26. mars 2007

Gifsið komið af!

Á föstudaginn settust feðgarnir niður og pabbinn tók gifsið af. Guttinn var ánægður, þar til verknaðurinn var búinn. Þá greinilega leið honum ekki vel, fannst óþægilegt að hafa ekki verndina sem gifsið veitti. Kannski var hann með náladofa, en hvernig útskýrir maður fyrir tveggja og hálfs árs gaur hvernig náladofi sé?

Svo fór honum nú smátt og smátt að líða betur og um kvöldið vorum við feðgarnir farnir að slást.

Í góðu.

Að sjálfsögðu.

En þó var það þannig að faðirinn lagðist ofan á veiku hendina og beyglaðist úlnliðurinn meira en góðu hófi gengdi.

Sjaldan er ein báran stök, segðu.

Rúnar Atli fór því að hlífa höndinni á nýjan leik, en frekar en að fara með drenginn aftur á slysavarðsstofuna var tekin sú ákvörðun að hinkra og sjá hvort þetta myndi ekki lagast.

Sú ákvörðun virðist hafa verið rétt, því núna notar Rúnar Atli báðar hendur eins og fyrir gifs.

Gott mál.

22. mars 2007

Setið að spjalli

Nokkrum dögum áður en hún Gulla kom, þá sátum við feðgarnir úti í garði og spjölluðum saman.

Auðvitað var mál málanna koma mömmunnar og ræddum við þau mál aðeins.

Svona til útskýringar, þá er Toyota bakkí pallbíll af Toyota gerð. Svokallaður pikköpp, svo aðeins sé slett.

En samræðurnar voru eftirfarandi...

21. mars 2007

Láta mömmu líða vel...

Við hér leggjum okkur auðvitað í líma við að láta henni Gullu líða vel.

Þar skiptir engu máli aldur eða líkamlegt ástand. Rúnar Atli lætur auðvitað ekki sitt eftir liggja. Brotinn handleggur - jæja, brákaður - látum svoleiðis smáræði ekki stöðva okkur.

Hver vill ekki fá svona þjónustu?

Skatturinn farinn!

Jæja, þá er búið að klára skattaskýrsluna og skila henni. Alltaf gott þegar það er búið.

Skýrslan var nú ekki mjög flókin þetta árið. Verst hvað skuldirnar eru alltaf miklar...

19. mars 2007

Tveir flottir

Fyrir nokkru fórum við Rúnar Atli í hádegismat á einu af betri hótelum bæjarins. Þar áttum við stefnumót við Íslending sem bjó hér einu sinni og var í pílagrímsferð.

Hann tók þessa mynd.

17. mars 2007

...og þá var kátt í höllinni...

Jæja, þá rann stóri dagurinn upp. Rúnar Atli hefur beðið lengi eftir því að mamman hans komi með flugvélinni frá Íslandi. Sem sagt í dag.

Byrjuðum daginn á kaffihúsi, í tilefni komu móðurinnar, og fórum svo út á völl. Mættum u.þ.b. 20 mínútum áður en vélin lenti, til að tryggja okkur sæti við glerið inn í komusalinn. Ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Svo kom Gulla. Gleraugun voru greinilega mettuð móðu, því hún ætlaði ekki að sjá okkur tvo. Horfði greinilega langt yfir skammt.

Svo var flogið í gegnum vegabréfsskoðun og að lokum kom taskan.

Eins og sést var knúsast og kjassað.

16. mars 2007

Tær snilld

Hann sonur minn er nú alveg einstakur.

Þannig er að honum finnst voðagaman að fá að koma með mér í vinnuna. Þetta er aðallega á laugardagsmorgnum eða skömmu eftir kvöldmat, ef ég þarf að skjótast eftir einhverju.

Skrifstofan mín er í fjórtán hæða byggingu og eru fjórar lyftur í húsinu. Alltaf þegar við erum að fara af skrifstofunni þá hleypur Rúnar Atli að lyftunum og bendir á þá sem hann álítur að komi að sækja okkur.

