Margir sem komið hafa til Namibíu kannast við trévörumarkaðinn í Okahandja. Markaðirnir eru reyndar tveir í þeim bænum, en flestir túristar heimsækja líklega þann sem er nær þjóðveginum. Þarna eru endalausir básar af kaupmönnum að reyna að pranga inn á mann allkyns handunnum trévörum.
Sl. föstudag vildi ekki betur til en svo að það kviknaði í stráþaki á lóð ekki langt frá markaðinum. Stráþök af þessu tagi eru mjög algeng í görðum hjá fólki. Iðulega er grillaðstaða undir þakinu og útiborð og -stólar. Undir svona þaki er gott að sitja í skugga á heitasta tíma ársins og fá sér bjór eða gin og tónik. Nú eða hvað það annað sem manni finnst gott að drekka í miklum hita.
En, sem sagt, það kviknaði í svona þaki og þar sem var sterkur vindur þennan dag þá fór svo illa að logandi strá bárust yfir á trévörumarkaðinn og kviknaði í þaki á einum sölubásnum. Á augabragði breiddi eldurinn úr sér og varð ekki neitt við ráðið. Markaðurinn fuðraði bara upp eins og hann lagði sig.
Þar eyðilögðust 110 sölubásar með öllum þeim lager af trévörum sem í þeim var. Er áætlað að um 1.000 manns hafi viðurværi af þessum markaði á einn eða annan hátt. Einnig er mat manna að tjónið liggi í fimm milljónum namibískra dala, sem samsvarar 85 milljónum króna.
Mikil reiði ríkir núna útí bæjaryfirvöld, en tveir tímar liðu áður en eini slökkvibíll bæjarins mætti til leiks. Þá hafði allt brunnið sem brunnið gat og gerði slökkvibíllinn lítið annað en slökkva í glæðunum.
Stundum er sagt að sjaldan sé ein báran stök og á það við um bæjarfélagið í Okahandja. Bærinn hefur verið mikið í fréttunum undanfarnar vikur. Ekki af góðu. Fyrst skal nefna að rafmagnsveita ríkisins lokaði á rafmagn til bæjarins, því bæjaryfirvöld skulduðu henni himinháar upphæðir. Hér er það þannig að stærri bæjarfélög kaupa rafmagn af rafmagnveitu ríkisins og áframselja síðan til fyrirtækja og einstaklinga í bæjarfélaginu. Þetta er ein af tekjulindum bæjarins. En ef bæjaryfirvöldum gengur illa að innheimta, þá er voðinn vís, því ekki eiga þau varasjóði til að ganga í. Skuld Okahandja var víst orðin svo há að rafmagnsveitan sá sér ekki annað fært en loka fyrir rafmagnið. Svona aðgerðir hafa auðvitað áhrif á alla, bæði slóðana en líka þá sem hafa staðið í skilum við bæjarfélagið. Þetta mál var bæjaryfirvöldum ekki til framdráttar, svo ekki sé fastar kveðið að orði.
Síðan komu upp mál þar sem börnum var vísað úr skólum í Okahandja því foreldrar gátu ekki greitt í svonefndan þróunarsjóð skólanna. Svona gerist reyndar víðsvegar um landið, en kastljós fréttamanna var á Okahandja vegna rafmagnsklúðursins og því lá bærinn vel við höggi.
Síðan birtust myndir af börnum sem lifa á sorphaugum bæjarins og finna sér mat og eitthvað til að selja með því að fara í gegnum sorpið. Þarna voru krakkar sem ekki höfðu neina skólagöngu því þau þurfa að hjálpa fjölskyldu sinni að finna eitthvað ætilegt á haugunum. Eins var talað við börn sem höfðu verið rekin úr skólanum vegna þess að foreldrarnir áttu ekki pening fyrir þróunarsjóðsgjaldinu og enda svo krakkagreyin þarna.
Æ, þetta er hræðilegra en orð fá lýst. Ég hef komið á þessa sorphauga og er sjónin átakanleg, svo ekki sé meira sagt.
Nýjasta vandræðamálið er svo að slökkvibílinn skyldi vera eins lengi á leiðinni og raun bar vitni að trévörumarkaðsbrunanum. Kaupmennirnir segja auðvitað að bæjaryfirvöldum sé alveg sama um þá. Að ef þetta hefði verið „alvörufyrirtæki” sem kviknað hefði í þá hefði ekki staðið á viðbrögðum.
Vonandi fer nú að rofa til fyrir Okahandja. Ekki veitir af.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli