rauðvíni sem nefnist 1659 á 450 krónur, um það bil. Blönduð þrúga, cabernet sauvignon, shiraz og pinotage. Nafn vínsins á uppruna sinn í því að árið 1659 var fyrsta uppskera úr víngarðinum þar sem vín þetta er ræktað. Einhvers staðar hjá Höfðaborg.

Ég stóðst ekki þetta tilboð. Mest eiginlega af forvitni. Hvernig skyldi 450 króna rauðvín smakkast?

Bara vel.

22. september 2010

Kötturinn í sekknum og húsakaup

Ég heyrði merkilega sögu í dag. Hún er svo ótrúleg að hún hlýtur að vera sönn. Engum dytti í hug að skálda svona.

Maður einn keypti sér hús í bæ sem nefnist Rehoboth. Bær þessi er 90 km fyrir sunnan Windhoek. Fylgdi sögunni að hús þetta hefði kostað yfir milljón Namibíudali (17 milljónir króna). Rehoboth þykir ekkert mjög spennandi bær, þ.a. líklega hefur þetta verið þokkalega stórt hús.

Skömmu eftir kaupin ákveður maðurinn að bæta herbergi við húsið. Svoleiðis nokkuð er algengt hérna, enda húsbyggingar frekar einfaldar. Yfirleitt eru hús hlaðin úr múrsteinum og svo múrað yfir. Allavegana, þá er ráðist á útvegginn þar sem bæta á herberginu við og farið að brjóta niður dyraop.

Hvað haldiði að komi í ljós?

Jú, húsið var ekki byggt úr múrsteinum, heldur tómum gosdósum sem fylltar voru af einhverju rusli og drasli.

Heilt hús byggt úr gosdósum og svo múrað yfir allt.

Þetta kallar maður að kaupa köttinn í sekknum.

21. september 2010

Árans karlrembur í S-Afríku

Mér hefur gengið illa að brýna eldhúshnífana okkar. Var ástandið orðið þannig að maður var í stórhættu þegar átti að brytja grænmeti og ávexti. T.d. þegar reynt er að sneiða tómat með deigum hnífi þá er puttaafskurður ekki langt undan.

Ég á eitt gamaldags brýni hér, svona eins og var notað í frystihúsum í gamla daga. Kannski eru þau notuð enn þar, ég veit það ekki. En einhverra hluta vegna hefur gengið bölvanlega að brýna hnífana með þessu. Eins og ræðarinn sem kennir árinni um ófarir sínar, þá hef ég orðið mjög illar bifur á þessu brýni.

Um daginn varð mér litið í gluggann á skotveiðibúð. Þar er selt allt milli himins og jarðar fyrir skotveiðimanninn. Nema hvað, þar sé ég þetta líka flotta brýni. Með demantsögnum þ.a. hnífurinn á ekki séns. Þetta er voðaflott græja, eins og sést á myndinni hér að neðan.
Ég beið ekki boðanna, heldur fjárfesti í einu svona áhaldi. Kom heim og prófaði. Alveg svínvirkar. Ábyggilega hægt að kljúfa mannshár á lofti með eldhúshnífunum núna.

Utan á kassanum stendur að brýnið sé búið til í S-Afríku. Kemur ekki á óvart, því S-Afríkanar eru snillingar í búa til alls konar græjur sem tengjast veiðum og útivist. Sem ég skoða kassann þá rek ég augun í fyrir hverja þetta brýni sé fyrst og fremst ætlað.

Ég dreif mig og faldi kassann áður en eiginkonan sæi þetta dæmi um karlrembu S-Afríkananna.

Og hverjir eiga svo fyrst og fremst að brýna hnífana?

Jú, húsmæður!

20. september 2010

Talnafíkill

„Pabbi, hvað er 12 + 100 + 1 + 100?”

„Ha, jú, 213.”

„En hvað er 23 + 15 + 100 + 3 + milljón?”

Eitthvað á þennan hátt eru margar samræður okkar feðganna um þessar mundir. Rúnar Atli er alveg bergnuminn af tölum og getur endalaust velt fyrir sér einhverjum summum.

Fram og til baka og afturábak og áfram.

Eftir nokkra byrjunarörðugleika og stundum óþolinmæði af minni hálfu ákvað ég að snúa vörn í sókn. Reyni ég að nýta spurningar hans til að þjálfa drenginn í einföldum reikningi.

Hann spyr kannski um 27 + 5. Ég spyr þá á móti hvað sé 27 + 3. Hann fer að hugsa og hugsa. Segir svo 30. „Já,” segi ég, „ef 27 + 3 er þrjátíu, hvað er þá 27 + 5?” Enn fer hann að hugsa og svo sér maður iðulega kvikna á öllum perum: „32!”

Um að gera að reyna að halda að honum reikningi á meðan hann er á þeim aldri að finnast svona hugarleikfimi stórmerkileg.

Svo getur hann endalaust talið gólfflísarnar þegar hann hleypur inn svefnherbergisganginn.

Tölur eru hans ær og kýr þessa dagana.