Fjórar lyftur, það þýðir jú að það eru fjórðungslíkur á að hitta á rétta lyftu. Nú hef ég fylgst með drengnum undanfarin skipti, því ég fór að sjá að hann hafði iðulega rétt fyrir sér. Hefur hann hvorki meira né minna en getið rétt til um hvaða lyfta kemur fjórum sinnum í röð.

Hvað er merkilegt við það?

Jú, ef fjórðungslíkur eru á að hafa rétt fyrir sér í hvert skipti, þá eru líkurnar á því að hafa rétt fyrir sér fjórum sinnum í röð 0,25 í fjórða veldi. Það þýðir 0,39% líkur á því að takast þetta.

Frekar ólíklegt.

Annaðhvort er drengurinn skyggn, eða ótrúlega heppinn í spilum.

Spurning að fara að kenna honum tuttuguogeinn.

14. mars 2007

Hurðarskellur

Í gær skall hurð nærri hælum. Í hádeginu vorum við Rúnar Atli á leið frá leikskólanum. Bara eins og við gerum þrisvar í viku.

Þó ekki með mynd af bílnum í vasanum...

Jæja, við vorum sem sagt á ferðinni. Komum að alveg stórfurðulegu hringtorgi sem er hér í borginni. Biðskyldur inni í því og alls konar krúsindúllur. Ég ek þarna í rólegheitum og sé Benz kálf að bíða að komast yfir götuna. Svo þegar ég er kominn við hornið á honum, haldiði að hann leggi ekki allt í einu af stað!

Ég snarsneri stýrinu til að sveigja frá og stíg bensínið í botn til að komast frá og næstum því, næstum því slapp. En gaurinn náði í skottið á mér, ef svo má segja, náði að klessa utan í afturstuðarann. En mér sýnist þetta nú bara vera rispur, sem jafnvel nást af með stífri pússun.

Gaurinn keyrði svo bara í burtu. En ekki mátti miklu muna að hann hefði farið inn í hurðina hjá Rúnari Atla. Ef einhver hefði verið við hliðina á mér, þá hefði ég ekki haft rúm til að sveigja frá og þá hefði áreiðanlega farið verr.

Svo í sama matartíma sjá ég þriggja bíla árekstur. Allt vegna þess að fremsti bílstjórinn vildi vera almennilegur og hleypa bílum yfir gatnamót, þar á meðal mér, en bílarnir á eftir voru ekki alveg með á nótunum.

Hættulegt í umferðinni.

Hrakfallabálkurinn

Hann Rúnar Atli er nú alveg ótrúlegur hrakfallabálkur þessa dagana. Ég hef nú sagt frá brákaða handleggnum hans, en núna stundar drengurinn það að stingast endilangur út um allt og stundum fleyta jafnvel kerlingar, svo mikil eru lætin í honum.

Hann fór í gær á leikskólann í fyrsta sinn eftir brákun. Þegar ég sótti hann voru hnéin og sköflungarnir þvílíkt hruflaðir að langt er síðan ég hef séð annað eins. Sandur og drulla fast í þessu. Við kíktum síðan í matvörubúð áður en við sóttum Tinnu Rut úr skólanum. Búðin sem litlu körfurnar eru í, þessar sem litlir krakkar geta keyrt. Hann er að hlaupa á fullu að ná sér í körfu þegar honum verður fótaskortur, endastingst framfyrir sig og rennur einhverja metra á maganum. Auðvitað kostaði þetta öskur, enda ekki von. En eftir hálfa mínútu eða svo var þetta gleymt.

Svona er þetta alla daga núna. Ég á allt eins ekki von á því að gifsið dugi fram á föstudag í næstu viku, en þá má taka það af. Ætli verði nokkuð eftir nema einhverjar tægjur. Gæti best trúað því.

11. mars 2007

Sundlaugarævintýri

Nú þegar komin er alvöru nettenging í kofann, þá verður kannski meiri ævintýramennska á þessum dagbókarsíðum.

