28. júní 2010

Liðið skiptir engu, treyjan öllu

Í gegnum tíðina hefur Rúnar Atli ekki sýnt nokkurn áhuga á fótbolta. Mér hefur þó nýlega tekist að útskýra fyrir honum að Barcelona sé merkilegt fótboltalið og að Messi sé góður fótboltagaur.

Hann man þetta, en kannski vegna þess að honum finnst nafnið Messi svolítið fyndið. Á ensku þýðir orðið messy jú auðvitað sóðalegt eða draslaralegt.

En fyrir utan Barcelona og Messi, þá hefur hann lítinn áhuga á þessu boltasparki. Ég veit t.d. ekki hversu oft ég hef síðan heimsmeistarakeppnin hófst svarað á mjög þolinmóðan máta neitandi þeirri spurningu hvort Barcelona sé að spila.

Þrátt fyrir þetta almenna áhugaleysi á fótbolta finnast honum fótboltatreyjur flottar.

Vandamálið við það, hins vegar, er að namibískir kaupmenn virðast ekki fatta að foreldrar séu tilbúnir að eyða formúum í að kaupa fótboltatreyjur á börnin sín. Einhvern tímann spurði ég sportvörukaupmann hvort hann ætti namibísku landsliðstreyjuna í barnastærðum. „Nei, af hverju?“ var svarið. Spurningin var greinilega mjög heimskuleg. Varla svaraverð. Auðvitað á maður að kaupa rúbbítreyjur á krakka...

Um daginn kíktum við Rúnar Atli inn í sportvöruverslun og þá sáum við portúgölsku landsliðstreyjuna í barnastærð. Ég spurði hvort treyjur annarra þjóða væru til í litlum stærðum, en fékk neikvætt svar. Afgreiðslumanninum fannst greinilega undarlegt að þessi treyja væri til. Rúnar Atli var auðvitað spenntur fyrir henni, en ég var ekki alveg til í að kaupa hana. Mest því að ég er engan veginn hrifinn af honum Christiano Ronaldo. Meira að segja þegar hann spilaði fyrir Manchester United, þótti mér hann ekki spennandi leikmaður. Of mikill vælukjói fyrir minn smekk, og svo fara þykjustunni-dettu-kóngar voðalega í taugarnar á mér. Ég var því ósköp feginn þegar hann fór til Real Madrid.

Hvað um það, treyjan var ekki keypt.

Svo á laugardaginn var, þá vorum við feðgarnir á búðarrápi og álpuðumst aftur inn í þessa sportvöruverslun. Treyjan hékk enn þarna. Eftir smáumræður var hún mátuð og að lokum keypt.

Sá stutti er hæstánægður eins og sést. Skiptir engu þótt um Diadora eftirlíkingu sé að ræða.


Súkkulaðiísskeggið gerir þetta bara flottara.

Nú bíður drengurinn bara eftir leiknum með Portúgal á morgun. Þá ætlar hann að vera í treyjunni og hvetja sína menn. 

Allavegana fram að háttatíma.

25. júní 2010

Flottar buxur

Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenningur fyrir svona heimsóknir.

En þessi færsla á ekki að fjalla um þá félaga. Skömmu fyrir fimm þá fórum við Gulla að sækja pilt. Eins og gengur fóru pabbarnir að spjalla saman úti í sínu horni og mömmurnar að spjalla í sínu. Í bílnum á leiðinni heim fór Gulla að spyrja hvað John (pabbi Liams) hefði verið að kommenta á buxurnar mínar.

„Ha, buxurnar mínar,” spurði ég og kom af fjöllum.

„Já, var hann ekki að segja eitthvað um þær;” spurði frúin.

„Nei, við vorum að ræða heimsmeistarakeppnina - hvað annað?”

„ Ó”

Og þar með var málið dautt.

Nema í kollinum á mér.

Hvernig datt Gullu eiginlega í hug að tveir karlmenn á fimmtugsaldri færu að tala um buxur hvors annars? Tala nú ekki um þegar heimsmeistarakeppnin er í fullum gangi. Ég fór síðan að reyna að ímynda mér hvernig svona samræður yrðu.