Ég verð stundum steinhissa á eftirtektarseminni í drengnum. Áðan var hann að æfa sig að lesa. Þá kom einhver setning um móðu á rúðu. Hann las þetta en áttaði sig ekki alveg á hvað átt var við. Ég geng þá að eldhúsglugganum og banka í rúðuna og segi honum að þetta sé rúða. Hann horfir á gluggann og segir „Já, 16 + 8. Hvað er það mikið?”

Ég kom af fjöllum. Hvað átti drengurinn við? Lít svo betur á eldhúsgluggann og uppgötva hvað hann var að tala um. Glugginn er þrískiptur og hver hluti með átta glerskífum. Sem sagt, 16 + 8. Klár strákur.

Enn sneri ég vörn í sókn. „16 + hvað er 20?” Jú, eftir smáumhugsun var hann á því að svarið væri 4. „Ef 16 + 4 er 20, hvað er þá 16 + 8?”  spurði pabbinn. Aftur kviknaði á perunni: „24!”

Svona er lífið í Afríkunni þessa dagana.

Reiknispeki.

17. september 2010

Afhending skólastofa

Jæja, þá ætla ég aldrei þessu vant að segja frá vinnunni minni. Einstaka sinnum er hún skemmtileg á hátt sem gefur tilefni til dagbókarfærslu hér.

Í morgun afhenti ég formlega tvær skólastofur skólayfirvöldum sýslunnar sem Rúndú er í. Sýslan nefnist Kavangó-sýsla og skólinn heitir Andreas Kandjimi barnaskólinn. Barnaskóli hér er 1.-7. bekkur. Yfirleitt eru nemendurnir frá sex til tólf ára. Þó eru krakkarnir stundum eldri, bæði vegna þess að þau byrja seinna í skóla og svo þarf að endurtaka bekk ef nemendur falla á lokaprófi bekkjar. Þessi skóli hefur sérstöðu meðal skóla í Namibíu því hann hefur stóra deild fyrir heyrnarlausa nemendur. Nær allir aðrir heyrnarlausir krakkar sem ganga í skóla eru í sérskólum fyrir heyrnarlausa. Vegna þessarar deildar hefur hann fengið stuðning í gegnum þróunarsamvinnu Íslands og Namibíu. Hluti af þeim stuðningi eru skólastofurnar tvær, en þær eru ætlaðar bekkjum heyrnarlausra.

Það mega skólar í Namibíu eiga að þeir kunna að skipuleggja hátíðarhöld. Að taka þátt í svona athöfn er með því skemmtilegra sem ég geri. Það er svo gaman að finna ósvikna ánægju og gleði fólks sem móttekur stuðning af þessu tagi. Og alltaf kemur sama undrunarspurningin: „Af hverju í ósköpunum er bláókunnugt fólk hinu megin á hnettinum að rétta okkur hjálparhönd?”

Ávallt er byrjað á namibíska þjóðsöngnum. Og allir syngja undir, en í morgun leiddi skólakórinn sönginn. Liggur við að ég fái gæsahúð að heyra rúmlega þúsund börn syngja þjóðsönginn án undirspils. Söngurinn einhvern veginn rennur inn í merg og bein. En á góðan hátt, vel að merkja.

Í skólanum eru 72 heyrnarlausir nemendur í fyrsta til sjötta bekk, og var gaman að sjá þá syngja þjóðsönginn á táknmáli. Margt í táknunum er þannig að ekki fer á milli mála hvaða söng verið er að flytja.

Í morgun söng skólakórinn þó nokkuð mörg lög, og gerði það glimrandi vel. Þetta er með stærstu skólakórum sem ég hef séð hér. Í honum eru ekki undir 50 nemendur. Og þeir syngja eins og englar. Ekki skildi ég alla textana, enda flestir sungnir á Rúkvangalí sem er móðurmál flestra íbúa Kavangó-sýslunnar. Sessunautur minn var þó svo almennilegur að fræða mig um innihald textanna. Það var sungið um mikilvægi menntunar, gleði og ánægju þess að vera lifandi, Jesús var lofsunginn og síðan var einn texti á ensku þar sem varað var við ágengni ókunnra.

Síðan tók magnaður danshópur skólans nokkra dansa. Þar er sko ekkert gefið eftir. Undir dynjandi trumbuslætti hreyfast fætur, mjaðmir og axlir svo hratt að engu líkara er að miklu fleiri dansarar séu á ferð en raun ber vitni. Hér er mynd af tveimur dönsurum með trymbil í bakgrunni:

Mér finnst svolítið skondið að ég á myndir frá því fyrir þremur árum af þessum danshópi og þar á meðal eru þessir tveir krakkar. Töluvert lægri vexti á þeim myndum, en innlifunin og ánægjan af dansinum hefur ekki breyst.

En ekki var öll dagskrá morgunsins jafnlifandi og spennandi og söngurinn og dansinn. Ýmsir héldu ræður, þar á meðal undirritaður.


