Enn er ég kominn til Rúndú. Kannski í síðasta sinn í þessari viðveru í Namibíu. Það er viss söknuður yfir því.
Hingað er ég kominn til að afhenda tvær skólastofur sem voru byggðar handa heyrnarlausum skólabörnum í Namibíu. Íslenskir skattpeningar voru notaðir til þess.
Eins og alltaf þá fer heill dagur í að komast á staðinn. Lagði nú frekar seint af stað í morgun, ekki fyrr en um hálftíu. Núna lengjast dagarnir og því í lagi að vera aðeins seinna á ferðinni heldur en um hávetur.
Ég var ekki kominn nema kannski 20 km út úr borginni þegar ég ók fram á hóp af bavíönum. Eitthvað finna þeir sér til ætis við veginn. Greinilega er ekki langt síðan afkvæmin fæddust, því þau voru pínulítil. Þau voru þó alveg jafnfim og foreldrarnir að forðast bílana. Skömmu fyrir Otjiwarongó þá birtust vörtusvín í stórum hópum. Liggjandi á framhnjánum að éta gras. Alltaf jafnskondið að sjá þau knékrjúpa svona.
Nú er töluvert um sinuelda út um allt land. Enda hefur ekki rignt í fimm mánuði eða svo og allt orðið skraufþurrt. Síðan eldar mikill meirihluti íbúa Namibíu matinn sinn yfir opnum eldi og þá þarf ekki mikið að bregða útaf til að missa stjórn á eldinum. Hér og þar meðfram þjóðveginum er sviðin jörð. Hins vegar er magnað að sjá hversu hratt iðagrænt grasið stingur aftur upp kollinum. Á einum stað ók ég fram á þvílíkan reykjarstrók að ég hef sjaldan séð annað eins. Biksvartur og náði tugi metra upp í loft. Upptökin voru hins í hvarfi við veginn, þ.a. ég sá ekki hversu útbreiddur eldurinn var.
Öðru hverju á leiðinni sá ég reykjarmekki, og svo undir lok ferðar var einn rétt utan vegar svo ég stöðvaði bílinn og tók mynd. Í forgrunni sjást kofar ekki langt frá eldinum. Það hlýtur að vera hræðilegt þegar eldurinn gýs upp rétt hjá húsinu manns.
Svo má nú ekki gleyma blessuðum dýrunum sem eru að flækjast á veginum. Um leið og komið er norður fyrir sóttvarnargirðinguna þá fyllist allt af nautgripum, geitum, ösnum og hundum við veginn sem og á honum.
Þessum fannst lítið til mín og míns bíls koma.
Svo var annar frekar vígalegur. A.m.k. vildi ég ekki lenda í hornunum hans.
Nautgripir hér þurfa jú að vera betur í stakk búnir til að berjast við ýmis villidýr heldur en heima á Fróni.
Þrátt fyrir sinuelda og skepnur á veginum, þá komst ég klakklaust á leiðarenda. Rétt rúmum sjö tímum eftir að ég lagði af stað. Var notalegt að skella sér í sundlaugina í hótelgarðinum eftir langan akstur.
16. september 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli