20. september 2010

Talnafíkill

„Pabbi, hvað er 12 + 100 + 1 + 100?”

„Ha, jú, 213.”

„En hvað er 23 + 15 + 100 + 3 + milljón?”

Eitthvað á þennan hátt eru margar samræður okkar feðganna um þessar mundir. Rúnar Atli er alveg bergnuminn af tölum og getur endalaust velt fyrir sér einhverjum summum.

Fram og til baka og afturábak og áfram.

Eftir nokkra byrjunarörðugleika og stundum óþolinmæði af minni hálfu ákvað ég að snúa vörn í sókn. Reyni ég að nýta spurningar hans til að þjálfa drenginn í einföldum reikningi.

Hann spyr kannski um 27 + 5. Ég spyr þá á móti hvað sé 27 + 3. Hann fer að hugsa og hugsa. Segir svo 30. „Já,” segi ég, „ef 27 + 3 er þrjátíu, hvað er þá 27 + 5?” Enn fer hann að hugsa og svo sér maður iðulega kvikna á öllum perum: „32!”

Um að gera að reyna að halda að honum reikningi á meðan hann er á þeim aldri að finnast svona hugarleikfimi stórmerkileg.

Svo getur hann endalaust talið gólfflísarnar þegar hann hleypur inn svefnherbergisganginn.

Tölur eru hans ær og kýr þessa dagana.

Ég verð stundum steinhissa á eftirtektarseminni í drengnum. Áðan var hann að æfa sig að lesa. Þá kom einhver setning um móðu á rúðu. Hann las þetta en áttaði sig ekki alveg á hvað átt var við. Ég geng þá að eldhúsglugganum og banka í rúðuna og segi honum að þetta sé rúða. Hann horfir á gluggann og segir „Já, 16 + 8. Hvað er það mikið?”

Ég kom af fjöllum. Hvað átti drengurinn við? Lít svo betur á eldhúsgluggann og uppgötva hvað hann var að tala um. Glugginn er þrískiptur og hver hluti með átta glerskífum. Sem sagt, 16 + 8. Klár strákur.

Enn sneri ég vörn í sókn. „16 + hvað er 20?” Jú, eftir smáumhugsun var hann á því að svarið væri 4. „Ef 16 + 4 er 20, hvað er þá 16 + 8?”  spurði pabbinn. Aftur kviknaði á perunni: „24!”

Svona er lífið í Afríkunni þessa dagana.

Reiknispeki.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er líka algjör snilld að fá svona snillinga í skólastofuna til sín. Það eru allt of fáum sem er sinnt heima þegar þau hafa þennan áhuga.
Flottur!
kv.
Sigga Hallst.

jóhanna sagði...

Glæsó hjá guttanum, svona á að gera þetta :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...