4. september 2010

Laugardagsmorgunn

Sestur út á verönd með tebolla og jógúrtdós. Klukkan 20 mínútur gengin í sjö þennan fína laugardagsmorgun.

Rás 2 komin í gang í tölvunni og ég hlusta á hana í sambland við fuglasöng. Á einhver töluverður fjöldi smáfugla sér hreiður undir þakskeggi hjá okkur og er stundum hávær á morgnana. Ríflega 16 gráðu hiti er núna samkvæmt gæðahitamæli okkar (sem var víst keyptur í Svíaríki) og albjart orðið. Næstu nótt færist klukkan fram um einn tíma hér í landi hinna hugrökku. Þá verður bjart uppúr fimm á morgnana.

Miðað við okkur Íslendinga eru Namibíumenn morgunhanar. Skólar hefja kennslu rétt rúmlega sjö á morgnana og flestar verslanir opna milli átta og hálfníu á morgnana. Á móti kemur að flestar sérverslanir loka klukkan fimm eftir hádegi, en reyndar eru margar matvörubúðir opnar eitthvað lengur. Sumartíminn, sem hefst sem sagt á morgun, passar vel inn í þessa morgungleði Namibíumanna.

Skömmu fyrir sex í morgun átti ég sms-orðastað við Tinnu Rut. Hún er stödd í Seattle, í átta tímabelta fjarlægð, en flýgur á eftir, eldsnemma að staðartíma, til Vancouver. Þaðan svo til Prince George. Snótin var hæstánægð, enda nýbúin að fá sér kvöldverð á McDonald's. Hún hefur ekki komið á þannig gæðastað (að hennar mati) síðan í apríl og var víst farin að sakna kjúklinganagganna. Hún bloggar vonandi ferðasöguna þegar hún er komin á leiðarenda.

Ég sný mér núna að dagblaðalestri áður en restin af fjöldskyldunni vaknar.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...