30. apríl 2008

Matgæðingurinn hann Elli, eða hvað?

Um daginn vorum við á ferð í Himbalandi ásamt Ella og Allý og krakkagrislingunum þeirra. Athygli okkar vakti hversu mikið var af litskrúðugum lirfum í trjánum og veit ég að Allý var eitthvað að mynda þær. Einhverju seinna voru hún og Gulla á röltinu og þá voru starfsmenn hótelsins að tína eitthvað upp af jörðinni, líklega eitthvað að taka til, hugsuðu þær tvær.

Svo fer að líða að kvöldmat. Við sátum öll út á verönd á hótelinu með gin og tónik, eins og tilheyrir, þegar hótelstjórinn kemur til okkar, ábúðarfullur, og vill bjóða okkur forrétt, svona rétt til að skerpa aðeins á matarlystinni. „Ókeypis,“ sagði hann.

Elli fór auðvitað að sleikja útum og strjúka vömbina... þar til diskurinn kom á borðið


„Mópane ormar, mikið lostæti,“ sagði hótelstjórinn. Og viti menn, þarna voru komnar fínu lirfurnar í allri sinni dýrð. „Léttsteiktar og ljúffengar,“ sagði hótelstjórinn og sporðrenndi einum ormi um leið.

„Hvaða andsk... ógeð er þetta eiginlega,“ var greinilega það sem Elli hugsaði.


„Allý mín, viltu ekki prófa einn svona orm?“


Hún hélt nú ekki.

En ekki gafst Elli upp. „Rúnar Atli minn, þú býrð nú í þessu landi, vilt þú ekki smakka?“


Ekki lét sá stutti plata sig.

„Ari minn, elsku kallinn, fáðu þér nú bita...“


„Reyndu pabbi...“

Þannig að undirritaður þurfti að sýna hvernig fara ætti að þessu. Fyrst pósa fyrir myndavélina...


...og svo bara bíta í.


Ekki svo slæmt skal ég segja ykkur. Brakaði svolítið þegar tennurnar brutust í gegnum skelina, og aðeins kitluðu margfætlufæturnir í tunguna, en fínt á bragðið.

Ég lét ofan í mig fjóra, Elli einn smábita annað hvort af haus eða óæðri enda, en hún Ingunn... já hún Ingunn renndi niður einum. Reyndar fyrir hundrað Namibíudali, en ofan í hana fór hann samt.

En Elli matgæðingur klikkaði illilega þarna. Jamm og já.

2 ummæli:

vennesla sagði...

Er þetta ekki bara svipað og þegar Íslendingar bjóða útlendingum upp á hákarl?

Koss og knús frá okkur í Vennesla

Nafnlaus sagði...

Stökk skelin kallaði fram einstakt,ljúft og súrt bragð sem seint gleymist en tekið skal fram að herlegheitunum var skolað niður með Bacardi romm sem var einstaklega ljúft á bragðið og toppaði náttúrulega góðan forrétt fyrir kveldið.

Elli

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...