9. júní 2010

Vanafastir bílstjórar

Umferðin í Windhoek er oft erfið. Bílaeign borgarbúa eykst ár frá ári og þótt flestir almennir borgarar séu tillitssamir í umferðinni þá er stór floti leigubíla sem er til sífelldra vandræða. Leigubílstjórar hér fara nefnilega eftir öðrum umferðareglum en allir aðrir. Þeirra reglur eru einfaldar. Stöðva skal bifreiðina við öll möguleg og ómöguleg tækifæri til að hleypa út farþegum og taka nýja upp í. Skiptir engu hvar bifreiðin er stödd og hvaða vandræði þetta geti skapað öðrum bílstjórum.

En nóg um leigubílstjórana. Kannski skrifa ég pistil um þá síðar meir.

Bílastæðakjallarinn sem ég legg bílnum mínum í yfir daginn hefur einnig verið erfiður. Ja, inn- og útkeyrslan hefur verið vandasöm, réttara sagt. Oft er mikil röð af bílum á götunni fyrir utan og lífsins ómögulegt að komast hvort sem er inn eða út úr bílakjallaranum.

Þar til á mánudaginn var.

Borgaryfirvöld ákváðu nefnilega að breyta götunni í einstefnugötu. Fyrir algjöra heppni sá ég auglýsingu um þetta á föstudaginn í síðustu viku. Í auglýsingunni stóð að mikið samráð hefði átt sér stað við íbúa borgarinnar um þessa breytingu. Ég hafði þó aldrei heyrt neinn minnast orði á þessa breytingu.

Hvað um það.

Yfir helgina voru borgarstarfsmenn uppteknir. Malbikuðu götuna upp á nýtt, máluðu fullt af akstursstefnuörvum og settu upp aragrúa af skiltum til að ekki færi milli mála að hér væri um einstefnugötu að ræða. Síðan hafa staðið einkennisklæddir lögreglumenn á öllum gatnamótum þessarar götu til að greiða úr vandamálum.

Núna er draumur að fara inn og út úr bílastæðakjallaranum.

En, fylgir ekki oft böggull skammrifi?

Þrátt fyrir allan þennan viðbúnað er enn heilmikið af ökumönnum sem bara fatta ekki hvað hefur gerst. Virðast þeir keyra um í einhverjum svefndoða - fara bara sína gömlu leið hvað sem tautar og raular.

Ég er nú ekki mikið á ferðinni á bílnum. Rétt í morgunsárið, í hádeginu og svo að vinnu lokinni. Ég hef þó séð bíla, á hverjum einasta degi þessarar viku, sem aka á móti einstefnunni. Og taka ekki eftir flauti, hrópum, handaveifum eða nokkru öðru sem aðrir vegfarendur nota til að reyna að ná athygli þeirra.

Áðan sló nú einn öll met. Ég var á leið heim eftir vinnu. Klukkan rúmlega fimm og allar götur stútfullar af bílum. Við ein gatnamót er nýja einstefnugatan þrjár akreinar. Allar troðfullar af bílum á leið til norðurs. Kemur ekki allt í einu bíll úr vesturátt og beygir til suðurs inn nýju einstefnugötuna.

Á móti umferð.

Bílstjóranum þótti greinilega ekkert skrýtið að þrjátíu bílar eða svo væru á „hans“ akrein að aka í gagnstæða átt. Nei, gaurinn lagðist bara á flautuna. Alveg brjálaður. Nú, bílstjórarnir sem voru á leið í rétta átt fóru líka að flauta. Allt að verða vitlaust. Þetta var eins og vuvuzela lúðrarnir á fótboltaleik. Ruglaði bílstjórinn gaf sig ekki fyrr en froðufellandi lögregluþjónn var búinn að taka hann allhressilega á beinið og lá við þurrka honum í framan með nýja „innakstur bannaður“ skiltinu. Síðan tók alllanga stund fyrir gaurinn að koma sér afturábak til baka yfir gatnamótin, því enginn sem var að keyra vestur-austur var tilbúinn að hleypa svona aula aftur inn í röðina.

Já, ég horfi fram á fjöruga næstu daga í umferðinni hér í Windhoek-borg.

Gaman, gaman.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...