Hér er fyrsta tilraun að kvikmyndagerð á netinu. Rúnar Atli og Tinna Rut sátu á sundlaugarbakkanum í byrjun árs og þá gerðist eftirfarandi:

10. mars 2007

Fréttir á því ylhýra

Þá er ég loksins kominn með ADSL! Nú er sko gaman. Sit í þessum skrifuðum orðum og horfi á fréttir stöðvar 1. Og einstök gæði, bara eins og setið sé fyrir framan sjónvarpið á Stillholtinu.

Gott mál, en kannski fer ég að vanrækja börnin... hver veit?

Kominn heim

Þá er fimm daga ferðalagi um norðurhluta Namibíu lokið. Fór snemma á mánudagsmorguninn var, og kom aftur heim um níuleytið í gærkvöldi. Ferðin var skemmtileg, en alltaf gaman að koma heim.

Leiðin lá norður til Himbaættbálksins. Alltaf gaman að heimsækja það fólk. Heilmikill borgarafundur var haldinn sem ég tók þátt í og síðan var geitakjöt og maísjafningur á borðum. Ég smakkaði aðeins á geitinni. Bara eins og lambakjöt á bragðið.

Ýmislegt er öðrum vísi hjá fólkinu sem býr þarna heldur en við á Íslandi eigum að venjast. Á myndinni hér að neðan sést vatnsból nokkurt sem notað er bæði af fólki og nautgripum. Ekki er gæfulegt að drekka vatnið sem nautgripir eru búnir að vaða í og gera þarfir sínar í. Ef rýnt er í myndina má sjá konu sem er að fara að sækja vatn í vatnsbólið. Vatnið er síðan notað til að elda mat handa börnum...Síðan voru ýmsir staðir heimsóttir sem tengdust skólum og leikskólum. Leiðin lá um troðninga hingað og þangað og var iðulega erfitt að átta sig á í hvaða átt var farið. En alltaf endaði þó leiðin á réttum stað

Alls staðar eru krakkar eins og finnst alltaf gaman að láta taka af sér myndir. Þessum skólabörnum þótti mjög gaman að láta taka myndir og fá síðan að sjá á skjánum á myndavélinni.

3. mars 2007

Hrakfall

Hann Rúnar Atli hefur í gegnum tíðina átt það til að detta ofan af sófum, rúmum og fleiri húsgögnum. Um tíma leið varla sú vika að ekki kæmi ný kolsvört kúla á höfuðið á honum.

En í nokkurn tíma hefur honum tekist að forðast föll af þessu tagi. Þar til í gær. Þá tókst honum að falla ofan af stól eða sófa niður á gólf. Hann er allur að koma til í þessum föllum sínum og er farinn að bera hendur fyrir sig. En eftir að detta núna, rak hann upp ramakvein og vildi ekki hreyfa vinstri hendina með nokkru móti.

Var einungis um eitt að ræða, að fara með drenginn á slysavarðstofuna. Þar var drengurinn skoðaður, myndaður, skoðaður enn betur og síðan gifsaður á vinstri handlegg. Kom nefnilega í ljós hann hafði brákað handlegginn rétt neðan við olnboga. Sýndi einn læknirinn mér röntgenmynd þar sem ég gat séð örfína sprungu á beininu.

Verður þetta ekki vandamál, mun gróa að fullu á stuttum tíma, en gifs er nauðsynlegt í þrjár vikur. Guttinn litli var nú ekki alveg sáttur við gifsið, en ekki þýddi að deila við dómarann.

Við gengum út af slysavarðstofunni rúmum þremur tímum eftir að við mættum. Eftir því sem ég les í Mogganum þætti það vel sloppið í henni Reykjavík.

Nóttin var okkur síðan erfið. Rúnar Atli vaknaði á hálftíma til þriggjakortera fresti með miklar kvalir. Við vorum því hálftuskulegir í morgun. Hann hefur þó verið hress í dag og nú er ég búinn að ná mér í einhverja töfrastíla til að drengurinn sofi í nótt. Tók hann sér þriggja klukkutíma blund eftir hádegið í kjölfar inntöku fyrsta stílsins.

En hér er ein mynd af drengnum með nýju múnderinguna.Síðan þykir honum greinilega allur varinn góður og er kominn með plástrakassa innan seilingar.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...