Já, maður tekur sig bara ágætlega út. Með NBC hljóðnema fyrir framan sig. Hver veit nema maður komi í sjónvarpsfréttum einhvern tímann í næstu viku. Reyna að slá Gullu út...

Einn af heyrnarlausu nemendunum, ung stúlka, flutti þakkarræðu fyrir hönd sinna skólafélaga. Það fór henni vel úr hendi. Kom vel fram hjá henni þessi fölskvalausa gleði yfir því að aðstæður hennar og skólafélaganna hafi batnað vegna stuðnings Íslendinga.

Svo var klippt á borða sem var fyrir dyrum annarrar skólastofunnar. Skærin mundaði sýslufulltrúi kjördæmisins sem skólinn er í.

Ég fékk þann heiður að stinga lyklinum í skrána, opna hurðina, og síðan afhenda lykilinn formanni skólastjórnarinnar. Allt gert eftir kúnstarinnar reglum.

Svo tók ég mynd af skólastofunum. Í forgrunni sést hluti af skólakórnum, en hann hélt áfram að syngja og hreinlega fékkst ekki til að hætta.

Ég er þeirrar skoðunar að athöfn af þessu tagi sé vel þess virði. Ekki síst fyrir það að nemendurnir sem nota þessar stofur átta sig betur á því að falleg skólastofa er ekki sjálfsagður hlutur. Ég held að margir þeirra meti hana betur og skilji að um hana þarf að ganga með virðingu.

En svo var það rúsínan í pylsuendanum.

Þegar ræðuhöldum var að ljúka þá leggur skólastýran fram stílabók og biður fólk um að leggja fram peninga í framkvæmdasjóð skólans. Skólastjórnin vill leggja í ýmsar framkvæmdir og voru sumar tíundaðar í erindi sem skólastýran hélt við upphaf athafnarinnar.

Þessi söfnun var ekki skipulögð fyrirfram. Hún kom þannig til að við morgunverðarborðið sama dag spurði eiginmaður skólastýrunnar hana hvort samskot yrðu haldin. Ef svo, þá vildi hann leggja eitthvað af mörkum. Skólastýrunni fannst þetta svo góð hugmynd að hún hrinti henni í framkvæmd.

Fyrst var lítið um viðbrögð og þótti mér þetta hálfvandræðalegt. Ekki var beðið um háar upphæðir, einn og tveir dalir voru nefndir sem vel ásættanlegar upphæðir. Síðan kom loksins einn maður frá menntamálaráðuneytinu. Hann var nú hálfvandræðalegur, en sagði frá því að um næstu mánaðarmót fengi hann bónusgreiðslu ofan á launin sín. Hét hann því að leggja eitt þúsund dali (17 þúsund kr) í framkvæmdasjóðinn. Brutust út þvílík fagnaðarlæti við þessa tilkynningu að allt ætlaði um koll að keyra. En nú var ísinn líka brotinn. Eitt af öðru kom fólk upp, sumt lagði fram 50 dali, annað meira. Slæðingur af kennurum lagði sitt af mörkum, sem mér þótti vænt að sjá. Ein kona, móðir heyrnarlauss nemanda, gaf 50 kíló af maísmjöli, en það er undirstaða flestra máltíða hér um slóðir. Þegar allt var yfirstaðið höfðu safnast 6.970 Namibíudalir, og svo 50 kílóin af mjöli. Gerir þetta nærri því 120 þúsund íslenskar krónur.

Útkoma þessarar söfnunar kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ekki gleyma því að fólkið sem gaf þessa peninga er flest bláfátækt. Til að setja þetta í samhengi, þá heyrði ég fyrir nokkrum dögum að mánaðarlaun verkstjóra á bóndabýli teldust mjög góð ef þau næðu 2.800 dölum. Margir sem gáfu í dag, ná þeim launum áreiðanlega ekki. En margir sem gáfu nefndu að menntun væri lykill að velgengni barna þeirra í framtíðinni. Sá sem gaf fyrstur, hann sagði við mig að hann liti á þetta sem fjárfestingu í framtíð sýslunnar sinnar. „Þegar ég og mín kynslóð verðum orðin gömul og komin með staf, þá þarf þessi kynslóð,” sagði hann og benti á barnaskarann, „að sjá um okkur. Því er þetta góð og arðbær fjárfesting hjá mér.”

Hvað getur maður sagt?

Í það minnsta er ég ánægður að hafa átt þátt í að aðstoða þennan skóla og fólkið þarna.

Kannski verður hægt að gera eitthvað meira fyrir þennan skóla seinna.

Góð þjónusta

Einhvern tímann man ég eftir að lesa um hávísindalega rannsókn sem gerð var til að átta sig á því hvenær fólk væri ánægt með þjónustu í matvöruverslunum og hvenær ekki. Hluta af afgreiðslufólkinu var uppálagt að snerta hönd viðskiptavinarins þegar peningar voru að skipta um hendur. Hinum hluta afgreiðslufólksins var uppálagt að snerta ekki hönd kúnnans. Fyrir utan búðina voru viðskiptavinirnir síðan spurðir hvort þjónustan hefði verið góð eða ekki.