„Virkilega lekkerar buxur sem þú ert í, Villi.”

„Já, John, finnst þér þær ekki smartar? Keypti þær í Edgars. Og veistu, ég sá v-hálsmálspeysu sem færi þér ábyggilega mjög vel. Hún mun örugglega draga fram herðarnar á þér.”

„Er það virkilega? Ég er einmitt svo ósáttur við peysurnar mínar. Kannski við förum saman í bæinn um helgina og þú bendir mér á þessa peysu.”

„Ekki málið. Fáum okkur svo kaffé latté á eftir.”

Sénsinn!

Við karlmenn tölum einfaldlega ekki um buxur hvors annars. Og bara yfirleitt ekki um karlmannaklæðnað.

Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds. Bara við tilhugsunina.

20. júní 2010

Vúvúselan hans Rúnars Atla

Þá kom að því að Rúnar Atli eignaðist vúvúselu. Þessir gripir hafa verið ófáanlegir í búðum síðan heimsmeistarakeppnin hófst. Við fórum í búð í morgun og þar var ein vúvúsela til og biðum við ekki boðanna. Keyptum hana án þess að hugsa okkur um tvisvar.

Og nú er blásið...

17. júní 2010

Suður-afrísk örvænting

Ef Suður-Afríka vinnur Frakkland 3-0 og Úrúgvæ vinnur Mexíkó 2-0, þá kemst Suður Afríka áfram.

Þetta segja sérfræðingarnir á SuperSport (btw - hundraðfalt betri íþróttarás en Stöð 2 Sport)

En þeir virðast ekki mjög vongóðir...

Schade.

Kuldi í Afríkunni

Gleðilega þjóðhátíð kæru lesendur.

Í tilefni dagsins dró ég fánann að húni í morgun. Kom aftur inn með krókloppna fingur og hálfheilafrystur.

Bara eins og Ísland um síðustu jól!

Greinilega er vetur skollinn á hér í sunnanverðri Afríku. Í sjónvarpinu eru áhorfendur á leiki heimsmeistarakeppninnar vafðir inn í teppi og þjálfurum virðist frekar kalt á hliðarlínunni.

Vindar alla leið frá suðurskautinu eru að valda usla hér hjá okkur. Í sunnanverðri Namibíu mældist 14 gráðu frost á nokkrum stöðum í fyrrinótt.

Mínus fjórtán!

Karasburg heitir lítill bær sunnarlega í landinu. Þar kom sex sentimetra djúpur snjór í fyrrinótt.

Hér í Windhoek er ekki alveg svona kalt. Þessa margumræddu fyrrinótt var þriggja stiga gaddur í höfuðborginni. Þá nótt var ég enn í Rúndú og þar var svolítið hlýrra.

Gærnóttin var köld og leist mér ekki meira en svo á fiskana hans Rúnars Atla þegar ég kom framúr í morgun. Þeir löfðu einhvern veginn í kringum hreinsidæluna í búrinu, en líklega kemur smáhiti frá henni. Fór ég í bæinn í hádeginu og keypti hitara í fiskabúrið.

Það er sem sagt svo kalt að fiskarnir þurfa ofn!

14. júní 2010

Á ferð og flugi

Sit núna í góðu yfirlæti á Omashare River Lodge í Rúndú. Reyndar er staðurinn orðinn hótel, ekki þykir lengur nógu fínt að vera gististaðurinn við ána. Gistiheimili í Namibíu hafa mörg breyst í hótel undanfarin ár, að nafninu til a.m.k., þrátt fyrir að iðulega hafi staðirnir lítið sem ekkert breyst að öðru leyti. En ekki meira um það.

Áin, sem gististaðurinn er við, er Ókavangó-áin, en hún myndar landamæri við Angólu. Fjórða lengsta á í Afríku, 1.600 km eða svo. Rennur ekki út í sjó, heldur endar í heljarinnar fenjasvæði í Kalahari eyðimörkinni, á landamærum Namibíu og Botsvönu. Fínt að fá smálexíu í landafræði.

