12. mars 2014

Á malavískri löggustöð - kíkt í steininn

Í dag fór ég á malavíska löggustöð. Stöðin sú er í Mangochi-bæ við suðurhluta Malaví-vatns.

Kannski ætti ég að taka strax fram að ekki var ég grunaður um neitt misjafnt. Er ekki góðkunningi lögreglunnar í Malaví, þótt einstaka sinnum hafi ég fengið hraðasekt.

Nei, þannig var mál með vexti að stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar sendi mér bréf. Þetta gerði hann vegna þess að hann álítur mig geta hjálpað lögreglunni. Hann hefur fengið þá flugu í höfuðið að ég geti jafnvel fundið peninga til að gera við einn af fimm löggubílum héraðsins. Sá hefur verið bilaður í sjö, átta mánuði. Sagði stöðvarstjórinn mér að fimm lögreglubílar séu í Mangochi héraði og 207 lögregluþjónar. Íbúafjöldi héraðsins er í kringum milljón manns. Svona til samanburðar fann ég skýrslu sem segir að 2011 voru 652 lögreglumenn á Íslandi. Ekki veit ég hversu margir lögreglubílar eru á Íslandi, en örugglega fleiri en fimm.

Stöðvarstjórinn var hinn kumpánlegasti. Var svona eins og lögreglumaður á að vera, alúðlegur og rólyndur en þó fann ég að þetta er maður sem best er að abbast ekki upp á. Hann sýndi mér bilaða bílinn. Þegar við vorum búnir að ræða um bílinn fram og til baka spurði hann hvort hann ætti ekki að sýna mér lögreglustöðina. Jú, jú, mér þótti það hin besta hugmynd.

Eins og flestar byggingar sem malavíska ríkið á er viðhaldi ábótavant. Stöðvarstjórinn sýndi mér móttökuna og leit svo íbygginn á mig og spurði: „Þykir þér þetta aðlaðandi umhverfi að koma í?“

Ég leit í augu hans, sá smáblik þar, og horfði síðan í kringum mig. Sá að helminginn af loftplötunum vantaði, sá skrifstofustóla sem vantaði hjól á, sá veggi sem hafa ekki verið þrifnir í langan tíma og ekki verið málaðir síðstu fimm árin a.m.k., sá sófa sem vantaði sessur í, sá fatahrúgu í einu horni, sá hurð sem var við að detta af hjörunum, sá inn þröngan gang sem notaður var sem geymsla.

Leit svo aftur í augu stöðvarstjórans og sagði: „Nei, þetta er ekki aðlaðandi umhverfi.“

Hann glotti.

„Viltu ekki sjá fangaklefana?“ spurði hann síðan.

Færi ég að neita því? Að sjálfsögðu vildi ég sjá fangaklefana.

Stöðvarstjórinn sagði mér að fangaklefarnir væru bara tveir, en ættu að vera a.m.k. þrír. Einn fyrir karlmenn, einn fyrir konur, og einn fyrir unglinga.

Því næst opnaði annar lögreglumaður fyrri fangaklefann og ég steig inn fyrir þröskuldinn.

Úff.

Þarna inni í klefa sem var kannski tveir og hálfur metri á annan kant og fjórir til fimm á hinn, sátu um fimmtán menn á gólfinu.

Hvað segir maður við fimmtán fanga sem stara opinmynntir á hvíta manninn sem allt í einu stendur mitt á meðal þeirra?

„Hvernig hafiði'að?“ skaust út úr mér.

Æ, æ, mikið langaði mig að bíta úr mér tunguna! Ekki beint besta ávarpið...

Einum fanganum var strax eitthvað uppsigið við mig. Stökk á fætur og sperrti sig. Var nú varla meira en einn og sextíu á hæð, en greinilega nagli. Harður gaur.

En, nýi besti vinur minn - stöðvarstjórinn - slökkti þennan eld áður en hann kviknaði.

Sem betur fer.

Ég ákvað þá og þegar að finna nýtt ávarp þegar ég kæmi inn í fangaklefa.

„Halló,“ er ábyggilega bara fínt.

Svo kíkti ég í kvennaklefann. Þar sat ein kona, frekar umkomulaus, á dýnu. Klefinn var miklu minni en kallaklefinn. Líklega færri konur sem komast í kast við lögin. Þegar hún sá stöðvarstjórann, upphófst mikill orðaflaumur hjá henni. Ég skildi nú ekki mikið af því sem hún sagði, en stutta útgáfan var víst: „Ég gerði ekki neitt.“

Þar með lauk heimsókninni í steininn malavíska.

Ég var ósköp feginn að komast aftur í frískt loft. Kvaddi stöðvarstjórann með virktum og lofaði að kíkja á beiðni hans. Nefndi að ég hefði lítinn áhuga á að heimsækja steininn á nýjan leik.

Hann brosti. „Engar áhyggjur, vinur minn, ég get ekki haldið þér lengur en 48 klukkustundir án þess að fara með þig fyrir dómara.“ Svo hlógu hann og félagar hans hrossahlátri.

Fyndnir.

Ég myndi varla þola kortér þarna inni.

En ég verð nú að skoða beiðnina vel. Það er nú betra að hafa lögguna með sér í liði, ekki satt?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...