Komust rannsakendur að því að þeir sem fengu snertingu fannst þjónustan betri. Var munurinn tölfræðilega marktækur.

Mér datt þetta í hug áðan. Ég var í matvöruverslun hérna í Rúndú að kaupa mér eitthvað smálegt. Fer svo að kassanum til að borga. Tek upp úr vasanum fulla lúku af smápeningum og byrja að telja. Eitthvað þótti afgreiðsludömunni ég lengi að þessu. Brá hún á það ráð að grípa utanum hendina á mér, þessa með klinkinu, ýtti hinni hendinni minni frá og fór sjálf að tína peningana úr lófanum á mér.

Telja fyrir mig, sem sagt. Sjálfan doktorinn...

Mikið svakalega er þjónustan nú góð í Shoprite.

Við fyrsta hanagal

Hef lengi haft áhuga á að vita hvenær morguns hanar í Rúndú byrja að gala.

Nú veit ég svarið.

Rétt fyrir klukkan fjögur...

16. september 2010

Sinueldar o.fl.

Enn er ég kominn til Rúndú. Kannski í síðasta sinn í þessari viðveru í Namibíu. Það er viss söknuður yfir því.

Hingað er ég kominn til að afhenda tvær skólastofur sem voru byggðar handa heyrnarlausum skólabörnum í Namibíu. Íslenskir skattpeningar voru notaðir til þess.

Eins og alltaf þá fer heill dagur í að komast á staðinn. Lagði nú frekar seint af stað í morgun, ekki fyrr en um hálftíu. Núna lengjast dagarnir og því í lagi að vera aðeins seinna á ferðinni heldur en um hávetur.

Ég var ekki kominn nema kannski 20 km út úr borginni þegar ég ók fram á hóp af bavíönum. Eitthvað finna þeir sér til ætis við veginn. Greinilega er ekki langt síðan afkvæmin fæddust, því þau voru pínulítil. Þau voru þó alveg jafnfim og foreldrarnir að forðast bílana. Skömmu fyrir Otjiwarongó þá birtust vörtusvín í stórum hópum. Liggjandi á framhnjánum að éta gras. Alltaf jafnskondið að sjá þau knékrjúpa svona.

Nú er töluvert um sinuelda út um allt land. Enda hefur ekki rignt í fimm mánuði eða svo og allt orðið skraufþurrt. Síðan eldar mikill meirihluti íbúa Namibíu matinn sinn yfir opnum eldi og þá þarf ekki mikið að bregða útaf til að missa stjórn á eldinum. Hér og þar meðfram þjóðveginum er sviðin jörð. Hins vegar er magnað að sjá hversu hratt iðagrænt grasið stingur aftur upp kollinum. Á einum stað ók ég fram á þvílíkan reykjarstrók að ég hef sjaldan séð annað eins. Biksvartur og náði tugi metra upp í loft. Upptökin voru hins í hvarfi við veginn, þ.a. ég sá ekki hversu útbreiddur eldurinn var.

Öðru hverju á leiðinni sá ég reykjarmekki, og svo undir lok ferðar var einn rétt utan vegar svo ég stöðvaði bílinn og tók mynd. Í forgrunni sjást kofar ekki langt frá eldinum. Það hlýtur að vera hræðilegt þegar eldurinn gýs upp rétt hjá húsinu manns.


Svo má nú ekki gleyma blessuðum dýrunum sem eru að flækjast á veginum. Um leið og komið er norður fyrir sóttvarnargirðinguna þá fyllist allt af nautgripum, geitum, ösnum og hundum við veginn sem og á honum.

Þessum fannst lítið til mín og míns bíls koma.


Svo var annar frekar vígalegur. A.m.k. vildi ég ekki lenda í hornunum hans.


Nautgripir hér þurfa jú að vera betur í stakk búnir til að berjast við ýmis villidýr heldur en heima á Fróni.

Þrátt fyrir sinuelda og skepnur á veginum, þá komst ég klakklaust á leiðarenda. Rétt rúmum sjö tímum eftir að ég lagði af stað. Var notalegt að skella sér í sundlaugina í hótelgarðinum eftir langan akstur.

Einhverju fagnað

Rúnar Atli stalst í myndavélina eitthvert kvöldið um daginn og náði þessari fínu mynd af foreldrunum. Ekki man ég nú í hvaða tilefni var skálað í þetta sinn.

Lífið er svo skemmtilegt að það er alltaf verið að fagna einhverju...

15. september 2010

Milljón dala skuldbinding

Útvarpsbylgjan nefnist ljósvakastöð hér í Windhoek. „Radio Wave” á engilsaxnesku. Hlusta ég iðulega á hana í bílnum. Stöð þessi býðst til að skuldbinda sig á eftirfarandi hátt: „Þú borgar okkur milljón dali (17 milljónir kr) og við spilum hvaða lag sem þú vilt!”

Enginn hefur tekið áskoruninni enn.

