14. september 2010

Skype er toppurinn

Í gærkvöldi sátum við Gulla í stofunni og spjölluðum við dóttur okkar í Kanada. Gerðum við þetta í gegnum Skype, með vefmyndavélum og alles.

Skype er náttúrulega bara snilld. Sannanlega tær snilld og ekkert klúður þar í gangi. Það er ótrúlegt að hægt skuli vera að tala yfir níu tímabelti milli norðanverðs Kanada og sunnarverðrar Afríku  í mynd. Og myndgæðin voru fín. Tinna Rut sást vel og eiginlega ekkert hökt á myndinni. Svo kostar ekkert að tala úr einni tölvu í aðra.

Mér var hugsað til 1991, en þá lögðum við í víking til Vancouver. Þá var nú ekkert Skype. Varla hægt að tala um tölvupóst, því frekar fáir voru með svoleiðis fínerí. Einstaka sinnum var hringt milli Vancouver og Íslands, en ekki nema einhver brýn ástæða væri til. Það þurfti jú að borga fyrir svoleiðis símtöl og hver mínúta kostaði sitt.

Trúiði því að við skrifuðum bréf upp á gamla mátann! Handskrifuðum þau meira að segja fyrstu tvö árin.

Einstaka sinnum fengum við Moggasendingu. Til að halda sendingargjaldinu niðri þá dundaði Varði sér við að klippa auglýsingar úr blöðunum svo þau yrðu léttari. Síðan gengu blöðin á milli Íslendinganna í Vancouver og voru lesin upp til agna. Margra vikna gamlar fréttir.

Alveg er þetta með ólíkindum ef borið er saman við tæknina í dag. Ég er stundum í dag að skoða blað dagsins um hálffimm að morgni að íslenskum tíma. Les það í Afríku þegar ekki er enn búið að bera það út í Reykjavík!

Nei, heimurinn er svo sannarlega orðinn lítill og engin afsökun fyrir því að halda ekki sambandi við fólk.

Samt er ég nú frekar latur við það. Það er kannski það skrýtnasta.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...