14. júní 2010

Á ferð og flugi

Sit núna í góðu yfirlæti á Omashare River Lodge í Rúndú. Reyndar er staðurinn orðinn hótel, ekki þykir lengur nógu fínt að vera gististaðurinn við ána. Gistiheimili í Namibíu hafa mörg breyst í hótel undanfarin ár, að nafninu til a.m.k., þrátt fyrir að iðulega hafi staðirnir lítið sem ekkert breyst að öðru leyti. En ekki meira um það.

Áin, sem gististaðurinn er við, er Ókavangó-áin, en hún myndar landamæri við Angólu. Fjórða lengsta á í Afríku, 1.600 km eða svo. Rennur ekki út í sjó, heldur endar í heljarinnar fenjasvæði í Kalahari eyðimörkinni, á landamærum Namibíu og Botsvönu. Fínt að fá smálexíu í landafræði.

En hér sit ég sem sagt núna á verönd fyrir utan herbergið mitt. Hitinn er um 28 gráður, líklega fimm gráðum hlýrra en í Windhoek. Hérna rölta páfuglar og hænsni um garðinn. Er ég ekki frá því að páfuglunum finnist að ég eigi að halda mig innandyra. Eins og á svo mörgum gististöðum í Namibíu hvílir dásemdar kyrrð yfir þessum stað. Mér finnst stundum að aldingarðurinn Eden hljóti að hafa litið út eitthvað í þessa veru.

Ferðin hingað gekk vel. Lagt var af stað um hálfátta í morgun og ekið sem leið lá norður. Hér á suðurhveli er norður ávísun á hlýrri slóðir. Bifreiðin sem ég keyrði að þessu sinni er búin hraðastilli, en þannig apparat er guðsgjöf á namibískum vegum. Vegirnir eru jú þráðbeinir og að því er virðist endalausir. Því er gott að hafa hraðastillinn, því annars þyngist bensínfóturinn smátt og smátt og hraðinn verður hættulega mikill. Ekkert svoleiðis í þessari ferð. Renndi ég í hlað á hótelinu korter yfir þrjú og var ánægður með þann tíma. Tvö stopp voru á þessari 700 km leið - annars var bara keyrt.

Kavangó-sýslan, sem Rúndú er í, er að mörgu leyti ólík öðrum sýslum landsins. Hér er gnægð vatns neðanjarðar ef dæma skal af fjölda og stærð þeirra trjáa sem hér eru. Sum tréin eru með ólíkindum stór og trjákrónan verður ábyggilega tuttugu, þrjátíu metrar í þvermál á sumum. Ekki er ég nú svo fróður að þekkja tréin með nafni, en einhvern tímann sá ég nokkura blaðsíðna lista um trjátegundir í sýslunni. Kannski ég læri einhvern tímann að þekkja tré. Kannski.

Síðustu 150 kílómetrarnir eða svo einkennast af endalausum smáþorpum, sem virðast byggjast í kringum skóla. Þá birtist hrúga af fólki, geitum og nautgripum á svona 500 metra svæði og svo sést ekkert fram að næsta skóla. Reyndar sést illa hvað er handan við tréin sem standa við veginn, þ.a. vel getur verið að byggðin sé miklu þéttari en sýnist af þjóðveginum.

Að undanskildum skólunum eru húsin þarna að mestu leyti strá- og leirkofar. Íbúðarhúsin eru yfirleitt ferköntuð, ekki hringlaga eins og algengt er vestar í Namibíu. Það er merkilegt að sjá að húsalag breytist eftir ættbálkum. Einhvern veginn hefði ég haldið að það sem virkar vel hér, virki líka vel 200 kílómetra í vestur. En ef til vill er bara um smekksatriði að ræða.

Hérna í Rúndú verð ég á fundastússi á morgun og ek til baka á miðvikudag. Kem mátulega heim fyrir þjóðhátíðardaginn.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...