8. september 2010

Skrýtin úttekt DV á hættulegustu ferðamannalöndunum

Frá því skömmu eftir hrun þá höfum við hjónin verið áskrifendur að vefútgáfu DV. Þar getum við lesið DV af okkar hjartans lyst. Reyni ég að missa ekki úr blað, og er DV yfirleitt fyrsta blaðið sem ég les þá daga sem það kemur út.

En stundum birtast skrýtnar greinar í blaðinu. Í morgun var ein þessháttar. Var þetta úttekt á tíu hættulegustu löndum heimsins fyrir ferðamenn. Því miður finn ég úttektina ekki á dv.is.

Þótti mér röksemdafærslan stundum skrýtin. T.d. má spurja hvort sú staðreynd að lífslíkur séu lágar í einhverju landi geri það hættulegt heim að sækja.

En þannig vill til að tvö lönd á hættulega listanum eru nágrannalönd Namibíu og þekki ég aðeins til þeirra. Annað er Simbabve og hitt Suður-Afríka.

Í fyrra fór ég í ferðalag til Simbabve. Tilgangurinn var að sjá Viktoríufossana. Ekki neita ég að hafa verið taugatrekktur fyrir ferðina. Ýmsar miður góðar sögur hafði ég heyrt um Simbabve og var ég undirbúinn ýmsum vandræðum. Leist mér fyrirfram ekkert sérstaklega vel á simbabveska landamæra- og tollverði. Viðtökurnar komu mér hins vegar skemmtilega á óvart. Jú, jú, auðvitað þurfti að kaupa allskonar leyfi til að komast inn í landið og slatti af peningaseðlum skiptu um eigendur, en viðmótið var gott. Var það sama uppi á teningnum allsstaðar sem við komum í ferðinni. Almennt virtist fólk ánægt að sjá ferðamenn og leið okkur mjög vel í þessari ferð. Fundum ekki fyrir óþægindum eða hræðslu.

Því get ég ekki verið sammála að Simbabve eigi heima á lista yfir hættulegustu lönd heims.

Eins er með Suður-Afríku. Jú, það er satt að glæpatíðni er há. Morð eru einnig daglegt brauð þarna suðurfrá. Hins vegar er ekki algengt að ferðamenn séu myrtir. Verða þó oft fyrir barðinu á vasaþjófum. Ekki er langt síðan heimsmeistarakeppnin í fótbolta var haldin í Suður-Afríku. Er álitið að milli 450 og 500 þúsund fótboltaáhangendur hafi mætt til landsins. Eru allir sammála að ótrúlega fáir af öllum þessum fjölda hafi orðið fórnarlömb glæpamanna. Man ég ekki eftir að hafa heyrt um alvarlega glæpi á meðan á keppninni stóð.

Eitt af tíu hættulegustu löndum í heimi? Nei, ég get ekki verið sammála því.

Mér hefði þótt eðlilegra að Afganistan væri á listanum. Eða þá Írak. Í Afríku væri ég ekkert sérstaklega spenntur fyrir að flækjast mikið um Angólu og einnig eru svæði í sumum mið-Afríkuríkjum sem mér litist miklu verr á að fara til en til Simbabve og Suður-Afríku.

Ég hef í gegnum tíðina flækst til margvíslegra landa. Hef tvisvar verið rændur og einu sinni tókst mér á síðustu stundu að forðast slíkt. Tvö þessara tilvika voru í evrópskum höfuðborgum. Annað á Ítalíu og hitt á Spáni.

Þrátt fyrir að vera ekki allskostar sáttur við úttektina er ég sammála höfundi hennar að mestu máli skipti að nota hyggjuvitið og fara varlega.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...