14. september 2010

Skype er toppurinn

Í gærkvöldi sátum við Gulla í stofunni og spjölluðum við dóttur okkar í Kanada. Gerðum við þetta í gegnum Skype, með vefmyndavélum og alles.

Skype er náttúrulega bara snilld. Sannanlega tær snilld og ekkert klúður þar í gangi. Það er ótrúlegt að hægt skuli vera að tala yfir níu tímabelti milli norðanverðs Kanada og sunnarverðrar Afríku  í mynd. Og myndgæðin voru fín. Tinna Rut sást vel og eiginlega ekkert hökt á myndinni. Svo kostar ekkert að tala úr einni tölvu í aðra.

Mér var hugsað til 1991, en þá lögðum við í víking til Vancouver. Þá var nú ekkert Skype. Varla hægt að tala um tölvupóst, því frekar fáir voru með svoleiðis fínerí. Einstaka sinnum var hringt milli Vancouver og Íslands, en ekki nema einhver brýn ástæða væri til. Það þurfti jú að borga fyrir svoleiðis símtöl og hver mínúta kostaði sitt.

Trúiði því að við skrifuðum bréf upp á gamla mátann! Handskrifuðum þau meira að segja fyrstu tvö árin.

Einstaka sinnum fengum við Moggasendingu. Til að halda sendingargjaldinu niðri þá dundaði Varði sér við að klippa auglýsingar úr blöðunum svo þau yrðu léttari. Síðan gengu blöðin á milli Íslendinganna í Vancouver og voru lesin upp til agna. Margra vikna gamlar fréttir.

Alveg er þetta með ólíkindum ef borið er saman við tæknina í dag. Ég er stundum í dag að skoða blað dagsins um hálffimm að morgni að íslenskum tíma. Les það í Afríku þegar ekki er enn búið að bera það út í Reykjavík!

Nei, heimurinn er svo sannarlega orðinn lítill og engin afsökun fyrir því að halda ekki sambandi við fólk.

Samt er ég nú frekar latur við það. Það er kannski það skrýtnasta.

12. september 2010

Töff að vera Döff

Tók mig til í dag og bónaði svörtu eldinguna hennar Gullu. Verður að viðurkennast að ég er frekar latur við svoleiðis lagað. Enda kostar lítið að láta þvo og bóna bíla hér.

En ég var búinn að lofa frúnni að gera þetta fyrir hana, því síðast var bónunin ekki eins og við vildum.

Ég dundaði mér sem sagt við þetta og var með íslenska tónlist í geislaspilaranum, Helga Björns og Reiðmenn vindanna - Þú komst í hlaðið. Góð plata, ekki síst fyrir okkur Íslendingana í útlöndum.

Við fengum þessa plötu um daginn. Þannig var að tvær íslenskar konur komu hér fyrir nokkru að vinna í táknmálsverkefninu sem hefur verið í gangi í nokkur ár. Önnur kvennanna, Júlía, er heyrnarlaus, eða Döff eins og á að segja.

Nokkrum dögum áður en hún lagði af stað frá Íslandi, þá spurði hún hvort hún gæti komið með eitthvað handa okkur frá Íslandi. Jú, ég bað hana að kaupa fyrir okkur tvær plötur. Fékk svo smábakþanka og spurði hana hvort henni þætti ekki í lagi, heyrnarlausri konunni, að kaupa tónlistarplötur.

Svarið kom um hæl:

„Það er töff að vera Döff og kaupa tónlist handa heyrandi!”

11. september 2010

Fjölmenningarlegur uppruni

Rúnari Atla var boðið í afmælisveislu í dag. Bekkjarsystir hans átti sex ára afmæli.

Áður en ég segi meira um hana, þá langar mig að nefna að stundum veltum við Gulla því fyrir okkur hvaða áhrif það hafi á börnin okkar að alast upp í útlöndum. Hvaða áhrif hefur það á föðurlandsást, kunnáttu í íslensku, meðvitund um íslenskan menningararf og ýmislegt í þá veruna.

En þessi stúlka sem átti afmæli, úff, hún er svolítið flókið eintak.

Faðir hennar er persneskur (þ.e. frá Íran) og móðirin er þýsk í aðra ættina og kínversk í hina. Sú stutta talar þýsku við móður sína, persnesku við föðurinn og fullkomna ensku við okkur hin.

Hvernig skyldu jólin hjá þeim vera?

10. september 2010

Saknæmt að vera Íslendingur?

Í strand- og ferðamannabænum Swakopmund sitja um þessar mundir á rökstólum háttsettar sendinefndir frá Namibíu og Suður-Afríku. Er verið að ræða öryggis- og varnarmál.

Að sjálfsögðu jókst viðbúnaður namibískra lögreglusveita vegna þessa fundar. Ferðast lögreglumenn um Swakopmund og nágrenni gráir fyrir járnum.

Einn íbúi bæjarins segir farir sínar ekki sléttar eftir samskipti við tvo sprengiefnasérfræðinga lögreglunnar.

Íbúi þessi á og rekur eðalsteinabúð í Swakopmund. Eitt af áhugamálum hans er að rölta um fjöruna meðfram bænum með málmleitartæki og grafa upp hitt og þetta skran sem hann finnur með hjálp tækisins. Fyrr í vikunni var hann að dunda sér við þetta þegar hann veit ekki fyrr en lögreglumennirnir tveir stöðva hann og fara að spyrja hann spjörunum úr.

Leist vesalings manninum ekki á blikuna, því lögreglumennirnir voru víst mjög ágengir. „Var eins og þeir væru að leita að afsökun til að handtaka mig,” sagði hann. „Var mér farið að líða illa og vissi ekki hverju ég ætti von á,” bætti hann við.

En fyrst tók þó steininn úr þegar lögreglan sakaði manninn um að villa á sér heimildir. „Þú ert greinilega ekki Namibíumaður,” sögðu þeir með ásökunartóni. „Þú ert örugglega ...

... Íslendingur!”

Það var nefnilega það.

Ekki skyldi mig undra ef maðurinn ætti í vandræðum með svefn eftir svona ásökun.

Skyldi Interpol vera búið að gefa út almenna handtökuskipun á Íslendinga, sama hvar þeir nást? Kannski er best að láta fara lítið fyrir sér það sem eftir lifir árs.

En, ein spurning vaknar:

Hver skyldi refsingin vera fyrir að vera Íslendingur?

9. september 2010

Suður-afrísk forstjóralaun

Rakst á grein í suður-afrískum viðskiptafréttamiðli í morgun. Þar var rætt um forstjóralaun í Suður-Afríku og því velt fyrir sér hvort þau væru of há. Umræða um forstjóralaunin skýtur við og við upp kollinum þarna suðurfrá. Ekki síst er það í tengslum við laun ríkisforstjóra.

En fréttin í morgun var almennt um forstjóralaun, ekki bara um ríkisforstjóra. Vitnað var í fyrirlestur starfsmanns Suður-Afríkudeildar PriceWaterhouseCoopers. Ýmislegt fróðlegt kom þar fram. T.d. að meðalforstjórinn í S-Afríku þénar 4 milljónir randa á ári. Það gerir u.þ.b. 68 milljónir króna á ári ef miðað er við Visa-gengið. Góðar 5,6 milljónir króna á mánuði.

Hvað skyldi nú verkafólkið þéna? Jú, 42.000 rönd er sagt að lægstlaunuðu fái. Í íslenskum gerir það 714 þúsund.

Á ári, vel að merkja. Tæplega 60 þúsund krónur á mánuði.

Á árunum 2006 til 2009 tvöfölduðust laun forstjóra, en laun verkafólk hækkuðu 30% á sama tíma.

Haft var eftir fyrirlesaranum að dæmi væru um að forstjórar fengju 300-föld laun á við almennan starfsmann sama fyrirtækis. Inni í þeim tölum væru taldir með bónusar, kaupaukar og þess háttar.

Hins vegar, á fyrirlesarinn að hafa sagt að forstjórarnir væru ekki of hátt launaðir.

„Í alþjóðlegum samanburði eru þetta ekki of há laun,” sagði maðurinn.

Skrýtið... mér finnst ég hafa heyrt þetta einhvers staðar áður...

Skyld'ann far'að rigna?

Sit með tebollann úti á verönd. Hálftími í vinnu.

Hér hefur ekki rignt síðan öðrum hvoru megin við mánaðarmótin apríl maí. Hins vegar lyktar af rigningu þennan morguninn. Allt önnur lykt í loftinu heldur en venjulega. Eitthvað er af skýjum á himni.

Það skyldi þó ekki fara að rigna?

Namibíumenn verða ánægðir ef það gerist.

8. september 2010

Skrýtin úttekt DV á hættulegustu ferðamannalöndunum

Frá því skömmu eftir hrun þá höfum við hjónin verið áskrifendur að vefútgáfu DV. Þar getum við lesið DV af okkar hjartans lyst. Reyni ég að missa ekki úr blað, og er DV yfirleitt fyrsta blaðið sem ég les þá daga sem það kemur út.

En stundum birtast skrýtnar greinar í blaðinu. Í morgun var ein þessháttar. Var þetta úttekt á tíu hættulegustu löndum heimsins fyrir ferðamenn. Því miður finn ég úttektina ekki á dv.is.

Þótti mér röksemdafærslan stundum skrýtin. T.d. má spurja hvort sú staðreynd að lífslíkur séu lágar í einhverju landi geri það hættulegt heim að sækja.

En þannig vill til að tvö lönd á hættulega listanum eru nágrannalönd Namibíu og þekki ég aðeins til þeirra. Annað er Simbabve og hitt Suður-Afríka.

Í fyrra fór ég í ferðalag til Simbabve. Tilgangurinn var að sjá Viktoríufossana. Ekki neita ég að hafa verið taugatrekktur fyrir ferðina. Ýmsar miður góðar sögur hafði ég heyrt um Simbabve og var ég undirbúinn ýmsum vandræðum. Leist mér fyrirfram ekkert sérstaklega vel á simbabveska landamæra- og tollverði. Viðtökurnar komu mér hins vegar skemmtilega á óvart. Jú, jú, auðvitað þurfti að kaupa allskonar leyfi til að komast inn í landið og slatti af peningaseðlum skiptu um eigendur, en viðmótið var gott. Var það sama uppi á teningnum allsstaðar sem við komum í ferðinni. Almennt virtist fólk ánægt að sjá ferðamenn og leið okkur mjög vel í þessari ferð. Fundum ekki fyrir óþægindum eða hræðslu.

Því get ég ekki verið sammála að Simbabve eigi heima á lista yfir hættulegustu lönd heims.

Eins er með Suður-Afríku. Jú, það er satt að glæpatíðni er há. Morð eru einnig daglegt brauð þarna suðurfrá. Hins vegar er ekki algengt að ferðamenn séu myrtir. Verða þó oft fyrir barðinu á vasaþjófum. Ekki er langt síðan heimsmeistarakeppnin í fótbolta var haldin í Suður-Afríku. Er álitið að milli 450 og 500 þúsund fótboltaáhangendur hafi mætt til landsins. Eru allir sammála að ótrúlega fáir af öllum þessum fjölda hafi orðið fórnarlömb glæpamanna. Man ég ekki eftir að hafa heyrt um alvarlega glæpi á meðan á keppninni stóð.

Eitt af tíu hættulegustu löndum í heimi? Nei, ég get ekki verið sammála því.

Mér hefði þótt eðlilegra að Afganistan væri á listanum. Eða þá Írak. Í Afríku væri ég ekkert sérstaklega spenntur fyrir að flækjast mikið um Angólu og einnig eru svæði í sumum mið-Afríkuríkjum sem mér litist miklu verr á að fara til en til Simbabve og Suður-Afríku.

Ég hef í gegnum tíðina flækst til margvíslegra landa. Hef tvisvar verið rændur og einu sinni tókst mér á síðustu stundu að forðast slíkt. Tvö þessara tilvika voru í evrópskum höfuðborgum. Annað á Ítalíu og hitt á Spáni.

Þrátt fyrir að vera ekki allskostar sáttur við úttektina er ég sammála höfundi hennar að mestu máli skipti að nota hyggjuvitið og fara varlega.

7. september 2010

Stór orð hjúkkunema norðan heiða - stendur hann við sitt?

Var að tala við Jóhönnu, elsku bestu systur, í símann áðan. Hún er að sverma fyrir íbúðinni í Æsufellinu, því í næsta mánuði þarf hún að fara í verknám í henni stóru Reykjavík.

Við Gulla sættumst á að hún gæti verið í íbúðinni með því skilyrði að hún fari að blogga á ný.

Þrisvar í viku frá og með deginum í dag og þar til verunni í íbúðinni er lokið.

Ég skellti frúnni á fylgilistann minn hér vinstra megin.

Nú er að sjá hvort staðið verði við stóru orðin...

4. september 2010

Laugardagur í Legó

Við feðgarnir erum búnir að dunda okkur við Legósmíðar síðan skömmu eftir hádegi. Hann að setja saman landhelgisgæsluskip, en ég landhelgisgæsluþyrlu. Gulla dundar sér við saumaskap úti á verönd. Í kallfæri, vel að merkja.

Gullaldartónlist níunda áratugarins svífur ljúflega úr gervihnattardiskssjónvarpinu og umvefur okkur mjúklega. Engu líkara en Siggi Hlö hafi valið lagalistann.

Ég var að bera eld að grillkolum. Eftir klukkustund eða svo þá fara svínasneiðar og búapylsa á grillið.

Einhvers staðar hlýt ég að eiga rauðvínsflösku til að opna. Getur bara ekki annað verið.

Ó, já, Tinna Rut er komin til Vancouver, þ.a. hún á bara eftir að fara í eina flugvél til viðbótar. Vancouver til Prince George er nú ekki nema klukkutíma flug. Þá verður hún komin á sínar heimaslóðir.

Jæja, Rúnari Atla finnst ég orðinn slappur í þyrlusmíðunum. Best að halda áfram.

Laugardagsmorgunn

Sestur út á verönd með tebolla og jógúrtdós. Klukkan 20 mínútur gengin í sjö þennan fína laugardagsmorgun.

Rás 2 komin í gang í tölvunni og ég hlusta á hana í sambland við fuglasöng. Á einhver töluverður fjöldi smáfugla sér hreiður undir þakskeggi hjá okkur og er stundum hávær á morgnana. Ríflega 16 gráðu hiti er núna samkvæmt gæðahitamæli okkar (sem var víst keyptur í Svíaríki) og albjart orðið. Næstu nótt færist klukkan fram um einn tíma hér í landi hinna hugrökku. Þá verður bjart uppúr fimm á morgnana.

