28. júní 2010

Liðið skiptir engu, treyjan öllu

Í gegnum tíðina hefur Rúnar Atli ekki sýnt nokkurn áhuga á fótbolta. Mér hefur þó nýlega tekist að útskýra fyrir honum að Barcelona sé merkilegt fótboltalið og að Messi sé góður fótboltagaur.

Hann man þetta, en kannski vegna þess að honum finnst nafnið Messi svolítið fyndið. Á ensku þýðir orðið messy jú auðvitað sóðalegt eða draslaralegt.

En fyrir utan Barcelona og Messi, þá hefur hann lítinn áhuga á þessu boltasparki. Ég veit t.d. ekki hversu oft ég hef síðan heimsmeistarakeppnin hófst svarað á mjög þolinmóðan máta neitandi þeirri spurningu hvort Barcelona sé að spila.

Þrátt fyrir þetta almenna áhugaleysi á fótbolta finnast honum fótboltatreyjur flottar.

Vandamálið við það, hins vegar, er að namibískir kaupmenn virðast ekki fatta að foreldrar séu tilbúnir að eyða formúum í að kaupa fótboltatreyjur á börnin sín. Einhvern tímann spurði ég sportvörukaupmann hvort hann ætti namibísku landsliðstreyjuna í barnastærðum. „Nei, af hverju?“ var svarið. Spurningin var greinilega mjög heimskuleg. Varla svaraverð. Auðvitað á maður að kaupa rúbbítreyjur á krakka...

Um daginn kíktum við Rúnar Atli inn í sportvöruverslun og þá sáum við portúgölsku landsliðstreyjuna í barnastærð. Ég spurði hvort treyjur annarra þjóða væru til í litlum stærðum, en fékk neikvætt svar. Afgreiðslumanninum fannst greinilega undarlegt að þessi treyja væri til. Rúnar Atli var auðvitað spenntur fyrir henni, en ég var ekki alveg til í að kaupa hana. Mest því að ég er engan veginn hrifinn af honum Christiano Ronaldo. Meira að segja þegar hann spilaði fyrir Manchester United, þótti mér hann ekki spennandi leikmaður. Of mikill vælukjói fyrir minn smekk, og svo fara þykjustunni-dettu-kóngar voðalega í taugarnar á mér. Ég var því ósköp feginn þegar hann fór til Real Madrid.

Hvað um það, treyjan var ekki keypt.

Svo á laugardaginn var, þá vorum við feðgarnir á búðarrápi og álpuðumst aftur inn í þessa sportvöruverslun. Treyjan hékk enn þarna. Eftir smáumræður var hún mátuð og að lokum keypt.

Sá stutti er hæstánægður eins og sést. Skiptir engu þótt um Diadora eftirlíkingu sé að ræða.


Súkkulaðiísskeggið gerir þetta bara flottara.

Nú bíður drengurinn bara eftir leiknum með Portúgal á morgun. Þá ætlar hann að vera í treyjunni og hvetja sína menn. 

Allavegana fram að háttatíma.

3 ummæli:

davíð sagði...

Jæja, hann og Logi halda þá með sama liðinu. Og mér sýnist á nýju myndinni af þér þá séu þið Sigga á sömu bylgjulengd.

Ég hætti hins vegar að horfa eftir riðlakeppnina.

Gulla sagði...

Ég skil þig vel Davíð, ég hef sko ekki nennt að horfa á leik lengi.

Berglind sagði...

Aðmennilegt, ég hélt nú með Portugal á síðasta Hm þá var Ronaldo að spila með....en verst að þeir skildu tapa leiknum....ekki gott fyrir egóið hjá fallega fólkinu...skilaboð til Rúnar Atla frá vinkonu sinn á Islandi sem er í fallega fólka liðinu...nú er það bara Argentína...finndu bol fyrir drenginn með Argentínu liðunu :-)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...