5. maí 2012

Hjólandi á villigötum

Um síðustu helgi skruppum við Rúnar Atli í okkar fyrsta hjólatúr saman hér í Malaví. Vildum nú ekki fara neitt sérstaklega langt. Ekki svona í fyrsta sinn. Ég var búinn að sigta út mátulega leið á Google maps. Byrja í vesturátt, út úr borginni, en við búum við suðvestur útjaðar hennar. Þaðan moldarstíg til suðurs, svo til austurs í smástund og að lokum til norðurs til baka heim. Ágætis hringur og tvisvar farið yfir Lílongve-ána sem liggur rétt hjá húsinu okkar.

Þetta var mjög skemmtilegt. Holóttir moldarstígar, stundum upp í móti, stundum niður í móti, en mest þó jafnsléttir. Stundum lentum við í sandi og teymdum hjólin og stundum vorum við á einstigi.

Einu sinni endasteyptist Rúnar Atli, þegar hann missti afturdekkið ofan í skorning. Smárispur á annað hnéð og lófa, en það gleymdist fljótt. Einu sinni þurftum við að vaða yfir lækjarsprænu, en það var gaman. Stundum hjóluðum við í gegnum húsaþyrpingar og vöktum þá oft athygli barna. Þau komu oft hlaupandi, hrópandi og kallandi, til að sjá þessa sjaldséðu hrafna sem þarna voru á ferð.

Þegar við vorum búnir að vera á ferð góða stund var mig farið ad lengja eftir síðustu beygjunni. Þessari í norður. Sá aldrei neinn stíg sem mér leist á. Að lokum beygðum við þó. Létum flakka. Komum loks að brú, þ.a. við vorum komnir réttu megin við Lílongve-á. Eftir nokkra stund komum við að malbikaðri alfaraleið. Á vegamótunum hvíldum við auma afturenda á meðan ég reyndi að ná áttum. Fannst mér ég þekkja mig, en fannst staðsetningin þó ekki passa, því þá værum við komnir svo óralangt framyfir planaða beygju. Til að gera langa sögu stutta var staðsetningin rétt hjá mér. Við hjóluðum sem sagt um sex km lengra í austur en áætlað var. Vorum við vel rassaumir þegar túrnum lauk. Þremur og hálfum tíma eftir að ferðin hófst.

Eins gott við vorum í buxum með púðum á réttum stöðum...

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...