Miðað við okkur Íslendinga eru Namibíumenn morgunhanar. Skólar hefja kennslu rétt rúmlega sjö á morgnana og flestar verslanir opna milli átta og hálfníu á morgnana. Á móti kemur að flestar sérverslanir loka klukkan fimm eftir hádegi, en reyndar eru margar matvörubúðir opnar eitthvað lengur. Sumartíminn, sem hefst sem sagt á morgun, passar vel inn í þessa morgungleði Namibíumanna.

Skömmu fyrir sex í morgun átti ég sms-orðastað við Tinnu Rut. Hún er stödd í Seattle, í átta tímabelta fjarlægð, en flýgur á eftir, eldsnemma að staðartíma, til Vancouver. Þaðan svo til Prince George. Snótin var hæstánægð, enda nýbúin að fá sér kvöldverð á McDonald's. Hún hefur ekki komið á þannig gæðastað (að hennar mati) síðan í apríl og var víst farin að sakna kjúklinganagganna. Hún bloggar vonandi ferðasöguna þegar hún er komin á leiðarenda.

Ég sný mér núna að dagblaðalestri áður en restin af fjöldskyldunni vaknar.

2. september 2010

Bannsett þjófapakk!

Haldiði ekki að einhver ribbaldalýður hafi þvingað upp ferðatöskuna hennar Tinnu Rutar og gramsað í dótinu hennar. Flugvallarstarfsmenn voru þarna að verki, annað hvort í Jóhannesarborg eða Lundúnum.

Óþjóðalýður!

Ég veit ekki enn hvort einhverju var stolið. Tinna hefur ekki enn fundið nokkur hálsmen sem voru í töskunni, en hún var ekki búin að gefa upp alla von, því nokkur armbönd voru enn í töskunni. Ef hálsmenin voru tekin, þá er það sárt, því voru flest, ef ekki öll, útskriftargjafir sem hún fékk í desember sl.

Alþjóðaflugvöllurinn í Jóhannesarborg er reyndar frægur að endemum fyrir töskuþjófnaði. Í Suður Afríku er frægur ofanafflettingarþáttur í sjónvarpinu, Carte Blanche heitir hann. Ef ég ætti að þýða nafn þáttarins yfir á það ylhýra, þá dytti mér helst í hug ,,Ekkert er heilagt.'' Þarna stunda menn rannsóknarblaðamennska eins og mér skilst að reynt hafi verið í Kompásþáttunum.

Allllllavegana.

Carte Blanche laumaðist einu sinni með myndavélar inn í iður flugvallarins í Jóhannesarborg. Þar fannst þrælskipulagður og útsmoginn bófaflokkur sem kerfisbundið leitaði að verðmætum í farangri þeirra sem um völlinn fóru. Tókst bófunum á ótrúlegan hátt að forðast eftirlitsmyndavélar sem eru eins og mý á mykjuskán þarna. Þátturinn vakti heilmikla athygli í Suður Afríku og lofuðu flugvallaryfirvöld bót og betrun.En ég veit nú ekki hversu vel þeim gekk að standa við þau loforð.

En, svo gæti þetta hafa gerst í Lundúnum líka. Ég hef heyrt eitthvað af sögum þaðan, en þó ekki eins kræfar og frá Jóhannesarborg. En Tinna Rut var töluvert lengur í Lundúnum en Jóhannesarborg, þ.a. ég veit ekki hvað skal halda.

Það er bara svo hrikalega svekkjandi að vita að einhver hafi gramsað í fötunum þínum og öðrum prívathlutum.

Hrikalega.

1. september 2010

Hinn langi vetur

Líklega í tilefni fyrsta í vori í dag og brottfarar Tinnu Rutar í gær þá datt mér í hug að Tinna er u.þ.b. hálfnuð með skrýtið tímabil.

Hinn langa vetur.

Sl. desember fór hún frá Namibíu til Íslands og þaðan til Kanada. Lendir þar í harðari vetri en hún hefur nokkurn tímann á sinni ævi upplifað. Um mánaðarmótin apríl-maí þá mætir hún aftur til Namibíu. Þá er vetur að hefjast þar í landi. Hún er þar heilan vetur. Degi fyrir fyrsta í vori þá yfirgefur hún landið. Fer til Íslands og þaðan til Kanada.

Vetur að hefjast þar.

Mér sýnist að Tinna Rut muni ekki upplifa sumar fyrr en í maí á næsta ári.

Þá verður hún búin að vera eitt og hálft ár í stanslausum vetri.

Skyldi svona nokkuð ekki geta haft áhrif á geðheilsu fólks?

Vordagurinn fyrsti

„Gleðilegt vor!“ var það fyrsta sem ég heyrði í morgunútvarpinu rétt í þessu. Á þessum árstíma er gott að búa á suðurhveli jarðar.

Fyrsti september = vordagurinn fyrsti

Enda er daginn að lengja og hitinn helst þægilegur langt fram eftir kvöldi. Ég er farinn að sitja úti á verönd bæði í morgunmat og kvöldmat.

„Já, lífið er gott,“ segir Vilhjálmur og dæsir.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...