En hér sit ég sem sagt núna á verönd fyrir utan herbergið mitt. Hitinn er um 28 gráður, líklega fimm gráðum hlýrra en í Windhoek. Hérna rölta páfuglar og hænsni um garðinn. Er ég ekki frá því að páfuglunum finnist að ég eigi að halda mig innandyra. Eins og á svo mörgum gististöðum í Namibíu hvílir dásemdar kyrrð yfir þessum stað. Mér finnst stundum að aldingarðurinn Eden hljóti að hafa litið út eitthvað í þessa veru.

Ferðin hingað gekk vel. Lagt var af stað um hálfátta í morgun og ekið sem leið lá norður. Hér á suðurhveli er norður ávísun á hlýrri slóðir. Bifreiðin sem ég keyrði að þessu sinni er búin hraðastilli, en þannig apparat er guðsgjöf á namibískum vegum. Vegirnir eru jú þráðbeinir og að því er virðist endalausir. Því er gott að hafa hraðastillinn, því annars þyngist bensínfóturinn smátt og smátt og hraðinn verður hættulega mikill. Ekkert svoleiðis í þessari ferð. Renndi ég í hlað á hótelinu korter yfir þrjú og var ánægður með þann tíma. Tvö stopp voru á þessari 700 km leið - annars var bara keyrt.

Kavangó-sýslan, sem Rúndú er í, er að mörgu leyti ólík öðrum sýslum landsins. Hér er gnægð vatns neðanjarðar ef dæma skal af fjölda og stærð þeirra trjáa sem hér eru. Sum tréin eru með ólíkindum stór og trjákrónan verður ábyggilega tuttugu, þrjátíu metrar í þvermál á sumum. Ekki er ég nú svo fróður að þekkja tréin með nafni, en einhvern tímann sá ég nokkura blaðsíðna lista um trjátegundir í sýslunni. Kannski ég læri einhvern tímann að þekkja tré. Kannski.

Síðustu 150 kílómetrarnir eða svo einkennast af endalausum smáþorpum, sem virðast byggjast í kringum skóla. Þá birtist hrúga af fólki, geitum og nautgripum á svona 500 metra svæði og svo sést ekkert fram að næsta skóla. Reyndar sést illa hvað er handan við tréin sem standa við veginn, þ.a. vel getur verið að byggðin sé miklu þéttari en sýnist af þjóðveginum.

Að undanskildum skólunum eru húsin þarna að mestu leyti strá- og leirkofar. Íbúðarhúsin eru yfirleitt ferköntuð, ekki hringlaga eins og algengt er vestar í Namibíu. Það er merkilegt að sjá að húsalag breytist eftir ættbálkum. Einhvern veginn hefði ég haldið að það sem virkar vel hér, virki líka vel 200 kílómetra í vestur. En ef til vill er bara um smekksatriði að ræða.

Hérna í Rúndú verð ég á fundastússi á morgun og ek til baka á miðvikudag. Kem mátulega heim fyrir þjóðhátíðardaginn.

10. júní 2010

Fótboltafár

Þá eru u.þ.b. 20 tímar í fyrsta leik heimsmeistarakeppninnar í fótbolta. Hér í Windhoek, sem er um 2.000 km frá Jóhannesarborg þá eykst spennan stöðugt. Eftir því sem ég heyri þá ætla mörg fyrirtæki að loka eftir hádegi á morgun, svo fólk geti fylgst með S-Afríku keppa við Mexíkó. Ætli göturnar verði ekki eins og í Reykjavík á júróvisjónkvöldi. Hér heldur mikill meirihluti fólks með S-Afríku og margir bílar aka um skreyttir s-afríska fánanum. Á morgun ætla margir að mæta í fótboltatreyju í vinnuna. Ég á nú bara namibísku landsliðstreyjuna... veit ekki hvort hún dugir. En ætli verði ekki hálfgerður karnivalfílingur í miðbænum um helgina.

Svo er bara að vona að þetta gangi nú allt vel hjá grönnunum hér fyrir sunnan.

