29. apríl 2008

Nýasti tölvufíkillinn

Þegar við fluttum til Namibíu þá fylgdi með í farangrinum eldgömul tölva. Makki að sjálfsögðu, keyptur í Kanada 1994, eða jafnvel 1993. Mamma var með þessa tölvu um tíma, en hún hefur verið í kassa í einhver ár. Tölvan, það er að segja...

Ástæðan fyrir að tölvan kom með var fyrirsjá. Auðvitað þarf Rúnar Atli að læra á tölvu, svo þegar hann, 16 mánaða gamall, fluttist suður á bóginn þá var tölvan tekin með.

Nú loksins er svo búið að dusta rykið af kassanum og koma gripnum í gang. Gekk það ekki alveg þrautalaust, því rafhlaða nokkur sem er inni í tölvunni var búin og þurfti því að hafa upp á nýrri. Tókst það. Er skemmst frá að segja að Rúnari Atla finnst æðislegt að hafa sína eigin tölvu. Hann var eldsnöggur að ná að tengja milli örvarinnar á skjánum og músarinnar á borðinu og þar með er björninn unninn. Hellingur af leikjum er á gripnum, leikjum sem Dagmar Ýr og Tinna Rut léku sér í á sínum tíma. Þeir hafa vel staðist tímans tönn.

Ekki er laust við að Tinna Rut fari í endalaus hvörf í barnæskuna: „VÓH, ég man eftir þessum leik...“


Takið síðan eftir glæsilegri hönnun á skrifborðssamstæðunni. Eitt borð handa húsmóðurinni og eitt handa húsbóndanum, tölvuborð handa syninum og síðan annað skrifborð handa honum til að teikna og lita á.

Hver skyldi hafa smíðað...?

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...