9. júní 2010

Vanafastir bílstjórar

Umferðin í Windhoek er oft erfið. Bílaeign borgarbúa eykst ár frá ári og þótt flestir almennir borgarar séu tillitssamir í umferðinni þá er stór floti leigubíla sem er til sífelldra vandræða. Leigubílstjórar hér fara nefnilega eftir öðrum umferðareglum en allir aðrir. Þeirra reglur eru einfaldar. Stöðva skal bifreiðina við öll möguleg og ómöguleg tækifæri til að hleypa út farþegum og taka nýja upp í. Skiptir engu hvar bifreiðin er stödd og hvaða vandræði þetta geti skapað öðrum bílstjórum.

En nóg um leigubílstjórana. Kannski skrifa ég pistil um þá síðar meir.

Bílastæðakjallarinn sem ég legg bílnum mínum í yfir daginn hefur einnig verið erfiður. Ja, inn- og útkeyrslan hefur verið vandasöm, réttara sagt. Oft er mikil röð af bílum á götunni fyrir utan og lífsins ómögulegt að komast hvort sem er inn eða út úr bílakjallaranum.

Þar til á mánudaginn var.

Borgaryfirvöld ákváðu nefnilega að breyta götunni í einstefnugötu. Fyrir algjöra heppni sá ég auglýsingu um þetta á föstudaginn í síðustu viku. Í auglýsingunni stóð að mikið samráð hefði átt sér stað við íbúa borgarinnar um þessa breytingu. Ég hafði þó aldrei heyrt neinn minnast orði á þessa breytingu.

Hvað um það.

Yfir helgina voru borgarstarfsmenn uppteknir. Malbikuðu götuna upp á nýtt, máluðu fullt af akstursstefnuörvum og settu upp aragrúa af skiltum til að ekki færi milli mála að hér væri um einstefnugötu að ræða. Síðan hafa staðið einkennisklæddir lögreglumenn á öllum gatnamótum þessarar götu til að greiða úr vandamálum.

Núna er draumur að fara inn og út úr bílastæðakjallaranum.

En, fylgir ekki oft böggull skammrifi?

Þrátt fyrir allan þennan viðbúnað er enn heilmikið af ökumönnum sem bara fatta ekki hvað hefur gerst. Virðast þeir keyra um í einhverjum svefndoða - fara bara sína gömlu leið hvað sem tautar og raular.

Ég er nú ekki mikið á ferðinni á bílnum. Rétt í morgunsárið, í hádeginu og svo að vinnu lokinni. Ég hef þó séð bíla, á hverjum einasta degi þessarar viku, sem aka á móti einstefnunni. Og taka ekki eftir flauti, hrópum, handaveifum eða nokkru öðru sem aðrir vegfarendur nota til að reyna að ná athygli þeirra.

Áðan sló nú einn öll met. Ég var á leið heim eftir vinnu. Klukkan rúmlega fimm og allar götur stútfullar af bílum. Við ein gatnamót er nýja einstefnugatan þrjár akreinar. Allar troðfullar af bílum á leið til norðurs. Kemur ekki allt í einu bíll úr vesturátt og beygir til suðurs inn nýju einstefnugötuna.

Á móti umferð.

Bílstjóranum þótti greinilega ekkert skrýtið að þrjátíu bílar eða svo væru á „hans“ akrein að aka í gagnstæða átt. Nei, gaurinn lagðist bara á flautuna. Alveg brjálaður. Nú, bílstjórarnir sem voru á leið í rétta átt fóru líka að flauta. Allt að verða vitlaust. Þetta var eins og vuvuzela lúðrarnir á fótboltaleik. Ruglaði bílstjórinn gaf sig ekki fyrr en froðufellandi lögregluþjónn var búinn að taka hann allhressilega á beinið og lá við þurrka honum í framan með nýja „innakstur bannaður“ skiltinu. Síðan tók alllanga stund fyrir gaurinn að koma sér afturábak til baka yfir gatnamótin, því enginn sem var að keyra vestur-austur var tilbúinn að hleypa svona aula aftur inn í röðina.

Já, ég horfi fram á fjöruga næstu daga í umferðinni hér í Windhoek-borg.

Gaman, gaman.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...